Ferill 611. máls. Aðrar útgáfur af skjalinu: PDF - Word Perfect.


146. löggjafarþing 2016–2017.
Þingskjal 979  —  611. mál.




Fyrirspurn


til dómsmálaráðherra um réttaráhrif laga nr. 124/2016, um breytingu á lögum um útlendinga, nr. 80/2016.

Frá Þórhildi Sunnu Ævarsdóttur.


     1.      Lét ráðherra gera úttekt á réttaráhrifum laga nr. 124/2016, um breytingu á lögum um útlendinga, nr. 80/2016, gagnvart öðrum lögum, svo sem lögum nr. 64/2014 og lögum nr. 96/2002?
     2.      Liggur fyrir lögfræðilegt mat á því hvort áðurnefnd lagabreyting stenst alþjóðlegar skuldbindingar Íslands og 1. mgr. 13. gr. tilskipunar Evrópuþingsins og ráðsins 2008/ 115/EB um sameiginleg viðmið og skilyrði fyrir brottvísunum ríkisborgara utan EES sem dveljast ólöglega á yfirráðasvæði aðildarríkjanna, sem og íslensk lög?
     3.      Mun ráðherra bregðast við með lagabreytingu ef í ljós kemur að lagabreytingin stenst ekki alþjóðlegar skuldbindingar Íslands?


Skriflegt svar óskast.


Greinargerð.

    Fyrirspurnin snýr að því hvort ráðherra hafi athugað með faglegum hætti hvort lög um breytingu á lögum um útlendinga, nr. 124/2016, standist alþjóðlegar skuldbindingar Íslands, sem og önnur íslensk lög, en með breytingunni var lögfest ákvæði um að kæra útlendings fresti ekki réttaráhrifum ákvörðunar Útlendingastofnunar um að útlendingur skuli yfirgefa landið, þrátt fyrir 1. mgr. 35. gr. laga um útlendinga, þegar Útlendingastofnun hefur metið umsókn hans bersýnilega tilhæfulausa og hann kemur frá ríki sem er á lista stofnunarinnar yfir örugg ríki, sbr. b-lið 1. mgr. og 2. mgr. 29. gr. laganna.