Ferill 353. máls. Aðrar útgáfur af skjalinu: PDF - Word Perfect.


148. löggjafarþing 2017–2018.
Þingskjal 1114  —  353. mál.




Svar


fjármála- og efnahagsráðherra við fyrirspurn frá Andrési Inga Jónssyni um jafnréttismat.


     1.      Hversu hátt hlutfall stjórnarfrumvarpa hefur verið metið út frá áhrifum þeirra á stöðu kynjanna á gildistíma innleiðingaráætlunar kynjaðrar hagstjórnar og fjárlagagerðar sem samþykkt var 19. júní 2015? Svarið óskast sundurgreint eftir ráðuneytum og árum.
    Töluverðar breytingar hafa orðið á stjórnsýslunni eftir að fimm ára áætlunin sem hér er vísað til var samþykkt. Í fyrsta lagi var hún samþykkt áður en lög nr. 123/2015 ,um opinber fjármál tóku gildi. Í 18. gr. laganna segir:
    „Ráðherra, í samráði við ráðherra jafnréttismála, hefur forystu um að gerð verði áætlun um kynjaða fjárlagagerð sem höfð skal til hliðsjónar við gerð frumvarps til fjárlaga. Í frumvarpi til fjárlaga skal gerð grein fyrir áhrifum þess á markmið um jafna stöðu karla og kvenna.“
    Í greinargerð er farið nánar yfir það í hverju þetta felst og er jafnréttismat á frumvörpum ekki einn þeirra þátta.
    Í öðru lagi hefur breytt ferli við frumvarpssmíði þau áhrif að móta þurfti nýtt verklag og verkferil við jafnréttismat á frumvörpum sem aftur hefur tafið málið. Í þriðja og síðasta lagi er jafnréttismat á frumvörpum ekki hluti af því sem almennt telst vera kynjuð fjárlagagerð og skorti verkefnisstjórn kynjaðrar fjárlagagerðar frá upphafi umboð til þess að fylgja málinu eftir.
    Unnið hefur verið markvisst að því að lagfæra þessa ágalla. Í fyrsta lagi með því að færa ábyrgð á vinnu við jafnréttismat á réttan stað innan stjórnkerfisins. Þar mun skrifstofa löggjafarmála í forsætisráðuneytinu taka saman í ársskýrslu hve mörg frumvörp á hverju ári hafi sætt sérstöku jafnréttismati og teymi vinnur að því að útfæra minnisblað með nánari leiðbeiningum og upplýsingum um vinnu við ábyrgð, gæðamat og viðmið. Í öðru lagi hafði þróun og breytt ferli varðandi frumvarpssmíði þau áhrif að sá leiðarvísir við jafnréttismat á frumvörpum sem var til átti ekki lengur við. Á árinu 2017 mótaði verkefnisstjórn kynjaðrar fjárlagagerðar í samvinnu við forsætisráðuneytið og jafnréttisfulltrúa Stjórnarráðsins nýjan verkferil og leiðarvísi við jafnréttismat á frumvörpum. Sá leiðarvísir er nýlega kominn í gagnið. Í þriðja lagi og í ljósi þess að kynjuð fjárlagagerð er nú lögbundin hefur vinna við þróun hennar fyrst og fremst varðað skilyrði sem sett eru í 18. gr. laga um opinber fjármál sem og viðmið sem alþjóðastofnanir hafa sett varðandi þetta stjórntæki. Kynjuð fjárlagagerð snýr því fyrst og fremst að samþættingu kynja- og jafnréttissjónarmiða við gerð fjármálaáætlunar og fjárlaga en ekki vinnu við jafnréttismat á frumvörpum þrátt fyrir ákveðin samlegðaráhrif sem verða sannarlega nýtt. Ofangreindir þættir hafa haft áhrif á forystu málsins og getu ráðuneytanna til þess að vinna að því. Ráðuneytin hafa engu að síður lagt sig fram við að uppfylla skilyrði í fyrrnefndri fimm ára áætlun enda má sjá hlutfallslega aukningu ár frá ári.

    Hér á eftir er yfirlit yfir jafnréttismat á frumvörpum, sundurgreint eftir ráðuneytum og árum.

Ráðuneyti Hlutfall jafnréttismetinna frumvarpa
2015 2016 2017
FOR Á ekki við Á ekki við Á ekki við
ANR 0% 9% 87,5%
DMR 0%
FJR Á ekki við Á ekki við Á ekki við
MMRN 0% 0% 66,7%
SRN 0%
UAR Á ekki við Á ekki við Á ekki við
UTN Á ekki við Á ekki við Á ekki við
VEL 14% 40% 33%

    Hafa þarf í huga þegar taflan er skoðuð að í fyrrnefndri fimm ára áætlun er miðað við að ráðuneyti framkvæmi jafnréttismat á frumvörpum sem talin eru hafa miðlungs eða mikil áhrif á stöðu kynjanna og miðast fjöldi þeirra við skilgreinda mælikvarða. Í þessari töflu miða hlutföllin þó við öll stjórnarfrumvörp.
    Það sem þarf sömuleiðis að huga að varðandi töfluna er að mörg ráðuneyti mátu það sem svo að frumvörp hefðu ekki með kynjaáhrif og því væri ekki þörf á jafnréttismati. Í þeim tilvikum kemur fram að jafnréttismat eigi ekki við. Dómsmálaráðuneytið og samgöngu- og sveitarstjórnarráðuneytið eru sömuleiðis ný ráðuneyti og er metið sem svo að árin 2015 og 2016 eigi ekki við.

     2.      Hvernig horfir með það markmið innleiðingaráætlunarinnar að ráðuneyti framkvæmi jafnréttismat á 70% frumvarpa á yfirstandandi ári og að hlutfallið verði 100% árið 2019?
    Allar forsendur eru fyrir hendi til þess að hægt verði að meta 70% frumvarpa sem falla undir skilgreind viðmið á yfirstandandi ári og öll frumvörp sem falla undir slík viðmið árið 2019.