Ferill 489. máls. Aðrar útgáfur af skjalinu: PDF - Word Perfect.


148. löggjafarþing 2017–2018.
Þingskjal 699  —  489. mál.




Tillaga til þingsályktunar


um aukna fjárveitingu til SÁÁ.


Flm.: Inga Sæland, Guðmundur Ingi Kristinsson, Karl Gauti Hjaltason, Ólafur Ísleifsson.


    Alþingi ályktar að fela heilbrigðisráðherra að tryggja aukafjárveitingar til sjúkrastofnana Samtaka áhugafólks um áfengis- og vímuefnavandann, SÁÁ, og að gerður verði hið fyrsta nýr þjónustusamningur milli sjúkrastofnana samtakanna og Sjúkratrygginga Íslands með það að markmiði að bregðast við vaxandi heilbrigðisvanda áfengis- og vímuefnasjúklinga og ótímabærum dauðsföllum meðal þeirra yngstu í þeim hópi.

Greinargerð.

    Með tillögu þessari er lagt til að Alþingi álykti að fela heilbrigðisráðherra að tryggja sjúkrastofnunum SÁÁ aukafjárveitingar og að gerður verði nýr þjónustusamningur milli sjúkrastofnana SÁÁ annars vegar og Sjúkratrygginga Íslands hins vegar. Markmið þessara aðgerða er að bregðast við vaxandi heilbrigðisvanda áfengis- og vímuefnasjúklinga og ótímabærum dauðsföllum meðal þeirra yngstu í hópi þessara sjúklinga.
    Í lok ársins 2017 höfðu um 20.500 núlifandi Íslendingar greinst með alvarlegan áfengis- og vímuefnavanda á sjúkrahúsinu Vogi, 6.200 konur og 14.300 karlar. Þetta er mikill fjöldi sjúklinga sem stríðir við langvarandi og erfið veikindi. Þeim fjölgar um 600 á ári hverju. Þótt stærstur hluti þeirra sé í góðum bata þurfa þessir einstaklingar stöðuga eftirfylgni og mikil heilbrigðisþjónusta þarf að vera fyrir hendi, bæði vegna nýrra sjúklinga og þeirra þar sem sjúkdómurinn tekur sig upp aftur.
    Tölur frá bráðamóttöku Landspítalans og öðrum deildum spítalans, sjúkrahúsinu Vogi, embætti landlæknis og lögreglunni sýna svo ekki verður um villst að ástand þessara sjúklinga hefur versnað til mikilla muna. Ástæðan er talin vera breytt og vaxandi neysla. Tölur sýna að ástandið hefur einkum versnað undanfarin tvö ár, þ.e. 2016–2017. Neysla örvandi vímuefna vex, einkum neysla kókaíns, sterkra verkjadeyfandi lyfja (ópíóða), kannabisefna og áfengis. Þá færist einnig verulega í vöxt að þessir sjúklingar sprauti vímuefnunum í æð.
    Staðan er grafalvarleg og undanfarin fimm ár hafa nálægt 500 einstaklingar úr þessum sjúklingahópi látist langt fyrir aldur fram. Átakanleg aukning hefur orðið á dauðsföllum þeirra yngstu sl. tvö ár, en 52 einstaklingar yngri en 40 ára hafa látist, þar af 21 einstaklingur yngri en 30 ára. Rekja má aukna dánartíðni þeirra yngstu til vaxandi notkunar sterkra ópíóða í æð, líkt og Oxycontin, Contalgin og Fentanyl.
    Um 30% einstaklinga sem Hagstofa Íslands skráði og létust á aldrinum 20–55 ára voru þegar á skrá hjá sjúkrahúsinu Vogi. Eftir stendur spurningin: Hvað hefði mátt bjarga mörgum þeirra ef aðstæður hefðu verið fyrir hendi?
    Vandinn er mikill og íþyngir verulega kostnaðarsömustu úrræðunum í sjúkrahúsþjónustu. Einkum ber að nefna í því sambandi bráðamóttöku Landspítalans og aðrar deildir þar. Því er afar brýnt að þessi sjúklingahópur fái næga þjónustu á þar til gerðum stofnunum sem um leið mun fækka dauðsföllum og heimsóknum og innritunum á bráðamóttöku Landspítalans.
    Frá árinu 1985 hefur sjúkrarúmum sem heilbrigðisráðuneytið greiðir fyrir og ætluð eru til meðferðar vímuefna- og áfengissjúklinga fækkað úr 265 í 62. Á sama tíma hafa sjúkrastofnanir SÁÁ borið mestallan þungann af heilbrigðisþjónustunni fyrir þennan sjúklingahóp.
    Í dag bíða tæplega 600 einstaklingar eftir meðferð á sjúkrahúsinu Vogi og hafa aldrei verið svo margir á biðlista í 40 ára meðferðarsögu SÁÁ.
    Ríkisframlög til SÁÁ voru skorin niður um hartnær 20% í kjölfar bankahrunsins. Sá niðurskurður hefur ekki verið leiðréttur. Frá þeim tíma hefur bilið milli ríkisframlaga og raunverulegs rekstrarkostnaðar breikkað stöðugt vegna stöðnunar á framlögum ríkisins og það þrátt fyrir vaxandi þörf fyrir þjónustuna.
    Miðað við núverandi þróun munu á næstu 10 árum að lágmarki 6–7 þúsund einstaklingar sem nú eru á aldrinum 6–25 ára leita sér hjálpar og fara í meðferð hjá SÁÁ í fyrsta skipti. Svipaður fjöldi einstaklinga sem þegar hafa greindan fíknisjúkdóm mun þurfa endurinnlögn í afeitrun og meðferð.
    SÁÁ sinnir 2.200 innrituðum sjúklingum á sjúkrahúsinu Vogi á hverju ári en framlög ríkisins duga einungis fyrir 1.530 innritaða sjúklinga. Nauðsynlegt er að auka verulega fjármagn til núverandi starfsemi svo hægt sé að fjölga fagfólki og taka á móti og hjálpa fleiri sjúklingum. Þá væri hægt að taka á móti a.m.k. átta sjúklingum til innlagnir á Vogi á degi hverjum í stað þess að einungis er hægt að innrita sex sjúklinga eins og staðan er nú. Þessi breyting mundi gera það að verkum að hægt væri að hjálpa 700 fleiri sjúklingum árlega.
    Um heilbrigðisþjónustu á sjúkrahúsinu Vogi gilda tveir þjónustusamningar, annar um áfengis- og vímuefnameðferð og hinn um viðhaldsmeðferð vegna ópíóðafíknar. Á verðlagi í janúar 2018 er kostnaður við rekstur Vogs 925.354.052 kr. en framlag ríkisins 694.640.000 kr.
    Samkvæmt þjónustusamningi er eftirmeðferð SÁÁ á Vík skilgreind sem dagdeild. Embætti landlæknis lítur samt sem áður á þjónustuna sem inniliggjandi meðferð með tilheyrandi kröfulýsingu um mönnun og viðbúnað. Á verðlagi í janúar 2018 er kostnaður við rekstur Víkur 327.397.855 kr. en framlag ríkisins 219.360.000 kr.
    Rekstur göngudeildar SÁÁ hófst árið 1978. Þjónustusamningur milli heilbrigðis- og tryggingamálaráðuneytisins og SÁÁ var fyrst gerður árið 2002. Sjúkratryggingar Íslands tóku við samningsumboðinu fyrir hönd ríkisins árið 2009. Þjónustusamningi um göngudeild var sagt upp árið 2014 og hefur göngudeildarþjónusta SÁÁ verið án ríkisframlags frá þeim tíma. Á verðlagi í janúar 2018 er kostnaður við rekstur göngudeildar SÁÁ 177.989.622 kr. á sama tíma og ríkisframlag er núll krónur. Að óbreyttu verður að leggja þessa þjónustu niður. Heildarmunur á fjárveitingum ríkisins og kostnaði við rekstur eru því rúmar 516 millj. kr.
    Á meðan svo stór hluti heilbrigðisþjónustu SÁÁ er ófjármagnaður glatast tækifæri sem við höfum til sóknar. Það er mikill ábyrgðarhluti ríkisstjórnar sem og allra sitjandi alþingismanna að horfa upp á þetta skelfilega ástand án kröftugrar viðspyrnu og tafarlausra aðgerða. Málið er brýnt og þolir ekki bið. Stjórnarskrá lýðveldisins tryggir öllum rétt til aðstoðar vegna sjúkleika, sbr. 1. mgr. 76. gr. Þingmenn allir vinna að eið að stjórnarskránni og ber að tryggja að eftir henni sé farið.