Ferill 437. máls. Aðrar útgáfur af skjalinu: PDF - Word Perfect.


148. löggjafarþing 2017–2018.
Prentað upp.

Þingskjal 621  —  437. mál.
Texti felldur brott.




Beiðni um skýrslu


frá ríkisendurskoðanda um upplýsingaveitu stjórnvalda við Alþingi.

Frá Jóni Þór Ólafssyni, Álfheiði Eymarsdóttur, Birni Leví Gunnarssyni, Guðmundi Inga Kristinssyni, Halldóru Mogensen, Helgu Völu Helgadóttur, Helga Hrafni Gunnarssyni, Ingu Sæland, Jóni Steindóri Valdimarssyni, Jónínu Björgu Magnúsdóttur, Karli Gauta Hjaltasyni, Loga Einarssyni, Þorsteini Sæmundssyni, Þorsteini Víglundssyni og Þórhildi Sunnu Ævarsdóttur.


    Með vísan til 17. gr. laga um ríkisendurskoðanda og endurskoðun ríkisreikninga, nr. 46/2016, er þess óskað að ríkisendurskoðandi geri stjórnsýsluendurskoðun á verklagi stjórnvalda við að sinna upplýsingaskyldu við þingmenn, þingnefndir og Alþingi í heild, þ.m.t. stjórnsýslu þess og leggi til úrbætur.
    Í skýrslunni verði m.a. fjallað um upplýsingaveitu vegna:
     1.      Þingmála ríkisstjórnarinnar, bæði vegna umræðu á Alþingi og í nefndarstörfum.
     2.      Frumkvæðisathugana þingnefnda.
     3.      Fyrirspurna þingmanna til ráðherra.
     4.      Skýrslubeiðna þingmanna til ráðherra eða annarra.
    Ríkisendurskoðandi skili Alþingi skýrslu eigi síðar en 1. nóvember 2018.

Greinargerð.

    Með skýrslubeiðninni er óskað eftir því skv. 17. gr. laga um ríkisendurskoðun og endurskoðun ríkisreikninga að ríkisendurskoðandi geri stjórnsýsluendurskoðun á verklagi stjórnvalda við að sinna upplýsingaskyldu sinni við aðila löggjafarvaldsins skv. 6. gr. sömu laga.
    Nýverið hefur verið uppi nokkur umræða um fyrirspurnir þingmanna til ráðherra og kostnað sem kann að falla til þegar framkvæmdarvaldið sinnir lögbundinni upplýsingaskyldu sinni við Alþingi. Réttur þingmanna, þingnefnda og Alþingis til að kalla eftir upplýsingum frá handhöfum framkvæmdarvaldsins er einn af hornsteinum eftirlitshlutverks Alþingis með framkvæmdarvaldinu, en þetta eftirlitshlutverk Alþingis er lögfest í 49. gr. laga um þingsköp Alþingis, nr. 55/1991.
    Hægt er að varpa ljósi á það hver raunverulegur kostnaður framkvæmdarvaldsins af upplýsingaveitu sinni, hve vel það sinnir lögbundinni upplýsingaskyldu sinni og fá fram tillögur til úrbóta með skýrslu ríkisendurskoðanda. Því er lagt til að ríkisendurskoðandi taki saman skýrslu um ofangreint efni.