Ferill 125. máls. Aðrar útgáfur af skjalinu: PDF - Word Perfect.


148. löggjafarþing 2017–2018.
Þingskjal 997  —  125. mál.




Svar


fjármála- og efnahagsráðherra við fyrirspurn frá Birni Leví Gunnarssyni
um kaup á ráðgjafarþjónustu.


    Með þessari fyrirspurn er beðið um upplýsingar úr bókhaldi ríkissjóðs allmörg ár aftur í tímann. Tvö sjónarmið koma til skoðunar þegar huga skal að því hvort og hvernig fjármála- og efnahagsráðherra beri að svara fyrirspurninni.
    Annars vegar fer hann með reikningshald ríkissjóðs og þau gögn sem hér þarf að finna til eru skráð í gagnasöfn Fjársýslu ríkisins sem undir hann heyrir og hann ber ábyrgð á. Fyrir öll ár önnur en árið 2017 hafa þessi útgjöld verið endurskoðuð af ríkisendurskoðanda.
    Hins vegar bera einstakir ráðherrar ábyrgð á ákvörðunum um þau útgjöld sem undir þá heyra. Vegna þess hversu langt tímabil spurt er um er ljóst að sú mikla endurskipulagning sem fram hefur farið á Stjórnarráðinu og einstökum ríkisstofnunum flækir mjög ábyrgðargreiningu á ákvörðunum um einstök útgjöld. Þess vegna hefur verið farin sú leið að í stað þess að vísa fyrirspyrjanda á að beina fyrirspurninni til einstakra ráðherra er hér svarað fyrir öll ráðuneyti og undirstofnanir þeirra en einstök ráðuneyti hafa fengið tækifæri til að gera athugasemdir við þau útgjöld sem þau geta greint að séu á þeirra ábyrgðarsviði eins og málum er háttað nú í skiptingu stjórnarmálefna milli ráðuneyta. Þetta er ekki síst gert af hagkvæmnisástæðum og til að tryggja að sama skilgreining sé notuð í svarinu öllu.
    Á 145. löggjafarþingi voru ráðherrar spurðir um kostnað við kaup á sérfræði-, ráðgjafar- og kynningarstörfum fyrir árin 2010–2012. Þeir voru aftur spurðir um sama efni á sama löggjafarþingi um kostnað frá upphafi árs 2014. Það er ekki öruggt að sams konar skilgreiningar hafi verið notaðar í svörum einstakra ráðuneyta og þær sem notaðar eru í þessu svari.

     1.      Hvaða tegundir ráðgjafarþjónustu keyptu opinberar stofnanir og ráðuneyti af einkaaðilum á síðustu tíu árum?
    Sú ráðgjöf sem ráðuneyti og stofnanir kaupa er í bókhaldi flokkuð sem aðkeypt sérfræðiþjónusta. Um er að ræða keypta þjónustu ýmissa sérfræðinga sem lokið hafa háskólaprófi eða sambærilegu langskólanámi og eru verktakar en ekki launþegar. Þegar sérfræðiþjónustunni fylgja efniskaup eru þau einnig færð á umrædda lykla. Miðað við skilgreiningu ætti eingöngu að vera að finna viðskipti við einkaaðila undir þessum liðum. Sérfræðiþjónusta er ekki öll í formi ráðgjafar heldur er þar um að ræða kaup á þjónustu viðkomandi sérfræðinga og getur verið erfitt að greina þar á milli. Í þessu svari er þannig ekki að finna upplýsingar um kaup opinberra aðila á þjónustu heilbrigðisstétta og túlka og þýðenda þótt í einhverjum tilvikum kunni að vera um að ræða að verið sé að kaupa ráðgjöf. Þær tegundir ráðgjafarþjónustu sem þetta svar miðast við eru eftirfarandi bókhaldslyklar úr bókhaldi ríkisins og stofnana þess:
    5440     Viðskipta- og hagfræðingar, löggiltir endurskoðendur og rekstrarráðgjafar.
    5441     Lögfræðingar.
    5442     Verkfræðingar, tæknifræðingar og arkitektar.
    5445     Náttúru-, eðlis- og efnafræðingar.
    5449     Önnur sérfræðiþjónusta.
    5452     Hugbúnaðargerð.
    5456     Ráðningarþjónusta.

     2.      Hver hefur verið kostnaður ríkissjóðs af aðkeyptri ráðgjöf á síðustu tíu árum? Svar óskast sundurliðað eftir stofnun, ráðuneyti og tegund ráðgjafarþjónustu skv. 1. tölul.
    Umbeðnar upplýsingar eru í töflu í fylgiskjali.
     Skýring: Mínustalan á 5449 hjá Vegagerðinni er útnettun á millideildasölu (innanhússölu Vegagerðarinnar á sérfræðiþjónustu). Aðrar mínustölur geta verið af sama toga eða færsla milli ára.


Fylgiskjal.



Kostnaður ríkissjóðs af aðkeyptri ráðgjöf árin 2008–2017.

www.althingi.is/altext/pdf/148/fylgiskjol/s0997-f_I.pdf