Ferill 242. máls. Aðrar útgáfur af skjalinu: PDF - Word Perfect.


148. löggjafarþing 2017–2018.
Þingskjal 633  —  242. mál.




Svar


sjávarútvegs- og landbúnaðarráðherra við fyrirspurn frá Sigurði Páli Jónssyni um veiðigjöld o.fl.


     1.      Hyggst ráðherra bregðast við hækkun veiðigjalda á yfirstandandi fiskveiðiári sem leggjast einna þyngst á litlar og meðalstórar útgerðir?
    Gildandi lög um veiðigjald falla úr gildi 31. desember nk. og því hefur undanfarna mánuði verið unnið að endurskoðun þeirra. Í stefnuyfirlýsingu ríkisstjórnarinnar segir m.a. að við endurskoðun laga um veiðigjald þarf að hafa það meginmarkmið að tryggja þjóðinni réttlátan hlut af arðsemi auðlindarinnar og að þau taki tillit til afkomu. Í samræmi við þetta hefur verið horft til þess við endurskoðun veiðigjaldsins að það taki mið af og verði næmara en nú er fyrir breytingum í afkomu sjávarútvegsins.
    Í fyrirspurn er staðhæft að hækkun veiðigjalda leggist einna þyngst á litlar og meðalstórar útgerðir. Fyrir liggja nýjar upplýsingar úr Hagtíðindum um verulegan samdrátt í afkomu sjávarútvegsins milli áranna 2015 og 2016 þegar hreinn hagnaður samkvæmt árgreiðsluaðferð dróst t.d. saman um 28,3%. Miðað við þróun hagstærða bendir ýmislegt til að afkoma í sjávarútvegi lækki áfram milli ára. Af fyrirliggjandi gögnum verður þó ekki ráðið að afkoman sé almennt lakari hjá litlum og meðalstórum útgerðum en stærri útgerðum. Þetta er einnig staðfest í nýlegri skýrslu endurskoðunarskrifstofunnar Deloitte um rekstur sjávarútvegsfélaga á árinu 2016 og áætlaða þróun rekstrar þeirra á árinu 2017.
    Ekki hefur verið tekin ákvörðun um hvort eða með hvaða hætti brugðist verður við hækkun veiðigjalda á yfirstandandi fiskveiðiári.

     2.      Kemur til greina að veita á ný vaxtaafslátt vegna lána til kvótakaupa?
    Með þessu er vísað til tímabundins lækkunarréttar sem veittur var útgerðarfélögum að uppfylltu skilyrði ákvæðis til bráðabirgða II við lög um veiðigjald. Lækkunarrétturinn féll úr gildi við upphaf yfirstandandi fiskveiðiárs. Þennan rétt má rekja til annarra ákvæða laganna eins og þau voru í upphafi. Lögin gerðu ráð fyrir álagningu tvenns konar gjalda, almenns gjalds sem var föst krónutala og sérstaks gjalds sem var hlaupandi eftir afkomu í bolfiski og uppsjávarfiski.
    Lækkunarrétturinn tók aðeins til sérstaka gjaldsins. Lög um veiðigjald reyndust ekki framkvæmanleg í upphaflegri mynd vegna skorts á gögnum og komu aldrei til fullrar framkvæmdar. Vegna þessa varð að breyta þeim í áföngum uns gjöldin voru fastsett til loka yfirstandandi fiskveiðiárs. Skuldalækkunarréttinum var frá upphafi ætlað að bregðast við sérstökum aðstæðum sem ekki eru fyrir hendi með sama hætti nú, en skuldastaða sjávarútvegsfyrirtækja er almennt mun betri en árið 2012. Lækkunar- og afsláttarreglur eru engu að síður til skoðunar við undirbúning frumvarpsins.

     3.      Kemur til greina að endurgreiða smábátaútgerðum þær 170 millj. kr. sem eru ofgreiddar vegna mismunar á milli útgerða með eða án fiskvinnslu samkvæmt útreikningum Landssambands smábátaeigenda?
    Við undirbúning frumvarps til nýrra laga um veiðigjald hefur ekki verið gert ráð fyrir því að til sérstakrar endurgreiðslu komi vegna meintrar ofgreiðslu veiðigjalds vegna þessarar meintu mismununar. Á hinn bóginn skal upplýst að ráðuneytið hefur hitt forsvarsmenn Landssambands smábátaeigenda og hlýtt á sjónarmið þeirra um áherslur við endurskoðun laga um veiðigjald. Í skýringum við frumvarpið verður gerð nánari grein fyrir sjónarmiðum hagsmunaaðila og að hverju leyti ástæða hefur verið talin til að bregðast við þeim.

     4.      Stendur enn yfir sú vinna í ráðuneytinu sem fyrrverandi sjávarútvegs- og landbúnaðarráðherra hóf árið 2016 í samstarfi við Byggðastofnun um endurskoðun á lögum um forkaupsrétt sveitarfélaga á útgerðum með samkomulag við lánastofnanir í huga? Hefur ráðherra gert ráðstafanir um framhald þessa máls?
    Í ráðuneytinu er ekki unnið að breytingum á ákvæðum 12. gr. laga um stjórn fiskveiða um forkaupsrétt sveitarfélaga að fiskiskipum.