Ferill 516. máls. Aðrar útgáfur af skjalinu: PDF - Word Perfect.


148. löggjafarþing 2017–2018.
Þingskjal 1354  —  516. mál.




Svar


umhverfis- og auðlindaráðherra við fyrirspurn frá Ólafi Ísleifssyni um rannsóknir og mengunarvarnir vegna torfæruaksturs í Jósefsdal.


     1.      Hvaða starfsemi tengd torfæruakstri og öðrum bifreiðaíþróttum hefur verið heimiluð í Jósefsdal í nágrenni vatnsverndarsvæða höfuðborgarsvæðisins?
    Samkvæmt upplýsingum sem Umhverfisstofnun aflaði frá Heilbrigðiseftirliti Suðurlands gaf Heilbrigðisnefnd Suðurlands út starfsleyfi fyrir Vélhjólaklúbbinn sem gildir til 19. júlí 2022. Starfsleyfið er gefið út í samræmi við lög um hollustuhætti og mengunarvarnir og þá gildandi reglugerð nr. 785/1999 um starfsleyfi fyrir atvinnurekstur sem getur haft í för með sér mengun. Hvorki Heilbrigðiseftirliti Suðurlands né Umhverfisstofnun er kunnugt um aðra starfsemi tengda torfæruakstri og öðrum bifreiðaíþróttum á svæðinu.

     2.      Hvaða skilyrði hafa verið sett fyrir starfseminni um mengunarvarnir og umgengni um svæðið?
    Heilbrigðisnefnd Suðurlands er starfsleyfisútgefandi og setur kröfur í starfsleyfi. Í skilyrðum starfsleyfisins kemur fram að óheimilt sé að vera með olíu- eða bensíntanka inni á svæðinu og enn fremur séu olíu- og bensínáfyllingar á tæki óheimilar. Þá er starfsleyfishafa skylt að hindra að jarðvegur og grunnvatn á svæðinu mengist eða umhverfi spillist.

     3.      Hvaða rannsóknir hafa verið gerðar á mengun vegna gúmmíkurls og annarra mengandi efna frá torfærubifreiðum og öðrum farartækjum ásamt mengun vegna umferðar mannfólks með tilliti til nálægðar við vatnsverndarsvæði?
    Engar rannsóknir hafa verið gerðar í sambandi við umrædda starfsemi, enda er hvorki gerð krafa í reglugerðum eða í starfsleyfi um eftirlitsmælingar vegna hennar. Umhverfisstofnun er ekki kunnugt um neinar rannsóknir sem hafa verið gerðar hér á landi á mengun vegna gúmmíkurls frá torfærubifreiðum eða öðrum farartækjum m.t.t. nálægðar við vatnsverndarsvæði. Þá hefur stofnunin aðeins verið með til umfjöllunar gúmmíkurl frá gervigrasvöllum og gaf út tilmæli þess lútandi. Í tilmælunum, sem finna má á heimasíðu Umhverfisstofnunar ( www.ust.is/einstaklingar/frettir/frett/2016/07/12/Tilmaeli-Umhverfisstofnunar-um-dekkjakurl-sem-fylliefni-a-gervigrasvollum-/), er vísað til nokkurra skýrslna og greina sem einkum þó fjalla um dekkjakurl á leik- og íþróttavöllum.
    Einnig er spurt um rannsóknir á öðrum mengandi efnum frá torfærubifreiðum og öðrum farartækjum ásamt mengun vegna umferðar fólks með tilliti til nálægðar við vatnsverndarsvæði. Umhverfisstofnun hefur ekki upplýsingar um neinar slíkar rannsóknir hér á landi. Einhverjar rannsóknir hafa verið gerðar á áhrifum vegna umferðar frá vegum erlendis og mætti í því sambandi benda á grein sem gefin var út árið 2005 og fjallar um áhrif ofanvatns frá vegum í jarðvegi og grunnvatni ( www.aprh.pt/celtico/PAPERS/27.PDF). Eins og fram kemur í greininni þarf að huga að nokkrum þáttum, svo sem brennslu eldsneytis, leka frá vélum og slysum. Niðurlag greinarinnar bendir til þess að mengun frá vegum geti haft áhrif á jarðveg og vatn í næsta nágrenni en yfirleitt sé ekki umbráðamengun að ræða.
     4.      Er til áhættumat vegna umræddrar starfsemi í Jósefsdal og viðbragðsáætlanir sem eru endurskoðaðar með reglubundnum hætti í ljósi áhættumats? Hverjir eru helstu þættir slíkra áætlana, þar á meðal um verkaskiptingu og skiptingu ábyrgðar aðila sem koma að slíkum áætlunum?
    Hvorki Umhverfisstofnun né Heilbrigðiseftirlit Suðurlands hafa vitneskju um að slíkt áhættumat hafi verið unnið. Benda má á að ekki er gerð krafa um slíkt áhættumat í starfsleyfisskilyrðum.

     5.      Hvernig er háttað eftirliti með starfsleyfisskyldri starfsemi í Jósefsdal, m.a. á sviði mengunarvarna?
    Heilbrigðisnefnd Suðurlands hefur eftirlit með starfsemi Vélhjólaíþróttaklúbbsins í samræmi við ákvæði laga nr. 7/1998 og reglugerða settra samkvæmt þeim. Samkvæmt þeim reglugerðum sem giltu þegar starfsemin fékk starfsleyfi flokkuðust kappaksturs-, æfinga- og kennslubrautir í eftirlitsflokk sem hefur það í för með sér að meðaltíðni eftirlits er samkvæmt ákvörðun viðkomandi heilbrigðisnefndar. Heilbrigðisnefnd Suðurlands ákvarðaði eftirlitstíðnina 0,25 eða fjórða hvert ár í samræmi við mat á umfangi og áhættu vegna starfseminnar við útgáfu starfsleyfis. Í eftirliti er farið yfir alla þá þætti sem fram koma í starfsleyfisskilyrðum og gerðar athugasemdir ef frávik finnast og í framhaldinu kröfur um úrbætur.
    Í nýsettri reglugerð nr. 550/2018 um losun frá atvinnustarfsemi og mengunarvarnaeftirlit er kveðið á um að eftirlitsaðili skuli reglulega gera áætlanir um reglubundið eftirlit með atvinnurekstri, þ.m.t. um tíðni vettvangsheimsókna. Tímabil vegna tveggja vettvangsheimsókna skal byggjast á kerfisbundnu mati á umhverfisáhættu viðkomandi starfsemi. Kerfisbundið mat á umhverfisáhættu skal m.a. byggjast á viðmiðunum er varða möguleg og raunveruleg áhrif viðkomandi starfsemi á heilbrigði manna og umhverfið með tilliti til umfangs og gerðar losunar, viðkvæmni umhverfisins á staðnum og hættu á mengunarslysum og skrá yfir hvernig starfsleyfisskilyrðum er fylgt eftir. Umhverfisstofnun í samvinnu við heilbrigðiseftirlit sveitarfélaga vinnur nú að ramma fyrir áhættumat í samræmi við nýsetta reglugerð.

     6.      Telur ráðherra samrýmast vatnsverndarsjónarmiðum að torfærubrautum sé valinn staður í Jósefsdal í ljósi nálægðar hans við vatnsverndarsvæði höfuðborgarsvæðisins og mörk grunnvatnsstrauma sem sjá íbúum Reykjavíkur og nágrannasveitarfélaga fyrir lunganum af neysluvatni sínu? Hver er rökstuðningurinn fyrir áliti ráðherra í þessu efni?
    Heilbrigðisnefnd Suðurlands er starfsleyfisútgefandi og eftirlitsaðili þegar kemur að umræddri starfsemi. Að auki eru það heilbrigðisnefndir sem veita starfsleyfi fyrir þær veitur sem afla neysluvatns á hverju svæði fyrir sig. Vatnsveitur og aðrir sem dreifa neysluvatni skulu sjá til þess að neysluvatn uppfylli kröfur sem fram koma í reglugerð um neysluvatn. Neysluvatn skal vera laust við örverur, sníkjudýr og efni í því magni sem getur haft áhrif á heilsu manna. Fyrir þá efnisþætti, sem ekki er fjallað um í viðauka I í reglugerð um neysluvatn, skal stuðst við leiðbeiningar Alþjóðaheilbrigðismálastofnunarinnar (WHO) um gæði neysluvatns. Matvælastofnun, sem heyrir undir atvinnuvega- og nýsköpunarráðuneytið, hefur með málefni neysluvatns að gera.
    Umrædd starfsemi er ekki innan vatnsverndarsvæðis en innan vatnsverndarsvæða gilda strangar reglur hvað varðar starfsemi og framkvæmdir. Samkvæmt stöðuskýrslu sem unnin var undir stjórn vatnamála var grunnvatnshlotið sem Jósefsdalur og vatnsverndarsvæðið sem um ræðir ekki metið í hættu. Þess má einnig geta að umrætt grunnvatnshlot er á vöktunaráætlun Umhverfisstofnunar sem nú er í vinnslu undir stjórn vatnamála. Ekki hefur enn verið tekin ákvörðun um hvers konar vöktun verður komið á í grunnvatnshlotinu, en vöktunaráætlunin er nú í vinnslu aftur, eftir nokkurt hlé sem var tilkomið vegna fjárskorts í málaflokknum.