Ferill 576. máls. Aðrar útgáfur af skjalinu: PDF - Word Perfect.


148. löggjafarþing 2017–2018.
Þingskjal 1384  —  576. mál.




Svar


fjármála- og efnahagsráðherra við fyrirspurn frá Ingu Sæland um Bankasýslu ríkisins.


     1.      Hvers vegna hefur ráðherra ekki lagt fram frumvarp um að leggja niður Bankasýsluna eins og kveðið er á um í 9. gr. laga nr. 88/2009, um Bankasýslu ríkisins?
    Samkvæmt 9. gr. laga nr. 88/2009, um Bankasýslu ríkisins, skal stofnunin hafa lokið störfum eigi síðar en 5 árum eftir að hún er sett á fót og samkvæmt greininni „verður hún þá lögð niður“.
    Ljóst er af lagaákvæðinu sjálfu og undirbúningsgögnum með frumvarpi því sem varð að lögum nr. 88/2009 að gert var ráð fyrir því á sínum tíma að líftími stofnunarinnar mundi ekki vara lengur en fimm ár frá því að stofnunin var sett á fót enda hafi stofnunin þá lokið störfum. Í athugasemdum með þessu ákvæði laganna segir eftirfarandi:
    „Aðstæður þær sem nú eru uppi kalla á að sérstök stofnun verði sett á fót eins og lagt er til í frumvarpinu. Ekki er ætlunin að þetta fyrirkomulag verði til frambúðar heldur ráðgert að ríkið losi um eignarhald sitt á fjármálafyrirtækjum þegar tækifæri gefst og að eignarráð og eftirlit með eignarhlutum í fjármálafyrirtækjum sem hugsanlega verða áfram á hendi ríkisins eftir þessi tímamörk verði með hefðbundnum hætti. Til þess að leggja áherslu á þetta sjónarmið er í greininni lagt til að stofnunin verði lögð niður eigi síðar en að fimm árum liðnum.“
    Í athugasemdum frumvarpsins kemur einnig fram að gert sé ráð fyrir því að stofnunin verði lögð niður þegar endurreisn fjármálakerfisins sé lokið. Ljóst er að Bankasýslu ríkisins voru ekki einungis falin tiltekin verkefni með lögum 88/2009, um Bankasýslu ríkisins. Með lögum nr. 155/2012, um sölumeðferð eignarhluta ríkisins í fjármálafyrirtækjum, var stofnuninni jafnframt falið veigamikið hlutverk við sölu á eignarhlutum ríkisins í fjármálafyrirtækjum. Samkvæmt þeim lögum hefur stofnunin frumkvæðishlutverk við sölu á eignarhlutum ríkisins í fjármálafyrirtækjum í eigu ríkisins, að undirbúa og annast sölumeðferðina sjálfa fyrir hönd ríkisins, leita tilboða í eignarhluti, meta tilboð og hafa umsjón með samningaviðræðum við ráðgjafa og kaupendur auk þess að annast samningsgerð.
    Áður en umræddur fimm ára tímafrestur 9. gr. laganna rann út var sett af stað lögfræðileg skoðun innan fjármála- og efnahagsráðuneytisins á því hvaða þýðingu umrætt ákvæði hefði á starfsemi stofnunarinnar að loknum þessum tiltekna fresti að óbreyttum lögum. Af hálfu ráðuneytisins var komist að þeirri niðurstöðu að ekki yrði ráðið með ótvíræðum hætti af lagagreininni að starfsemi Bankasýslunnar legðist sjálfkrafa af að liðnum fimm árum frá því að stofnunin tók til starfa. Til þess hefði orðalag ákvæðisins þurft að vera skýrara um að stofnunin skyldi hætta störfum og verkefni stofnunarinnar þar með flytjast til ráðuneytisins eða eftir atvikum annars aðila. Ákvæði greinarinnar bæri frekar með sér að vera nokkurs konar pólitísk markmiðslýsing á þann hátt að umrædd stofnun yrði sett á laggirnar tímabundið en ætti ekki að vera til staðar til framtíðar, henni bæri að vinna hratt og vel að þeim verkefnum sem henni voru falin og að stjórnvöld og löggjafarvaldið skyldu á þessum tíma vinna að því að leggja stofnunina niður þegar meginverkefnum hennar væri lokið. Á þessum tíma lá ljóst fyrir að eignarhlutir í stærstu fjármálafyrirtækjunum voru enn í eigu ríkisins og að ekki næðist að ljúka meginverkefnum stofnunarinnar fyrir umræddan tímafrest. Með hliðsjón af því að stofnunin hafði ekki lokið störfum eins og kveðið var á um í 9. gr. laga nr. 88/2009, um Bankasýslu ríkisins, sbr. einnig þau auknu verkefni sem stofnuninni höfðu verið fengin með lögum 155/2012, um sölumeðferð eignarhluta ríkisins í fjármálafyrirtækjum, var það niðurstaða ráðuneytisins að stofnunina þyrfti að leggja niður með sérstökum lögum þar sem öðru stjórnvaldi eða stjórnvöldum yrðu fengin þau verkefni sem stofnuninni höfðu verið falin með lögum.
    Á 144. löggjafarþingi 2014–2015 lagði fjármála- og efnahagsráðherra fram frumvarp til laga um meðferð og sölu eignarhluta ríkisins í fjármálafyrirtækjum. Í frumvarpinu var lagt til að fjármála- og efnahagsráðherra færi alfarið með meðferð og sölu eignarhluta ríkisins í fjármálafyrirtækjum í stað Bankasýslu ríkisins. Í frumvarpinu var gert ráð fyrir að Bankasýslan yrði lögð niður og að heimild fengist til að bjóða starfsmönnum hennar starf hjá fjármála- og efnahagsráðuneytinu. Frumvarp þetta fékk talsverða umfjöllun á Alþingi en varð ekki að lögum, hvorki eins og lagt var upp með af hálfu ráðuneytisins né með breytingum á umræddu ákvæði 9. gr. gildandi laga.

     2.      Hvaða lagaheimildir liggja til grundvallar framlagi úr ríkissjóði til Bankasýslu ríkisins á málefnasviði 5, málaflokki 5.2, á fjárlaganúmeri 09-977 samkvæmt fylgiriti fjárlaga fyrir árið 2018 í ljósi þess að stofnunin skal hafa lokið störfum eigi síðar en fimm árum frá því að hún var sett á fót og verði þá lögð niður, sbr. fyrrgreint ákvæði?
    Fjárlög ársins og það framlag sem gert er ráð fyrir til Bankasýslu ríkisins hafa fengið umfjöllun og samþykki Alþingis. Eins og fram kemur í svari við 1. lið hér að framan liggur fyrir að ráðuneytið taldi lagagrundvöll ekki fyrir hendi til að leggja Bankasýslu ríkisins niður fyrr en lögbundin verkefni hennar hefðu verið færð til annars þar til bærs stjórnvalds.

     3.      Telur ráðherra það samræmast grundvallarreglum stjórnsýsluréttar og lögum um ráðherraábyrgð, nr. 4/1963, að starfrækja áfram stofnun sem löggjafinn hefur gert ráð fyrir að lögð hafi verið niður? Telur ráðherra að leita þurfi heimildar hjá Alþingi fyrir áframhaldandi starfsemi stofnunarinnar?
    Ráðherra telur ekki að það samræmist grundvallarreglum stjórnsýsluréttar að stofnun eins og Bankasýsla ríkisins sé lögð niður án þess að lögbundnum verkefnum hennar sé komið tryggilega fyrir með öðrum hætti. Ráðherra fellst hins vegar á að það sé óheppilegt að umræddur tímafrestur sé til staðar í lögum um Bankasýslu ríkisins þrátt fyrir að ljóst sé að þeim verkefnum sem lýst er bæði í lögum um stofnunina og lögum um sölumeðferð eignarhluta ríkisins í fjármálafyrirtækjum sé ekki lokið.