Ferill 72. máls. Aðrar útgáfur af skjalinu: PDF - Word Perfect.


149. löggjafarþing 2018–2019.
Þingskjal 266  —  72. mál.




Svar


umhverfis- og auðlindaráðherra við fyrirspurn frá Ara Trausta Guðmundssyni um plöntuverndarvörur.


     1.      Hversu mikið af plöntuverndarvörum, þ.e. af efnum sem notuð eru við ræktun matjurta, blóma og trjáa og koma eiga í veg fyrir óæskileg áhrif annarra jurta, var flutt til landsins ár hvert frá 2012–2017?
    Í ágúst 2016 gaf umhverfis- og auðlindaráðuneytið út Aðgerðaáætlun um notkun varnarefna 2016–2031 í samræmi við 34. gr. efnalaga nr. 61/2013 og tilskipun Evrópuþingsins og ráðsins 2009/128/EB um aðgerðaramma Evrópusambandsins til að ná fram sjálfbærri notkun varnarefna, sem sjá má á vef ráðuneytisins. 1
    Í aðgerðaáætlun um notkun varnarefna koma fram mælanleg markmið, upplýsingar um notkun varnarefna og tímaáætlun, aðgerðir og stefnumörkun til að draga markvisst úr notkun varnarefna og stuðla að sjálfbærri notkun þeirra í því skyni að draga úr áhættu fyrir heilsu og umhverfið. Markmiðið er m.a. að ýta undir þróun og innleiðingu á samhæfðum vörnum í plöntuvernd og aðferða sem ekki byggja á notkun efna. Í aðgerðaáætluninni eru settir fram áhættuvísar og er eitt af markmiðum áætlunarinnar að markaðssetning og notkun plöntuverndarvara hér á landi verði í samræmi við setta áhættuvísa.
    Eftirfarandi upplýsingar um magntölur innflutnings eru úr skýrslu Umhverfisstofnunar um markaðssetningu og notkun plöntuverndarvara 2009–2016, 2 að viðbættum upplýsingum fyrir árið 2017.

Innflutningur á plöntuverndarvörum frá 2012–2017, magn mælt í kg.


Hér er efni sem sést aðeins í pdf-skjalinu.



2012 2013 2014 2015 2016 2017
Magn plöntuverndarvara mælt í kg 32.664 9.685 16.030 24.779 12.844 11.569
Áhættuvísir úr aðgerðaáætlun 12.000 12.000 12.000 12.000 12.000 12.000


Innflutningur á plöntuverndarvörum frá 2012–2017, virkt efni mælt í kg.


Hér er efni sem sést aðeins í pdf-skjalinu.



2012 2013 2014 2015 2016 2017
Magn virks efnis mælt í kg 3.114 2.291 3.884 3.763 3.575 2.546
Áhættuvísir úr aðgerðaáætlun 3.000 3.000 3.000 3.000 3.000 3.000
Til notkunar í atvinnuskyni 320 514 2.371 1.010 1.675 705
Til almennrar notkunar 2.794 1.777 1.513 2.753 1.900 1.841

     2.      Hvaða viðmið um áhrif efnanna á menn og dýr ráða þegar notkun þeirra er heimiluð?
    Ísland er aðili að samningnum um Evrópska efnahagssvæðið og ber samkvæmt honum að innleiða reglugerðir Evrópusambandsins um plöntuverndarvörur. Þannig gilda sömu reglur hér á landi og í öðrum löndum á EES svæðinu hvað þetta varðar. Reglugerð nr. 544/2015 um plöntuverndarvörur var sett til innleiðingar á reglugerð Evrópuþingsins og ráðsins (EB) nr. 1107/2009 frá 21. október 2009 um setningu plöntuverndarvara á markað ásamt fleiri reglugerðum sem tengjast henni. Til að plöntuverndarvörur séu löglegar á markaði þarf fyrst að gefa út markaðsleyfi í því aðildarríki þar sem setja á vöruna á markað. Plöntuverndarvara sem veita á markaðsleyfi fyrir þarf að uppfylla skilyrði framangreindar reglugerðar (EB) nr. 1107/2009 um áhættumat sem sýnir fram á að notkun vörunnar teljist örugg fyrir heilsu manna og umhverfi.

     3.      Hvernig er eftirliti með notkun efnanna háttað?
    Umhverfisstofnun hefur samkvæmt ákvæðum 5. gr. efnalaga nr. 61/2013 umsjón með framkvæmd laganna og fer með eftirlit í samræmi við ákvæði laganna. Umhverfisstofnun hefur eftirlit með meðferð og markaðssetningu efna, efnablandna og hluta sem falla undir efnalögin með samræmdum hætti á landinu öllu. Um eftirlit með plöntuverndarvörum á markaði fer skv. XI. kafla efnalaga nr. 61/2013. Umhverfisstofnun gegnir hlutverki lögbærs yfirvalds, sbr. 2. gr. reglugerðar nr. 544/2015 um plöntuverndarvörur og gefur út markaðsleyfi fyrir þeim. Samkvæmt eftirlitsáætlun stofnunarinnar er farið í eftirlit á hverju ári hjá þeim aðilum sem setja plöntuverndarvörur á markað og skoðað fyrir hverja vöru hvort leyfi sé fyrir hendi til að markaðssetja hana og hvort merkingar á henni uppfylli kröfu reglugerða. Heilbrigðisnefndir sveitarfélaga hafa eftirlit með meðferð og merkingum efna í starfsleyfisskyldri starfsemi sem heyrir undir þau starfsleyfi sem nefndirnar gefa út á grundvelli laga nr. 7/1998, um hollustuhætti og mengunarvarnir. Þá hefur Vinnueftirlit ríkisins eftirlit með að merkingar, notkun, geymsla og flutningur efnis og efnavöru á vinnustöðum fullnægi gildandi lögum, reglum og viðurkenndum stöðlum, sbr. lög nr. 46/1980, um aðbúnað, hollustuhætti og öryggi á vinnustöðum.
1     www.stjornarradid.is/media/umhverfisraduneyti-media/media/PDF_skrar/240816-Adgerdaaaetlun-um-notkun-varnarefna-2016.pdf
2     ust.is/library/Skrar/Atvinnulif/Efni/Plontuverndarvorur/Markaðssetning%20og%20notkun%20plöntuverndarvara%202009-20 16%20-%20Copy%20(1).pdf