Ferill 22. máls. Aðrar útgáfur af skjalinu: PDF - Word Perfect.


149. löggjafarþing 2018–2019.
Þingskjal 22  —  22. mál.




Tillaga til þingsályktunar


um uppsögn tollasamnings um landbúnaðarvörur við Evrópusambandið.


Flm.: Birgir Þórarinsson, Anna Kolbrún Árnadóttir, Bergþór Ólason,
Gunnar Bragi Sveinsson, Sigmundur Davíð Gunnlaugsson,
Sigurður Páll Jónsson, Þorsteinn Sæmundsson.


    Alþingi ályktar að fela utanríkisráðherra að segja upp tollasamningi við Evrópusambandið um landbúnaðarafurðir frá 2015 vegna brostinna forsendna og skorts á úttekt á áhrifum samningsins á innlenda búvöruframleiðslu. Uppsögnin taki gildi eigi síðar en sex mánuðum eftir samþykkt ályktunar þessarar.

Greinargerð.

    Tillaga þessi var áður lögð fram á 148. löggjafarþingi (487. mál) og er nú endurflutt að mestu óbreytt.
    Íslensk stjórnvöld undirrituðu tollasamning við Evrópusambandið um landbúnaðarafurðir 17. september 2015. Samningurinn tók gildi 1. maí sl. og tók við af tollasamningi sem gerður var við Evrópusambandið árið 2007. Ef litið er á samninginn sést hversu óhagstæður hann er Íslandi. Samningurinn endurspeglar ekki stærðarmun markaðanna. Í ríkjum Evrópusambandsins er 500 milljóna manna markaður en Íslendingar eru 340 þúsund. Ekki er tekið tillit til gengisbreytinga og samkeppnisfærni íslensks landbúnaðar í Evrópusambandinu í viðskiptum með kjötvörur. Verulega hallar á Ísland í viðskiptum með ost en Evrópusambandið fær að flytja til Íslands tollfrjálst 610 tonn af ostum en Ísland til Evrópusambandsins aðeins 50 tonn. Engin úttekt fór fram á því hvaða áhrif samningurinn frá 2015 hefði á innlenda búvöruframleiðslu. Tollasamningurinn á að færa íslenskum bændum sömu möguleika í Evrópu og Evrópusambandið fær hér á landi. Það gerir samningurinn ekki. Síðast en ekki síst er nauðsynlegt að segja samningnum upp vegna brostinna forsendna, fyrirhuguð úrsögn Bretlands úr Evrópusambandinu gerir það að verkum að okkar stærsta og besta markaðssvæði hverfur úr samningnum á samningstímanum. Tollkvóti fyrir skyr var t.d. hugsaður fyrir Bretlandsmarkað.
    Nauðsynlegt er að samið verði upp á nýtt við Evrópusambandið um tollkvóta á landbúnaðarafurðum í ljósi framangreinds.