Ferill 593. máls. Aðrar útgáfur af skjalinu: PDF - Word Perfect.


148. löggjafarþing 2017–2018.
Þingskjal 1386  —  593. mál.




Svar


ferðamála-, iðnaðar- og nýsköpunarráðherra við fyrirspurn frá Albertínu Friðbjörgu Elíasdóttur um svarta atvinnustarfsemi í ferðaþjónustu.


    Fyrirspurnin hljóðar svo:
    Hvaða aðgerðir eru fyrirhugaðar til að uppræta svarta atvinnustarfsemi í ferðaþjónustu, m.a. tengda skammtímaleigu og erlendu vinnuafli?

    Eðli málsins samkvæmt heyrir eftirlit með þessari starfsemi undir fleiri ráðuneyti en atvinnuvega- og nýsköpunarráðuneytið, þar sem skatteftirlit er t.d. á hendi fjármálaráðuneytisins og ríkisskattstjóra auk þess sem eftirlit með vinnumarkaði er á hendi velferðarráðuneytisins.
    Undir verksvið atvinnuvega- og nýsköpunarráðuneytisins fellur starfsemi veitingastaða og gististaða ásamt skammtímaútleigu húsnæðis til ferðamanna. Ráðuneytið hefur verið í samstarfi við sýslumanninn á höfuðborgarsvæðinu og ríkisskattstjóra um skilvirkara eftirlit með þeim sem stunda skammtímaútleigu á bókunarsíðum eins og Airbnb. Um skeið hefur legið fyrir þörf á því að efla eftirlit með þeim sem stunda skammtímaútleigu án þess að vera með skráða heimagistingu eins og lög gera ráð fyrir. Enn fremur þarf að efla eftirlit með þeim sem stunda gististarfsemi án þess að hafa til þess rekstrarleyfi en þar verða til miklar tekjur sem almennt er ekki greiddur skattur af.
    Til þess að efla þetta eftirlit og skráningu á heimagistingu á vefsíðunni heimagisting.is ákvað ferðamálaráðherra nú í sumar að veita aukið fjármagn til tólf mánaða átaksverkefnis undir heitinu „heimagistingarvakt“. Verkefnið er á vegum sýslumannsins á höfuðborgarsvæðinu, sem fer með eftirlit með heimagistingu samkvæmt lögum um veitingastaði, gististaði og skemmtanahald, nr. 85/2007. Er þar um að ræða fjárveitingu til þess að fjölga starfsmönnum sýslumannsins sem starfa við eftirlit með skammtímaleigu íbúðarhúsnæðis, í því skyni að virkja eftirlitið enn frekar og jafna þannig samkeppnisstöðu aðila í gististarfsemi, bæta skattheimtu og auka öryggi ferðamanna.
    Þá mun ráðuneytið einnig, í samstarfi við fjármálaráðuneytið, skoða möguleika til þess að afla frekari upplýsinga frá umboðsmönnum bókunarsíðna eins og Airbnb, en þessum aðilum ber samkvæmt íslenskum lögum að greiða virðisaukaskatt af veltu sinni sem verður til hér á landi. Hins vegar hefur verið erfiðleikum bundið að afla upplýsinga um þá þætti sem búa að baki veltu viðkomandi aðila.
    Loks er einnig áhugi á að hefja á ný samtal við Airbnb um að annast skattinnheimtu fyrir hönd ríkisins. Í því skyni hafa fulltrúar atvinnuvega- og nýsköpunarráðuneytis, fjármála- og efnahagsráðuneytis, ríkisskattstjóra, Reykjavíkurborgar o.fl. nýverið fundað um málið og hafið samvinnu sem miðar að því að skoða ýmsar leiðir sem til greina koma í þessum efnum, m.a. í ljósi fyrirmynda frá öðrum ríkjum.
    Til viðbótar má nefna að starfshópur á vegum fjármála- og efnahagsráðuneytisins vann sumarið 2017 skýrslu um skattskyldu af erlendri ferðaþjónustustarfsemi á Íslandi. Niðurstöður skýrslunnar voru yfirgripsmiklar og þegar hafa skref verið stigin sem byggð eru á niðurstöðum hennar, svo sem með frumvarpi fjármála- og efnahagsráðherra um aðgerðir gegn skattundanskotum og skattsvikum sem varð að lögum á vorþingi. Þar var samþykkt breyting á tollfríðindum hópbifreiða sem fluttar eru til landsins tímabundið. Jafnframt er nú gert ráð fyrir að tollyfirvöldum verði heimilt að fjarlægja skráningarmerki af ökutækjum sem hafa verið flutt inn á grundvelli tollfríðindaákvæða sem heimila tímabundna niðurfellingu tolls vegna ökutækja sem nota á tímabundið hér á landi.
    Þá var einnig samþykkt á vorþingi frumvarp félagsmálaráðherra um réttindi og skyldur erlendra fyrirtækja sem senda starfsmenn tímabundið til Íslands. Markmið frumvarpsins er að veita íslenskum stjórnvöldum betri yfirsýn yfir stöðu á innlendum vinnumarkaði að því er varðar starfsemi erlendra þjónustuveitenda, og að styrkja eftirlit á vinnumarkaði til þess að tryggja að laun og önnur starfskjör erlendra starfsmanna sem sendir eru tímabundið hingað til lands á vegum erlendra fyrirtækja séu í samræmi við lög og gildandi kjarasamninga.