Ferill 43. máls. Aðrar útgáfur af skjalinu: PDF - Word Perfect.


149. löggjafarþing 2018–2019.
Þingskjal 43  —  43. mál.




Tillaga til þingsályktunar


um vistvæn opinber innkaup á matvöru.


Flm.: Þórunn Egilsdóttir, Silja Dögg Gunnarsdóttir, Halla Signý Kristjánsdóttir, Líneik Anna Sævarsdóttir.


    Alþingi ályktar að fela fjármála- og efnahagsráðherra að vinna frumvarp þess efnis að ávallt skuli tekið tillit til umhverfissjónarmiða og dýravelferðar við opinber innkaup á matvöru. Frumvarpið verði lagt fyrir Alþingi fyrir lok desember 2019.

Greinargerð.

    Þingsályktunartillaga þessi var áður flutt á 148. þingi (þskj. 353, 251. mál) en náði ekki fram að ganga. Hún er nú flutt í óbreyttri mynd.
    Miklu varðar að lágmarka losun gróðurhúsalofttegunda, notkun skaðlegra hormóna og eiturefna, ofnotkun sýklalyfja sem leiðir af sér fjölónæmar bakteríur og önnur skaðleg áhrif á umhverfið og velferð dýra við framleiðslu og flutning matvöru. Ríki og sveitarfélög geta haft veruleg áhrif þar á með því að hafa umhverfisvernd og dýravelferð að leiðarljósi við innkaup á matvöru. Til dæmis má ætla að hátt í 150.000 manns – nemendur, starfsfólk hjá hinu opinbera, vistmenn á dvalar- og öldrunarheimilum og fleiri – eigi reglulega kost á að borða í mötuneytum á vegum hins opinbera. Ef miðað er við að tveir þriðju þeirra neyti þess kosts er um 100.000 manns að ræða.
    Íslensk lög um opinber innkaup, nr. 120/2016, byggjast á evrópskri tilskipun 2014/24/ESB um opinber innkaup. Í tilskipuninni er viðurkennt að nýta megi opinber innkaup til að vinna að umhverfisvernd og velferð dýra. Lög um opinber innkaup beinast þó einkum að því að tryggja að innkaup séu hagkvæm og gera opinberum aðilum almennt aðeins heimilt, en ekki skylt, að taka tillit til umhverfisverndar við innkaup. Með tillögu þessari er lagt til grundvallar að ávallt verði tekið tillit til umhverfisverndar og dýravelferðar við opinber innkaup á matvöru. Ríki og sveitarfélög leggi þannig þungt lóð á vogarskálar vistvænnar matvælaframleiðslu.