Ferill 621. máls. Aðrar útgáfur af skjalinu: PDF - Word Perfect.


148. löggjafarþing 2017–2018.
Þingskjal 1028  —  621. mál.




Fyrirspurn


til dómsmálaráðherra um úrskurði sýslumanns í umgengnismálum.

Frá Birni Leví Gunnarssyni.


     1.      Telur ráðherra ekki eðlilegt að sýslumaður setji sér skýrar verklagsreglur um úrskurði um umgengni sem fellur niður af ástæðum sem varða barnið, t.d. ef það verður veikt? Telur ráðherra það vera framsal á reglusetningarheimild og í samræmi við lög ef sýslumaður úrskurðar um umgengni í slíkum málum án skýrra verklagsreglna, sérstaklega með tilliti til staðlaðra eyðublaða sýslumanns um að óskylt sé að bæta upp það tap á umgengni?
     2.      Telur ráðherra það samræmast 1. og 43. gr. barnalaga, nr. 76/2003, að fulltrúi barns sé ekki viðstaddur viðtöl sýslumanns við barn þegar kannaður er vilji barnsins um umgengni? Er einhver önnur málsmeðferð þar sem gæta þarf hagsmuna barna sambærileg og stunduð án aðkomu fulltrúa barns?
     3.      Á hvaða lagagrundvelli telur sýslumaður sér heimilt að svipta aðila máls, sem er í sáttameðferð skv. 33. gr. a barnalaga, nr. 76/2003, rétti til að hafa lögmann sér til stuðnings og viðstaddan á lögbundnum sáttafundum sem fara fram hjá sýslumanni?
     4.      Eru málsmeðferðarreglur samkvæmt barnalögum, nr. 76/2003, barnaverndarlögum, nr. 80/2002, og stjórnsýslulögum, nr. 37/1993, nægilega skýrar til þess að uppfylla kröfur um málsmeðferð sem gerðar eru í 3. mgr. 3. gr. barnasáttmála Sameinuðu þjóðanna? Tryggja þær hagsmuni barna samkvæmt barnasáttmálanum nægilega? Hver leggur mat á það og hvar eru forsendur slíks mats aðgengilegar?
     5.      Hvert er eftirlit ráðherra með því að stjórnvöld og aðrir sem fara með opinbert vald er varðar börn uppfylli þær kröfur sem gerðar eru í barnasáttmála Sameinuðu þjóðanna? Hverjir eru háðir því eftirliti og hvenær var síðast gerð úttekt hjá hverjum aðila?


Skriflegt svar óskast.