Ferill 36. máls. Aðrar útgáfur af skjalinu: PDF - Word Perfect.


149. löggjafarþing 2018–2019.
Þingskjal 294  —  36. mál.




Svar


dómsmálaráðherra við fyrirspurn frá Helga Hrafni Gunnarssyni um breytingu á lagaákvæðum um skipta búsetu barna.


     1.      Er vinna hafin við breytingu á barnalögum og öðrum lögum er varða skipta búsetu barna, sbr. svar félags- og jafnréttismálaráðherra á 148. þingi (þskj. 299, 107. mál)?
    Vinna við breytingar á barnalögum er hafin í ráðuneytinu. Áform um lagasetningu voru birt í samráðsgátt stjórnarráðsins í mars sl. og gefinn kostur á að senda inn umsagnir sem hægt er að lesa í samráðsgáttinni. Mögulegar breytingar á ýmsum öðrum lögum eru til skoðunar í öðrum ráðuneytum en þar ber að nefna lög er heyra undir fjármála- og efnahagsráðuneytið, mennta- og menningarmálaráðuneytið, samgöngu- og sveitarstjórnarráðuneytið og velferðarráðuneytið.

     2.      Hvenær telur ráðherra líklegt að slíkt frumvarp verði tilbúið til framlagningar?
    Fyrirhugað er að ráðherra leggi fram frumvarp til breytinga á barnalögum næstkomandi vor. Varðandi breytingar á öðrum lögum sem heyra undir önnur ráðuneyti þá bindur ráðherra vonir við að hægt verði að leggja fram breytingar á öðrum lögum samhliða breytingum á barnalögum.

     3.      Hafa vaknað ný álitamál sem líkleg eru til að tefja gerð frumvarpsins og ef svo er, hver eru þau?
    Ýmis álitamál hafa vaknað í tengslum við gerð frumvarps til breytinga á barnalögum, sem eru þó á þessari stundu ekki talin líkleg til að tefja gerð frumvarpsins.