Ferill 443. máls. Aðrar útgáfur af skjalinu: PDF - Word Perfect.


148. löggjafarþing 2017–2018.
Nr. 18/148.

Þingskjal 1100  —  443. mál.


Þingsályktun

um breytingu á þingsályktun nr. 23/145, um siðareglur fyrir alþingismenn.


    Alþingi ályktar, með vísan til 88. gr. þingskapa, að eftirfarandi breytingar verði gerðar á siðareglum fyrir alþingismenn, sbr. þingsályktun Alþingis 16. mars 2016, nr. 23/145:
     a.      Á eftir c-lið 1. mgr. 5. gr. siðareglnanna komi nýr stafliður, svohljóðandi: leggja sig fram um að skapa í störfum sínum heilbrigt starfsumhverfi innan þings sem utan og hvarvetna þar sem þeir sinna störfum sínum þar sem hafnað er hvers konar kynferðislegri eða kynbundinni áreitni, einelti eða annarri vanvirðandi framkomu.
     b.      Orðin „sem hafa setið samfellt í fjórar vikur“ í 2. málsl. 2. mgr. 5. gr. siðareglnanna falli brott.
     c.      Á eftir 7. gr. siðareglnanna komi ný grein, svohljóðandi:
                 Þingmenn skulu ekki sýna öðrum þingmönnum, starfsmönnum þingsins eða gestum kynferðislega eða kynbundna áreitni, leggja þá í einelti eða koma fram við þá á annan vanvirðandi hátt.
    Við samþykkt ályktunarinnar skal fella breytingarnar inn í gildandi siðareglur fyrir alþingismenn, sbr. þingsályktun nr. 23/145, og birta þær svo breyttar á vef Alþingis. Taka breytingarnar gildi frá og með þeirri birtingu.

Samþykkt á Alþingi 5. júní 2018.