Ferill 88. máls. Aðrar útgáfur af skjalinu: PDF - Word Perfect.


148. löggjafarþing 2017–2018.
Þingskjal 1089  —  88. mál.

Síðari umræða.


Nefndarálit


um tillögu til þingsályktunar um óháða, faglega staðarvalsgreiningu fyrir nýtt þjóðarsjúkrahús.

Frá meiri hluta velferðarnefndar.


    Nefndin hefur fjallað um málið og fengið á sinn fund Ásu Atladóttur, Gest Ólafsson, Guðjón Sigurbjartsson, Hilmar Þór Björnsson og Kristínu Gunnarsdóttur frá Betra spítala á betri stað, Gunnar Svavarsson frá byggingarnefnd NLSH og Ingólf Þórisson og Sigríði Gunnarsdóttur frá Landspítalanum. Umsagnir bárust frá embætti landlæknis, Félagi íslenskra hjúkrunarfræðinga, Háskóla Íslands, Hilmari Þór Björnssyni, Landspítalanum, Landssambandi slökkviliðs- og sjúkraflutningamanna, landssamtökunum Spítalinn okkar, Nýjum Landspítala ohf., Reykjavíkurborg, Samtökum um betri spítala og Verkfræðingafélagi Íslands.
    Flestir umsagnaraðilar um málið leggjast hart gegn tillögunni, eins og rökstutt er í umsögnum. Í nokkrum umsögnum er velt upp þeim möguleika að hefja nú þegar skoðun á hvar „næsta kynslóð“ spítala eigi að vera. Meiri hlutinn getur tekið undir þær vangaveltur en slíkt má ekki verða til að tefja framgang Hringbrautarverkefnisins. Meiri hlutinn bendir á að Hringbrautarverkefnið er þegar komið vel af stað og byggingarframkvæmdir hafnar. Þá er gert ráð fyrir áframhaldandi uppbyggingu á þessu ári, stefnt er að því að framkvæmdarvinna við meðferðarkjarna hefjist á næstunni og samkvæmt fjármálaáætlun sem liggur fyrir þinginu er verkefnið fjármagnað á gildistíma áætlunarinnar. Umsagnir frá faghópum sem sendu inn umsagnir eru á þann veg að það þoli enga bið að bæta aðstöðu starfsfólks og sjúklinga á spítalanum. Fyrir nefndinni kom fram nokkuð mismunandi skilningur á efni tillögunnar og virtist gestum og umsagnaraðilum ekki vera ljóst hvort samþykkt tillögunnar myndi fela í sér töf eða stöðvun á núverandi verkefnum við Landspítalann, hvort tillögunni væri einungis ætlað að eiga við um næstu kynslóð spítala eða hvort verkefni við spítalann mundu halda áfram á óbreyttum grunni þrátt fyrir að vinna við staðarval stæði yfir. Tillagan er því óljós og ekki hægt að fullyrða um afleiðingar þess yrði hún samþykkt. Mikilvægt er að Alþingi álykti aðeins með skýrum og afdráttarlausum hætti. Meiri hlutinn leggst eindregið gegn því að vinna við Hringbrautarverkefnið verði tafin og leggur til að tillagan verði felld.
    Ásmundur Friðriksson var fjarverandi við afgreiðslu málsins en skrifar undir álitið í samræmi við 4. mgr. 18. gr. starfsreglna fyrir fastanefndir Alþingis.

Alþingi, 1. júní 2018.

Ólafur Þór Gunnarsson,
frsm.
Andrés Ingi Jónsson,
með fyrirvara.
Ásmundur Friðriksson.
Guðjón S. Brjánsson. Halla Signý Kristjánsdóttir. Vilhjálmur Árnason.