Ferill 227. máls. Aðrar útgáfur af skjalinu: PDF - Word Perfect.


148. löggjafarþing 2017–2018.
Þingskjal 529  —  227. mál.




Svar


dómsmálaráðherra við fyrirspurn frá Andrési Inga Jónssyni um skráningu faðernis.


     1.      Hvernig er háttað skráningu faðernis barns sem er andvana fætt?
    Ráðuneytið aflaði umsagnar frá Þjóðskrá Íslands vegna fyrirspurnarinnar. Skv. 1. gr. laga um þjóðskrá og almannaskráningu, nr. 54/1962, annast Þjóðskrá Íslands almannaskráningu hér á landi. Í samræmi við þau lög sem og barnalög, nr. 76/2003, skráir Þjóðskrá Íslands börn sem fæðast hér á landi í þjóðskrá og skráir jafnframt faðerni þeirra eftir því sem lög kveða á um. Skv. 1. mgr. 7. gr. barnalaga skal barn skráð í þjóðskrá þegar eftir fæðingu þess. Samkvæmt upplýsingum frá Þjóðskrá Íslands eru börn sem fæðast andvana ekki skráð í þjóðskrá, en börn sem fæðast andvana eftir 22 vikna meðgöngu fá útgefna svonefnda kerfiskennitölu vegna skráningar í fæðingarskrá embættis landlæknis. Í ljósi þess að andvana fædd börn eru ekki skráð í þjóðskrá er hvorki móðerni né faðerni þeirra skráð, enda væri slík skráning hluti almannaskráningar í þjóðskrá. Þjóðskrá Íslands gefur ekki út fæðingarvottorð fyrir andvana fædd börn þar sem það fæli í sér vottun um fæðingu barns, en með fæðingu barns er átt við að barn lifi utan líkama móður. Samkvæmt Þjóðskrá Íslands gefur stofnunin því ekki út neina staðfestingu um börn sem fæðast andvana, en slíkar staðfestingar eru einungis gefnar út með læknisvottorði.

     2.      Á hvaða skráningu foreldratengsla er byggt þegar foreldri er skyldað til greiðslu framlaga til móður þótt barn fæðist andvana, sbr. 3. mgr. 25. gr. barnalaga, nr. 76/2003?
    Samkvæmt 1. mgr. 25. gr. barnalaga getur sýslumaður úrskurðað föður barns eða foreldri skv. 2. mgr. 6. gr. laganna til að greiða framfærslueyri með móður þess í samtals þrjá mánuði fyrir og eftir fæðingu barns, að kröfu hennar, ef sérstaklega stendur á. Skv. 2. mgr. sama ákvæðis er sýslumanni heimilt, að kröfu móður, að úrskurða barnsföður eða foreldri skv. 2. mgr. 6. gr. laganna til að greiða móður, ef hún veikist vegna meðgöngu eða barnsfara, mánaðarlega styrk til hjúkrunar og framfærslu, þó ekki lengur en níu mánuði eftir fæðingu. Þá segir í 3. mgr. 25. gr. laganna að skylda megi foreldri til greiðslu framlaga samkvæmt þessari grein þótt barn fæðist andvana.
    Ráðuneytið aflaði upplýsinga frá embættum sýslumanna og bárust svör frá sýslumanninum á höfuðborgarsvæðinu, sýslumanninum á Vestfjörðum, sýslumanninum á Norðurlandi vestra, sýslumanninum á Austurlandi, sýslumanninum á Suðurlandi, sýslumanninum í Vestmannaeyjum og sýslumanninum á Suðurnesjum. Samkvæmt upplýsingum frá framangreindum embættum hefur ekki reynt á kröfu um framlag skv. 3. mgr. 25. gr. barnalaga. Var m.a. vísað til þess að ef slík krafa kæmi fram yrði það verkefni sýslumanns að meta með hvaða hætti foreldratengsl við andvana fætt barn yrðu talin nægilega sönnuð til að byggja á skyldu til greiðslu framlags.