Ferill 327. máls. Aðrar útgáfur af skjalinu: PDF - Word Perfect.


148. löggjafarþing 2017–2018.
Þingskjal 666  —  327. mál.




Svar


dómsmálaráðherra við fyrirspurn frá Silju Dögg Gunnarsdóttur um þriðju valfrjálsu bókunina við barnasáttmála Sameinuðu þjóðanna.


     1.      Hyggst ráðherra gera að tillögu sinni að Ísland gerist aðili að og fullgildi þriðju valfrjálsu bókunina við barnasáttmála Sameinuðu þjóðanna, sbr. lög nr. 19/2013? Ef svo er, hvenær stendur til að leggja tillöguna fram og hver er ástæða þess að bókunin hefur ekki enn verið fullgilt?
    Enn hefur ekki verið tekin formleg afstaða til þess hvort og hvenær þriðja valfrjálsa bókunin við barnasáttmála Sameinuðu þjóðanna verður fullgilt hér á landi. Ástæða þess er m.a. sú að sérfræðingar ráðuneytisins telja hana þarfnast frekari skoðunar, t.d. með hliðsjón af því hvort og hvaða breytingar þurfi að gera á lögum og lagaframkvæmd til þess að hægt sé að fullgilda hana. Auk þess er rétt að benda á að þó að bókunin hafi tekið gildi árið 2014 var það ekki fyrr en í ár sem fyrsta málið var tekið til efnislegrar meðferðar af nefnd Sameinuðu þjóðanna um réttindi barnsins. Er því lítil reynsla komin á bókunina í framkvæmd.
    Dómsmálaráðherra hefur falið stýrihópi Stjórnarráðsins í mannréttindum að taka bókunina til umfjöllunar á næstu mánuðum, ásamt öðrum sambærilegum bókunum sem fela í sér kæruheimildir til eftirlitsnefnda Sameinuðu þjóðanna. Dómsmálaráðherra mun taka afstöðu til málsins þegar niðurstaða stýrihópsins liggur fyrir.

     2.      Hyggst ráðherra gefa út leiðbeiningarreglur til þeirra sem ætlað er að taka ákvarðanir í málefnum barna, sbr. umfjöllun um 3. mgr. 3. gr. sáttmálans í greinargerð sem fylgdi frumvarpi því sem varð að lögum nr. 19/2013? Ef svo er, hvenær liggja þær fyrir?
    Í umræddri greinargerð með frumvarpi því er varð að lögum nr. 19/2013, um samning Sameinuðu þjóðanna um réttindi barnsins, segir m.a. að í 3. mgr. 3. gr. sáttmálans sé þess krafist „að þar til bær stjórnvöld setji starfsreglur fyrir allar stofnanir, þjónustu og aðstöðu sem ætluð er börnum og að ríkisvaldið tryggi að þær kröfur séu uppfylltar. Þetta þýðir að sú ábyrgð hvílir á stjórnvöldum að sjá til þess að gefnar verði út leiðbeiningarreglur til þeirra sem ætlað er að taka ákvarðanir í málefnum barna, svo sem pólitískra fulltrúa í sveitarstjórnum og annarra opinberra starfsmanna, um hvernig beri að túlka hugtakið, þ.e. við hvað skuli miðað þegar meta þarf hvað barni eða börnum er fyrir bestu, á mismunandi sviðum samfélagsins. Rannsóknir á högum barna og reynsla barnanna sjálfra eru mikilvægustu heimildirnar í þessum efnum en fjölmargir aðrir þættir koma einnig að gagni, svo sem samtöl við barnið og þá sem standa því næst, upplýsingar frá öðrum stjórnvöldum, sem og eigin reynsla og kunnátta starfsmanna“.
    Eins og bent er á í fyrrnefndum athugasemdum er mikilvægt að þeir sem taka ákvarðanir sem varða börn framkvæmi raunverulegt mat á því hvað sé barni fyrir bestu í hverju tilviki fyrir sig. Víða í löggjöf er að finna leiðbeiningar, í skilningi 3. mgr. 3. gr. sáttmálans, um það hvernig beri að túlka þetta hugtak, t.d. þegar kemur að ákvörðunum á grundvelli barnalaga nr. 76/2003. Þá er rétt að benda á að frá því að barnasáttmálinn var lögfestur hefur barnaréttarnefnd Sameinuðu þjóðanna gefið út almenna athugasemd nr. 14, þar sem fjallað er um það hvernig beri að túlka 1. mgr. 3. gr. barnasáttmálans um það sem er barni fyrir bestu. Ætti þessi almenna athugasemd að hafa nokkurt vægi við túlkun á sáttmálanum hér á landi og fela í sér mikilvægar leiðbeiningar fyrir alla sem taka ákvarðanir sem varða börn.
    Gildissvið 3. mgr. 3. gr. barnasáttmálans er víðtækt og nær til stofnana á vegum velferðarráðuneytis, mennta- og menningarmálaráðuneytis, heilbrigðisráðuneytis o.s.frv. Mismunandi löggjöf og reglur gilda á hverju sviði fyrir sig, t.d. barnaverndarlög, skólalöggjöf o.s.frv., og fela í sér leiðbeiningar fyrir þá sem taka ákvarðanir í málefnum barna á tilteknu sviði. Þá eru barnalög öllum þessum reglum til fyllingar. Mat á þörf sérstakra leiðbeiningarreglna umfram gildandi löggjöf, reglugerðir og verklagsreglur heyrir óhjákvæmilega undir viðkomandi stjórnvöld, og eftir atvikum ráðherra viðkomandi málaflokks. Tilefni til setningar reglna á málefnasviði dómsmálaráðuneytis eru stöðugt til skoðunar.