Ferill 514. máls. Aðrar útgáfur af skjalinu: PDF - Word Perfect.


148. löggjafarþing 2017–2018.
Þingskjal 744  —  514. mál.




Fyrirspurn


til umhverfis- og auðlindaráðherra um rannsóknir og öryggisráðstafanir vegna jarðvegslosunar í Bolaöldu.

Frá Ólafi Ísleifssyni.


     1.      Hvernig er gengið úr skugga um að á jarðvegslosunarsvæðinu í Bolaöldu í landi Ölfuss sé eingöngu losað endurnýtanlegt, óvirkt jarðefni en ekki lífræn efni?
     2.      Hvaða rannsóknir hafa verið gerðar á efnasamsetningu jarðefna sem losuð eru í Bolaöldu með hliðsjón af nálægð þeirra við vatnsverndarsvæði og hverjar eru niðurstöður þeirra rannsókna?
     3.      Hvaða rannsóknir hafa verið gerðar á líklegum breytingum á efnasamsetningu grunnvatns við að regnvatn sígi með tímanum ofan í aðfluttan jarðveg við Bolaöldu og blandist náttúrulegu grunnvatni á Heiðmerkursvæðinu? Hverjar eru niðurstöður þessara rannsókna, hafi þær verið gerðar?
     4.      Er til áhættumat vegna jarðvegslosunar í Bolaöldu og viðbragðsáætlanir sem eru endurskoðaðar með reglubundnum hætti í ljósi áhættumats? Hverjir eru helstu þættir slíkra áætlana, þar á meðal um verkaskiptingu og skiptingu ábyrgðar aðila sem koma að slíkum áætlunum?
     5.      Hvernig er háttað framkvæmd eftirlits með starfsleyfisskyldri starfsemi í Bolaöldu, m.a. á sviði mengunarvarna?
     6.      Telur ráðherra samrýmast vatnsverndarsjónarmiðum að jarðlosunarstarfsemi með því umfangi sem raun ber vitni og mengunarhættu sem slíkri atvinnustarfsemi fylgir sé valinn staður í Bolaöldu í ljósi þess að hún liggur á mörkum fjarsvæðis vatnsverndarsvæðis höfuðborgarsvæðisins og við mörk tveggja grunnvatnsstrauma, Elliðaárstraums og Selvogsstraums, og að lunginn af neysluvatni Reykjavíkur og nágrannasveitarfélaga er fenginn úr fyrrnefnda straumnum? Hver er rökstuðningur fyrir áliti ráðherra í þessu efni?


Skriflegt svar óskast.