Ferill 130. máls. Aðrar útgáfur af skjalinu: PDF - Word Perfect.


149. löggjafarþing 2018–2019.
Þingskjal 302  —  130. mál.




Svar


dómsmálaráðherra við fyrirspurn frá Olgu Margréti Cilia um réttarstöðu þolenda í kynferðisbrotamálum.


    Fyrirspurnin hljóðar svo:
     Hefur ráðherra tekið til skoðunar eða frekari vinnslu tillögu í skýrslunni „Um meðferð kynferðisbrota innan réttarvörslukerfisins“ um aðgerðir til þess að styrkja réttarstöðu brotaþola? Hyggst ráðherra leggja fram lagafrumvarp til þess að bæta stöðu þolenda í kynferðisbrotamálum þannig að þeir geti orðið aðilar mála? Hver er afstaða ráðherra til tillögunnar?

    Ráðherra hefur þegar hafið framkvæmd aðgerðaáætlunar um meðferð kynferðisbrota í réttarvörslukerfinu en hún var tilkynnt fullfjármögnuð í febrúar á þessu ári. Þar er að finna fjölmargar aðgerðir sem snúa beinlínis að brotaþolum og styrkja stöðu þeirra, auka traust þeirra á réttarkerfinu og veita þeim hjálp og stuðning sem þeir þarfnast. Sérstaklega er tiltekið að styrkja þurfi réttarstöðu þeirra eins og tíðkast víða á Norðurlöndum, stytta málsmeðferðartíma, bæta aðgengi þeirra að upplýsingum og skerpa á hlutverki réttargæslumanna.
    Ráðherra hefur einnig stigið frekari skref til að styrkja stöðu brotaþola, t.d. með eflingu löggæslunnar í landinu hvað varðar rannsókn kynferðisbrota, en 15 stöðugildum var bætt við hjá lögregluembættunum í ár. Þannig ætti málsmeðferðartími rannsóknar þeirra brota að dragast saman á landsvísu. Þá réð ráðherra Svölu Ísfeld Ólafsdóttur, sem gegndi áður stöðu dósents við lagadeild Háskólans í Reykjavík, til starfa í ráðuneytið í þeim tilgangi m.a. að fylgja eftir samræmingu málsmeðferðar kynferðisbrota á landsvísu á grundvelli aðgerðaáætlunarinnar.
    Á næstu þremur árum verður styrkari stoðum einnig rennt undir skilvirkt og öruggt gagnaflæði milli lögreglu og ákæruvalds ásamt miðlun gagna milli ákæruvalds og dómstóla og milli lögmanna og réttargæslumanna sem koma að málum. Þegar er hafin könnun á því hvernig koma megi upp vefsvæði fyrir brotaþola, sakborninga og málsvara þeirra þar sem má fylgjast auðveldlega með gangi máls í kerfinu.
    Þá hafa þolendur getað leitað til Bjarkarhlíðar, þjónustumiðstöðvar fyrir fullorðna þolendur ofbeldis, frá 1. febrúar 2017 en miðstöðin er samstarfsverkefni dómsmálaráðuneytisins, velferðarráðuneytisins, Reykjavíkurborgar, lögreglunnar á höfuðborgarsvæðinu, Samtaka um kvennaathvarf, Stígamóta, Drekaslóðar, Mannréttindaskrifstofu Íslands og Kvennaráðgjafarinnar. Þar geta brotaþolar fengið þá aðstoð sem þeir þurfa á einum stað. Lögreglan á Akureyri hefur einnig stigið skref til að koma til móts við brotaþola í kynferðisbrotamálum með samstarfi við Sjúkrahúsið, heilsugæsluna og Háskólann á Akureyri. Þar eru sálfræðingar kallaðir á lögreglustöðina eftir skýrslutökur í alvarlegum kynferðisbrotamálum til að veita þolanda stuðning og leiðbeina honum um næstu skref, sér að kostnaðarlausu.
    Forsætisráðherra skipaði einnig stýrihóp um heildstæðar úrbætur að því er varðar kynferðisofbeldi. Eitt meginhlutverk hans er „að gera tillögur um lagabreytingar með það að markmiði að styrkja stöðu brotaþola um allt land og líta í því skyni til réttarstöðu brotaþola og hlutverks réttargæslumanna annars staðar á Norðurlöndum auk dómaframkvæmdar Mannréttindadómstóls Evrópu“. Varaformaður stýrihópsins er áðurnefnd Svala Ísfeld Ólafsdóttir, sérfræðingur hjá dómsmálaráðuneytinu.
    Sem stendur er unnið að því á vegum stýrihópsins að skoða sérstaklega réttarstöðu brotaþola á Norðurlöndunum og þróunina þar í þeim tilgangi að bera hana saman við réttarstöðu þessa hóps hérlendis. Markmiðið er að kanna leiðir til að mæta þörfum þeirra og styrkja stöðu þeirra við rannsókn og meðferð sakamála eins og kostur er. Í þeim tilgangi verður jafnframt leitað til lögmanna, sem hafa reynslu sem réttargæslumenn, til ráðgjafar og upplýsinga um það sem betur mætti fara og hvað vanti upp á til að þeir geti sinnt starfi sínu sem skyldi og að skjólstæðingar þeirra fái þá þjónustu og hafi þau réttindi sem nauðsynleg og eðlileg eru.
    Ráðherra tekur að lokinni þessari vinnu hópsins og frekari skoðun á vegum sérfræðinga ráðuneytisins afstöðu til þess hvort rétt þyki og nauðsynlegt að breyta lögum til að bæta stöðu þolenda í kynferðisbrotamálum, en það er skýr vilji ráðherra að mæta þörfum þeirra og aðstæðum eins og kostur er.