Ferill 96. máls. Aðrar útgáfur af skjalinu: PDF - Word Perfect.


148. löggjafarþing 2017–2018.
Þingskjal 163  —  96. mál.




Skýrsla


Íslandsdeildar NATO-þingsins fyrir árið 2017.

1. Inngangur.
    Á vettvangi NATO-þingsins árið 2017 bar hæst baráttuna gegn hryðjuverkum og hryðjuverkasamtökum eins og Íslamska ríkinu (Daesh). Mannskæðar hryðjuverkaárásir undanfarin ár og nú síðast í Manchester í maí, Barcelona í ágúst og New York í október 2017 juku enn á áhyggjur aðildarríkjanna og leiddu m.a. til aukinnar áherslu á sameiginlega baráttu Bandaríkjanna og Evrópu gegn hryðjuverkum.
    Þá var óstöðugleikinn í löndunum fyrir botni Miðjarðarhafs og í Norður-Afríku í brennidepli, ekki síst í tengslum við átökin í Sýrlandi, Írak og Líbíu sem hafa stóraukið straum flóttamanna til nágrannasvæða og Evrópu og valdið víðtækum öryggisógnum í Miðausturlöndum. Hryðjuverkasamtök í Sýrlandi, Írak og Líbíu hafa valdið auknu óöryggi í Miðausturlöndum sem krefst stjórnmálalegra viðbragða svo að ná megi fram stöðugleika.
    Jafnframt var rík áhersla lögð á kólnandi samskipti NATO og Rússlands og ástandið í Úkraínu eftir hernaðaraðgerðir Rússa í landinu. Viðbrögð NATO-þingsins við innlimun Rússa á Krímskaga árið 2014 voru afgerandi og greiddi stjórnarnefnd þingsins einróma atkvæði með því að Rússar misstu stöðu sína sem aukaaðildarríki að NATO-þinginu. Áhersla var lögð á samstöðu með íbúum Úkraínu og að NATO yki stuðning sinn við úkraínsk stjórnvöld. Samskipti NATO við Rússland hafa ekki verið eins slæm frá lokum kalda stríðsins og versnuðu enn frekar í kjölfar aukinnar hernaðaríhlutunar Rússa í Sýrlandi. Í umræðum nefndarinnar var þó lögð áhersla á mikilvægi samræðna milli Rússa og NATO-þingsins.
    Enn fremur varð mönnum tíðrætt um mikilvægi þess að draga úr niðurskurði á fjárframlögum til varnar- og öryggismála í takt við skuldbindingar aðildarríkjanna og deila ábyrgð innan bandalagsins. Nauðsynlegt væri að auka fjárframlög til varnarmála, ekki síst til að bregðast við öryggisógnum nálægt Evrópu og styrkja stöðu NATO gagnvart Rússlandi. Einnig var rætt um mikilvægi nánara samstarfs milli NATO og Evrópusambandsins og ályktun samþykkt á grundvelli þess.
    Þá var rætt um áframhaldandi stuðning við varnar- og öryggismál í Afganistan, ekki síst í ljósi brotthvarfs herafla NATO frá landinu við árslok 2014. Eftir brottför fjölþjóðahersins þyrfti engu að síður að styðja mjög dyggilega við stjórnvöld í Afganistan til að tryggja þau í sessi. Þá voru jafnréttismál innan NATO-þingsins til umræðu. Var sjónum sérstaklega beint að kynjajafnvægi innan þingsins, þ.e. hvernig kynjahlutföll væru í starfi þingsins og uppbyggingu og hvernig jafnréttissjónarmiða væri gætt við stefnumótun. Einnig voru til umræðu útfærslur NATO-þingsins og bandalagsins á ályktun öryggisráðs Sameinuðu þjóðanna nr. 1325 um konur, frið og öryggi.
    Af öðrum stórum málum sem tekin voru til umfjöllunar árið 2017 má nefna öryggismál á norðurslóðum, viðbúnaðaráætlun bandalagsins, fullgildingu aðildar Svartfjallalands að NATO og samstarf og stefnu um að opna fyrir nýjum aðildarríkjum. Jafnframt hefur NATO-þingið fylgst vel með þeim málum sem hafa verið ofarlega á baugi í alþjóðlegri öryggismálaumræðu utan sem innan bandalagsins og snerta m.a. orkuöryggi, netöryggi, eldflaugavarnir og mikilvægi samstöðu aðildarríkja NATO-þingsins á tímum breytinga í alþjóðastjórnmálum.

2. Almennt um NATO-þingið.
    NATO-þingið er þingmannasamtök og hefur allt frá árinu 1954 verið vettvangur þingmanna aðildarríkja NATO til að ræða öryggis- og varnarmál. Fram til ársins 1999 bar þingið heitið Norður-Atlantshafsþingið, en heitir síðan NATO-þingið. Á síðustu árum hefur aðildar- og aukaaðildarríkjum NATO-þingsins fjölgað ört og hefur starfssvið þess verið víkkað í samræmi við þær breytingar sem orðið hafa í ríkjum sem áður tilheyrðu Sovétríkjunum og ríkjum í Mið- og Austur-Evrópu. Níu lýðræðisríki úr hópi fyrrverandi kommúnistaríkja hafa nú aukaaðild að þinginu (auk hlutlausu Evrópuríkjanna fjögurra, Austurríkis, Sviss, Svíþjóðar og Finnlands) sem þýðir að þau geta tekið þátt í störfum og umræðum á þinginu. Störf þingsins beinast í auknum mæli að öryggismálum Evrópu í heild, efnahagslegum og pólitískum vandamálum í ríkjum Mið- og Austur-Evrópu og hinu hnattræna öryggiskerfi. Með Rose-Roth áætluninni styður þingið nú einnig við þróun þingbundins lýðræðis í ríkjum álfunnar og nálægum ríkjum.

Hlutverk og starfssvið þingsins.
    Í Atlantshafssáttmálanum frá árinu 1949 var ekki gert ráð fyrir þinglegri ráðgjafarsamkundu en með tímanum óx þeirri skoðun fylgi að nauðsyn væri á skipulegu samstarfi þjóðþinga í tengslum við og til stuðnings NATO. Þingið hefur ekki formlega stöðu innan bandalagsins en smám saman hefur komist á náin og virk samvinna stofnananna. Meginhlutverk þingsins er að efla samstöðu og samráð þjóðþinga á sviði öryggis- og varnarmála. Þingið kemur saman tvisvar á ári, til vorfundar og ársfundar að hausti.
    Starfsemi þingsins fer að mestu fram í fimm málefnanefndum, stjórnmálanefnd, varnar- og öryggismálanefnd, efnahagsnefnd, vísinda- og tækninefnd og nefnd um borgaralegt öryggi. Auk þess fer mikið starf fram á vegum Miðjarðarhafshópsins sem þó hefur ekki stöðu formlegrar málefnanefndar. Þessar nefndir eru meginvettvangur umræðna, þær fjalla um samtímamál sem upp koma á starfssviði þeirra og vinna um þau skýrslur. Nefndarálit eru oftast sett fram í formi tilmæla, yfirlýsinga eða ályktana sem nefndin samþykkir og þingið greiðir síðan atkvæði um. Tilmælum er beint til Norður-Atlantshafsráðsins, sem fer með æðsta ákvarðanavald innan NATO, og í þeim er hvatt til tiltekinna aðgerða. Ályktunum þingsins er hins vegar beint til ríkisstjórna aðildarríkjanna.
    Þótt þingið sé óháð NATO hafa samskipti þess við bandalagið smám saman tekið á sig fastara form. Á meðal formlegra samskipta má í fyrsta lagi nefna formleg svör við tilmælum þingsins frá framkvæmdastjóra bandalagsins fyrir hönd Norður-Atlantshafsráðsins. Í öðru lagi flytur framkvæmdastjóri bandalagsins ávarp á vorfundum og ársfundum NATO-þingsins og svarar fyrirspurnum þingmanna. Í þriðja lagi kemur stjórnarnefnd NATO-þingsins og Norður-Atlantshafsráðið árlega saman til fundar í höfuðstöðvum NATO í Brussel. Að lokum skal nefndur sameiginlegur fundur þriggja nefnda NATO-þingsins í Brussel í febrúarmánuði ár hvert til að greiða fyrir samskiptum við starfsmenn og embættismenn NATO, SHAPE (Supreme Headquarters Allied Powers in Europe – æðstu bækistöðvar bandamanna í Evrópu) og Evrópusambandsins.

Fulltrúar á NATO-þinginu og forystumenn þess.
    Á NATO-þinginu eiga sæti 262 þingmenn frá aðildarríkjunum 29. Fjöldi fulltrúa frá hverju landi ræðst að mestu af fólksfjölda. Stærsta sendinefndin er sú bandaríska með 36 þingmenn en Ísland er í hópi þeirra smæstu með þrjá þingmenn. Auk fulltrúanna má hvert þjóðþing tilnefna jafnmarga varamenn sem mega taka þátt í störfum þingsins en hafa ekki atkvæðisrétt. Ráðherrar í ríkisstjórnum mega ekki vera fulltrúar á NATO-þinginu. Alls á 61 þingmaður frá 13 aukaaðildarríkjum sæti á NATO-þinginu og taka þeir þátt í nefndarfundum, nema fundum stjórnarnefndar, og þingfundum en hafa ekki atkvæðisrétt. Þeir hafa þó rétt til þess að leggja fram breytingartillögur.
    Forystumenn þingsins eru sjö og eru sex þeirra, forseti og fimm varaforsetar, kjörnir ár hvert af fulltrúum á þingfundi. Sjöundi embættismaðurinn er gjaldkerinn en hann kýs stjórnarnefndin annað hvert ár. NATO-þinginu er stjórnað af stjórnarnefnd en í henni eiga sæti forseti, varaforsetar, gjaldkeri og nefndarformenn auk formanna allra landsdeilda aðildarríkja NATO.

3. Íslandsdeild NATO-þingsins og starfsemi hennar.
    Íslandsdeild var kosin á þingfundi 26. janúar 2017. Aðalmenn voru kosnir Áslaug Arna Sigurbjörnsdóttir, formaður, þingflokki Sjálfstæðisflokks, Lilja Alfreðsdóttir, varaformaður, þingflokki Framsóknarflokks, og Jón Steindór Valdimarsson, þingflokki Viðreisnar. Varamenn voru Teitur Einarsson, þingflokki Sjálfstæðisflokks, Sigmundur Davíð Gunnlaugsson, þingflokki Framsóknarflokks, og Pawel Bartoszek, þingflokki Viðreisnar. Ritari Íslandsdeildar var Arna Gerður Bang, alþjóðaritari.
    Íslandsdeildin hélt tvo undirbúningsfundi fyrir fundi NATO-þingsins.

Skipting Íslandsdeildar í nefndir árið 2017 var eftirfarandi:

Stjórnarnefnd: Áslaug Arna Sigurbjörnsdóttir
Til vara: Teitur Einarsson
Stjórnmálanefnd: Áslaug Arna Sigurbjörnsdóttir
Til vara: Teitur Einarsson
Varnar- og öryggismálanefnd: Jón Steindór Valdimarsson
Til vara: Pawel Bartoszek
Nefnd um borgaralegt öryggi: Jón Steindór Valdimarsson
Til vara: Pawel Bartoszek
Efnahagsnefnd: Lilja Alfreðsdóttir
Til vara: Sigmundur Davíð Gunnlaugsson
Vísinda- og tækninefnd: Lilja Alfreðsdóttir
Til vara: Sigmundur Davíð Gunnlaugsson
Vinnuhópur um Miðjarðarhafssvæðið: Áslaug Arna Sigurbjörnsdóttir
    
    14. desember var ný Íslandsdeild kosin og gildir sú kosning deildarinnar fyrir allt kjörtímabilið samkvæmt þingsköpum. Þingið getur þó hvenær sem er kosið að nýju ef fyrir liggur beiðni meiri hluta þingmanna þar um. Aðalmenn eru Njáll Trausti Friðbertsson, formaður, þingflokki Sjálfstæðisflokks, Þorgerður K. Gunnarsdóttir, varaformaður, þingflokki Viðreisnar og Willum Þór Þórsson, þingflokki Framsóknarflokks. Varamenn eru Áslaug Arna Sigurbjörnsdóttir, þingflokki Sjálfstæðisflokks, Halla Signý Kristjánsdóttir, þingflokki Framsóknarflokks og Jón Steindór Valdimarsson, þingflokki Viðreisnar.
    Lilja Alfreðsdóttir var á árinu skýrsluhöfundur annarrar undirnefndar efnahagsnefndar NATO-þingsins um efnahagslegt samstarf yfir Atlantshafið.

4. Fundir NATO-þingsins.
    NATO-þingið heldur tvo þingfundi árlega, vorfund og ársfund að hausti. Á svokölluðum febrúarfundum heldur stjórnarnefndin fund með framkvæmdastjóra NATO og Norður-Atlantshafsráðinu, auk þess sem stjórnmálanefnd, efnahagsnefnd og varnar- og öryggismálanefnd halda sameiginlegan fund. Jafnframt kemur stjórnarnefnd þingsins saman til fundar í mars eða apríl ár hvert. Þá sækir fjöldi NATO-þingmanna árlegan fund um Atlantshafssamstarfið sem fram fer í desember í samstarfi NATO-þingsins og bandaríska Atlantshafsráðsins. Loks halda nefndir og undirnefndir þingsins reglulega málstofur og fundi á milli þingfunda.
    Árið 2017 tók Íslandsdeildin þátt í febrúarfundunum í Brussel, stjórnarnefndarfundi í Berlín, vorfundi í Tíblisi og ársfundi í Búkarest. Hér á eftir fylgja í tímaröð frásagnir af fundum sem Íslandsdeildin sótti.

Febrúarfundir.
    Dagana 18.–20. febrúar var efnt til svonefndra febrúarfunda NATO-þingsins í Brussel en það eru sameiginlegir fundir stjórnmála-, efnahags- og öryggis- og varnarmálanefndar. Fyrirkomulag fundanna var með hefðbundnum hætti, þ.e. sérfræðingar, embættismenn og herforingjar Atlantshafsbandalagsins héldu erindi um afmörkuð málefni og svöruðu spurningum þingmanna. Þá fór fram árlegur fundur stjórnarnefndar NATO-þingsins með Norður-Atlantshafsráðinu í höfuðstöðvum NATO. Helstu mál á dagskrá fundarins voru óstöðugleikinn í löndunum fyrir botni Miðjarðarhafs og í Norður-Afríku, ekki síst í tengslum við átökin í Sýrlandi, baráttan gegn hryðjuverkum og hryðjuverkasamtökum eins og Íslamska ríkinu (Daesh), ástandið í Úkraínu og kólnandi samskipti NATO og Rússlands. Af hálfu Íslandsdeildar NATO-þingsins sótti Áslaug Arna Sigurbjörnsdóttir, formaður, fundina, auk Örnu Gerðar Bang, ritara.
    Á fundunum var jafnframt rætt um viðbúnaðaráætlun bandalagsins (Readiness Action Plan, RAP), stöðu verkefna NATO í Afganistan eftir yfirfærslu öryggismála í hendur Afgana, stjórnmálastefnu bandalagsins, öryggishorfur í Evrópu og útfærslu NATO-þingsins og bandalagsins á ályktun öryggisráðs Sameinuðu þjóðanna um konur, frið og öryggi. Í ávarpi sínu lagði Paolo Alli, forseti NATO-þingsins, áherslu á mikilvægi NATO-þingsins við að byggja upp stuðning innan þjóðþinga aðildarríkjanna við mikilvæg málefni NATO eins og baráttuna gegn hryðjuverkum, samskipti NATO við Rússa og að deila ábyrgð innan bandalagsins.
    Þá var umræða um þær áskoranir sem NATO stæði frammi fyrir bæði til suðurs og austurs sem væri hinn nýi veruleiki og ólíklegt að aðstæður breyttust til batnaðar á næstunni. Viðbúnaðaráætlun bandalagsins (RAP) gegndi því lykilhlutverki sem viðbragð bandalagsins við þessum ógnum og breyttu öryggisumhverfi. Jafnframt var rætt um stefnu bandalagsins um að opna fyrir ný aðildarríki og lögð áhersla á áframhaldandi stuðning við hana auk mikilvægis samstarfsaðila NATO. Bandalagið stæði frammi fyrir ógnum sem ekki væri endilega hægt að mæta með hefðbundnum aðferðum eða þeim tækjum sem NATO réði yfir eingöngu. Það væri því brýnt að vinna náið með öðrum stofnunum, fjölþjóðasamtökum og ríkjum.
    Einnig tóku fjórir sendiherrar NATO, þau Hélene Duchene frá Frakklandi, Claudio Bisogniero frá Ítalíu, Michal Polakow frá Póllandi og Earle D. Litzenberger frá Bandaríkjunum, þátt í pallborðsumræðum við þingmenn og svöruðu spurningum. Rætt var um áskoranir í öryggismálum og þróun mála undanfarna mánuði. Þá hélt Marriet Schuurman, sérstakur fulltrúi málefna kvenna, friðar og öryggis hjá NATO, erindi um ályktun öryggisráðs Sameinuðu þjóðanna nr. 1325 um konur, frið og öryggi um tækifæri og áskoranir út frá sjónarhóli NATO og svaraði spurningum nefndarmanna. Áberandi var umræða um varnarframlög aðildarríkjanna þar sem nefndarmenn gagnrýndu stjórnvöld hverra annarra fyrir að standa ekki við þau markmið sem samþykkt höfðu verið.
    Hefðbundinn fundur stjórnarnefndar NATO-þingsins og sendiherra aðildarríkja NATO í Norður-Atlantshafsráðinu, sem fer með æðsta ákvörðunarvald innan bandalagsins, var haldinn í höfuðstöðvum NATO 20. febrúar. Að venju sátu sendiherrar aðildarríkjanna fyrir svörum þingmanna en umræðum stjórnaði Jens Stoltenberg, framkvæmdastjóri bandalagsins, sem jafnframt flutti inngangserindi. Stoltenberg ræddi m.a. um mikilvægi þess að aðildarríkin ykju framlög sín til öryggis- og varnarmála, hryðjuverkaógnina og óvissu um fyrirætlanir Rússa. Þá lagði hann áherslu á að bandalagið þyrfti að tryggja jafnvægi milli þess að takast á við áskoranir sem koma frá austri annars vegar og suðri hins vegar. Þá þyrfti bandalagið einnig að tryggja jafnvægi milli varnaðaráhrifa og orðræðu við mótaðila sem deila ekki endilega megingildum NATO, þar með talið Rússland. Hann lagði áherslu á að sterk afstaða varðandi varnaðaráhrif fylgdi vilja bandalagsins til samræðna.
    Áslaug Arna Sigurbjörnsdóttir spurði Stoltenberg hvernig gengi að framfylgja þeirri ákvörðun sem samþykkt var á leiðtogafundi bandalagsins í Varsjá í júní 2016 um að aukin áhersla yrði lögð á jafnréttismál. Sendiherra Ítalíu svaraði spurningu Áslaugar og sagði NATO fylgjast vel með þróun jafnréttismála innan bandalagsins og nú væru t.d. kvenkyns sendiherrar gagnvart NATO orðnir mun fleiri en áður og einnig væru fleiri konur en áður varnarmálaráðherrar í aðildarríkjunum. Þróunin væri í rétta átt og það mætti einnig sjá á fjölgun kvenna í stjórnunarstöðum innan NATO.

Fundur stjórnarnefndar.
    Hinn árlegi fundur stjórnarnefndar NATO-þingsins fór að þessu sinni fram í Berlín. Á meðal helstu dagskrármála fundarins voru ástandið í Úkraínu, samskipti NATO-þingsins við Rússa, jafnréttisáætlun NATO og innganga Svartfjallalands í NATO. Auk þess var umræða um starfsáætlun NATO-þingsins fyrir árið 2017 og fyrri hluta árs 2018 og fjárhagsáætlun. Fyrir hönd Íslandsdeildar NATO-þingsins sótti fundinn Lilja Alfreðsdóttir, auk Stígs Stefánssonar, starfandi ritara.
    Fjallað var um tillögu að stofnun vinnuhóps undir forystu Karls Lamers, formanns þýsku landsdeildarinnar, sem hefði það hlutverk að skoða leiðir til að auka menntun og þekkingu á NATO í aðildarríkjunum. Bent var á að ungt fólk þekkti lítið til starfa og gildis NATO enda væri það ekki alið upp í skugga kalda stríðsins. Lilja Alfreðsdóttir tók undir nauðsyn þess að auka vitund um gildi bandalagsins. Hún benti á að loftslagsbreytingar hefðu að einhverju leyti svipaðan sess í hugum ungs fólks og kalda stríðið hefði áður haft og að ein leið væri að tengja og horfa í vaxandi mæli til öryggisþátta í umfjöllun um loftslagsbreytingar og þar með kæmi NATO með auknum hætti inn í umræðuna. Þá gætu upplýsingar um NATO verið hluti af heimsóknum skólabarna í þjóðþing aðildarríkjanna eins og skólaþing Alþingis. Þingmenn hefðu mikilvægu hlutverki að gegna við að auka skilning og stuðning við NATO. Meðal hugmynda sem komu fram í umræðunni var að beina athygli að NATO á dögum þjóðhetja sem haldinn er hátíðlegur í sumum aðildarríkjum og að halda NATO-þing æskunnar. Samþykkt var að stofna vinnuhópinn og verður einn fulltrúi hverrar landsdeildar í honum.
    Þá kynnti hollenska þingkonan Angelien Eijsink, skýrslu sína um stöðu kynjamála innan NATO-þingsins og voru sjö tillögur að úrbótum og umræðum lagðar fram í skýrslunni. Lúta þær að því að mæla fyrir um það í starfsreglum NATO-þingsins að allar landsdeildir skuli skipaðar bæði körlum og konum eftir því sem hægt er; þegar utanaðkomandi sérfræðingum er boðið sem ræðumönnum á viðburði NATO-þingsins skuli velja konur í auknum mæli séu karl og kona jafn hæf; fjalla skal um jafnréttismál í umfjöllun um öryggis- og varnarmál á vettvangi NATO-þingsins; endurskoða starfslýsingu nefnda þannig að jafnréttismál séu á málefnasviði þeirra allra; auka sýnileika vinnu NATO-þingsins að jafnréttismálum; vinna með öðrum stofnunum að jafnréttismálum og fela framkvæmdastjóra NATO-þingsins að veita stjórnarnefnd þingsins árlegt yfirlit um þróun jafnréttismála innan NATO-þingsins.
    Mikil umræða varð um það hvernig bæta mætti samsetningu landsdeilda og tryggja að í þeim ættu sæti bæði karlar og konur. Í úttektinni voru þrjár ólíkar leiðir lagðar til. Í fyrsta lagi að breyta starfsreglum NATO-þingsins þannig að kveðið væri á um að hlutfall kvenna í landsdeild skyldi vera hið sama og hlutfall kvenna á viðkomandi þjóðþingi. Í öðru lagi að breyta starfsreglum þannig að landsdeildir væru hvattar til að tryggja að bæði kyn ættu þar sæti. Og að síðustu að sleppa breytingum á starfsreglum en láta nægja að stjórnarnefndin samþykkti áskorun til landsdeilda þessa efnis. Tekist var á um hvort fyrsti eða annar kosturinn yrði fyrir valinu. Lilja Alfreðsdóttir studdi fyrsta kostinn, ásamt þingmönnum frá m.a. Noregi, Bretlandi og Þýskalandi, og taldi aukna aðkomu kvenna að NATO mikilvæga. Hún hefði t.d. verið eina konan á síðasta utanríkisráðherrafundi bandalagsins þegar hún gegndi embætti utanríkisráðherra Íslands árin 2016–2017. Hún áréttaði að meðalhlutfall kvenna á þjóðþingum bandalagsins væri 27% og nauðsynlegt væri að það endurspeglaðist í samsetningu NATO-þingsins. Á þessu þyrfti að taka ef alvara væri að baki tali um að auka þekkingu á bandalaginu og styrkja lögmæti þess á meðal almennings. Fulltrúar úr landsdeild Bandaríkjanna voru á móti fyrsta kostinum á þeim forsendum að það væri á valdi hvers þjóðþings fyrir sig hvernig landsdeild þess væri samsett. Greidd voru atkvæði um málið og hlaut annar kosturinn brautargengi.
    Málefni sem m.a. verða í brennidepli síðari hluta árs 2017 og fyrri hluta árs 2018 eru samstarf og stefna um að opna fyrir ný aðildarríki, spilling og áhrif hennar á öryggi ríkja, kynjajafnrétti og öryggismál og samskipti þvert yfir Atlantshafið. Loks var farið yfir fjármál NATO-þingsins og ársreikning fyrir árið 2016 sem var samþykktur.

Vorfundur.
    Árlegur vorfundur NATO-þingsins var haldinn í Tíblisi dagana 26.–29. maí. Af hálfu Íslandsdeildar NATO-þingsins sóttu fundinn Áslaug Arna Sigurbjörnsdóttir, formaður, Lilja Alfreðsdóttir, varaformaður, og Jón Steindór Valdimarsson, auk Örnu Gerðar Bang, ritara. Á vorfundum NATO-þingsins vinna málefnanefndir skýrslur og eiga fundi með fulltrúum ríkisstjórna alþjóðastofnana og sérfræðingum. Þá var þingfundur haldinn þar sem fjallað var um þau mál sem hæst ber í alþjóðlegri öryggis- og varnarmálaumræðu. Helstu umræðuefni fundarins voru baráttan gegn hryðjuverkaógninni, ástandið í Rússlandi og öryggismál á svæðinu í kringum Svartahaf en Suður-Ossetía, sem Rússar hertóku af Georgíu ásamt Abkasíu árið 2008, er í aðeins klukkustundar akstursfjarlægð frá fundarstað. Einnig var umræða um öryggismál á norðurslóðum, átökin í Sýrlandi, flóttamannavandann og eldflaugavarnir. Rúmlega 200 þingmenn sóttu fundinn frá 21 aðildarríki.
    Á fundi stjórnarnefndar NATO-þingsins var m.a. tekin ákvörðun um starfsemi og helstu viðfangsefni NATO-þingsins seinni hluta árs 2017. Samþykktar voru breytingartillögur á starfsreglum NATO-þingsins í ljósi inngöngu Svartfjallalands og fjölgun atkvæða Tyrklands í samræmi við íbúafjölda. Einnig verður áhersla lögð á samstarf og stefnu um að opna fyrir ný aðildarríki, norðurslóðamál, spillingu og áhrif hennar á öryggi ríkja, kynjajafnrétti og öryggismál og samskipti þvert yfir Atlantshafið. Rætt var um samskipti NATO-þingsins við rússneska þingið og voru nefndarmenn sammála um að halda samskiptum við Rússa óbreyttum í samræmi við ákvörðun stjórnarnefndar þingsins í Ríga árið 2014 þar sem nefndarmenn greiddu einróma atkvæði með því að Rússar misstu stöðu sína sem aukaaðildarríki að NATO- þinginu eftir innlimun þeirra á Krímskaga. Þó var lögð áhersla á mikilvægi þess að samræður ættu sér stað milli Rússa og NATO-þingsins.
    Stjórnmálanefnd fjallaði um tvær skýrslur á fundum sínum. Sú fyrri fjallar um áskoranir úr suðri og sú síðari beinir sjónum sínum að því hvernig aðildarríkin geti betur deilt ábyrgð sinni og álagi. Vísinda- og tækninefnd samþykkti ályktun um mikilvægi þess að viðhalda tæknilegu forskoti NATO. Þá ræddi nefndin um baráttuna gegn hryðjuverkum og framtíðaráskoranir auk öryggismála á internetinu (cyber security).
    Efnahagsnefnd NATO-þingsins fjallaði í skýrslum sínum um fjárhagsleg áhrif nýrra áskorana varðandi öryggismál, samband spillingar og öryggismála og efnahagslegar afleiðingar loftslagsbreytinga þar sem Lilja Alfreðsdóttir var skýrsluhöfundur. Hún benti m.a. á alvarleika þess að stjórn Donalds Trumps, Bandaríkjaforseta, hefði dregið sig út úr Parísarsamkomulaginu, sem fjallar um útblástur gróðurhúsalofttegunda frá og með árinu 2020. Um 40% alls útblásturs gróðurhúsalofttegunda er í tveimur löndum, Bandaríkjunum og Kína, sem bæði fullgiltu samninginn 3. september 2016. Bandaríkin drógu síðan þátttöku sína til baka með yfirlýsingu Bandaríkjaforseta 1. júní 2017. Það er stefnubreyting sem gerir lítið úr þeirri alþjóðlegu viðleitni að takast á við áskoranir loftslagsbreytinga. Ef Bandaríkin taka ekki þátt í því alþjóðlega verkefni að draga úr loftslagsbreytingum gæti stefna þeirra einnig haft neikvæð áhrif á vilja annarra ríkja til að takast á við áskoranirnar sem gæti haft kostnaðarsamar og alvarlega afleiðingar. Jafnframt benti Lilja á í skýrslu sinni að rannsóknir sýndu fram á að efnahagslegar afleiðingar loftslagsbreytinga gætu orðið mun meiri en áður var talið. Það sé því mun kostnaðarsamara að aðhafast ekkert og ávinningur þess að markmið Parísarsamkomulagsins náist sé margfalt meiri en sá kostnaður sem fylgi verkefninu.
    Þá fjallaði varnar- og öryggismálanefnd NATO-þingsins um drög að þremur skýrslum á fundi sínum. Sú fyrsta fjallaði um stuðning við varnar- og öryggismál í Afganistan og var samþykkt ályktun á grundvelli hennar, önnur um eldflaugavarnir og sú þriðja um auknar geimvarnir. Auk þess var rætt um aukið samstarf milli NATO og Evrópusambandsins. Nefnd um borgaralegt öryggi ályktaði um stöðugleika og öryggismál við Svartahaf, vopnavæðingu upplýsinga og aukið samstarf milli NATO og Evrópusambandsins. Auk þess voru rædd málefni Vestur-Balkanskaga.
    Hinn eiginlegi þingfundur NATO-þingsins var haldinn 29. maí þar sem tignargestir fluttu ávörp og svöruðu spurningum fundarmanna. Meðal þeirra sem fluttu erindi voru Paolo Alli, forseti NATO-þingsins, Irakli Kobakhidze, forseti georgíska þingsins, Giorgi Margvelashvili, forseti Georgíu, Giorgi Kvirikashvili, forsætisráðherra Georgíu og Rose Gottemoeller, aðstoðarframkvæmdastjóri NATO. Forseti NATO-þingsins setti fundinn og sagði í ræðu sinni að stöðugleiki á Kákasus-svæðinu og í kringum Svartahaf væri nátengdur öryggi á Vesturlöndum. Hann varaði Rússa við að auka frekar á spennuna á svæðinu og standa í vegi Georgíu og Úkraínu kysu þau að fikra sig nær Vesturlöndum. Stöðugleiki og öryggi í heimshlutanum skipti sköpum fyrir stöðugleika og öryggi í Evrópu og handan Atlantshafs (Euro-Atlantic). Þá sagði Alli þá ákvörðun að halda vorfundi NATO-þingsins í Tíblisi undirstrika stuðning þingsins við viðleitni Georgíu til að færa sig nær stofnunum í Evrópu og handan Atlantshafs.
    Áslaug Arna Sigurbjörnsdóttir tók til máls á þingfundinum og vakti athygli á málefnum norðurslóða og auknu vægi svæðisins í alþjóðlegri umræðu. Hún sagði landfræðilega legu, áhrif loftslagsbreytinga og bætt aðgengi að náttúruauðlindum hafa opnað augu umheimsins fyrir tækifærum og áskorunum á svæðinu. Loftslag hefði hlýnað og hafís hopað hraðar en spáð hefði verið fyrir um og áhrifin verið mikil á hefðbundna lifnaðarhætti. Á sama tíma hefðu opnast ný tækifæri m.a. með opnun nýrra siglingaleiða og ferðaþjónustu. Með auknu mikilvægi svæðisins varðandi viðskipti og landfræðistjórnmálalegar breytingar óttuðust menn aukna spennu milli strandríkja á svæðinu en Rússar hefðu nú þegar aukið hernaðarviðbúnað sinn þar. Í ljósi þeirrar þróunar og þess að fimm af aðildarríkjum NATO ættu landsvæði á norðurslóðum spurði Áslaug aðstoðarframkvæmdastjóra NATO hvort hún hefði áhyggjur af hröðum loftslagsbreytingum á norðurslóðum og hvort hún teldi þær hafi áhrif á öryggismál á svæðinu. Jafnframt spurði Áslaug Gottemoeller hvort hún teldi að NATO ætti að hafa meiri afskipti af málefnum norðurslóða. Gottemoeller svaraði því til að málefni norðurslóða væru afar mikilvæg og þær loftslagsbreytingar sem þar hefðu orðið hefðu beint aukinni athygli að svæðinu. Hún sagði að NATO ætti að vera virkara þegar kæmi að málefnum norðurslóða og bandalagið treysti á aðildarríki sín á norðurslóðum eins og Ísland og Noreg til að leiðbeina og upplýsa í þeim málum.
    Fjöldi ríkja í Austur-Evrópu hefur gengið í NATO eftir að kalda stríðinu lauk. Svartfjallaland var þriðja ríki gömlu Júgóslavíu til að ganga í bandalagið. Þá ræddi Alli m.a. um ástandið í Úkraínu, nauðsyn þess að beina sjónum að ástandinu í Miðausturlöndum og Norður-Afríku, ekki síst átökunum í Sýrlandi, Írak og Líbíu, sem hafa stóraukið straum innflytjenda til nágrannasvæða og Evrópu.

Ársfundur.
    Ársfundur NATO-þingsins var haldinn í Búkarest dagana 6.-9. október. Af hálfu Íslandsdeildar NATO-þingsins sótti fundinn Lilja Alfreðsdóttir, varaformaður, auk Örnu Gerðar Bang ritara. Um 300 þingmenn frá 29 aðildarríkjum NATO og fulltrúar 13 annarra ríkja sóttu ársfundinn. Meginumræður fundarins fóru fram í fimm málefnanefndum þingsins á grundvelli skýrslna sem unnar voru af nefndarmönnum og fyrirlestra alþjóðlegra sérfræðinga um öryggismál. Þá var þingfundur haldinn þar sem fjallað var um þau mál sem hæst ber í alþjóðlegri öryggis- og varnarmálaumræðu og kosið um ályktanir og ákvarðanir þingsins. Helstu umræðuefni fundarins voru kólnandi samskipti NATO og Rússlands, baráttan gegn hryðjuverkaógninni, átökin í Sýrlandi og eldflaugavarnir. Einnig var rætt um flóttamannavandann, hervæðingu samfélagsmiðla og aukið samstarf við Evrópusambandið, auk þess sem skýrsla um efnahagslegar afleiðingar loftslagsbreytinga á norðurslóðum var samþykkt.
    Á fundi stjórnarnefndar NATO-þingsins var m.a. tekin ákvörðun um starfsemi og helstu viðfangsefni NATO-þingsins fyrri hluta árs 2018. Áhersla verður m.a. lögð á samstarf og stefnu um opnun fyrir ný aðildarríki, spillingu og áhrif hennar á öryggi ríkja og öryggismál og samskipti þvert yfir Atlantshaf. Þá fór fram umræða um samskipti NATO-þingsins við rússneska þingið og voru nefndarmenn sammála um að halda samskiptum við Rússa óbreyttum þó áhersla hafi verið lögð á mikilvægi þess að samræður ættu sér stað milli Rússa og NATO-þingsins.
    Stjórnmálanefnd fjallaði um þrjár skýrslur á fundum sínum. Sú fyrsta fjallar um áskoranir úr suðri og hvernig NATO geti betur deilt ábyrgð sinni og uppfyllt gefin loforð. Önnur skýrslan tekur fyrir málefni Rússlands, frá félaga til keppinautar, og sú þriðja beinir sjónum sínum að öryggismálum á norðurslóðum. Þá fjallaði varnar- og öryggismálanefnd NATO-þingsins um drög að tveimur skýrslum á fundi sínum. Sú fyrri fjallaði um geimvarnir og sú síðari um aukið samstarf NATO og Evrópusambandsins.
    Efnahagsnefnd NATO-þingsins fjallaði í skýrslum sínum um efnahagsleg umskipti á Vestur-Balkanskaga og varnarmál Evrópu. Þá samþykkti nefndin skýrslu Lilju Alfreðsdóttur um efnahagsleg áhrif loftslagsbreytinga. Bandaríkin, eitt aðildarríkja, greiddi atkvæði gegn samþykkt skýrslunnar. Lilja lagði áherslu á að hlýnun jarðar væri hraðari en margir vísindamenn hefðu spáð fyrir um og hopun hafíssins á norðurslóðum væri umtalsverð. Brýnt væri að ríki heims ynnu markvisst að því í sameiningu að draga úr losun gróðurhúsalofttegunda af mannavöldum og stæðu við þær skuldbindingar sem felast í Parísarsamkomulaginu.
    Þá sagði Lilja áhrif loftslagsbreytinga margvíslegar og ekki með öllu ljóst hverjar afleiðingarnar yrðu. Þær mundu með beinum eða óbeinum hætti hafa áhrif á efnahag heimsins. Fram kemur í skýrslunni að kostnaður fylgi því að bregðast við loftslagsbreytingum en það sé mikilvægt fyrir þjóðir heims að fjárfesta í þeirri tækni sem verði til þess að draga úr losun gróðurhúsalofttegunda. Nefndarmenn voru sammála um að áhrif loftslagsbreytinga væru öryggis- og varnarmál, m.a. vegna hækkunar yfirborðs sjávar, óstöðugleika í Miðausturlöndum vegna þurrka og svo aukins aðgengis að náttúruauðlindum á norðurslóðum. Lilja var jafnframt kjörinn skýrsluhöfundur nefndarinnar.
    Hinn eiginlegi þingfundur NATO-þingsins fór fram 9. október þar sem tignargestir fluttu ávörp og svöruðu spurningum fundarmanna. Meðal þeirra sem fluttu erindi voru Paolo Alli, forseti NATO-þingsins, Calin Popescu-Tariceanu, forseti rúmenska þingsins, og Jens Stoltenberg, framkvæmdastjóri NATO. Alli lagði í máli sínu áherslu á mikilvægi samstöðu aðildarríkja NATO á tímum fjölmargra öryggisáskorana vegna hryðjuverkastarfsemi og óstöðugleika suður af Evrópu og óvinveittrar afstöðu Rússlands í austri. Hann sagði stjórnvöld í Rússlandi leitast við að styrkja ítök sín á norðurslóðum, í Miðausturlöndum og á svæðinu frá Austur-Evrópu og Vestur-Balkanskaga til Asíu, auk þess sem þau leituðust við að stjórna á sviði stjórnmála og fjölmiðla í Rússlandi.
    Í máli sínu lagði Stoltenberg áherslu á mikilvægi þess að NATO ætti samræður við þjóðþing aðildarríkjanna og almenning og að tryggt væri að fjárframlög til varnarmála yrðu samþykkt svo bandalagið byggi yfir þeim tækjum sem nauðsynleg væru til að takast á við verkefni sín. Þá kom fram stuðningur nefndarmanna við stefnu bandalagsins um að opna fyrir ný aðildarríki, þ.e. fyrir ríki Vestur-Balkanskaga sem sækjast eftir aðild að NATO. Jafnframt var rætt um áhrif loftslagsmála á norðurslóðum í ljósi skýrslu Lilju og nauðsyn þess að styrkja eldflaugavarnir vegna kjarnorkutilrauna Norður-Kóreu og óvissu með skotflaugaáætlun Írans.

Nefndarfundir.
    Lilja Alfreðsdóttir sótti fund efnahagsnefndar NATO-þingsins í febrúar í París og í maí í Ósló og á Svalbarða. Jón Steindór Valdimarsson sótti fundi öryggis- og varnarmálanefndar í apríl í London og York og í september í Seúl.

Alþingi, 22. janúar 2018.

Njáll Trausti Friðbertsson,
form.
Þorgerður K. Gunnarsdóttir, varaform. Willum Þór Þórsson.


Fylgiskjal.


Ályktanir NATO-þingsins árið 2017.
     Ársfundur í Búkarest, 7.–9. október:
          Ályktun 430 um stuðning við varnar- og öryggismál í Afganistan
          Ályktun 436 um vopnavæðingu upplýsinga
          Ályktun 437 um stöðugleika og öryggismál við Svartahaf.
          Ályktun 439 um nánara samstarf milli NATO og Evrópusambandsins.
          Ályktun 440 um varnarmál í Evrópu.
          Ályktun 441 um áskoranir úr suðri.
          Ályktun 442 um dreifða ábyrgð.
          Ályktun 443 um að viðhalda tæknilegu forskoti NATO.