Ferill 501. máls. Aðrar útgáfur af skjalinu: PDF - Word Perfect.


148. löggjafarþing 2017–2018.
Þingskjal 1043  —  501. mál.




Svar


forsætisráðherra við fyrirspurn frá Höllu Signýju Kristjánsdóttur um opinber störf utan höfuðborgarsvæðisins.


     1.      Hversu mörg störf eru á vegum ráðuneytisins og stofnana þess utan höfuðborgarsvæðisins? Óskað er eftir sundurliðun eftir stofnunum og landshlutum.
    Starf staðarhaldara á Hrafnseyri við Arnarfjörð, sem heyrir undir forsætisráðuneytið, er staðsett á Ísafirði .

     2.      Telur ráðherra að unnt sé að láta vinna fleiri störf á vegum ráðuneytisins eða stofnana þess utan höfuðborgarsvæðisins?
    Í stefnuyfirlýsingu ríkisstjórnarinnar kemur fram að ráðuneytum og stofnunum verði falið að skilgreina störf og auglýsa þau án staðsetningar eins og kostur er. Forysta þess verkefnis er á hendi samgöngu- og sveitarstjórnarráðherra sem fer með byggðamálin í Stjórnarráðinu. Forsætisráðherra mun fylgja þessu stefnumarkmiði eftir á kjörtímabilinu á vettvangi ríkisstjórnarinnar og innan forsætisráðuneytisins og stofnana sem undir það heyra. Í þessu skyni lagði forsætisráðherra fram minnisblað í ríkisstjórn, dags. 13. apríl 2018, þar sem lagt var til að Byggðastofnun yrði falið að kortleggja hvar mögulegum vinnumiðstöðvum ríkisins yrði mögulega fyrir komið. Hugmyndin að baki slíkum vinnumiðstöðvum er gera ólíkum stofnunum kleift að bjóða upp á sameiginlega vinnuaðstöðu vegna starfa sem hugsanlega er mögulegt að staðsetja utan höfuðborgarsvæðisins. Slík miðstöð er nú þegar í Borgarnesi og möguleiki væri á að koma fleirum á fót, t.d. í samvinnu við landshlutasamtök sveitarfélaga. Var umrædd tillaga samþykkt.
    Störf við hæfi eru ein meginforsenda fyrir búsetuvali. Er mikilvægt að ríkið stuðli að fjölbreytileika starfa um allt land, bæði með því að tryggja sanngjarna dreifingu starfa á vegum ríkisins milli landshluta og byggðakjarna og með því að skapa atvinnustarfsemi einkaaðila sem jöfnust rekstrarskilyrði óháð staðsetningu. Störf á vegum ríkisins og stofnana þess eru hlutfallslega fleiri á höfuðborgarsvæðinu en landsbyggðinni ef miðað er við íbúafjölda. Þannig var hlutur höfuðborgarsvæðisins í heildaríbúafjölda landsins 64% í lok árs 2016 en á sama tíma var hlutdeild heildarstöðugilda hjá ríki og opinberum hlutafélögum 71%. Hærri hlutur höfuðborgarsvæðisins stafar að stórum hluta af því að flestar æðstu stjórnsýslustofnanir landsins eru staðsettar þar. Nútíma samskiptatækni skapar hins vegar tækifæri til að jafna þessi hlutföll.

     3.      Hyggst ráðherra færa störf út á land á vegum ráðuneytisins eða stofnana þess, sbr. markmið byggðaáætlunar og áform ríkisstjórnarinnar í samstarfssáttmála um að stefna skuli að því að auglýsa störf án staðsetningar?
    Í tillögu til þingsályktunar um stefnumótandi byggðaáætlun 2018–2024 er mælt fyrir um aðgerð sem miðar að því að fjölga störfum án staðsetningar. Markmið hennar er að 10% allra auglýstra starfa í ráðuneytum og stofnunum verði án staðsetningar árið 2024, þannig að búseta hafi ekki áhrif á val á starfsfólki. Ráðherra mun fylgja þessu markmiði eftir innan ráðuneytisins og á vettvangi ríkisstjórnar. Heildstæð greining hefur hins vegar ekki farið fram á því hversu vel einstök störf eru til þess fallin að þau séu unnin annars staðar en á aðalskrifstofum ráðuneyta og stofnana. Hún verður hins vegar unnin í samræmi við markmið byggðaáætlunar.