Ferill 314. máls. Aðrar útgáfur af skjalinu: PDF - Microsoft Word.


149. löggjafarþing 2018–2019.
Þingskjal 367  —  314. mál.
Stjórnarfrumvarp.



Frumvarp til laga


um aðgerðir gegn peningaþvætti og fjármögnun hryðjuverka.

Frá dómsmálaráðherra.



I. KAFLI

Almenn ákvæði.

1. gr.

Markmið.

    Tilgangur laga þessara er að koma í veg fyrir peningaþvætti og fjármögnun hryðjuverka með því að skylda aðila sem stunda starfsemi er kann að verða notuð til peningaþvættis eða fjármögnunar hryðjuverka til að þekkja deili á viðskiptamönnum sínum og starfsemi þeirra og tilkynna um það til lögbærra yfirvalda vakni grunur um eða verði þeir varir við slíka ólögmæta starfsemi.

2. gr.

Gildissvið.

    Undir lög þessi falla eftirtaldir aðilar:
     a.      Fjármálafyrirtæki samkvæmt skilgreiningu laga um fjármálafyrirtæki.
     b.      Líftryggingafélög samkvæmt lögum um vátryggingastarfsemi.
     c.      Vátryggingamiðlarar og vátryggingaumboðsmenn samkvæmt lögum um miðlun vátrygginga þegar þeir miðla líftryggingum eða öðrum áhættu- og söfnunartengdum líftryggingum.
     d.      Greiðslustofnanir samkvæmt lögum um greiðsluþjónustu.
     e.      Rafeyrisfyrirtæki samkvæmt lögum um útgáfu og meðferð rafeyris.
     f.      Útibú erlendra fyrirtækja sem staðsett eru á Íslandi og falla undir a–e-lið.
     g.      Umboðs- og dreifingaraðilar fyrirtækja og samsvarandi erlendra fyrirtækja með starfsemi hér á landi sem falla undir a–e-lið.
     h.      Lífeyrissjóðir samkvæmt skilgreiningu laga um skyldutryggingu lífeyrisréttinda og starfsemi lífeyrissjóða.
     i.      Gjaldeyrisskiptastöðvar að undanskildum þeim aðilum sem uppfylla öll eftirfarandi skilyrði:
                  1.      gjaldeyrisskipti eru hliðarstarfsemi sem tengist með beinum hætti meginstarfsemi aðilans og aðeins veitt viðskiptavinum aðilans,
                  2.      heildarvelta af gjaldeyrisskiptum nemur minna en 5 milljónum króna á ári, og
                  3.      gjaldeyrisskipti fyrir einstakan viðskiptavin fara ekki yfir 100.000 krónur, hvort sem viðskiptin fara fram í einni færslu eða fleiri færslum sem virðast tengjast hver annarri.
     j.      Þjónustuveitendur sem bjóða upp á viðskipti milli sýndarfjár, rafeyris og gjaldmiðla.
     k.      Þjónustuveitendur stafrænna veskja, sbr. skilgreiningu í 3. gr.
     l.      Endurskoðunarfyrirtæki, endurskoðendur, skattaráðgjafar og aðilar sem færa bókhald eða sinna bókhaldsþjónustu fyrir þriðja aðila gegn endurgjaldi.
     m.      Lögmannsstofur, lögmenn og aðrir sérfræðingar í eftirfarandi tilvikum:
                  1.      þegar þeir sjá um eða koma fram fyrir hönd umbjóðanda síns í hvers kyns fjármála- eða fasteignaviðskiptum,
                  2.      þegar þeir aðstoða við skipulagningu eða framkvæmd viðskipta fyrir umbjóðanda sinn hvað varðar kaup og sölu fasteigna eða fyrirtækja,
                  3.      þegar þeir sjá um umsýslu peninga, verðbréfa eða annarra eigna umbjóðanda síns,
                  4.      þegar þeir opna eða hafa umsjón með banka-, spari- eða verðbréfareikningum,
                  5.      þegar þeir koma að öflun, skipulagningu eða umsjón með framlögum til að stofna, reka eða stýra fyrirtækjum,
                  6.      þegar þeir aðstoða við stofnun, rekstur eða stjórnun fyrirtækja, fjárvörslusjóða eða annarra sambærilegra aðila.
     n.      Fasteignasölur og fasteigna-, fyrirtækja- og skipasalar.
     o.      Leigumiðlarar þegar mánaðarlegar leigugreiðslur nema 10.000 evrum eða meira miðað við opinbert viðmiðunargengi eins og það er skráð hverju sinni.
     p.      Listmunasalar eða -miðlarar, þar á meðal listmunagallerí og uppboðshús, þegar um er að ræða viðskipti í einni greiðslu eða fleiri sem virðast tengjast hver annarri, að fjárhæð 10.000 evrur eða meira miðað við opinbert viðmiðunargengi eins og það er skráð hverju sinni.
     q.      Aðilar á sviði fjárvörslu og fyrirtækjaþjónustu, sbr. skilgreiningu í 3. gr.
     r.      Einstaklingar og lögaðilar sem í atvinnuskyni eiga viðskipti sem greitt er fyrir með reiðufé, hvort sem viðskiptin fara fram í einni greiðslu eða fleiri sem virðast tengjast hver annarri, að fjárhæð 10.000 evrur eða meira miðað við opinbert viðmiðunargengi eins og það er skráð hverju sinni.
     s.      Einstaklingar eða lögaðilar sem hlotið hafa starfsleyfi á grundvelli laga um happdrætti, eða til reksturs fjársafnana og happdrætta á grundvelli sérlaga.
    Ákvæði laga þessara eru ófrávíkjanleg nema annað sé sérstaklega tekið fram.

3. gr.

Skilgreiningar.

    Í lögum þessum merkir:
     1.      Aðildarríki: Ríki sem er aðili að samningnum um Evrópska efnahagssvæðið, aðili að stofnsamningi Fríverslunarsamtaka Evrópu eða Færeyjar.
     2.      Aðili á sviði fjárvörslu og fyrirtækjaþjónustu: Einstaklingur eða lögaðili sem veitir eftirfarandi þjónustu gegn gjaldi:
                  a.      stofnun fyrirtækja eða annarra lögaðila,
                  b.      gegnir eða útvegar annan aðila til að gegna stöðu forstjóra eða framkvæmdastjóra fyrirtækis, stöðu meðeiganda í félagi eða sambærilegri stöðu hjá annarri tegund lögaðila,
                  c.      útvegar lögheimili eða annað skráð heimilisfang sem á svipaðan hátt er notað til að hafa samband við fyrirtækið, eða aðra tengda þjónustu,
                  d.      starfar sem eða útvegar annan einstakling til að starfa sem fjárvörsluaðili sjóðs eða annars sambærilegs aðila,
                  e.      starfar sem eða fær annan einstakling til að starfa sem tilnefndur hluthafi fyrir annan aðila en fyrirtæki sem skráð er á skipulegum markaði.
     3.      Ávinningur: Hvers kyns hagnaður og eignir, hverju nafni sem nefnast, þ.m.t. skjöl sem ætlað er að tryggja rétthafa aðgang að eignum eða öðrum réttindum sem meta má til fjár.
     4.      Efnahagslegur tilgangur: Ástæður að baki inn- og útgreiðslu, þ.e. hvaða vöru eða þjónustu er verið að greiða fyrir.
     5.      Eftirlitsaðilar: Fjármálaeftirlitið og ríkisskattstjóri.
     6.      Einstaklingur í áhættuhópi vegna stjórnmálalegra tengsla: Einstaklingar, innlendir og erlendir, sem eru eða hafa verið háttsettir í opinberri þjónustu, ásamt nánustu fjölskyldu þeirra og nánum samstarfsmönnum.
             Til háttsettra einstaklinga í opinberri þjónustu teljast:
                  a.      þjóðhöfðingjar, ráðherrar og staðgenglar ráðherra eða aðstoðarráðherrar,
                  b.      þingmenn,
                  c.      einstaklingar í framkvæmdastjórn stjórnmálaflokka,
                  d.      hæstaréttardómarar, dómarar við stjórnlagadómstóla eða aðrir háttsettir dómarar við dómstóla þaðan sem niðurstöðu er ekki hægt að áfrýja nema í undantekningartilvikum,
                  e.      dómarar við endurskoðunardómstóla og stjórnarmenn seðlabanka,
                  f.      sendiherrar, staðgenglar sendiherra og háttsettir yfirmenn herja,
                  g.      fulltrúar í stjórn, framkvæmdastjórn eða eftirlitsstjórn fyrirtækja í eigu ríkis,
                  h.      framkvæmdastjórar, aðstoðarframkvæmdastjórar og stjórnarmenn alþjóðasamtaka og -stofnana.
        Störf sem talin eru upp í a–h-liðum eiga ekki við um millistjórnendur.
             Til nánustu fjölskyldu teljast:
                  a.      maki,
                  b.      sambúðarmaki í skráðri sambúð,
                  c.      börn, stjúpbörn og makar þeirra eða sambúðarmakar í skráðri sambúð,
                  d.      foreldrar.
             Til náinna samstarfsmanna teljast:
                  a.      einstaklingar sem vitað er að hafi verið raunverulegir eigendur lögaðila með einstaklingi sem er eða hefur verið háttsettur og gegnt opinberri þjónustu eða aðrir þekktir samstarfsmenn,
                  b.      einstaklingar sem átt hafa náin viðskiptatengsl við einstakling sem er eða hefur verið háttsettur og gegnt opinberri þjónustu,
                  c.      einstaklingur sem er einn raunverulegur eigandi lögaðila sem vitað er að var stofnaður til hagsbóta fyrir einstakling sem er eða hefur verið háttsettur og gegnt opinberri þjónustu.
     7.      Fjármögnun hryðjuverka: Öflun fjár, hvort sem er með beinum eða óbeinum hætti, í þeim tilgangi eða með vitneskju um að nota eigi það í heild eða að hluta til að fremja brot sem er refsivert samkvæmt gr. 100 a–c almennra hegningarlaga.
     8.      Gjaldeyrisskiptastöð: Starfsemi þar sem í atvinnuskyni fer fram kaup og sala innlends og erlends gjaldeyris.
     9.      Gjaldmiðill: Seðlar, mynt og aðrir gjaldmiðlar sem seðlabankar eða aðrir til þess lögbærir opinberir aðilar gefa út og eru viðurkenndir lögmæltir gjaldmiðlar.
     10.      Millifærsla fjármuna: Hvers konar færsla fjármuna með rafrænum hætti í gegnum greiðslukerfi aðila skv. a- og d–g-lið 1. mgr. 2. gr., innan lands eða yfir landamæri, sem framkvæmd er af greiðanda sem getur verið einstaklingur eða lögaðili og ætlað er að veita viðtakanda aðgang að fjármunum. Viðtakandi getur verið sá sami og greiðandi.
     11.      Millibankaviðskipti fjármálafyrirtækja: Þegar fjármálafyrirtæki veitir öðru fjármálafyrirtæki fjármálaþjónustu m.a. í formi innstæðureikninga, alþjóðlegra millifærslna, greiðslujöfnunar, lausafjárstýringar, lánveitinga, verðbréfaviðskipta eða fjárfestinga.
     12.      Peningaþvætti: Þegar einstaklingur eða lögaðili tekur við ávinningi, nýtir ávinning eða aflar sér eða öðrum ávinnings af broti sem er refsivert samkvæmt almennum hegningarlögum eða öðrum lögum. Einnig þegar einstaklingur eða lögaðili umbreytir slíkum ávinningi, flytur hann, sendir, geymir, aðstoðar við afhendingu hans, leynir honum eða upplýsingum um uppruna hans, eðli, staðsetningu, ráðstöfun eða flutningi ávinnings eða stuðlar á annan sambærilegan hátt að því að tryggja öðrum ávinning af slíkum refsiverðum brotum.
     13.      Raunverulegur eigandi: Einstaklingur, einn eða fleiri, sem í raun á starfsemina eða stýrir þeim viðskiptamanni, lögaðila eða einstaklingi, í hvers nafni viðskipti eða starfsemi eru stunduð eða framkvæmd. Raunverulegur eigandi telst m.a. vera:
                  a.      Í tilviki lögaðila:
                 i.     Einstaklingur eða einstaklingar sem í raun eiga eða stjórna lögaðila í gegnum beina eða óbeina eignaraðild að meira en 25% hlut í lögaðilanum, ráða yfir meira en 25% atkvæðisréttar eða teljast á annan hátt hafa yfirráð yfir lögaðila. Ákvæðið á þó ekki við um lögaðila sem skráðir eru á skipulegum markaði samkvæmt skilgreiningu laga um kauphallir.
                   ii.     Ef ekki er mögulegt að finna raunverulegan eiganda skv. i-lið, t.d. vegna svo dreifðs eignarhalds að engir einstaklingar eiga eða stýra viðskiptamanni í skilningi laga þessara, eða ef vafi leikur á um eignarhaldið, skal sá einstaklingur, einn eða fleiri, sem stjórnar starfsemi lögaðilans teljast raunverulegur eigandi.
                  b.      Í tilviki fjárvörslusjóða og sambærilegra aðila, allir eftirtaldir aðilar:
                   i.     fjárvörsluaðili,
                   ii.     stofnaðili,
                   iii.     ábyrgðaraðili, ef við á,
                   iv.     rétthafi, einn eða fleiri. Ef rétthafi hefur ekki verið tilgreindur telst rétthafi vera hver sá einstaklingur eða hópur einstaklinga sem mun njóta ávinnings af stofnun fjárvörslusjóðs eða sambærilegs aðila,
                   v.     aðrir einstaklingar sem hafa yfirráð, með beinum eða óbeinum hætti, yfir fjárvörslusjóði eða sambærilegum aðila.
     14.      Refsiverð háttsemi: Háttsemi sem fellur undir ákvæði 100. gr. a–c eða 264. gr. almennra hegningarlaga, nr. 19/1940. Vísvitandi svik gagnvart fjárhagslegum hagsmunum Evrópusambandsins að fjárhæð 50.000 evrur eða meira með fölsuðum, röngum, villandi eða ófullnægjandi yfirlýsingum eða skjölum sem leiða til misnotkunar á fjármunum Evrópusambandsins eða notkun þeirra í öðrum en yfirlýstum tilgangi, telst jafnframt vera refsiverð háttsemi.
     15.      Skelbanki: Fjármálafyrirtæki eða sambærilegur aðili án raunverulegrar starfsemi, eða heimilisfesti í því landi sem því er veitt heimild til að starfa, og er ótengdur eftirlitsskyldri samstæðu sem lýtur skilvirku eftirliti hjá viðeigandi eftirlitsaðila.
     16.      Sýndarfé: Hvers konar stafrænt fé sem er hvorki rafeyrir í skilningi laga um útgáfu og meðferð rafeyris né gjaldmiðill.
     17.      Tilkynningarskyldir aðilar: Aðilar sem taldir eru upp í 1. mgr. 2. gr.
     18.      Viðurkennd persónuskilríki: Gild persónuskilríki sem gefin eru út af stjórnvöldum eða eru viðurkennd af stjórnvöldum. Til gildra persónuskilríkja skulu teljast vegabréf, ökuskírteini og nafnskírteini gefin út af Þjóðskrá Íslands eða samsvarandi erlendum stjórnvöldum og rafræn skilríki sem innihalda fullgild rafræn vottorð sem varðveitt eru á fullgildum undirskriftarbúnaði samkvæmt lögum um rafrænar undirskriftir.
     19.      Yfirstjórn: Aðili, með fullnægjandi þekkingu á áhættu tilkynningarskylds aðila vegna peningaþvættis og fjármögnunar hryðjuverka, sem er nægilega háttsettur til að taka ákvarðanir varðandi slíka áhættu. Viðkomandi þarf ekki í öllum tilvikum að vera stjórnarmaður hjá tilkynningarskyldum aðila.
     20.      Þjónustuveitandi stafrænna veskja: Einstaklingur eða lögaðili sem býður upp á vörsluþjónustu á auðkennum sýndarfjár, hvort sem er með hugbúnaði, kerfi eða annars konar miðli til að halda utan um, geyma og flytja sýndarfé.

II. KAFLI

Áhættumat og áhættusöm ríki.

4. gr.

Áhættumat.

    Ríkislögreglustjóri skal gera áhættumat sem inniheldur greiningu og mat á hættu á peningaþvætti og fjármögnun hryðjuverka og leiðir til að draga úr greindri áhættu. Skýrslan skal uppfærð á tveggja ára fresti eða oftar ef tilefni er til. Stjórnvöldum er skylt að veita Ríkislögreglustjóra upplýsingar sem nauðsynlegar eru við gerð áhættumats.
    Stýrihópur um aðgerðir gegn peningaþvætti og fjármögnun hryðjuverka skv. 39. gr. skal samræma aðgerðir til að draga úr greindri áhættu.
    Við gerð áhættumatsins skal tekið tillit til áhættumats sem framkvæmdastjórn Evrópusambandsins framkvæmir, afla víðtækra upplýsinga, bæði frá stjórnvöldum og öðrum sem kunna að búa yfir upplýsingum, og taka tillit til annarra viðeigandi þátta.
    Áhættumat skv. 1. mgr. skal:
     a.      notað til að gera úrbætur á vörnum gegn peningaþvætti og fjármögnun hryðjuverka, þar á meðal greina aðstæður þar sem beita skal aukinni áreiðanleikakönnun og tilgreina til hvaða aðgerða þurfi að grípa,
     b.      greina atvinnugreinar eða aðstæður sem fela í sér litla eða mikla hættu á peningaþvætti eða fjármögnun hryðjuverka,
     c.      notað til að greina hvar þörf er á úrbótum á regluverki,
     d.      fjalla um skipulag og umgjörð aðgerða gegn peningaþvætti og fjármögnun hryðjuverka,
     e.      notað til að úthluta og forgangsraða fjármunum, búnaði og mannauði,
     f.      vera eftirlitsaðilum skv. 38. gr. til leiðbeiningar við áhættumiðað eftirlit,
     g.      notað til að deila viðeigandi upplýsingum tímanlega með tilkynningarskyldum aðilum til notkunar við gerð eigin áhættumats skv. 5. gr.,
     h.      birt opinberlega, í heild eða að hluta.
    Afhenda skal þjóðaröryggisráði, lögbærum stjórnvöldum samkvæmt lögum þessum, evrópskum eftirlitsstofnunum, Eftirlitsstofnun EFTA og lögbærum stjórnvöldum annarra aðildarríkja afrit af áhættumatinu.

5. gr.

Áhættumat tilkynningarskyldra aðila.

    Tilkynningarskyldir aðilar skulu gera áhættumat á rekstri sínum og viðskiptum. Matið skal innihalda skriflega greiningu og mat á hættu á peningaþvætti og fjármögnun hryðjuverka og skal m.a. taka mið af áhættuþáttum sem tengjast viðskiptamönnum, viðskiptalöndum eða svæðum, vörum, þjónustu, viðskiptum, tækni og dreifileiðum. Við gerð áhættumats ber tilkynningarskyldum aðilum að hafa áhættumat skv. 4. gr. til hliðsjónar. Áhættumat skal taka mið af stærð, eðli og umfangi á starfsemi tilkynningarskyldra aðila og margbreytileika starfseminnar og vera notað við áhættumiðað eftirlit með samningssamböndum og viðskiptum.
    Áhættumat skv. 1. mgr. skal uppfært á tveggja ára fresti eða oftar ef tilefni er til. Ávallt skal framkvæma áhættumat áður en nýjar vörur eða þjónusta er sett á markað og þegar teknar eru í notkun nýjar dreifileiðir og ný tækni. Eftirlitsaðilum og öðrum viðeigandi stjórnvöldum samkvæmt lögum þessum skal afhent afrit af áhættumati ef þess er óskað.
    Eftirlitsaðilar geta veitt undanþágu frá skyldu til að framkvæma áhættumat sé sýnt fram á að tiltekin starfsemi eða viðskipti séu þess eðlis að áhættuþættir eru skýrir og þekktir og viðeigandi ráðstafanir til að draga úr þekktri áhættu eru til staðar.
    Tilkynningarskyldir aðilar skulu hafa skjalfesta stefnu, stýringar og verkferla til að draga úr og stýra áhættu sem stafar af hættu á peningaþvætti og fjármögnun hryðjuverka. Ráðstafanir tilkynningarskyldra aðila samkvæmt þessu ákvæði skulu vera í samræmi við stærð, eðli og umfang á starfsemi tilkynningarskylds aðila og margbreytileika starfseminnar.
    Stefna, stýringar og verkferlar skv. 4. mgr. skulu að lágmarki innihalda:
     a.      ákvæði um þróun og uppfærslu stefnu, stýringa og verkferla, þar með talið aðferðir við mildun áhættu, áreiðanleikakönnun, tilkynningar um grunsamleg viðskipti, innra eftirlit og tilnefningu ábyrgðarmanns, að teknu tilliti til stærðar og eðlis fyrirtækisins, og könnun á hæfi starfsmanna, og,
     b.      eftir því sem við á og að teknu tilliti til stærðar og eðlis starfseminnar, kröfu um sjálfstæða endurskoðunardeild eða sjálfstæða úttektaraðila til að framkvæma úttekt á og prófa innri stefnu, eftirlit og málsmeðferð sem um getur í a-lið.
    Stefna, stýringar og verkferlar skulu samþykkt af yfirstjórn sem skal hafa eftirlit með beitingu þeirra og gefa fyrirmæli um auknar ráðstafanir þar sem við á.

6. gr.

Áhættusöm og ósamvinnuþýð ríki.

    Eftirlitsaðilar samkvæmt lögum þessum skulu birta tilkynningar og leiðbeiningar ef þörf er á sérstakri varúð í viðskiptum við ríki eða ríkjasvæði sem ekki fylgja alþjóðlegum tilmælum og reglum um aðgerðir gegn peningaþvætti og fjármögnun hryðjuverka.

III. KAFLI

Áreiðanleikakönnun.

7. gr.

Nafnlaus viðskipti.

    Tilkynningarskyldum aðilum samkvæmt a–k-lið 1. mgr. 2. gr. er óheimilt að bjóða upp á nafnlaus viðskipti. Komi í ljós að viðskiptamaður sé þegar í nafnlausum viðskiptum skal þess krafist að hann sanni á sér deili og afla skal upplýsinga um raunverulegan eiganda, skv. 10. gr., eigi síðar en tólf mánuðum frá gildistöku þessara laga, liggi þær upplýsingar ekki þegar fyrir.
    Hafi ekki reynst mögulegt að afla upplýsinga um viðskiptamann eða raunverulegan eiganda skv. 1. mgr. skal eftir því sem við á fylgja 11. mgr. 10. gr.
    Tilkynningarskyldum aðilum samkvæmt a–k-lið og l–m-lið 1. mgr. 2. gr. er óheimilt að taka þátt í eða stuðla að viðskiptum sem ætlað er að dylja raunverulegt eignarhald.

8. gr.

Tilvik þar sem áreiðanleikakönnun skal framkvæmd.

    Tilkynningarskyldir aðilar samkvæmt lögum þessum skulu kanna áreiðanleika viðskiptamanna sinna í samræmi við ákvæði þessa kafla í eftirfarandi tilvikum:
     a.      Við upphaf viðvarandi samningssambands.
     b.      Vegna einstakra viðskipta að fjárhæð 15.000 evrur eða meira miðað við opinbert viðmiðunargengi eins og það er skráð hverju sinni, hvort sem viðskiptin fara fram í einni færslu eða fleiri sem virðast tengjast hver annarri.
     c.      Við millifærslu fjármuna, sbr. 10. tölul. 3. gr., þegar um einstök viðskipti er að ræða, hvort sem um er að ræða færslu fjármuna innan lands eða yfir landamæri, að fjárhæð 1.000 evrur eða meira miðað við opinbert viðmiðunargengi eins og það er skráð hverju sinni.
     d.      Við viðskipti með vöru eða þjónustu sem greitt er fyrir með reiðufé, hvort sem viðskiptin fara fram í einni greiðslu eða fleiri sem virðast tengjast hver annarri, að fjárhæð 10.000 evrur eða meira miðað við opinbert viðmiðunargengi eins og það er skráð hverju sinni.
     e.      Við útgreiðslu vinninga hjá tilkynningarskyldum aðilum skv. s-lið 1. mgr. 2. gr. að fjárhæð 2.000 evrur eða meira miðað við opinbert viðmiðunargengi eins og það er skráð hverju sinni, hvort sem greiðslurnar fara fram í einni færslu eða fleiri sem virðast tengjast hver annarri.
     f.      Þegar grunur leikur á um peningaþvætti eða fjármögnun hryðjuverka, án tillits til hvers konar undanþága eða takmarkana.
     g.      Þegar vafi leikur á því að fyrirliggjandi upplýsingar um viðskiptamann eða raunverulegan eiganda séu réttar eða nægilega áreiðanlegar.

9. gr.

Heimild til að víkja frá áreiðanleikakönnun á grundvelli áhættumats.

    Tilkynningarskyldum aðilum er heimilt að víkja frá einstökum þáttum áreiðanleikakönnunar, skv. a–d-liðum 1. mgr. 10. gr. og 11. gr., við útgáfu rafeyris í skilningi laga um útgáfu og meðferð rafeyris. Slíkt er þó eingöngu heimilt ef áhættumat skv. 4. og 5. gr., eftir því sem við á, sýnir fram á litla áhættu og þar sem öll eftirfarandi skilyrði eru uppfyllt:
     a.      um er að ræða rafeyri sem er geymdur á greiðslumiðli sem ekki er hægt að endurhlaða, eða mánaðarlegar færslur fara ekki yfir 250 evrur miðað við opinbert viðmiðunargengi eins og það er skráð hverju sinni og einungis er hægt að nota greiðslumiðilinn vegna greiðslna innan sama lands,
     b.      fjárhæð rafeyris sem á hverjum tíma er geymd á greiðslumiðli fer ekki yfir 250 evrur miðað við opinbert viðmiðunargengi eins og það er skráð hverju sinni,
     c.      greiðslumiðillinn er eingöngu notaður til að greiða fyrir vörur eða þjónustu,
     d.      útgefandi greiðslumiðilsins hefur fullnægjandi eftirlit með færslum og samningssamböndum sínum til að greina óvenjulegar eða grunsamlegar færslur,
     e.      innlausn eða úttekt í reiðufé er ekki umfram 100 evrur miðað við opinbert viðmiðunargengi eins og það er skráð hverju sinni.
    Fjárhæð sem geymd er á greiðslumiðli skv. b-lið má vera allt að 500 evrur ef eingöngu er hægt að nota greiðslumiðilinn á Íslandi.
    Tilkynningarskyldir aðilar sem hafa leyfi til færsluhirðingar skulu eingöngu samþykkja greiðslur sem gerðar eru með nafnlausum fyrirframgreiddum kortum útgefnum í löndum utan aðildarríkja ef kortin uppfylla kröfur um áreiðanleikakönnun sem samsvara þeim sem eru tilgreindar í a–d-liðum 1. mgr. 10. gr. og 11. gr. og kröfur sambærilegar þeim sem tilgreindar eru í a–b-liðum 1. mgr. þessarar greinar.

10. gr.

Könnun áreiðanleika upplýsinga um viðskiptamenn.

    Áður en samningssambandi er komið á eða áður en viðskipti eiga sér stað skal tilkynningarskyldur aðili gera kröfu um að:
     a.      einstaklingar sanni á sér deili með framvísun viðurkenndra persónuskilríkja,
     b.      lögaðilar, fjárvörslusjóðir eða sambærilegir aðilar sanni á sér deili með upplýsingum úr fyrirtækjaskrá ríkisskattstjóra eða sambærilegri opinberri skrá með heiti, heimilisfangi og kennitölu eða sambærilegum upplýsingum. Prókúruhafar og aðrir þeir sem hafa sérstaka heimild til að koma fram fyrir hönd viðskiptavinar gagnvart fjármálafyrirtæki, þar með taldir framkvæmdastjórar og stjórnarmenn, skulu sanna á sér deili skv. a-lið,
     c.      aðilar sem koma fram fyrir hönd fjárvörslusjóðs eða sambærilegs aðila, þ.e. fjárvörsluaðilar, veiti tilkynningarskyldum aðilum upplýsingar um raunverulega eigendur. Þeir skulu jafnframt að eigin frumkvæði upplýsa tilkynningarskylda aðila um stöðu sína sem fjárvörsluaðili,
     d.      þeir sem koma fram fyrir hönd þriðja aðila sýni fram á að þeir séu réttilega að prókúru eða sérstakri heimild komnir og sanni á sér deili skv. a-lið,
     e.      fyrir liggi fullnægjandi upplýsingar um raunverulegan eiganda og hann hafi sannað á sér deili í samræmi við a-lið.
    Tilkynningarskyldur aðili skal ávallt afla fullnægjandi upplýsinga um viðskiptamann og raunverulegan eiganda, sbr. 1. mgr., og grípa til réttmætra ráðstafana til að sannreyna upplýsingar skv. 1. mgr., t.d. með upplýsingum úr opinberri skrá. Tilkynningarskyldur aðili skal meta með sjálfstæðum hætti hvort upplýsingar um hinn raunverulega eiganda séu réttar og fullnægjandi og að hann skilji eignarhald, starfsemi og stjórnskipulag þeirra viðskiptavina sem eru lögaðilar, fjárvörslusjóðir eða aðrir sambærilegir aðilar. Í tilvikum þar sem ekki er ljóst af framlögðum gögnum hver endanlegur móttakandi fjár er, eða hver raunverulegur eigandi er, skal krefjast frekari upplýsinga. Ef ekki er mögulegt að finna raunverulegan eiganda, t.d. vegna svo dreifðs eignarhalds að engir einstaklingar eiga eða stýra viðskiptamanni í skilningi laga þessara, skal tilkynningarskyldur aðili grípa til réttmætra ráðstafana til að afla fullnægjandi upplýsinga um einstaklinga sem í raun stjórna starfsemi viðskiptamanns.
    Leggja skal mat á, eða ef við á afla viðeigandi upplýsinga um, tilgang og eðli fyrirhugaðra viðskipta hjá verðandi viðskiptamanni.
    Tilkynningarskyldir aðilar skulu:
     a.      hafa reglubundið eftirlit með samningssambandi við viðskiptamenn,
     b.      afla fullnægjandi upplýsinga um viðskipti sem fara fram á samningstímanum til að tryggja að viðskipti þeirra séu í samræmi við fyrirliggjandi upplýsingar og áhættumat skv. 5. gr.,
     c.      staðfesta eftir því sem við á uppruna þeirra fjármuna sem notaðir er í viðskiptum,
     d.      grípa til réttmætra ráðstafana til að staðreyna viðeigandi upplýsingar,
     e.      uppfæra upplýsingar um viðskiptamenn reglulega og afla frekari upplýsinga í samræmi við lög þessi eftir því sem þörf krefur.
    Tilkynningarskyldir aðilar skulu meta hvort viðskipti fari fram í þágu þriðja aðila og hafi þeir vitneskju um að svo sé, eða ástæðu til að ætla það, ber þeim að sannreyna hver sá þriðji aðili er, sbr. 1. og 2. mgr. þessarar greinar.
    Tilkynningarskyldir aðilar geta gert auknar kröfur um könnun á áreiðanleika upplýsinga á grundvelli skjalfests áhættumats skv. 5. gr. þótt ekki séu uppi aðstæður skv. 13. gr.
    Þegar um áhættu- og söfnunarlíftryggingar er að ræða skulu aðilar skv. b–c-lið 1. mgr. 2. gr., til viðbótar við áreiðanleikakönnun skv. 1.–3. mgr. þessarar greinar, framkvæma áreiðanleikakönnun á rétthafa um leið og hann er þekktur eða tilnefndur í samræmi við eftirfarandi:
     a.      afla upplýsinga um nafn rétthafa sé hann einstaklingur, fjárvörslusjóður eða sambærilegir aðilar,
     b.      ef rétthafi er tilnefndur eftir einkennum, flokki eða svipuðum sérkennum eða er óþekktur skal fullnægjandi upplýsinga aflað til þess að sanna deili á honum sbr. a-lið 1. mgr. 10. gr. eigi síðar en við útgreiðslu samningsins í heild eða að hluta.
    Þegar áhættu- og söfnunarlíftrygging er framseld, að hluta eða öllu leyti til þriðja aðila, skal tilkynningarskyldur aðili skv. b–c-lið 1. mgr. 2. gr., ef honum er kunnugt um framsalið, afla viðeigandi upplýsinga um þann aðila sem hlýtur ávinning af samningnum, sbr. 1. mgr. 10. gr. Ávallt skal staðfesta deili á rétthafa við útgreiðslu samningsins í heild eða að hluta.
    Ef rétthafi fjárvörslusjóða eða sambærilegs aðila er tilnefndur eftir einkennum, flokki eða svipuðum sérkennum skal fullnægjandi upplýsinga aflað til þess að sanna deili á rétthafa við útgreiðslu samningsins eða þegar hann nýtir sér réttindi samkvæmt samningnum með öðrum hætti.
    Ásamt því að framkvæma áreiðanleikakönnun á öllum nýjum viðskiptamönnum skulu tilkynningarskyldir aðilar kanna áreiðanleika upplýsinga um núverandi viðskiptamenn, m.a. þegar breytingar verða á samningssambandinu eða einstökum þáttum þess og ef tilkynningarskyldum aðila er skylt að endurskoða reglulega raunverulegt eignarhald samkvæmt lögum eða öðrum skuldbindingum. Áreiðanleikakönnun skal ávallt vera framkvæmd á grundvelli áhættumats skv. 5. gr. og styðjast skal við allar nauðsynlegar upplýsingar.
    Hafi ekki reynst mögulegt að framkvæma áreiðanleikakönnun í samræmi við þetta ákvæði, að teknu tilliti til áhættumats tilkynningarskylds aðila, og ekki eru uppi þær aðstæður sem heimila undanþágu frá því skv. 1. og 2. mgr. 11. gr., er óheimilt að framkvæma viðskipti eða stofna til samningssambands við viðkomandi. Hafi þegar verið stofnað til samningssambands skal binda enda á það án tafar. Skal jafnframt metið hvort ástæða sé til að senda skrifstofu fjármálagreininga lögreglu tilkynningu skv. 21. gr.
    Ef áframhaldandi áreiðanleikakönnun gæti hindrað rannsókn eða lögsókn vegna grunsamlegra viðskipta er tilkynningarskyldum aðila heimilt að láta hjá líða að framkvæma fullnægjandi áreiðanleikakönnun og eftir atvikum heimilt að stofna til samningssambands eða láta viðskipti ná fram að ganga. Tilkynna skal skrifstofu fjármálagreininga lögreglu án tafar um slíkar aðstæður.

11. gr.

Tímabundin frestun á framkvæmd áreiðanleikakönnunar.

    Þrátt fyrir 1. og 2. mgr. 10. gr. og til þess að trufla ekki eðlilegan framgang viðskipta má fresta því að sannreyna upplýsingar skv. 1. mgr. 10. gr. þar til samningssamband hefur stofnast í þeim tilvikum þar sem lítil hætta er talin á peningaþvætti eða fjármögnun hryðjuverka. Viðskiptamaður og raunverulegur eigandi skulu í slíkum tilvikum sanna á sér deili eins fljótt og því verður komið við.
    Tilkynningarskyldum aðilum er heimilt að stofna til samningssambands við viðskiptamann þrátt fyrir að skilyrðum 1. mgr. sé ekki fullnægt að því tilskildu að tryggt sé að viðskiptamaðurinn geti ekki framkvæmt viðskipti fyrr en áreiðanleikakönnun skv. 10. gr. hefur farið fram, að teknu tilliti til áhættumats tilkynningarskylds aðila og reglugerðar um áreiðanleikakönnun skv. 56. gr.
    Ákvæði 2. mgr. gildir ekki um störf tilkynningarskyldra aðila skv. l–m-lið 1. mgr. 2. gr. við athugun þeirra á lagalegri stöðu umbjóðenda sinna eða þegar þeir koma fram fyrir hönd þeirra í dómsmáli eða í tengslum við dómsmál, þ.m.t. þegar þeir veita ráðgjöf um hvort höfða eigi dómsmál eða komast hjá dómsmáli.

12. gr.

Einfölduð áreiðanleikakönnun.

    Hafi áhættumat skv. 4. eða 5. gr. sýnt fram á litla hættu á peningaþvætti og fjármögnun hryðjuverka er tilkynningarskyldum aðilum heimilt að framkvæma einfaldaða áreiðanleikakönnun í samræmi við áhættumatið og reglugerð um áreiðanleikakönnun skv. a-lið 56. gr.
    Tilkynningarskyldir aðilar skulu hafa fullnægjandi eftirlit með færslum viðskiptamanna og samningssamböndum sínum til að greina óvenjulegar eða grunsamlegar færslur, þrátt fyrir að framkvæmd hafi verið einfölduð áreiðanleikakönnun á viðskiptamanni skv. 1. mgr.

13. gr.

Aukin áreiðanleikakönnun.

    Tilkynningarskyldir aðilar skulu beita aukinni áreiðanleikakönnun þegar um er að ræða:
     a.      viðskipti við einstaklinga, lögaðila, fjárvörslusjóði eða sambærilega aðila þegar viðkomandi er staðsettur í áhættusömu eða ósamvinnuþýðu ríki,
     b.      tilvik skv. 14.–17. gr., eða
     c.      önnur tilvik en skv. a- eða b-lið þegar áhættumat skv. 4. eða 5. gr. gefur til kynna mikla áhættu.
    Ekki er skylt að beita aukinni áreiðanleikakönnun þótt um sé að ræða aðila skv. a-lið 1. mgr. 13. gr., þegar um er að ræða viðskipti við útibú eða dótturfélög tilkynningarskyldra aðila með staðfestu í aðildarríki, að því tilskildu að viðkomandi útibú og dótturfélög fari að öllu leyti eftir stefnu og aðferðum samstæðunnar skv. 32. gr. Slík útibú og dótturfélög skulu meðhöndluð samkvæmt áhættumati tilkynningarskylds aðila.
    Tilkynningarskyldir aðilar skulu rannsaka, eins og unnt er, bakgrunn og tilgang allra færslna sem uppfylla að minnsta kosti eitt af eftirtöldum skilyrðum:
     a.      um er að ræða flóknar færslur,
     b.      um er að ræða óvenjulega háar færslur,
     c.      um er að ræða óvenjulegt viðskiptamynstur eða
     d.      um er að ræða færslur sem virðast hvorki hafa efnahagslegan né löglegan tilgang.
    Allar slíkar færslur og samningssambönd sem þeim tengjast skulu sæta auknu eftirliti í þeim tilgangi að greina hvort um grunsamleg viðskipti er að ræða.

14. gr.

Aukin áreiðanleikakönnun viðskiptamanna í áhættusömum ríkjum.

    Þegar um er að ræða viðskipti eða samningssamband við einstakling, lögaðila, fjárvörslusjóði eða aðra sambærilega aðila sem eru búsettir eða með staðfestu í áhættusömu eða ósamvinnuþýðu ríki skv. 6. gr. eða reglugerð um áhættusöm ríki, sbr. 56. gr., skulu tilkynningarskyldir aðilar framkvæma aukna áreiðanleikakönnun sem að lágmarki felur í sér að:
     a.      afla aukinna upplýsinga um viðskiptamann og raunverulegan eiganda,
     b.      afla aukinna upplýsinga um fyrirhugað eðli samningssambandsins,
     c.      afla upplýsinga um uppruna fjármuna og uppruna auðs viðskiptamanns og raunverulegs eiganda,
     d.      afla upplýsinga um tilgang fyrirhugaðra viðskipta eða þegar framkvæmdra viðskipta,
     e.      afla samþykkis frá yfirstjórn áður en stofnað er til viðskipta eða til áframhaldandi viðskipta, ef til þeirra hefur verið stofnað nú þegar,
     f.      hafa aukið reglubundið eftirlit með samningssambandinu með því að fjölga úttektum og þeim aðferðum sem er beitt við eftirlit og skoða sérstaklega óvenjuleg viðskiptamynstur,
     g.      fara fram á að fyrsta greiðsla sé innt af hendi í nafni viðskiptamanns og af reikningi sem hann hefur sjálfur stofnað til í starfandi fjármálafyrirtæki sem sætir sambærilegum kröfum um áreiðanleikakönnun og kveðið er á um í lögum þessum.
    Til viðbótar við ráðstafanir skv. 1. mgr. skulu tilkynningarskyldir aðilar, þegar við á og til þess að draga úr áhættu, beita einum eða fleiri eftirfarandi þáttum:
     a.      viðbótarþáttum vegna aukinnar áreiðanleikakönnunar, sem tilkynningarskyldur aðili hefur sjálfur ákvarðað hverjir skuli vera, á grundvelli áhættumats,
     b.      hafa aukið eða kerfisbundið eftirlit með framkvæmd viðskipta,
     c.      draga úr eða takmarka samningssamband eða viðskipti við einstaklinga, lögaðila eða aðra sambærilega aðila frá áhættusömum ríkjum.
    Til viðbótar við ráðstafanir skv. 1. mgr. geta eftirlitsaðilar, eftir því sem við á:
     a.      neitað tilkynningarskyldum aðila frá áhættusömum ríkjum, eða ríkjum sem ekki hafa sambærilegar varnir gegn peningaþvætti og fjármögnun hryðjuverka og lög þessi kveða á um, að stofna hér dótturfélag eða starfrækja hér útibú eða umboðsskrifstofu,
     b.      bannað tilkynningarskyldum aðila að stofna útibú eða umboðsskrifstofu í áhættusömum ríkjum eða ríkjum sem ekki hafa sambærilegar varnir gegn peningaþvætti og fjármögnun hryðjuverka og kveðið er á um í lögum þessum,
     c.      skyldað lána- og fjármálastofnanir til að yfirfara og aðlaga eða, ef nauðsyn krefur, binda enda á millibankaviðskipti við mótaðila í áhættusömum ríkjum,
     d.      krafist aukins eftirlits eða ytri endurskoðunar fyrir útibú og dótturfélög tilkynningarskyldra aðila sem staðsett eru í áhættusömum ríkjum,
     e.      krafist aukins eftirlits ytri endurskoðenda með samstæðu vegna útibúa og dótturfélaga sem staðsett eru í áhættusömum ríkjum.

15. gr.

Millibankaviðskipti fjármálafyrirtækja.

    Í millibankaviðskiptum yfir landamæri, við aðila frá löndum utan aðildarríkja, skulu tilkynningarskyldir aðilar skv. a–k-lið 1. mgr. 2. gr., til viðbótar við áreiðanleikakönnun skv. 10. gr., uppfylla öll eftirtalin skilyrði þegar stofnað er til samningssambands:
     a.      afla fullnægjandi upplýsinga um starfsemi mótaðilans til að skilja rekstur og starfsemi viðkomandi, meta út frá opinberum gögnum orðspor viðkomandi og staðreyna gæði eftirlitsstofnana sem hafa eftirlit með honum,
     b.      fullvissa sig um gæði verkferla, stýringar og varnir gagnaðila til að koma í veg fyrir peningaþvætti og fjármögnun hryðjuverka,
     c.      afla samþykkis frá yfirstjórn áður en millibankaviðskiptum er komið á,
     d.      skrásetja skyldur hvors aðila fyrir sig samkvæmt lögum þessum og
     e.      fá staðfest, þegar um greiðslustreymisreikninga er að ræða, að gagnaðili hafi framkvæmt viðeigandi áreiðanleikakönnun og meti reglulega upplýsingar um viðskiptamenn sem hafa beinan aðgang að reikningum hjá viðkomandi tilkynningarskyldum aðila skv. a–lið 1. mgr. 2. gr. laganna og geti veitt viðeigandi upplýsingar um viðskiptamann sé þess óskað.

16. gr.

Millibankaviðskipti við skelbanka.

    Tilkynningarskyldum aðilum skv. a–k-lið 1. mgr. 2. gr. er óheimilt að stofna til eða halda áfram millibankaviðskiptum við skelbanka. Þeim er jafnframt óheimilt að eiga í millibankaviðskiptum við mótaðila sem heimilar skelbanka að nota reikninga sína. Hafi þegar verið stofnað til samningssambands við slíka aðila skal binda enda á það án tafar.

17. gr.

Einstaklingar í áhættuhópi vegna stjórnmálalegra tengsla.

    Tilkynningarskyldir aðilar skulu hafa viðeigandi kerfi, ferla og aðferðir til að meta hvort innlendur eða erlendur viðskiptamaður eða raunverulegur eigandi sé í áhættuhópi vegna stjórnmálalegra tengsla. Til þess hóps teljast þeir sem eru eða hafa verið háttsettir í opinberri þjónustu, nánasta fjölskylda þeirra og einstaklingar sem vitað er að eru nánir samstarfsmenn þeirra.
    Sé viðskiptamaður eða raunverulegur eigandi í áhættuhópi vegna stjórnmálalegra tengsla skulu tilkynningarskyldir aðilar, til viðbótar við áreiðanleikakönnun samkvæmt þessum kafla:
     a.      fá samþykki yfirstjórnar áður en stofnað er til samningssambands eða viðskipta eða þeim er haldið áfram,
     b.      grípa til viðeigandi ráðstafana til að kanna uppruna auðs viðkomandi og uppruna þeirra fjármuna sem notaðir eru í samningssambandinu eða viðskiptunum,
     c.      hafa aukið reglubundið eftirlit með samningssambandinu.
    Tilkynningarskyldir aðilar skulu með sama hætti og í 1. mgr. meta hvort vátryggður eða rétthafi áhættu- og söfnunarlíftrygginga sé í áhættuhópi vegna stjórnmálalegra tengsla. Athugunin skal fara fram eigi síðar en við tilnefningu rétthafa eða útgreiðslu vátryggingarinnar í heild eða að hluta.
    Sé vátryggður eða rétthafi í áhættuhópi vegna stjórnmálalegra tengsla skulu tilkynningarskyldir aðilar til viðbótar við áreiðanleikakönnun samkvæmt þessum kafla:
     a.      upplýsa yfirstjórn áður en úthlutun eða útgreiðsla í heild eða hluta fer fram,
     b.      hafa aukið reglubundið eftirlit með samningssambandinu.
    Breytist staða viðskiptamanns eftir að samningssambandi hefur verið komið á þannig að hann teljist einstaklingur í áhættuhópi vegna stjórnmálalegra tengsla sinna eiga 1. og 2. mgr. jafnframt við. Skal þá þegar afla samþykkis frá yfirstjórn, sbr. a-lið 2. mgr., áður en samningssambandi er haldið áfram.
    Breytist staða viðskiptamanns eftir að samningssambandi hefur verið komið á þannig að hann teljist ekki lengur einstaklingur í áhættuhópi vegna stjórnmálalegra tengsla sinna skulu tilkynningarskyldir aðilar þrátt fyrir það láta viðkomandi sæta auknu eftirliti í samræmi við þetta ákvæði. Eftirlitið skal að lágmarki standa næstu 12 mánuði og þar til áhætta sem stafar frá fyrri störfum telst ekki lengur til staðar.

IV. KAFLI

Upplýsingar frá þriðja aðila.

18. gr.

Áreiðanleikakönnun þriðja aðila.

    Tilkynningarskyldur aðili þarf ekki áður en viðskipti hefjast að kanna áreiðanleika upplýsinga um viðskiptamann skv. a–e-lið 1. mgr. 10. gr. ef samsvarandi upplýsingar um áreiðanleika hans koma fram fyrir tilstilli annars tilkynningarskylds aðila. Endanleg ábyrgð á könnun á áreiðanleika viðskiptamanns skv. III. kafla hvílir á þeim tilkynningarskylda aðila sem móttekur upplýsingar.
    Heimild tilkynningarskylds aðila skv. 1. mgr. er háð því skilyrði að sá sem veitir upplýsingarnar:
     a.      framkvæmi áreiðanleikakönnun og varðveiti gögn í samræmi við kröfur þessara laga og
     b.      lúti sambærilegu eftirliti og lög þessi kveða á um.
Tilkynningarskyldur aðili skal staðreyna að þriðji aðili uppfylli kröfur þessarar málsgreinar.
    Tilkynningarskyldur aðili, sem byggir á áreiðanleikakönnun þriðja aðila, skal hafa hliðsjón af hættu á peningaþvætti og fjármögnun hryðjuverka í því ríki þar sem viðkomandi aðili er staðsettur. Þrátt fyrir 1. mgr. er tilkynningarskyldum aðilum óheimilt að byggja á upplýsingum frá fyrirtækjum með staðfestu í áhættusömum og ósamvinnuþýðum ríkjum skv. 6. gr. og reglugerð um áhættusöm ríki, sbr. 56. gr.
    Tilkynningarskyldur aðili, sem byggir á áreiðanleikakönnun þriðja aðila, skal tryggja að hann fái án tafar afhentar þær upplýsingar sem kveðið er á um í a–e-lið 1. mgr. 10. gr.
    Tilkynningarskyldur aðili sem tekur við upplýsingum skv. 1. mgr. skal gera skriflegan samning við þann aðila sem veitir upplýsingarnar þar sem staðfestir eru þættir skv. 2. mgr. og að veitandi upplýsinga muni án tafar, sé þess óskað, afhenda afrit af viðurkenndum persónuskilríkjum og eftir atvikum öðrum gögnum sem sanna hver viðskiptamaður og raunverulegur eigandi er.
    Skyldur samkvæmt ákvæði þessu gilda ekki um útvistunaraðila eða umboðsmenn sem teljast vera hluti af tilkynningarskyldum aðila.

19. gr.

Upplýsingar innan samstæðu.

    Fjármálaeftirlitið, sem eftirlitsaðili á samstæðugrunni, getur með samkomulagi við lögbær stjórnvöld innan aðildarríkja, þar sem útibú og dótturfélög samstæðunnar eru staðsett, heimilað tilkynningarskyldum aðila skv. a–e-lið 1. mgr. 2. gr. að reiða sig á upplýsingar innan samstæðunnar, að uppfylltum öllum eftirfarandi skilyrðum:
     a.      tilkynningarskyldur aðili reiði sig á upplýsingar frá öðrum tilkynningarskyldum aðila innan sömu samstæðu,
     b.      öll félög innan samstæðunnar framkvæmi áreiðanleikakönnun, varðveiti gögn og hafi stefnur, ferla og aðferðir til að verjast peningaþvætti og fjármögnun hryðjuverkastarfsemi í samræmi við kröfur þessara laga eða sambærilegar reglur,
     c.      eftirlit með innleiðingu þátta skv. b-lið fari fram á samstæðugrunni og sé annað hvort í höndum Fjármálaeftirlitsins eða lögbærs stjórnvalds annars ríkis.

V. KAFLI

Móttaka tilkynninga og tilkynningarskylda.

20. gr.

Skrifstofa fjármálagreininga lögreglu.

    Skrifstofa fjármálagreininga lögreglu tekur á móti tilkynningum um viðskipti þar sem grunur leikur á peningaþvætti eða fjármögnun hryðjuverka. Skrifstofa fjármálagreininga lögreglu sér um greiningu á mótteknum tilkynningunum, aflar nauðsynlegra viðbótarupplýsinga og miðlar greiningunni til lögbærra stjórnvalda. Greiningar sem skrifstofa fjármálagreininga lögreglu framkvæmir eru:
     a.      aðgerðagreining, sem beinist að einstökum málum eða tilteknum viðfangsefnum eða viðeigandi völdum upplýsingum, allt eftir tegund og umfangi fyrirliggjandi upplýsinga og notkun þeirra að greiningu lokinni, og
     b.      stefnumiðuð greining, sem ætlað er að greina þróun og mynstur við peningaþvætti og fjármögnun hryðjuverka.
    Í tengslum við greiningu og athuganir mála samkvæmt lögum þessum og reglugerðum og reglum sem settar eru á grundvelli þeirra er einstaklingum, lögaðilum, opinberum aðilum, fjárvörslusjóðum og sambærilegum aðilum, skylt að láta skrifstofu fjármálagreininga lögreglu í té án tafar allar upplýsingar og gögn sem hún telur nauðsynleg. Skiptir ekki máli í því sambandi hvort upplýsingarnar varða þann aðila sem beiðninni er beint til eða annan aðila sem hann getur veitt upplýsingar um og varða greiningu eða athugun mála hjá skrifstofu fjármálagreininga lögreglu. Lagaákvæði um þagnarskyldu takmarka ekki skyldu til þess að veita upplýsingar og aðgang að gögnum. Þetta gildir þó ekki um upplýsingar sem lögmaður öðlast við athugun á lagalegri stöðu skjólstæðings í tengslum við dómsmál, þ.m.t. þegar hann veitir ráðgjöf um hvort höfða eigi mál eða komast hjá máli, eða upplýsingar sem hann öðlast fyrir, á meðan eða eftir lok dómsmáls, ef upplýsingarnar hafa bein tengsl við málið.
    Einstaklingum og lögaðilum sem beiðni skv. 2. mgr. er beint að er óheimilt að veita þriðja aðila upplýsingar um beiðnina.
    Skrifstofa fjármálagreininga lögreglu getur gefið tilkynningarskyldum aðilum fyrirmæli um að framkvæma ekki eða stöðva viðskipti þar sem grunur leikur á peningaþvætti eða fjármögnun hryðjuverka á meðan greining fer fram og upplýsingum komið á framfæri við viðeigandi stjórnvöld skv. 41. gr.
    Skrifstofa fjármálagreininga lögreglu getur gefið fyrirmæli skv. 4. mgr. í þeim tilgangi að aðstoða systurstofnanir sínar í aðildarríkjum og systurstofnanir utan aðildarríkja sem gerður hefur samstarfssamningur við skv. 9. mgr. 42. gr.

21. gr.

Tilkynningar tilkynningarskyldra aðila.

    Tilkynningarskyldir aðilar, starfsmenn þeirra og stjórnendur skulu tímanlega:
     a.      tilkynna skrifstofu fjármálagreininga lögreglu, með þeim hætti sem hún ákveður, um grunsamleg viðskipti og fjármuni sem grunur leikur á að rekja megi til refsiverðrar háttsemi,
     b.      bregðast við fyrirspurnum skrifstofu fjármálagreininga lögreglu um viðbótarupplýsingar sem tengjast tilkynningum og
     c.      veita skrifstofu fjármálagreininga lögreglu allar nauðsynlegar upplýsingar sem hún óskar eftir í tengslum við tilkynningar.
    Tilkynningarskyldum aðilum er skylt að gera skriflegar skýrslur um öll grunsamleg og óvenjuleg viðskipti sem eiga sér stað í starfsemi þeirra. Um varðveislu slíkra gagna fer skv. 28. gr.
    Ábyrgðarmaður sem tilnefndur er í samræmi við 34. gr. skal tryggja að tilkynningar skv. 1. mgr. séu sendar á skrifstofu fjármálagreininga lögreglu þess ríkis þar sem tilkynningarskyldur aðili er með staðfestu.

22. gr.

Skylda til að forðast viðskipti.

    Forðast skal viðskipti, þegar fyrir hendi er vitneskja eða grunur um að þau megi rekja til refsiverðrar háttsemi, þar til tilkynning hefur verið send skrifstofu fjármálagreininga lögreglu í samræmi við a-lið 1. mgr. 21. gr., leiðbeiningar hafa borist frá skrifstofunni og þeim hefur verið fylgt.
    Í tilkynningu skal, ef við á, koma fram innan hvaða frests tilkynningarskyldum aðilum er skylt að framkvæma viðskiptin. Ef ekki er unnt að koma í veg fyrir viðskiptin eða stöðvun þeirra gæti hindrað rannsókn á hendur þeim sem hafa hagsmuni af viðskiptunum skal skrifstofu fjármálagreininga lögreglu tilkynnt um viðskiptin um leið og þau hafa farið fram.

23. gr.

Tilkynningarskylda eftirlitsaðila og annarra aðila.

    Þrátt fyrir lögbundna þagnarskyldu skulu Fjármálaeftirlitið og aðrir aðilar sem hafa eftirlit með tilkynningarskyldum aðilum tilkynna án tafar til skrifstofu fjármálagreininga lögreglu verði þeir við framkvæmd starfa sinna varir við viðskipti sem tengjast peningaþvætti eða fjármögnun hryðjuverka eða upplýsingar um viðskipti sem grunur leikur á að tengist peningaþvætti eða fjármögnun hryðjuverka. Sömu skyldur hvíla á öllum opinberum aðilum.
    Skyldur skv. 1. mgr. hvíla einnig á kauphöllum samkvæmt lögum um kauphallir.
    Öllum öðrum aðilum er heimilt að tilkynna skrifstofu fjármálagreininga lögreglu um grun um peningaþvætti og fjármögnun hryðjuverka.

24. gr.

Miðlun upplýsinga í góðri trú.

    Þegar tilkynningarskyldur aðili, starfsmaður hans eða stjórnandi veitir skrifstofu fjármálagreininga lögreglu upplýsingar í góðri trú samkvæmt lögum þessum telst það ekki brot á þagnarskyldu sem hann er bundinn lögum samkvæmt eða með öðrum hætti. Slík upplýsingagjöf leggur hvorki refsi- né skaðabótaábyrgð á herðar hlutaðeigandi einstaklingum, lögaðilum eða starfsmönnum þeirra.

25. gr.

Aðferðir og kerfi til að halda utan um tilkynningar.

    Eftirlitsaðilar skulu hafa ferla til þess að taka við og fylgja eftir tilkynningum um brot, möguleg brot og tilraunir til brota á lögum þessum, og reglugerðum og reglum sem settar eru með stoð í þeim, og tilkynningum um grun um peningaþvætti og fjármögnun hryðjuverka. Ferlar samkvæmt þessu ákvæði skulu:
     a.      vera aðskildir frá öðrum óskyldum ferlum hjá eftirlitsaðilanum,
     b.      tryggja að heimilt sé að senda nafnlausar tilkynningar,
     c.      tryggja að tilkynningar séu skráðar og ef upplýsingar sem fram koma í tilkynningu má rekja beint eða óbeint til þess sem tilkynnti skulu þær fara leynt, nema skylt sé að veita slíkar upplýsingar lögum samkvæmt til lögreglu eða á grundvelli dómsúrskurðar,
     d.      fjalla um vernd þeirra sem tilkynna um brot og réttindi þeirra sem sakaðir eru um brot,
     e.      tryggja að vinnsla og meðhöndlun persónuupplýsinga sé í samræmi við lög um persónuvernd og meðferð persónuupplýsinga.
    Tilkynningarskyldir aðilar skulu hafa skjalfesta ferla, sbr. 1. mgr., til að stuðla að því að starfsmenn þess eða aðilar í sambærilegri stöðu tilkynni um brot á lögum þessum, reglugerðum og reglum sem settar eru á grundvelli þeirra. Einstaklingur sem tekur við tilkynningum samkvæmt þessari grein og sér um vinnslu þeirra skal búa við sjálfstæði í störfum og tryggt skal að hann hafi nægilegt vald, fjárveitingar og heimildir til að afla gagna og upplýsinga sem honum eru nauðsynlegar til að hann geti sinnt skyldum sínum.

26. gr.

Vernd einstaklinga sem tilkynna um grun um peningaþvætti eða fjármögnun hryðjuverka.

    Einstaklingur skal njóta verndar tilkynni hann í góðri trú um grunsemdir um peningaþvætti eða fjármögnun hryðjuverka hvort sem er til skrifstofu fjármálagreininga lögreglu, eftirlitsaðila eða innan þess tilkynningarskylda aðila sem hann starfar. Sama á við um tilkynningar um brot á lögum þessum.
    Undir 1. mgr. fellur meðal annars að viðkomandi njóti nafnleyndar auk þess sem vinnuveitanda er óheimilt að rýra réttindi hans, segja upp starfssamningi, slíta honum eða láta einstakling gjalda þess á annan hátt að hann hafi tilkynnt um grun um peningaþvætti eða fjármögnun hryðjuverka.
    Komi upp sú staða sem nefnd er í 2. mgr., eftir að einstaklingur tilkynnir grun skv. 1. mgr., skal vinnuveitandi sýna fram á að ákvörðun sé reist á öðrum forsendum en þeim að viðkomandi hafi tilkynnt um grun um peningaþvætti eða fjármögnun hryðjuverka.

VI. KAFLI

Bann við upplýsingagjöf.

27. gr.

Bann við upplýsingagjöf.

    Tilkynningarskyldum aðilum, stjórnendum, starfsmönnum og öðrum sem vinna í þágu þeirra er skylt að sjá til þess að viðskiptamaður eða þriðji aðili fái ekki vitneskju um að skrifstofu fjármálagreininga lögreglu muni verða eða hafi verið send tilkynning skv. 21. gr. eða að greining á grundvelli slíkra tilkynninga sé hafin eða kunni að verða hrundið af stað.
    Ákvæði 1. mgr. kemur ekki í veg fyrir miðlun upplýsinga á grundvelli tilkynningar til aðila sem hafa eftirlit með lögum þessum og í þágu lögregluaðgerða.
    Þrátt fyrir ákvæði 1. mgr. er miðlun heimil:
     a.      milli aðila sem nefndir eru í a–i-lið 1. mgr. 2. gr. og eru hluti af samstæðu eins og hún er skilgreind í lögum um ársreikninga,
     b.      milli aðila sem nefndir eru í a–i-lið 1. mgr. 2. gr. og útibúa þeirra og dótturfélaga utan Evrópska efnahagssvæðisins, að því tilskildu að útibúin og dótturfélögin uppfylli að fullu stefnu og ferla samstæðunnar í samræmi við 32. gr. laga þessara og að stefnur og ferlar samstæðunnar uppfylli kröfur laga þessara.
     c.      milli aðila sem nefndir eru í l- og m-lið 1. mgr. 2. gr. og sinna starfi sínu hjá sama lögaðila eða sama neti fyrirtækja,
     d.      milli aðila sem nefndir eru í a–k-lið 1. mgr. 2. gr. að því tilskildu að öllum eftirtöldum skilyrðum sé fullnægt:
                  1.      að báðir aðilar tilheyri sömu starfsgrein,
                  2.      að málið varði einstakling eða lögaðila sem er viðskiptavinur hjá báðum aðilum,
                  3.      að upplýsingarnar varði viðskipti sem snerta báða aðila,
                  4.      að báðir aðilar hafi sambærilegar skyldur hvað varðar aðgerðir gegn peningaþvætti og fjármögnun hryðjuverka, þagnarskyldu og vernd persónuupplýsinga og
                  5.      að upplýsingarnar séu eingöngu notaðar í þeim tilgangi að hindra peningaþvætti og fjármögnun hryðjuverka.
    Aðilar nefndir í l- og m-lið 1. mgr. 2. gr. sem ráða viðskiptavinum sínum frá því að taka þátt í ólöglegu athæfi teljast ekki hafa brotið 1. mgr. um bann við upplýsingagjöf.

VII. KAFLI

Persónuvernd, varðveisla gagna og tölfræði.

28. gr.

Varðveisla gagna.

    Tilkynningarskyldir aðilar skulu varðveita eftirfarandi gögn og upplýsingar, þar á meðal upplýsingar sem aflað hefur verið með rafrænum hætti, að lágmarki í fimm ár frá því að samningssambandi lýkur eða einstök viðskipti hafa átt sér stað:
     a.      afrit af gögnum og upplýsingum vegna áreiðanleikakönnunar í samræmi við III. kafla,
     b.      aðferðir við áreiðanleikakönnun,
     c.      nauðsynleg fylgiskjöl og viðskiptayfirlit, hvort sem er frumrit eða afrit sem eru nauðsynleg til að sýna fram á færslur viðskiptamanna og hægt væri að nota við meðferð máls fyrir dómi.
    Gögnum sem varðveitt eru í samræmi við 1. mgr. skal eytt þegar ekki er lengur málefnaleg ástæða til varðveislu þeirra í samræmi við ákvæði laga um persónuvernd. Eftirlitsaðilar samkvæmt lögum þessum og skrifstofa fjármálagreininga lögreglu geta kveðið á um að gögn séu varðveitt umfram tímamörk 1. mgr. ef tilefni er til, þó ekki lengur en í fimm ár til viðbótar.
    Tilkynningarskyldir aðilar skulu setja sér verklagsreglur þar sem kveðið er á um aðgang starfsmanna og aðgangstakmarkanir þeirra að gögnum og upplýsingum sem varðveitt eru á grundvelli þessara laga.

29. gr.

Vinnsla persónuupplýsinga.

    Vinnsla persónuupplýsinga samkvæmt lögum þessum skal samræmast lögum um persónuvernd og vinnslu persónuupplýsinga og eingöngu vera í þeim tilgangi að koma í veg fyrir peningaþvætti og fjármögnun hryðjuverka. Önnur vinnsla, notkun eða miðlun er óheimil á grundvelli þessara laga.
    Tilkynningarskyldur aðili skal veita nýjum viðskiptamönnum upplýsingar um vinnslu persónuupplýsinga samkvæmt lögum þessum og um tilgang vinnslunnar áður en hann stofnar til samningssambands eða áður en einstök viðskipti eru framkvæmd. Að lágmarki skal upplýsa um skyldur tilkynningarskyldra aðila um vinnslu og meðferð persónuupplýsinga samkvæmt lögum þessum.
    Þrátt fyrir ákvæði laga um persónuvernd á hinn skráði ekki rétt á að fá upplýsingar um hvaða persónuupplýsingar hafa verið skráðar af tilkynningarskyldum aðilum ef slík upplýsingagjöf:
     a.      kemur í veg fyrir að tilkynningarskyldur aðili, eftirlitsaðilar samkvæmt lögum þessum eða skrifstofa fjármálagreininga lögreglu geti uppfyllt skyldur sínar samkvæmt lögunum eða
     b.      hindrar greiningar, rannsóknir eða aðrar aðgerðir samkvæmt lögum þessum eða veldur því að vörnum, rannsóknum eða greiningum á peningaþvætti og fjármögnun hryðjuverka er stefnt í hættu.
    Vinnsla og varðveisla gagna og upplýsinga samkvæmt lögum þessum telst til almannahagsmuna.

30. gr.

Kerfi til að halda utan um gögn og upplýsingar.

    Tilkynningarskyldir aðilar skulu búa yfir kerfi sem gerir þeim kleift að bregðast skjótt við fyrirspurnum frá skrifstofu fjármálagreininga lögreglu eða öðrum lögbærum stjórnvöldum hvort sem upplýsingarnar varða tiltekna aðila eða tiltekin viðskipti. Tryggja skal að miðlun trúnaðarupplýsinga sé framkvæmd með öruggum hætti.

31. gr.

Tölfræðiupplýsingar.

    Eftirlitsaðilar samkvæmt lögum þessum, skrifstofa fjármálagreininga lögreglu og eftir atvikum önnur viðeigandi stjórnvöld, skulu safna og halda utan um viðeigandi tölfræðiupplýsingar sem m.a. eru:
     a.      gögn um stærð og mikilvægi mismunandi atvinnugreina sem falla undir lög þessi, þar á meðal fjölda einstaklinga og lögaðila sem tilheyra hverri atvinnugrein og fjárhagslegt mikilvægi hverrar atvinnugreinar,
     b.      gögn um tilkynningar og rannsóknir tengd peningaþvætti og fjármögnun hryðjuverka, þar á meðal árlegar tilkynningar til skrifstofu fjármálagreininga lögreglu um grun um peningaþvætti og fjármögnun hryðjuverka, eftirfylgni slíkra tilkynninga, fjölda rannsókna, fjölda saksókna, fjölda sakfellinga, tegundir frumbrota þar sem slíkar upplýsingar eru tiltækar og verðmæti eigna sem hafa verið frystar, haldlagðar eða gerðar upptækar,
     c.      gögn um fjölda og hlutfall af tilkynningum sem leiða til frekari rannsókna, ásamt árlegri skýrslu til tilkynningarskyldra aðila þar sem fram koma upplýsingar um gagnsemi tilkynninga þeirra og endurgjöf á þær,
     d.      gögn um fjölda upplýsingabeiðna til skrifstofu fjármálagreininga lögreglu frá erlendum systurstofnunum, hversu mörgum beiðnum ekki var unnt að verða við og í hve mörgum tilvikum orðið var við beiðni í heild eða að hluta, sundurliðað eftir ríkjum,
     e.      fjöldi stöðugilda hjá eftirlitsaðilum og skrifstofu fjármálagreininga lögreglu sem starfa að aðgerðum samkvæmt lögum þessum,
     f.      fjöldi athugana eftirlitsaðila, þar á meðal vettvangsathugana, fjölda brota sem athuganir leiða í ljós og viðurlaga eða annarra ráðstafana eftirlitsaðila,
     g.      fjöldi upplýsingabeiðna frá erlendum systurstofnunum um raunverulega eigendur.
    Upplýsingar skv. 1. mgr. skulu birtar árlega í samandregnu formi.

VIII. KAFLI

Innri starfshættir og þjálfun starfsmanna.

32. gr.

Innri starfshættir.

    Tilkynningarskyldir aðilar sem eru hluti af samstæðu skulu á samstæðugrunni setja sér stefnu og ferla, þar á meðal um vernd persónuupplýsinga og upplýsingamiðlun innan samstæðunnar, varðandi málefni sem heyra undir lög þessi. Jafnframt skal innleiða stefnur og ferla hjá útibúum og dótturfélögum í ríkjum innan og utan aðildarríkja.
    Tilkynningarskyldir aðilar skv. a–e-lið 1. mgr. 2. gr. sem stunda starfsemi í öðru aðildarríki skulu fylgja ákvæðum laga um aðgerðir gegn peningaþvætti og fjármögnun hryðjuverka sem gilda í gistiríkinu ef þar eru gerðar að lágmarki sömu kröfur og í lögum þessum.
    Tilkynningarskyldir aðilar skv. a–e-lið 1. mgr. 2. gr. sem stunda starfsemi í gegnum útibú eða dótturfélag í ríki utan aðildarríkja þar sem vægari kröfur eru gerðar en samkvæmt lögum þessum skulu fylgja lögum þessum að því marki sem lög viðkomandi ríkis heimila.
    Ef löggjöf ríkis utan aðildarríkja þar sem útibú eða dótturfélag er staðsett heimilar ekki sambærilegar kröfur og mælt er fyrir um í 1. mgr. skal viðkomandi tilkynningarskyldur aðili senda Fjármálaeftirlitinu tilkynningu þess efnis. Jafnframt skal viðkomandi tilkynningarskyldur aðili tryggja að hlutaðeigandi útibú eða dótturfélög bregðist við hættu á peningaþvætti eða fjármögnun hryðjuverka með öðrum viðeigandi ráðstöfunum. Sé ekki unnt að tryggja viðeigandi ráðstafanir með öðrum leiðum skal tilkynna það Fjármálaeftirlitinu sem skal þá viðhafa aukið eftirlit sem getur meðal annars falist í því að fara fram á að ekki sé stofnað til samningssambanda eða þeim slitið, bannað færslur og, ef nauðsyn krefur, farið fram á að samstæðan láti af starfsemi í viðkomandi ríki.
    Tilkynningarskyldum aðilum sem tilheyra sömu samstæðu er skylt að miðla sín á milli tilkynningum, sem sendar hafa verið skrifstofu fjármálagreininga lögreglu, um grun um að fjármuni megi rekja til refsiverðrar háttsemi, nema skrifstofa fjármálagreininga lögreglu fari fram á að það sé ekki gert. Þeim er einnig heimilt að miðla sín á milli öðrum upplýsingum sem falla undir lög þessi.
    Fjármálaeftirlitið skal tilkynna evrópsku eftirlitsstofnununum ef löggjöf ríkis utan aðildarríkja þar sem útibú eða dótturfélag tilkynningarskylds aðila er staðsett heimilar ekki sambærilegar kröfur og mælt er fyrir um í 1. mgr. Við mat á því hvort ríki utan aðildarríkja uppfyllir kröfur ákvæðisins skal horft til þess hvort löggjöf viðkomandi ríkis hindrar:
     a.      innleiðingu á stefnum og ferlum, þar á meðal um þagnarskyldu og verndun persónuupplýsinga, og
     b.      upplýsingaskipti.

33. gr.

Þjálfun starfsmanna.

    Tilkynningarskyldir aðilar skulu sjá til þess að starfsmenn þeirra, þar á meðal umboðsmenn, dreifingaraðilar og starfsmenn útibúa, hljóti sérstaka þjálfun í aðgerðum gegn peningaþvætti og fjármögnun hryðjuverka og öðlist viðeigandi þekkingu á ákvæðum þessara laga og reglugerðum og reglum sem settar eru á grundvelli þeirra. Þjálfunin skal taka mið af áhættu, eðli og stærð tilkynningarskylds aðila. Þjálfunin skal fara fram við upphaf starfs og reglulega á starfstímanum til að tryggja að starfsmenn þekki skyldur tilkynningarskyldra aðila samkvæmt lögum þessum, þar á meðal um áreiðanleikakönnun viðskiptamanna og tilkynningarskyldu ásamt því sem þeir fái upplýsingar um þróun innan málaflokksins og nýjustu aðferðir við peningaþvætti og fjármögnun hryðjuverka.
    Tilkynningarskyldir aðilar skulu setja sérstakar reglur um hvaða athuganir skuli gerðar á umsækjendum um stöður hjá þeim, með hliðsjón af markmiðum laga þessara, og í hvaða tilvikum skuli krafist sakavottorðs eða annarra sambærilegra skilríkja um feril og fyrri störf.

34. gr.

Ábyrgðarmenn.

    Tilkynningarskyldir aðilar bera ábyrgð á því að ákvæðum laga þessara og reglugerða og reglna sem settar eru samkvæmt þeim sé framfylgt. Þeim er skylt að tilnefna einn úr hópi stjórnenda sem sérstakan ábyrgðarmann sem að jafnaði annast tilkynningar í samræmi við 21. gr. og hefur skilyrðislausan aðgang að áreiðanleikakönnun viðskiptamanna, viðskiptum eða beiðnum um viðskipti ásamt öllum þeim gögnum sem skipt geta máli vegna tilkynninga.
    Skrifstofu fjármálagreininga lögreglu og viðeigandi eftirlitsaðilum samkvæmt lögum þessum skal tilkynnt um tilnefningu ábyrgðarmanns skv. 1. mgr.
    Ábyrgðarmaður skal sjá til þess að innleiddar séu stefnur, reglur og verkferlar sem stuðli að samræmdum starfsaðferðum og góðri framkvæmd laganna í starfsemi tilkynningarskyldra aðila.

IX. KAFLI

Skráningarskylda.

35. gr.

Skráningarskylda gjaldeyrisskiptastöðva og þjónustuveitenda sýndarfjár

og stafrænna veskja.

    Einstaklingar og lögaðilar sem starfrækja gjaldeyrisskiptastöð, þjónustuveitendur milli sýndarfjár, rafeyris og gjaldmiðla og þjónustuveitendur stafrænna veskja eru skráningarskyldir hjá Fjármálaeftirlitinu.
    Undanþegin skráningarskyldu eru fjármálafyrirtæki samkvæmt skilgreiningu laga um fjármálafyrirtæki, sbr. a-lið 1. mgr. 2. gr.
    Um þagnarskyldu aðila skv. 1. mgr., stjórnarmanna, framkvæmdastjóra, endurskoðenda, starfsmanna og hverra þeirra sem taka að sér verk í þágu þeirra fer samkvæmt lögum um fjármálafyrirtæki.
    Fjármálaeftirlitið setur nánari reglur um framkvæmd og skilyrði skráningar og framkvæmd viðskipta.

36. gr.

Skráningarskylda ýmissa aðila.

    Eftirfarandi einstaklingar og lögaðilar eru skráningarskyldir hjá ríkisskattstjóra:
     a.      aðilar á sviði fjárvörslu og fyrirtækjaþjónustu, sbr. q-lið 1. mgr. 2. gr.,
     b.      aðilar sem færa bókhald eða sinna bókhaldsþjónustu fyrir þriðja aðila, sbr. l-lið 1. mgr. 2. gr.,
     c.      skattaráðgjafar, sbr. l-lið 1. mgr. 2. gr.,
     d.      aðilar sem selja eðalmálma og -steina,
     e.      listmunasalar og -miðlarar, þar á meðal listmunagallerí og uppboðshús, sbr. p-lið 1. mgr. 2. gr.
    Undanþegin skráningarskyldu eru fjármálafyrirtæki samkvæmt skilgreiningu laga um fjármálafyrirtæki, sbr. a-lið 1. mgr. 2. gr., og endurskoðunarfyrirtæki og lögmannsstofur, sbr. l–m-lið. 1. mgr. 2. gr.
    Ríkisskattstjóri setur nánari reglur um framkvæmd og skilyrði skráningar.

37. gr.

Skilyrði skráningar.

    Neita skal um skráningu skv. 35. gr. ef skráningarskyldir aðilar, stjórnendur eða raunverulegir eigendur starfseminnar hafa á síðustu fimm árum verið úrskurðaðir gjaldþrota eða hlotið dóm fyrir refsiverðan verknað samkvæmt almennum hegningarlögum, lögum þessum, löggjöf um hlutafélög, einkahlutafélög, bókhald, ársreikninga, gjaldþrot, opinber gjöld eða, eftir því sem við á, þeim sérlögum sem gilda um aðila sem lúta opinberu eftirliti með fjármálastarfsemi. Þá skal neita um skráningu ef skráningarskyldur aðili uppfyllir ekki kröfur þessara laga.
    Neita skal um skráningu skv. 36. gr. ef skráningarskyldir aðilar, stjórnendur eða raunverulegir eigendur starfseminnar hafa ekki forræði á búi sínu eða hafa á síðustu þremur árum hlotið dóm fyrir refsiverðan verknað samkvæmt almennum hegningarlögum, lögum þessum, löggjöf um hlutafélög, einkahlutafélög, bókhald, ársreikninga, gjaldþrot, opinber gjöld eða, eftir því sem við á, þeim sérlögum sem gilda um viðkomandi aðila. Þá skal neita um skráningu ef skráningarskyldur aðili uppfyllir ekki kröfur þessara laga.
    Fella skal skráðan aðila af skrá skv. 35. og 36. gr. ef um skráningarskylda aðila eða stjórnendur eða raunverulega eigendur starfseminnar háttar svo sem um getur í 1. eða 2. mgr.

X. KAFLI

Eftirlit.

38. gr.

Eftirlit.

    Fjármálaeftirlitið hefur eftirlit með því að aðilar sem tilgreindir eru í a–k-lið 1. mgr. 2. gr. fari að ákvæðum laga þessara, reglugerða og reglna sem settar eru samkvæmt þeim. Um eftirlitið fer samkvæmt lögum um opinbert eftirlit með fjármálastarfsemi og þeim sérlögum sem um starfsemi eftirlitsskyldra aðila gilda.
    Ríkisskattstjóri hefur eftirlit með því að þeir sem falla undir l–s-lið 1. mgr. 2. gr. fari að ákvæðum laga þessara, reglugerða og reglna sem settar eru samkvæmt þeim, auk þess að setja nánari reglur um framkvæmd eftirlitsins.
    Í tengslum við eftirlit og athuganir mála, samkvæmt lögum þessum, er einstaklingum, lögaðilum, opinberum aðilum, fjárvörslusjóðum og sambærilegum aðilum skylt að láta eftirlitsaðilum samkvæmt lögum þessum án tafar í té allar upplýsingar og gögn sem þeir telja nauðsynleg. Skiptir ekki máli í því sambandi hvort upplýsingarnar varði þann aðila sem beiðninni er beint til eða annan aðila sem hann getur veitt upplýsingar um og varða athuganir og eftirlit samkvæmt lögum þessum. Lagaákvæði um þagnarskyldu takmarka ekki skyldu til þess að veita upplýsingar og aðgang að gögnum. Þetta gildir þó ekki um upplýsingar sem lögmaður öðlast við athugun á lagalegri stöðu skjólstæðings í tengslum við dómsmál, þ.m.t. þegar hann veitir ráðgjöf um hvort höfða eigi mál eða komast hjá máli, eða upplýsingar sem hann öðlast fyrir, á meðan eða eftir lok dómsmáls, ef upplýsingarnar hafa bein tengsl við málið. Vegna starfa sinna geta eftirlitsaðilar gert vettvangskannanir hjá tilkynningarskyldum aðilum og óskað upplýsinga á þann hátt og svo oft sem þeir telja þörf á.
    Einstaklingum og lögaðilum sem beiðni skv. 3. mgr. er beint að er óheimilt að veita þriðja aðila upplýsingar um beiðnina.
    Eftirlitsaðilar og skrifstofa fjármálagreininga lögreglu skulu veita lögbærum stjórnvöldum heimaríkja alla nauðsynlega aðstoð við eftirlit með erlendum tilkynningarskyldum aðilum sem starfa hér á landi en eru með höfuðstöðvar í öðru aðildarríki. Eftirlitsaðilum og skrifstofu fjármálagreininga lögreglu er heimilt að gera samning um samvinnu og miðlun upplýsinga samkvæmt þessu ákvæði við systurstofnanir utan aðildarríkja að því tilskildu að þær uppfylli kröfur um þagnarskyldu og önnur ákvæði þessara laga.
    Eftirlitsaðilar skulu með reglubundnum hætti yfirfara áhættumat tilkynningarskyldra aðila skv. 5. gr. og hvort þeir fylgi áhættumatinu. Jafnframt skulu eftirlitsaðilar yfirfara áhættumat þegar mikilvægar breytingar verða á stjórnun eða starfsemi tilkynningarskyldra aðila.
    Við mat á áhættumati og innleiðingu stefnu, ferla og reglna hjá tilkynningarskyldum aðilum skulu eftirlitsaðilar taka tillit til þess svigrúms sem tilkynningarskyldir aðilar hafa skv. 5. gr. laganna.

XI. KAFLI

Samhæfing og samvinna.

39. gr.

Samhæfing.

    Ráðherra skipar stýrihóp um aðgerðir gegn peningaþvætti og fjármögnun hryðjuverka eftir tilnefningu hagsmunaaðila. Aðild að stýrihópnum eiga eftirlitsaðilar samkvæmt lögum þessum og önnur stjórnvöld sem koma að framkvæmd málaflokksins. Stýrihópurinn skal vinna að samhæfingu aðgerða vegna varna gegn peningaþvætti og fjármögnun hryðjuverka.
    Þrátt fyrir þagnarskyldu aðila sem eiga sæti í stýrihópi er þeim heimilt að deila upplýsingum og gögnum sín á milli til þess að vinna að markmiðum 1. mgr.

40. gr.

Samvinna innan lands.

    Þrátt fyrir þagnarskyldu er aðilum sem hafa eftirlit með lögum þessum og öðrum lögbærum stjórnvöldum, þar með talið skattyfirvöldum og lögreglu, sem vegna starfa sinna gegna skyldum við aðgerðir gegn peningaþvætti og fjármögnun hryðjuverka, skylt, að eigin frumkvæði eða samkvæmt beiðni, að deila upplýsingum og gögnum sín á milli sem falla undir lög þessi, varði málefnið upplýsingar eða gögn sem kunna að heyra undir valdsvið þess sem upplýsingum er deilt með. Stjórnvöld skulu með sama hætti veita gagnkvæma aðstoð í málum sem tengjast aðgerðum gegn peningaþvætti og fjármögnun hryðjuverka.
    Miðlun upplýsinga og gagna skv. 1. mgr. skal framkvæmd á öruggan hátt og fara fram eins fljótt og unnt er.
    Móttakanda gagna og upplýsinga samkvæmt þessu ákvæði er eingöngu heimilt að nota veitt gögn og upplýsingar við framkvæmd starfa sinna í samræmi við markmið þessara laga. Afhending móttekinna gagna og upplýsinga til þriðja aðila er óheimil án afdráttarlauss samþykkis frá því stjórnvaldi sem veitti upplýsingarnar.
    Skrifstofu fjármálagreininga lögreglu er ekki skylt að veita upplýsingar samkvæmt þessu ákvæði ef líkur eru á því að slík upplýsingagjöf hafi neikvæð áhrif á yfirstandandi rannsóknir eða greiningar. Sama á við um sérstakar aðstæður þar sem upplýsingagjöf gæti valdið hlutaðeigandi aðilum tjóni sem ekki er í eðlilegu samræmi við nauðsyn upplýsinganna eða upplýsingarnar samræmast ekki tilgangi beiðninnar.
    Lögbær stjórnvöld skulu veita skrifstofu fjármálagreininga lögreglu endurgjöf vegna upplýsinga sem hún hefur miðlað í samræmi við þetta ákvæði. Veita skal upplýsingar um notkun upplýsinganna og niðurstöðu athugunar eða rannsóknar sem fór fram á grundvelli upplýsinganna.
    Stjórnvöld sem um ræðir í 1. mgr. skulu setja sér sameiginlegar reglur um með hvaða hætti upplýsingum og gögnum samkvæmt þessu ákvæði er miðlað.

41. gr.

Samvinna við erlendar systurstofnanir.

    Þrátt fyrir þagnarskyldu skulu aðilar sem hafa eftirlit með lögum þessum og öðrum lögbærum stjórnvöldum, t.d. skattyfirvöldum, sem vegna starfa sinna gegna skyldum við aðgerðir gegn peningaþvætti og fjármögnun hryðjuverka, veita systurstofnunum sínum í aðildarríkjum umbeðna aðstoð nema til staðar séu þær aðstæður sem um getur í 3. mgr. 42. gr. Slíkar upplýsingar má einungis veita með því skilyrði að um þær gildi þagnarskylda í hlutaðeigandi ríki eða hjá viðkomandi stofnun. Með sömu skilyrðum er eftirlitsaðilum og lögbærum stjórnvöldum heimilt að eigin frumkvæði að miðla upplýsingum til systurstofnana í öðrum aðildarríkjum varði upplýsingarnar viðkomandi aðildarríki.
    Stjórnvöldum skv. 1. mgr. er óheimilt að hafna beiðni um aðstoð, gögn eða upplýsingar á grundvelli þess að:
     a.      beiðnin tengist jafnframt skattamálum,
     b.      þagnarskylda komi í veg fyrir aðstoð, nema um sé að ræða störf tilkynningarskyldra aðila skv. l- og m-lið 1. mgr. 2. gr. við athugun þeirra á lagalegri stöðu umbjóðenda sinna eða þegar þeir koma fram fyrir hönd þeirra í dómsmáli eða í tengslum við dómsmál, þ.m.t. þegar þeir veita ráðgjöf um hvort höfða eigi dómsmál eða komast hjá dómsmáli,
     c.      beiðnin tengist máli sem er í athugun, rannsókn eða málaferli í gangi, nema aðstoð muni hafa neikvæð áhrif á meðferð málsins,
     d.      staða stjórnvalds sem beiðni er beint til er önnur en þess stjórnvalds sem óskar aðstoðar, gagna eða upplýsinga.
    Aðilar skv. 1. mgr. skulu nota allar þær heimildir sem þeir hafa samkvæmt lögum til að aðstoða við framkomna beiðni skv. 1. mgr., m.a. með því að afla upplýsinga frá tilkynningarskyldum aðilum ef við á.
    Eftirlitsaðilar samkvæmt lögum þessum og skrifstofa fjármálagreininga lögreglu skulu veita systurstofnunum sínum í aðildarríkjum upplýsingar úr fyrirtækjaskrá ríkisskattstjóra, endurgjaldslaust og eins fljótt og verða má, komi fram beiðni þess efnis.
    Um miðlun upplýsinga, notkun veittra upplýsinga, endurgjöf, samninga við lönd utan aðildarríkja og áframsendingu upplýsinga fer samkvæmt 42. gr., eftir því sem við á.

42. gr.

Samvinna og miðlun upplýsinga skrifstofu fjármálagreininga lögreglu.

    Þrátt fyrir þagnarskyldu skal skrifstofa fjármálagreininga lögreglu, að eigin frumkvæði eða samkvæmt framkominni beiðni frá systurstofnun í aðildarríki, vinna með og miðla eins fljótt og unnt er viðeigandi upplýsingum um meðferð eða greiningu mála sem tengjast peningaþvætti eða fjármögnun hryðjuverka auk upplýsinga um einstaklinga eða lögaðila sem þeim tengjast. Upplýsingum skal miðlað án tillits til tegundar frumbrots og hvort upplýsingar um það liggi fyrir. Slíkar upplýsingar má einungis veita með því skilyrði að um þær gildi þagnarskylda í hlutaðeigandi ríki eða hjá viðkomandi stofnun.
    Skrifstofa fjármálagreininga lögreglu skal nota allar þær heimildir sem hún hefur samkvæmt lögum til að aðstoða við framkomna beiðni skv. 1. mgr., m.a. með því að afla upplýsinga frá tilkynningarskyldum aðilum ef við á.
    Skrifstofu fjármálagreininga lögreglu er óheimilt að hafna beiðni um upplýsingar nema afhending þeirra:
     a.      gæti ógnað öryggi ríkisins, almannaöryggi eða öðrum sambærilegum hagsmunum eða
     b.      brjóti í bága við íslensk lög eða alþjóðalög.
    Hafi skrifstofa fjármálagreininga lögreglu veitt systurstofnun gögn eða upplýsingar og viðkomandi stofnun óskar eftir heimild til að áframsenda þær til lögbærra stjórnvalda í sínu ríki skal skrifstofa fjármálagreininga lögreglu svara beiðninni eins fljótt og auðið er. Verða skal við slíkri beiðni án tillits til tegundar frumbrots nema:
     a.      beiðnin falli ekki undir gildissvið þessara laga,
     b.      áframsending upplýsinganna myndi hafa neikvæð áhrif á rannsókn sakamáls,
     c.      veiting upplýsinganna fari í bága við grundvallarákvæði íslenskra laga.
Sé áframsendingu hafnað skulu fylgja henni viðeigandi útskýringar.
    Varði tilkynning skv. a-lið 1. mgr. 21. gr. annað aðildarríki skal skrifstofa fjármálagreininga lögreglu tafarlaust áframsenda tilkynninguna til systurstofnunar viðkomandi ríkis.
    Óski skrifstofa fjármálagreininga lögreglu eftir aðstoð frá systurstofnun í öðru aðildarríki skal beiðnin tilgreina staðreyndir og forsögu máls, ástæðu fyrir beiðni og með hvaða hætti umbeðnar upplýsingar verði notaðar. Beiðni um upplýsingar frá tilkynningarskyldum aðilum annarra ríkja skal beint til systurstofnana viðkomandi ríkis. Sé þess óskað skal skrifstofa fjármálagreininga lögreglu, eins fljótt og unnt er, veita endurgjöf um þær upplýsingar sem hún hefur móttekið samkvæmt þessu ákvæði.
    Skrifstofu fjármálagreininga lögreglu er eingöngu heimilt að nota veittar upplýsingar við framkvæmd starfa sinna í samræmi við markmið þessara laga og í samræmi við beiðni skv. 6. mgr. Veitanda upplýsinga er heimilt að setja frekari hömlur við notkun veittra upplýsinga telji hann það nauðsynlegt og ber móttakanda að virða allar settar takmarkanir.
    Afhending upplýsinga og notkun sem ekki samræmist beiðni skv. 6. mgr. er óheimil án afdráttarlauss samþykkis frá því stjórnvaldi sem veitti upplýsingarnar.
    Skrifstofu fjármálagreininga lögreglu er heimilt að gera samning um samvinnu og miðlun upplýsinga samkvæmt þessu ákvæði við systurstofnanir utan aðildarríkja að því tilskildu að þær uppfylli kröfur um þagnarskyldu og önnur ákvæði þessara laga.
    Mismunandi skilgreiningar aðildarríkja á refsiverðri háttsemi skv. 14. tölul. 3. gr. koma ekki í veg fyrir miðlun og notkun upplýsinga samkvæmt þessu ákvæði.
    Miðlun skrifstofu fjármálagreininga lögreglu á trúnaðarupplýsingum skal framkvæmd á öruggan hátt.

43. gr.

Upplýsingar til evrópskra eftirlitsstofnana.

    Eftirlitsaðilum og öðrum lögbærum stjórnvöldum samkvæmt lögum þessum er heimilt að veita hinum evrópsku eftirlitsstofnunum allar nauðsynlegar upplýsingar sem stofnununum eru nauðsynlegar til að þeim sé unnt að sinna eftirlitshlutverki sínu samkvæmt lögum þessum.
    Stjórnvöldum er skylt að láta Eftirlitsstofnun EFTA, EFTA-dómstólnum eða eftir atvikum öðrum stofnunum innan Evrópska efnahagssvæðisins í té allar þær upplýsingar og gögn sem stofnunum þessum eru nauðsynleg til að þeim sé unnt að sinna eftirlitshlutverki sínu samkvæmt lögum þessum.

XII. KAFLI

Þvingunarúrræði og viðurlög.

44. gr.

Úrbætur.

    Komi í ljós að tilkynningarskyldur aðili fylgi ekki lögum þessum eða reglugerðum eða reglum sem settar eru á grundvelli þeirra skulu eftirlitsaðilar skv. 38. gr. krefjast þess að úr sé bætt innan hæfilegs frests.

45. gr.

Dagsektir.

    Eftirlitsaðilar skv. 38. gr. geta lagt dagsektir á tilkynningarskyldan aðila og aðila skv. 3. mgr. 38. gr. veiti hann ekki umbeðnar upplýsingar eða sinni ekki kröfum um úrbætur innan frests skv. 44. gr. Dagsektir leggjast á þangað til farið hefur verið að kröfum eftirlitsaðila. Dagsektirnar geta numið frá 10.000 kr. til 1 millj. kr. á dag. Við ákvörðun um fjárhæð dagsekta er heimilt að taka tillit til eðlis vanrækslu eða brots og fjárhagslegs styrkleika viðkomandi aðila.
    Dagsektir skulu ákveðnar af stjórn Fjármálaeftirlitsins eða ríkisskattstjóra eftir því sem við á.
    Óinnheimtar dagsektir falla ekki niður þótt aðilar verði síðar við kröfum eftirlitsaðila nema stjórn Fjármálaeftirlitsins eða ríkisskattstjóri, eftir því sem við á, samþykki lækkun eða niðurfellingu þeirra.
    Ákvarðanir um dagsektir samkvæmt þessari grein eru aðfararhæfar.
    Innheimtar dagsektir renna til ríkissjóðs að frádregnum kostnaði við innheimtuna.

46. gr.

Stjórnvaldssektir.

    Eftirlitsaðilar geta lagt stjórnvaldssektir á hvern þann sem brýtur gegn eftirtöldum ákvæðum laga þessara, reglugerðum og reglum sem settar eru á grundvelli þeirra:
     1.      5. gr. um áhættumat tilkynningarskyldra aðila,
     2.      7. gr. um nafnlaus viðskipti og þátttöku í viðskiptum til að dylja raunverulegt eignarhald,
     3.      8. gr. um tilvik þar sem áreiðanleikakönnun skal framkvæmd,
     4.      10. gr. um könnun áreiðanleika upplýsinga um viðskiptamenn,
     5.      11. gr. um tímabundna frestun á framkvæmd áreiðanleikakönnunar,
     6.      12. gr. um einfaldaða áreiðanleikakönnun,
     7.      13. gr. um aukna áreiðanleikakönnun,
     8.      14. gr. um aukna áreiðanleikakönnun viðskiptamanna í áhættusömum ríkjum,
     9.      15. gr. um millibankaviðskipti,
     10.      16. gr. um millibankaviðskipti við skelbanka,
     11.      17. gr. um einstaklinga í áhættuhópi vegna stjórnmálalegra tengsla,
     12.      18. gr. um áreiðanleikakönnun þriðja aðila,
     13.      21. gr. um tilkynningar tilkynningarskyldra aðila,
     14.      22. gr. um skyldu til að forðast viðskipti,
     15.      1. mgr. 27. gr. um bann við upplýsingagjöf,
     16.      28. gr. um varðveislu gagna,
     17.      30. gr. um kerfi til að halda utan um gögn og upplýsingar,
     18.      32. gr. um innri starfshætti,
     19.      33. gr. um þjálfun starfsmanna,
     20.      3. mgr. 34. gr. um skyldu ábyrgðarmanns til að sjá til þess að innleiddar séu stefnur, reglur og verkferlar sem stuðli að samræmdum starfsaðferðum og góðri framkvæmd laganna,
     21.      35. gr. ef starfsemi er stunduð án skráningar,
     22.      36. gr. ef starfsemi er stunduð án skráningar,
     23.      3. mgr. 38. gr. með því að veita eftirlitsaðilum rangar eða villandi upplýsingar,
     24.      4. mgr. 38. gr. með því að veita þriðja aðila upplýsingar um beiðni skv. 3. mgr. 38. gr.
    Við ákvörðun stjórnvaldssekta samkvæmt ákvæði þessu skal tekið tillit til allra atvika sem máli skipta, þ.m.t. eftirfarandi:
     a.      alvarleika brots,
     b.      hvað brotið hefur staðið lengi,
     c.      ábyrgðar hins brotlega hjá lögaðilanum,
     d.      fjárhagsstöðu hins brotlega,
     e.      ávinnings af broti eða taps sem forðað er með broti,
     f.      hvort brot hafi leitt til taps þriðja aðila,
     g.      hvers konar mögulegra kerfislegra áhrifa brotsins,
     h.      samstarfsvilja hins brotlega,
     i.      fyrri brota og hvort um ítrekað brot er að ræða.
    Stjórnvaldssektir sem lagðar eru á tilkynningarskylda aðila skv. a–h-lið 1. mgr. 2. gr. geta numið frá 5 millj. kr. til 800 millj. kr. Stjórnvaldssektir sem lagðar eru á starfsmenn tilkynningarskyldra aðila geta numið frá 500 þús. kr. til 625 millj. kr.
    Þrátt fyrir 3. mgr. geta stjórnvaldssektir sem lagðar eru á tilkynningarskylda aðila skv. a–h-lið 1. mgr. 2. gr. verið allt að 10% af heildarveltu samkvæmt síðasta samþykkta ársreikningi lögaðilans eða 10% af síðasta samþykkta samstæðureikningi ef lögaðili er hluti af samstæðu og brot er framið til hagsbóta fyrir annan lögaðila í samstæðunni eða annar lögaðili í samstæðunni hefur notið hagnaðar af brotinu.
    Stjórnvaldssektir sem lagðar eru á tilkynningarskylda aðila skv. i–s-lið 1. mgr. 2. gr. geta numið frá 500 þús. kr. til 500 millj. kr. Stjórnvaldssektir sem lagðar eru á starfsmenn tilkynningarskyldra aðila geta numið frá 100 þús. kr. til 125 millj. kr.
    Ef einstaklingur eða lögaðili brýtur gegn lögum þessum, reglugerðum eða reglum sem settar eru á grundvelli þeirra, og fyrir liggur að hann hafi hlotið fjárhagslegan ávinning af broti, er heimilt að ákvarða hinum brotlega sektarfjárhæð sem getur, þrátt fyrir 3. og 4. mgr., orðið allt að tvöfaldri þeirri fjárhæð sem fjárhagslegur ávinningur hins brotlega nemur.
    Ákvarðanir um stjórnvaldssektir skulu teknar af stjórn Fjármálaeftirlitsins eða ríkisskattstjóra, eftir því sem við á, og eru þær aðfararhæfar. Sektir renna í ríkissjóð að frádregnum kostnaði við innheimtuna. Séu stjórnvaldssektir ekki greiddar innan mánaðar frá ákvörðun álagningar þeirra skal greiða dráttarvexti af fjárhæð sektarinnar. Um ákvörðun og útreikning dráttarvaxta fer eftir lögum um vexti og verðtryggingu.
    Stjórnvaldssektum verður beitt óháð því hvort lögbrot eru framin af ásetningi eða gáleysi.
    Þegar brot á lögum þessum er framið í starfsemi lögaðila, og í þágu hans, má leggja stjórnvaldssekt á lögaðilann án tillits til þess hvort sök verður sönnuð á fyrirsvarsmann eða starfsmann lögaðila. Hafi fyrirsvarsmaður eða starfsmaður gerst sekur um brot á lögum þessum má einnig leggja stjórnvaldssekt á lögaðilann ef brotið var í þágu hans.
    Eftirlitsaðilar skulu, eftir því sem við á, vinna saman og samræma aðgerðir við beitingu viðurlaga.

47. gr.

Sátt.

    Hafi aðili gerst brotlegur við ákvæði laga þessara, reglugerðir eða reglur sem settar eru á grundvelli þeirra eða ákvarðanir eftirlitsaðila sem á þeim byggjast er eftirlitsaðilum heimilt að ljúka málinu með sátt, með samþykki málsaðila. Sátt er bindandi fyrir málsaðila þegar hann hefur samþykkt og staðfest efni hennar með undirskrift sinni. Eftirlitsaðilar setja nánari reglur um framkvæmd ákvæðisins.

48. gr.

Réttur til að fella ekki á sig sök.

    Í máli sem beinist að einstaklingi og lokið getur með álagningu stjórnvaldssekta hefur maður, sem rökstuddur grunur leikur á að hafi gerst sekur um lögbrot, rétt til að neita að svara spurningum eða afhenda gögn eða muni nema hægt sé að útiloka að það geti haft þýðingu fyrir ákvörðun um brot hans. Eftirlitsaðilar skulu leiðbeina hinum grunaða um þennan rétt.

49. gr.

Frestur til að leggja á stjórnvaldssektir.

    Heimild eftirlitsaðila til að leggja á stjórnvaldssektir samkvæmt lögum þessum fellur niður þegar fimm ár eru liðin frá því að háttsemi lauk.
    Frestur skv. 1. mgr. rofnar þegar eftirlitsaðili tilkynnir aðila um upphaf rannsóknar á meintu broti. Rof frests hefur réttaráhrif gagnvart öllum sem staðið hafa að broti.

50. gr.

Brottvikning stjórnar og framkvæmdastjóra.

    Eftirlitsaðilar geta vikið stjórn tilkynningarskylds aðila skv. 1. mgr. 2. gr. frá í heild eða að hluta, sem og framkvæmdastjóra, hafi fyrirtækið brotið með alvarlegum, ítrekuðum eða kerfisbundnum hætti gegn ákvæðum laga þessara, reglugerða eða reglna sem settar eru á grundvelli þeirra. Viðkomandi aðilum er óheimilt að taka sæti í stjórn eða framkvæmdastjórn tilkynningarskylds aðila, sem fellur undir gildissvið laga þessara, næstu fimm ár eftir brottvikningu.
    Eftirlitsaðilar skulu tilkynna fyrirtækjaskrá um brottvikningu skv. 1. mgr. eigi síðar en sjö dögum eftir að hún var tilkynnt viðkomandi aðila.

51. gr.

Afturköllun starfsleyfis o.fl.

    Fjármálaeftirlitinu er heimilt að afturkalla starfsleyfi eða skráningu tilkynningarskylds aðila skv. a–g- og i–k-lið 1. mgr. 2. gr. í heild að hluta, brjóti hann vísvitandi, alvarlega, ítrekað eða kerfisbundið gegn ákvæðum laga þessara, reglugerða eða reglna sem settar eru á grundvelli þeirra.
    Brjóti lífeyrissjóður skv. h-lið 1. mgr. 2. gr. með þeim hætti sem um getur í 1. mgr. skal Fjármálaeftirlitið tilkynna það þeim ráðherra sem fer með málefni lífeyrissjóða sem getur, ef við á, skipað lífeyrissjóði umsjónarmann í samræmi við lög um skyldutryggingu lífeyrisréttinda og starfsemi lífeyrissjóða.

52. gr.

Málshöfðunarfrestur.

    Nú vill aðili ekki una ákvörðun skv. 45., 46., 50. eða 51. gr. og getur hann þá höfðað mál til ógildingar hennar fyrir dómstólum. Mál skal höfðað innan þriggja mánaða frá því að aðila var tilkynnt um ákvörðunina. Málshöfðun frestar ekki réttaráhrifum ákvörðunar né heimild til aðfarar samkvæmt henni, sbr. þó afturköllun starfsleyfis eða skráningar skv. 51. gr.
    Sé mál höfðað til ógildingar ákvörðunar skv. 45. gr. innan 14 daga frá því að viðkomandi aðila var tilkynnt um hana og óski hann jafnframt eftir að málið hljóti flýtimeðferð er ekki heimilt að innheimta dagsektir fyrr en dómur hefur fallið. Þrátt fyrir málshöfðun til ógildingar ákvörðunar skv. 45. gr. leggjast dagsektir áfram á viðkomandi aðila.
    Ákvörðunum samkvæmt lögum þessum verður ekki skotið til æðra stjórnvalds eða úrskurðarnefndar.

53. gr.

Opinber birting viðurlaga.

    Eftirlitsaðilar skulu birta á vefsíðu sinni öll stjórnsýsluviðurlög sem ákveðin eru í samræmi við 46.–47. og 50.–51. gr. laganna. Ákvarðanir skulu birtar eins fljótt og unnt er eftir að brotlegum aðila hefur verið tilkynnt ákvörðunin. Í tilkynningunni skal að lágmarki upplýsa um tegund og eðli brots og hver ber ábyrgð á brotinu. Ekki er skylt að birta upplýsingar um viðurlög ef brotið sætir enn rannsókn.
    Ef birting skv. 1. mgr. veldur hlutaðeigandi aðila tjóni sem er ekki í eðlilegu samræmi við það brot sem um ræðir eða birtingin verður talin stefna hagsmunum fjármálamarkaðarins eða rannsóknarhagsmunum í hættu skal viðkomandi eftirlitsaðili:
     a.      fresta birtingu þar til aðstæður skv. 2. mgr. eru ekki lengur fyrir hendi,
     b.      birta upplýsingar um beitingu viðurlaga en fresta nafngreiningu þar til aðstæður skv. 2. mgr. eru ekki lengur fyrir hendi,
     c.      ekki birta neinar upplýsingar ef birting samkvæmt a- eða b-lið þessarar málsgreinar stefnir hagsmunum fjármálamarkaðarins í hættu eða ef réttmæti fyrir birtingu ákvörðunarinnar, samanborið við þá hagsmuni sem um ræðir, er minni háttar.
    Eftirlitsaðilar skulu birta með sama hætti og greinir í 1. mgr. ef mál hefur verið höfðað til ógildingar á ákvörðun um beitingu stjórnsýsluviðurlaga og niðurstöður málsins.
    Upplýsingar sem birtar eru samkvæmt þessu ákvæði skulu vera aðgengilegar á vefsíðu eftirlitsaðila að lágmarki í fimm ár. Persónuupplýsingar skulu þó ekki vera aðgengilegar lengur en málefnalegar ástæður krefjast, samkvæmt lögum um persónuvernd og vinnslu persónuupplýsinga.
    Eftirlitsaðilar skulu birta opinberlega þá stefnu sem þeir fylgja við framkvæmd birtingar samkvæmt þessu ákvæði.

54. gr.

Upplýsingar um viðurlög til evrópsku eftirlitsstofnananna.

    Fjármálaeftirlitið skal tilkynna evrópsku eftirlitsstofnununum um öll viðurlög sem það leggur á samkvæmt þessum lögum, þar á meðal hvort mál hafi verið höfðuð til ógildingar á viðurlagaákvörðunum og niðurstöðu þeirra mála.

XIII. KAFLI

Ýmis ákvæði.

55. gr.

Þagnarskylda.

    Aðilar sem taka á móti upplýsingum samkvæmt 40.–43. gr. eða tilkynningum samkvæmt lögunum eru bundnir þagnarskyldu. Þeim er óheimilt, að viðlagðri ábyrgð samkvæmt ákvæðum almennra hegningarlaga um brot í opinberu starfi, að skýra óviðkomandi aðilum frá upplýsingum sem miðlað er til þeirra á grundvelli þessara laga og leynt eiga að fara, nema dómari úrskurði að upplýsingarnar sé skylt að veita fyrir dómi eða lögreglu eða skylda sé að veita upplýsingarnar lögum samkvæmt. Þagnarskyldan helst þótt látið sé af starfi og er óheimilt að nýta í atvinnuskyni upplýsingar sem bundnar eru þagnarskyldu.
    Þrátt fyrir þagnarskyldu skv. 1. mgr. er þeim sem eiga sæti í stýrihópi skv. 39. gr. heimilt að miðla innan eigin stjórnvalds upplýsingum sem heyra undir valdsvið viðkomandi stjórnvalds.

56. gr.

Reglugerðarheimild.

    Ráðherra er heimilt að setja í reglugerð nánari ákvæði um framkvæmd laga þessara, þar á meðal:
     a.      um framkvæmd áhættumats skv. I. kafla,
     b.      um áhættusöm og ósamvinnuþýð ríki, þar á meðal um tilkynningar í millifærslum, bann um að stofna til samningssambands og bann eða takmörkun á upplýsingagjöf til einstaklinga og lögaðila með tengsl við áhættusöm eða ósamvinnuþýð ríki skv. II. kafla,
     c.      um framkvæmd áreiðanleikakönnunar, aukinnar áreiðanleikakönnunar og einfaldaðrar áreiðanleikakönnunar skv. III. kafla. Í reglugerðinni skal m.a. fjallað um hvaða þætti áreiðanleikakönnunar skuli uppfylla þegar tilkynningarskyldum aðilum er heimilt að framkvæma einfaldaða áreiðanleikakönnun og hvaða viðbótarkröfur skuli gera við aukna áreiðanleikakönnun,
     d.      um aðila í áhættuhópi vegna stjórnmálalegra tengsla, þar með talið hvaða störf teljist til háttsettra opinberra starfa skv. III. kafla,
     e.      um framkvæmd tilkynningarskyldu og aðrar skyldur aðila skv. V. kafla,
     f.      um viðeigandi ráðstafanir og lágmarkskröfur skv. 4. mgr. 32. gr.,
     g.      um hlutverk ábyrgðarmanna skv. VIII. kafla,
     h.      um álagningu dagsekta og stjórnvaldssekta skv. XII. kafla,
     i.      um hvaða upplýsingar skulu fylgja millifærslum.

57. gr.

Innleiðing á tilskipun.

    Lög þessi fela í sér innleiðingu á tilskipun Evrópuþingsins og ráðsins 2015/849/EB frá 20. maí 2015 um aðgerðir gegn peningaþvætti og fjármögnun hryðjuverka og um breytingu á reglugerð Evrópuþingsins og ráðsins (EB) nr. 648/2012 og niðurfellingu á tilskipun Evrópuþingsins og ráðsins 2005/60/EB og tilskipun framkvæmdastjórnarinnar 2006/70/EB. Jafnframt er innleidd að hluta tilskipun Evrópuþingsins og ráðsins 2018/843/EB sem breytir tilskipun 2015/849/EB.

58. gr.

Gildistaka.

    Lög þessi taka gildi 1. janúar 2019. Jafnframt falla úr gildi lög um aðgerðir gegn peningaþvætti og fjármögnun hryðjuverka, nr. 64/2006.


59. gr.

Breytingar á öðrum lögum.

    Við gildistöku laga þessara verða eftirfarandi breytingar á öðrum lögum:
    Lög um sölu fasteigna og skipa, nr. 70/2015: k-liður 2. mgr. 19. gr. laganna fellur brott.
    Lög um endurskoðendur, nr. 79/2008: 5. tölul. 2. mgr. 15. gr. laganna fellur brott.

Ákvæði til bráðabirgða.

I.

    Fyrsta áhættumat skv. 4. gr. skal gefið út eigi síðar en 1. apríl 2019.

II.

    Áhættumat tilkynningarskyldra aðila skv. 5. gr. skal liggja fyrir eigi síðar en 1. júní 2019.

III.

    Ákvæði 3. mgr. 9. gr. tekur gildi tólf mánuðum eftir gildistöku laganna.

IV.

    Aðilum skv. 36. gr. ber að skrá sig hjá ríkisskattstjóra eigi síðar en sex mánuðum eftir gildistöku laganna.

V.

    Þrátt fyrir ákvæði 2. mgr. 39. gr. skulu fulltrúar Neytendastofu, endurskoðendaráðs og eftirlitsnefndar fasteignasala eiga sæti í stýrihóp um aðgerðir gegn peningaþvætti og fjármögnun hryðjuverka og aðstoða ríkisskattstjóra við úttektir frá gildistöku laganna og fram til 1. júní 2019.

Greinargerð.

1. Inngangur.
    Frumvarpið er samið af starfshópi sem dómsmálaráðherra skipaði til innleiðingar á fjórðu peningaþvættistilskipun Evrópusambandsins ( 2015/849/EB) og völdum ákvæðum úr fimmtu peningaþvættistilskipun Evrópusambandsins ( 2018/843/EB). Fjórða peningaþvættistilskipunin tók gildi í Evrópusambandinu 26. júní 2017 og verður tekin upp í samninginn um Evrópska efnahagssvæðið (EES-samninginn) í desember 2018. Tilskipunin er heildarendurskoðun á þriðju peningaþvættistilskipun Evrópusambandsins ( 2005/60/EB) með síðari breytingum um sama efni. Fimmta peningaþvættistilskipunin, sem var birt í stjórnartíðindum Evrópusambandsins þann 19. júní 2018, breytir nokkrum ákvæðum fjórðu tilskipunarinnar. Þótti tilefni til að taka einstök ákvæði hennar upp við þessa heildarendurskoðun á gildandi lögum um aðgerðir gegn peningaþvætti og fjármögnun hryðjuverka nr. 64/2006. Nauðsynlegt var að fara í heildarendurskoðun á gildandi lögum þar sem gera þarf verulegar úrbætur á lögunum til að uppfylla þær lágmarkskröfur sem gerðar eru á alþjóðavettvangi. Fyrirhugað er að fjórða peningaþvættistilskipunin verði tekin upp EES-samninginn í desember 2018 með ákvörðun sameiginlegu EES-nefndarinnar og að því loknu verði sú ákvörðun borin undir Alþingi sem samþykkir innleiðingu hennar í EES-samninginn með þingsályktun. Drög að ákvörðun sameiginlegu EES-nefndarinnar liggja fyrir og hefur við innleiðinguna verið tekið tillit til þeirrar aðlögunar sem leiðir af upptöku hennar í EES-samninginn. Fjórðu peningaþvættistilskipuninni hefur nú þegar verið breytt með fimmtu peningaþvættistilskipuninni sem samþykkt var af Evrópusambandinu í sumar. Breytingar á fimmtu peningaþvættistilskipuninni leiða að miklu leyti af þeim athugasemdum sem alþjóðlegi framkvæmdahópurinn, Financial Action Task Force (FATF), hefur gert við löggjöf Evrópusambandsins og þykir því tilefni til að taka einstök ákvæði hennar upp í þessa endurskoðun að svo miklu leyti sem þau fara ekki í bága við skyldur Íslands samkvæmt fjórðu tilskipuninni. Áréttað er að fjórða peningaþvættiskipunin er lágmarkstilskipun og er því ríkjum heimilt að ganga lengra en ákvæði hennar kveða á um.
    Með peningaþvætti, sbr. 12. tölul. 3. gr. frumvarpsins, er átt við þegar einstaklingur eða lögaðili tekur við, nýtir eða aflar sér eða öðrum ávinnings af broti sem er refsivert samkvæmt almennum hegningarlögum eða öðrum lögum. Samkvæmt framangreindu geta öll brot sem eru refsiverð samkvæmt almennum hegningarlögum eða öðrum lögum verið frumbrot peningaþvættis. Þetta geta verið öll brot sem hafa fjárhagslegan ávinning svo sem fíkniefnaviðskipti, fjársvik, skattalagabrot, innherjasvik, þjófnaður, fjárkúgun, mútur, mansal, vændi, sala á barnaklámi o.s.frv. Það telst jafnframt vera peningaþvætti þegar einstaklingur eða lögaðili umbreytir ávinningi af refsiverðu broti, flytur hann, sendir, geymir, aðstoðar við afhendingu hans, leynir honum eða upplýsingum um uppruna hans, eðli, staðsetningu, ráðstöfun eða flutningi ávinnings eða stuðlar á annan sambærilegan hátt að því að tryggja öðrum ávinning af slíkum refsiverðum brotum. Traustum vörnum gegn peningaþvætti er ætlað að hindra eða a.m.k. að draga verulega úr því að fjármunum sem stafa frá slíkri ólögmætri háttsemi verði komið í umferð í hinu hefðbundna fjármálakerfi og þar með standa vörð um trúverðugleika, stöðugleika og orðspor fjármálamarkaðarins.

2. Tilefni og nauðsyn lagasetningar.
    Í upphafi árs 2017 hóf FATF úttekt á vörnum Íslands gegn peningaþvætti og fjármögnun hryðjuverka. Ísland gekk til samstarfs við FATF í september 1991 og með aðild sinni skuldbatt Ísland sig til að samræma löggjöf og laga starfsreglur að tilmælum FATF. Tilmæli FATF hafa verið leiðandi á heimsvísu og hafa tilskipanir Evrópusambandsins um aðgerðir gegn peningaþvætti og fjármögnun hryðjuverka verið í samræmi við þau. Tilmælin mynda því grundvöll sameiginlegra viðbragða við framangreindum ógnum við sjálfstæði fjármálakerfisins og tryggja jafnvægi innan þess.
    Af hálfu FATF eru framkvæmdar úttektir á því hvernig ríkjum hefur tekist að innleiða tilmælin og efla varnir sínar gegn peningaþvætti og fjármögnun hryðjuverka. Ríki fá í kjölfarið frest til þess að bregðast við og gera úrbætur. Bregðist ríki ekki við kröfum FATF hafa aðildarríkin sammælst um að beita hvert annað þrýstingi eftir því sem við á með því að setja ríki á sérstakan lista yfir „ósamvinnuþýð“ ríki eða ríkjasvæði. Felst þrýstingurinn m.a. í því að gera strangari kröfur til ríkjanna eða aðila þar búsettra um hvers konar fjármálastarfsemi, stofnun útibúa, dótturfélaga og umboðsskrifstofa og jafnvel útgáfu aðvarana um að viðskipti við aðila þessara ríkja geti falið í sér hættu á peningaþvætti. Ófullnægjandi varnir geta því haft víðtæk áhrif á fjármálakerfið í heild sinni og trúverðugleika á alþjóðavettvangi.
    Úttekt FATF á Íslandi lauk í febrúar 2018 og var skýrsla með niðurstöðum hennar birt í byrjun apríl sama ár. Úttektin leiddi m.a. í ljós ýmsa veikleika á íslenskri löggjöf og þurfa stjórnvöld að bregðast við með skjótum hætti til að koma til móts við athugasemdir FATF. Ísland er nú í eftirfylgni hjá FATF sem felur m.a. í sér reglulega upplýsingagjöf til FATF um úrbætur vegna þeirra athugasemda sem fram koma í skýrslunni. Hefur Ísland frest fram í júní 2019 til að bregðast með viðeigandi hætti við athugasemdum FATF til að komast hjá því að gripið verði til þeirra aðgerða sem lýst er hér að framan. Frumvarpi þessu er ætlað að bregðast við athugasemdum FATF við einstök tilmæli þeirra eins og nánar er fjallað um við einstakar greinar frumvarpsins. Innleiðing á fjórðu peningaþvættistilskipuninni mun að miklu leyti koma til móts við þær athugasemdir sem gerðar voru. Í samræmi við 3. gr. laga um Evrópska efnahagssvæðið, nr. 2/1993, ber að skýra lögin og reglugerðir settar með stoð í þeim, að svo miklu leyti sem við á, til samræmis við EES-samninginn og þær reglur sem á honum byggja. Þá er rétt að hafa til hliðsjónar útgefnar leiðbeiningar og viðmiðunarreglur frá hinum evrópsku eftirlitsstofnunum svo og leiðbeiningar og tilmæli sem FATF eða önnur bær alþjóðasamtök og stofnanir gefa út. Með evrópsku eftirlitsstofnununum er átt við Evrópsku bankaeftirlitsstofnunina (EBA), Evrópsku vátrygginga- og lífeyrissjóðaeftirlitsstofnunina (EIOPA), Evrópsku verðbréfamarkaðseftirlitsstofnunina (ESMA), Evrópska kerfisáhætturáðið (ESRB) og Seðlabanka Evrópu (ECB).

3. Meginefni frumvarpsins.
    Þrátt fyrir að um heildarendurskoðun laga um aðgerðir gegn peningaþvætti og fjármögnun hryðjuverka sé að ræða byggir frumvarpið á grunni eldri laga. Meginefni laganna, eins og gildandi lög, snýr að skyldu tilkynningarskyldra aðila til að framkvæma áreiðanleikakönnun, haga innra skipulagi með þeim hætti að þeim sé kleift að greina allar grunsamlegar færslur og viðskipti og tilkynna til skrifstofu fjármálagreiningar lögreglu allar grunsamlegar færslur eða viðskipti.
    Til að tryggja að einstök ákvæði frumvarpsins séu ekki of íþyngjandi fyrir smáa tilkynningarskylda aðila sem stunda einsleita starfsemi er gert ráð fyrir því að tekið sé tillit til stærðar, eðlis og umfangs tilkynningarskyldra aðila og margbreytileika starfseminnar.

3.1. Nýir tilkynningarskyldir aðilar.
    Lagt er til að fleiri aðilar verði felldir undir gildissvið laga um aðgerðir gegn peningaþvætti og fjármögnun hryðjuverka sem tilkynningarskyldir aðilar. Þeir koma fram í 1. mgr. 2. gr. og eru umboðs- og dreifingaraðilar, sbr. g-lið, endurskoðunarfyrirtæki og aðilar sem færa bókhald eða sinna bókhaldsþjónustu fyrir þriðja aðila gegn endurgjaldi, sbr. l-lið, lögmannsstofur, sbr. m-lið, leigumiðlarar, sbr. o-lið, og listmunasalar og -miðlarar, sbr. p-lið. Framangreindar tillögur leiða af fimmtu peningaþvættistilskipuninni og athugasemdum FATF.

3.2. Áhættumat og áreiðanleikakönnun.
    Verði frumvarpið að lögum verður öllum tilkynningarskyldum aðilum gert skylt að framkvæma áhættumat á starfsemi sinni skv. 5. gr. og hafa áhættumiðað eftirlit með samningssamböndum sínum og viðskiptum. Áhættumati er ætlað greina annars vegar þær aðstæður þar sem aukin hætta er á peningaþvætti og fjármögnun hryðjuverka og hins vegar þær aðstæður þar sem er minni hætta. Niðurstöður áhættumats skal nota til að leggja mat á hversu ítarlega áreiðanleikakönnun skuli framkvæma, að teknu tilliti til ófrávíkjanlegra ákvæða, og til að ákveða fyrirkomulag reglubundins eftirlits með samningssamböndum. Eingöngu verður heimilt að framkvæma einfaldaða áreiðanleikakönnun í þeim tilvikum sem áhættumat sýnir fram á minni áhættu en almennt er. Þetta er grundvallarbreyting frá gildandi lögum þar sem heimilt er að framkvæma einfaldaða áreiðanleikakönnun þegar um er að ræða tiltekna aðila og tiltekin viðskipti.
    Efnisákvæði sem varða áreiðanleikakönnun eru ítarlegri í frumvarpinu en í gildandi lögum auk þess sem gerðar eru tillögur til breytinga á því við hvaða aðstæður tilkynningarskyldum aðilum er skylt að framkvæma aukna áreiðanleikakönnun, sbr. 13.–17. gr.

3.3. Einstaklingar í áhættuhópi vegna stjórnmálalegra tengsla.
    Ákvæði um einstaklinga í áhættuhópi vegna stjórnmálalegra tengsla eru ítarlegri en í gildandi lögum og munu taka jafnt til innlendra sem erlendra aðila. Tilkynningarskyldum aðilum er gert skylt að hafa til staðar aðferðir eða kerfi til að greina hvort viðskiptamaður þeirra teljist í áhættuhópi vegna stjórnmálalegra tengsla og ef svo er ber þeim að framkvæma aukna áreiðanleikakönnun í samræmi við ákvæði laganna.

3.4. Raunverulegur eigandi.
    Lagt er til að ákvæði um raunverulega eigendur verði gert ítarlegra, sbr. 13. tölul. 3. gr., og fjallað verði um hver telst vera raunverulegur eigandi fjárvörslusjóða og sambærilegra aðila. Í athugasemdum við töluliðinn er áréttað að gera skuli greinarmun á lagalegum eigendum (sjá skilgreiningu í umfjöllun um 3. gr. frumvarpsins) og raunverulegum eigendum. Jafnframt er til skoðunar að setja sérstaka löggjöf um raunverulega eigendur þar sem fjallað verður með ítarlegum hætti um hvaða upplýsingar um raunverulega eigendur beri að tilkynna til fyrirtækjaskrár ríkisskattstjóra.

3.5. Skrifstofa fjármálagreininga lögreglu.
    Samkvæmt gildandi lögum er það lögregla sem tekur á móti tilkynningum um grunsamleg viðskipti og sér um greiningu þeirra. Sú starfseining sem hefur þetta hlutverk er sjálfstæð rekstrareining innan embættis héraðssaksóknara og er í daglegu tali kölluð peningaþvættisskrifstofa. Heitið er hvergi að vinna í lögum og er ekki lýsandi fyrir starfsemina. Í frumvarpinu er lagt til að heiti einingarinnar verði lögfest sem skrifstofa fjármálagreininga lögreglu. Verkefni skrifstofunnar eru útfærð með ítarlegri hætti en gert er í gildandi lögum og heimildir hennar til að kalla eftir upplýsingum til að geta sinnt lögbundnum skyldum sínum auknar. Jafnframt eru heimildir skrifstofunnar til að miðla upplýsingum til erlendra systurstofnana teknar upp í lögin.

3.6. Tilkynningarskylda til skrifstofu fjármálagreininga lögreglu.
    Í 23. gr. er lagt til að öllum opinberum aðilum verði gert skylt að tilkynna skrifstofu fjármálagreininga lögreglu um grunsamleg viðskipti. Mikilvægt er að kveðið sé á um þetta í frumvarpinu svo að ekki sé vafi á að slík tilkynningarskylda víki þagnarskyldu stjórnvalda til hliðar. Öllum öðrum aðilum, utan tilkynningarskyldra aðila sem ber skylda til þess, er heimilt að tilkynna skrifstofu fjármálagreininga lögreglu grun um peningaþvætti og fjármögnun hryðjuverka.

3.7. Samhæfing, samvinna og yfirsýn.
    Lagt er til að skipun og hlutverk stýrihóps um aðgerðir gegn peningaþvætti og fjármögnun hryðjuverka verði lögfest, sbr. 39. gr. Helstu verkefni stýrihópsins samkvæmt frumvarpinu, eru að tryggja yfirsýn, samhæfingu og stefnumótun í málaflokknum. Í stýrihópnum eiga sæti fulltrúar þeirra stjórnvalda sem eiga aðkomu að málaflokknum, sem eru m.a. dómsmálaráðuneytið, atvinnuvega- og nýsköpunarráðuneytið, fjármála- og efnahagsráðuneytið, Fjármálaeftirlitið og aðrir eftirlitsaðilar með lögunum, Seðlabanki Íslands, Tollstjóri, skattyfirvöld, Héraðssaksóknari og Lögregla höfuðborgarsvæðisins.
    Til að gera stjórnvöldum kleift að vinna að markmiðum 39. gr. er lögbundinni þagnarskyldu aflétt milli fulltrúa í stýrihópi. Þó er áréttað í 55. gr. að þagnarskylda fylgi þeim upplýsingum sem eru veittar.
    Þá er kveðið á um samvinnu innanlands og samvinnu við erlendar systurstofnanir í 40.–42. gr. frumvarpsins sem ætlað er að tryggja að stjórnvöld miðli sín á milli eða til erlendra systurstofnana gögnum og upplýsingum sem kunna að heyra undir valdsvið þess sem upplýsingum er deilt með.
    Með framangreindu er komið til móts við athugasemdir FATF um skort á samhæfingu og samvinnu milli stjórnvalda.

3.8. Eftirlit.
    Í frumvarpinu er brugðist við athugasemdum FATF um eftirlit með tilkynningarskyldum aðilum. Samkvæmt gildandi lögum falla nokkrir tilkynningarskyldir aðilar utan eftirlits, t.d. lögmenn, aðilar á sviði fjárvörslu og fyrirtækjaþjónustu, happdrætti og fjársafnanir. Með eftirliti er átt við að tilteknum aðila sé falið að fylgjast með því að tilkynningarskyldur aðili uppfylli þær skyldur og kröfur sem leiðir af lögunum. Má þar nefna að hafa eftirlit með því að viðkomandi framkvæmi áhættumat sem samræmist kröfum laganna að teknu tilliti til stærðar, umfangs og eðlis starfseminnar, framkvæmi viðeigandi áreiðanleikakannanir, hafi viðeigandi stefnu, stýringar og verkferla, tryggi þjálfun starfsmanna, tilkynni grunsamleg viðskipti til skrifstofu fjármálagreininga lögreglu o.s.frv.
    Lagt er til að tryggt verði að allir sem falla undir gildissvið 2. gr. frumvarpsins sæti eftirliti. Eftirlit með aðilum sem falla undir a–k-lið verður áfram í höndum Fjármálaeftirlitsins en lagt er til að eftirlit með öðrum aðilum verði hjá ríkisskattstjóra.

3.9. Þvingunarúrræði og viðurlög.
    Verulegar breytingar eru lagðar til hvað varðar þvingunarúrræði og viðurlög, til samræmis við ákvæði fjórðu peningaþvættistilskipunarinnar og athugasemdir FATF þar að lútandi. Skortur á stjórnsýsluviðurlögum hefur leitt til þess að eftirlitsaðilar hafa, hingað til, ekki haft viðeigandi úrræði til að bregðast við brotum á lögunum, þar sem sektir eru einu viðurlögin samkvæmt gildandi lögum. Sektarmeðferð er flókið og hægfara ferli sem krefst atbeina dómstóla. Því er lagt er til að vikið verði frá þessu og þvingunar- og viðurlagaúrræði færð alfarið í hendur eftirlitsaðila, með heimildum til að beita dagsektum, stjórnvaldssektum, birtingum viðurlaga og, í alvarlegri tilvikum, brottvikningu æðstu stjórnenda eða afturköllun starfsleyfa. Almennt er skilvirkara að stjórnvöld beiti stjórnvaldsviðurlögum en að þau beri mál undir dómstóla, enda í lykilaðstöðu til að meta hvar þurfi að bregðast við á skilvirkan hátt til þess að halda uppi lögum. Telji tilkynningarskyldur aðili að hann hafi að ósekju verið beittur stjórnsýsluviðurlögum getur hann leitað eftir ógildingu á þeirri ákvörðun hjá dómstólum.

4. Samræmi við stjórnarskrá og alþjóðlegar skuldbindingar.
    Frumvarpinu er m.a. ætlað að innleiða fjórðu peningaþvættistilskipun Evrópusambandsins í innlenda löggjöf, eins og Íslandi er skylt vegna aðildar sinnar að EES-samningnum. Jafnframt er því ætlað að tryggja að Ísland uppfylli þær skuldbindingar sem það hefur undirgengist með aðild sinni að FATF.
    Í 50. og 51. gr. eru ákvæði sem lúta að stjórnarskrárvörðum atvinnuréttindum aðila skv. 75. gr. stjórnarskrár lýðveldisins Íslands, nr. 33/1944. Annars vegar er um að ræða ákvæði sem lúta að brottvikningu tiltekinna aðila og hins vegar afturköllun starfsleyfis eða skráningar. Í ljósi þeirra ríku almannahagsmuna sem felast í vörnum gegn peningaþvætti og fjármögnun hryðjuverka þykir ekki gengið lengra með framangreindum ákvæðum en ákvæði stjórnarskrárinnar heimilar, enda skal ekki gripið til þessara úrræða nema aðrar og vægari aðferðir dugi ekki til. Þannig er sá varnagli sleginn í ákvæðinu að þessum viðurlögum verði ekki beitt nema um sé að ræða vísvitandi, alvarleg, ítrekuð eða kerfisbundin brot gegn lögunum.

5. Samráð.
    Vinna við gerð frumvarpsins hófst í janúar 2018 eftir að dómsmálaráðherra skipaði starfshóp til að innleiða fjórðu peningaþvættistilskipun Evrópusambandsins og eftir atvikum fimmtu peningaþvættistilskipunina. Í nefndinni áttu sæti fulltrúar dómsmálaráðuneytisins, fjármála- og efnahagsráðuneytisins, atvinnuvega- og nýsköpunarráðuneytisins, Héraðssaksóknara, Fjármálaeftirlitsins og Samtaka fjármálafyrirtækja.
    Drög að frumvarpi án greinargerðar voru birt í samráðsgátt stjórnarráðsins þann 1. maí og var veittur frestur til að koma umsögnum á framfæri til 23. maí. Umsagnir bárust frá Samtökum fjármálafyrirtækja og Samtökum atvinnulífsins.
    Frumvarpið með greinargerð var birt í samráðsgátt stjórnarráðsins þann 25. júlí og veittur frestur til að koma umsögnum á framfæri til 14. ágúst. Umsagnir bárust frá Neytendastofu, Seðlabanka Íslands, Persónuvernd, Samtökum fjármálafyrirtækja og Samtökum iðnaðarins og Félagi íslenskra gullsmiða.
    Neytendastofa gerði athugasemdir við 2. og 36. gr. frumvarpsins. Athugasemdir við 2. gr. voru þrenns konar. Í fyrsta lagi taldi Neytendastofa að æskilegt væri að tryggja að aðilar sem falla undir r-lið 1. mgr. 2. gr. lúti tilkynningarskyldu þegar þeir hafa milligöngu um viðskipti með reiðufé, hvort sem þeir eru seljendur eða kaupendur. Ákvæði frumvarpsins var breytt að teknu tilliti til þessarar athugasemdar og tekur nú til viðskipta með reiðufé, hvort sem um er að ræða sölu eða kaup. Í öðru lagi gerði Neytendastofa tillögu um að fjallað væri um í dæmaskyni í greinargerð hvaða aðilar það væru sem falla undir r-lið 1. mgr. 2. gr. Tekið var tillit til þessarar athugasemdir og helstu aðilar sem falla undir gildissvið þessarar liðar eru nú nefndir í athugasemdum við ákvæðið. Að lokum taldi Neytendastofa að skoða ætti að lækka fjárhæðarmark ákvæðisins. Í ljósi þess að nú er unnið að heildstæðu áhættumati um peningaþvætti og fjármögnun hryðjuverka taldi nefndin rétt að bíða með slíka ákvörðun þar til áhættumatið liggur fyrir vorið 2019. Neytendastofa taldi jafnframt að fella ætti fleiri aðila undir skráningarskyldu 36. gr. frumvarpsins og nefndi í því samhengi bílasala og seljendur atvinnutækja. Það var afstaða nefndarinnar að bíða með slíka fjölgun þar til áhættumat samkvæmt framangreindu liggur fyrir.
    Persónuvernd gerði ekki athugasemdir við ákvæði frumvarpsins en áskildi sér rétt til að koma með athugasemdir á síðari stigum þess.
    Samtök atvinnulífsins gerðu athugasemd við 14. tölul. 3. gr. um hvaða hlutfall eigi að miða við varðandi raunverulegt eignarhald. Afstaða þeirra var að miða ætti við 25% eignarhalds eins og fjórða peningaþvættistilskipunin gerir en ekki 10% eins og gert var í fyrstu drögum frumvarpsins. Fallist var á athugasemdina.
    Samtök fjármálafyrirtækja gerðu athugasemd við 1. mgr. 46. gr. frumvarpsins. Var það mat samtakanna að gengið væri mun lengra en tilskipunin kveður á um og að afmarka eigi viðurlagaheimildir við brot sem eru alvarleg, ítrekuð og kerfisbundin. Nefndin var ekki sammála þessari afstöðu. Í 1. mgr. 59. gr. tilskipunarinnar segir að „Member States shall ensure that this Article applies at least to breaches on the part of obliged entities that are serious, repeated, systematic, or a combination thereof …“. Sambærilegt orðalag er að finna í inngangsorðum nr. 59. Tilskipunin felur í sér lágmarkassamræmingu, sbr. 5. gr. hennar og í höndum aðildarríkja að útfæra nánar viðurlagaákvæði í samræmi við lagasetningarvald og hefðir þeirra. Athugun á innleiðingu ákvæðisins í nokkrum aðildarríkjum Evrópusambandsins leiddi í ljós að ekkert þeirra hafði farið þá leið að binda sektarheimildir við alvarleg, ítrekuð eða kerfisbundin brot. Sjá lög nr. 692/2017 í Bretlandi. Danir skipta viðurlögum upp í brot annars vegar og ítrekuð, kerfisbundin eða alvarleg brot hins vegar, sbr. lög nr. 651/2017. Í Austurríki er ekki gerð krafa um ítrekuð, kerfisbundin eða alvarleg brot. Framsetning stjórnvaldssektarheimilda er í samræmi við framsetningu sambærilegra ákvæða í lögum um fjármálafyrirtæki, vátryggingarstarfsemi, verðbréfasjóði o.fl. Engin rök hafa verið leidd fram sem leiða til þess að öðruvísi ætti að fara með sektarheimildir samkvæmt þessum lögum.
    Samtök iðnaðarins og Félag íslenskra gullsmiða gerðu athugasemdir við 2. mgr. 37. gr. frumvarpsins sem þeir töldu vera of íþyngjandi og geta takmarkað verulega atvinnufrelsi gullsmiða. Annars vegar gerðu þeir athugasemdir við að aðili sem stendur að rekstri megi ekki hafa orðið gjaldþrota á síðustu fimm árum og hins vegar að mega ekki hafa hlotið dóm vegna brots á hinum ýmsu lagaákvæðum, að því er virðist óháð tímalengd frá broti. Þá var þess getið að krafa um gjaldþrot sé meira íþyngjandi en skilyrði laga um útgáfu meistarabréfa þar sem gerð er sú krafa að aðili hafi forræði á búi sínu. Tekið var tillit til framangreindra athugasemda. Kröfu um að hafa ekki orðið gjaldþrota á síðustu fimm árum var breytt í kröfu um að aðili hafi forræði á búi sínu og krafa um að hafa ekki hlotið dóm vegna brots á þeim lögum sem talin eru upp er takmörkuð við þrjú ár í stað fimm áður.
    Seðlabanki Íslands gerði athugasemdir við 3., 6., 9., 11., 20., 28. og 29. gr. Sumar þessara athugasemda lutu að orðalagi en ekki efnisþáttum og voru flestar þeirra samþykktar. Seðlabankinn gerði athugasemd við hugtakið millibankaviðskipti og sýndarfé eins og þau voru skilgreind í frumvarpinu. Taldi Seðlabankinn það misvísandi að nota hugtakið millibankaviðskipti eitt og sér í skilgreiningu hugtaksins þar sem hugtakið hefur rótgróna merkingu í íslensku máli. Var hugtakinu því í meðförum nefndarinnar breytt í millibankaviðskipti fjármálafyrirtækja. Athugasemdir Seðlabankans hvað varðar sýndarfé laut að viðskeytinu fé sem bankinn taldi að ætti að forðast að nota í þessu samhengi og lagði þess í stað til að notast yrði við hugtakið stafrænn skiptimiðill. Nefndin taldi að svo stöddu ekki rétt að gera breytingar á hugtakinu sem er þýðing á „virtual currency“. FATF vinnur nú að því að taka upp í tilmæli sín ákvæði um sýndarfé og hefur í þeirri vinnu verið notast við hugtakið „virtual assets“ eða sýndareignir. Æskilegt er að bíða eftir niðurstöðum þeirrar vinnu.

6. Mat á áhrifum.
    Innleiðing áhættumats og áhættumiðaðs eftirlits, samkvæmt fjórðu peningaþvættistilskipuninni, mun leiða af sér breytta nálgun á könnun á áreiðanleika viðskiptamanna tilkynningarskyldra aðila og að sama skapi breyta eftirliti tilkynningarskyldra aðila með viðskiptavinum og samningssamböndum. Talið er að þær breytingar sem hér er eru lagðar til muni tryggja árangursríkari varnir gegn peningaþvætti og fjármögnun hryðjuverka.

6.1. Áhrif á almenning.
    Breytt aðferðafræði við áreiðanleikakönnun kann að leiða til þess sumir viðskiptamenn þurfi að veita ítarlegri upplýsingar um viðskipti sín, uppruna fjármuna og auðs en áður hefur verið krafist. Ekki er gert ráð fyrir að frumvarpið hafi bein fjárhagsleg áhrif á almenning.

6.2. Áhrif á tilkynningarskylda aðila.
    Öllum tilkynningarskyldum aðilum verður gert skylt að áhættumeta starfsemi sína og uppfæra áhættumatið með reglubundnum hætti. Gert er ráð fyrir því að leggja þurfi þó nokkra vinnu í fyrsta áhættumatið sem muni síðan nýtast við uppfærslu þess. Áréttað er að umfang áhættumats fer eftir stærð, eðli, umfangi og margbreytileika starfsemi hins tilkynningarskylda aðila. Þetta ætti að leiða til þess að gerð áhættumats hjá smáum tilkynningarskyldum aðilum, sem stunda einsleita starfsemi, verði ekki of íþyngjandi.
    Auknar rannsóknarkröfur eru lagðar á tilkynningarskylda aðila til að staðfesta með sjálfstæðum hætti þær upplýsingar sem þeir afla hjá viðskiptamönnum í tengslum við áreiðanleikakönnun. Í sumum tilvikum getur verið fullnægjandi að afla upplýsinga hjá opinberum aðilum en í öðrum tilvikum kann að vera nauðsynlegt að fara í sjálfstæða gagnaöflun.

6.3. Áhrif á eftirlitsaðila og lögreglu.
    Verði frumvarpið að lögum bætast tvenns konar verkefni við hjá eftirlitsaðilum sem bæði tengjast áhættumati. Annað þeirra lýtur að skyldu eftirlitsaðila til að taka upp áhættumiðað eftirlit. Í því felst að eftirlitsaðilum ber að áhættumeta þá tilkynningarskyldu aðila sem þeir hafa eftirlit með, bæði fjármálamarkaðinn í heild og starfsemi einstakra aðila, m.a. hvað varðar einstakar vörur og þjónustu sem þeir bjóða upp á. Einnig ber þeim að greina hvar meiri hætta er til staðar og hvar er hún er minni og leggja áherslu á eftirlit með þeirri starfsemi og viðskiptum þar sem meiri hætta er á peningaþvætti og fjármögnun hryðjuverka. Gerð áhættumats er nýtt verkefni sem mun krefjast sérstaks vinnuframlags af hálfu eftirlitsaðila. Hitt verkefnið snýr að yfirferð áhættumats sem tilkynningarskyldum aðilum er skylt að framkvæma. Eftirlitsaðilum er skylt að leggja mat á aðferðarfræði, efni og niðurstöður áhættumats tilkynningarskyldra aðila, þar á meðal hvort áhættumatið byggi á viðurkenndri aðferðarfræði og að niðurstöður séu í samræmi við þau gögn sem matið byggist á.
    Jafnframt verður eftirlitsaðilum heimilt að beita viðurlögum vegna brota á lögunum sem kann að leiða til aukinna verkefna verði tilkynningarskyldir aðilar uppvísir að brotum.
    Aukin umfjöllun um málaflokkinn bæði í aðdraganda og í kjölfarið á úttekt FATF hefur þegar leitt til fjölgunar á tilkynningum til peningaþvættisskrifstofu (skrifstofu fjármálagreininga lögreglu). Árið 2016 voru mótteknar tilkynningar 655, árið 2017 voru þær 718 og fyrstu 8 mánuði 2018 eru tilkynningarnar orðnar rúmlega 800. Fjölgun tilkynninga hefur leitt til fleiri rannsókna af hálfu lögreglu og er fyrirséð að málafjöldi muni halda áfram að aukast með aukinni fræðslu og eftirliti sem stefnt er að á næstu mánuðum.

6.4. Áhrif á ríkissjóð.
    Verkefni stýrihóps um aðgerðir gegn peningaþvætti og fjármögnun hryðjuverka, sbr. 39. gr., bætast við önnur verkefni dómsmálaráðuneytisins. Gert er ráð fyrir því að bætt verði við stöðugildi hjá ráðuneytinu til að halda utan um og sinna málefnum stýrihópsins og öðrum verkefnum sem tengjast aðgerðum gegn peningaþvætti og fjármögnun hryðjuverka. Ætla má að efling eftirlits með tilkynningarskyldum aðilum sem falla undir l–s-liði 2. gr. muni í upphafi hafa í för með sér kostnað sem nemur allt að þremur stöðugildum. Gert er ráð fyrir því að skoðað verði hvort og þá með hvaða hætti hægt verði að leggja eftirlitsgjald á þá aðila sem sæta þessu eftirliti eins og aðrir tilkynningarskyldir aðilar greiða vegna eftirlits Fjármálaeftirlitsins.

Athugasemdir við einstakar greinar frumvarpsins.

Um 1. gr.

    Greinin er efnislega samhljóða 1. gr. gildandi laga.

Um 2. gr.

    Framsetning ákvæðisins er óbreytt frá gildandi lögum fyrir utan að aðilum sem lögunum er ætlað að taka til er fjölgað í samræmi við kröfur tilskipunar 2015/849/EB og eftir atvikum tilskipunar 2018/843/EB. Þeir nýju aðilar sem falla undir gildissviðið eru umboðs- og dreifingaraðilar skv. g-lið, aðilar sem færa bókhald eða sinna bókhaldsþjónustu fyrir þriðja aðila gegn endurgjaldi skv. l-lið, leigumiðlarar skv. o-lið og listmunasalar og sambærilegir aðilar skv. p-lið. Jafnframt er lagt til að lögmannsstofur, fasteignasölur og endurskoðunarfyrirtæki falli undir gildissvið laganna. Einstaklingar sem starfa innan þessara fyrirtækja falla nú þegar undir gildissvið laganna og eðlilegt að þeir lögaðilar sem þeir starfa hjá geri það líka.
    Með i-lið 2. gr. eru lagðar til breytingar á sambærilegu ákvæði gildandi laga. Lagt er til að þeir aðilar sem uppfylla öll þau þrjú skilyrði sem kveðið er á um teljist ekki tilkynningarskyldir aðilar sem leiðir þá til þess að þeir þurfi ekki að hljóta skráningu Fjármálaeftirlitsins sem gjaldeyrisskiptastöð skv. 35. gr. Meginskilyrðið er að gjaldeyrisviðskipti sé hliðarstarfsemi sem tengist með beinum hætti aðalstarfsemi viðkomandi og sé aðeins veitt viðskiptamönnum aðilans. Hér er t.d. átt við hótel, verslanir og önnur þjónustufyrirtæki sem bjóða fyrst og fremst upp á aðra starfsemi en gjaldeyrisskipti en veita þá þjónustu í tengslum við aðalstarfsemi sína. Sem dæmi má nefna hótel sem býður gestum sínum upp á að skipta gjaldeyri gegn þóknun eða verslanir sem við sölu á vöru taka við greiðslu í erlendum gjaldmiðli en gefa til baka í íslenskum krónum. Aftur á móti má gera ráð fyrir að t.d. upplýsingamiðstöð fyrir ferðamenn, sem býður upp á gjaldeyrisskipti gegn þóknun fyrir hverja þá aðila sem óska eftir þjónustunni, uppfylli ekki skilyrði undanþágunnar og þurfi að sækja um skráningu sem gjaldeyrisskiptastöð. Það er í höndum Fjármálaeftirlitsins að meta hvort skilyrði undanþágunnar eru uppfyllt.
    Lögð er til sú breyting frá gildandi lögum að endurskoðunarfyrirtæki teljist til tilkynningarskyldra aðila svo og aðilar sem sinna skattaráðgjöf og þeir sem færa bókhald eða sinna bókhaldsþjónustu fyrir þriðja aðila gegn endurgjaldi, sbr. l-lið. Í gildandi lögum er skattaráðgjöf talin upp sem einn þáttur í þjónustu aðila á sviði fjárvörslu- og fyrirtækjaþjónustu. Með tilfærslunni er ætlað að tryggja að allir aðilar sem veita skattaráðgjöf gegn endurgjaldi falli undir gildissviðið. Ólíkt því sem á við um aðila sem falla undir m-lið þá eru ekki talin upp einstök verkefni þeirra aðila sem falla undir l-lið. Af því leiðir að öll þjónusta, ráðgjöf og starfsemi, sem aðilar samkvæmt þessum lið veita, fellur undir gildissviðið, þar á meðal þegar þeir veita þá þjónustu sem talin er upp í m-lið.
    Lögmannsstofur, lögmenn og aðrir sérfræðingar (t.d. lögfræðingar), sbr. m-lið, falla undir gildissvið laganna þegar um er að ræða þá umsýslu og ráðgjöf sem fjallað er um í liðum i–vi í m-lið. Ákvæðinu er hér skipt upp í nokkra liði í stað þessa að telja alla þættina upp í einni málsgrein. Uppskiptingin skýrir betur við hvaða aðstæður þessum aðilum beri að framkvæma áreiðanleikakönnun og eftir atvikum þær aðstæður sem ber að senda tilkynningu um skv. 21. gr. Áréttað er að þagnarskylda lögmanna, sbr. 22. gr. lögmannalaga, nr. 77/1998, víkur fyrir skyldu lögmanna til að tilkynna til skrifstofu fjármálagreininga lögreglu um grun á peningaþvætti og fjármögnun hryðjuverka nema um sé að ræða athugun á lagalegri stöðu skjólstæðings í tengslum við dómsmál, sbr. 2. mgr. 20. gr. og 3. mgr. 38. gr.
    Undir r-lið falla einstaklingar og lögaðilar sem í atvinnuskyni eiga viðskipti sem greitt er fyrir með reiðufé, hvort sem viðskiptin fara fram í einni greiðslu eða fleiri sem virðast tengjast hver annarri, að fjárhæð 10.000 evrur eða meira miðað við opinbert viðmiðunargengi eins og það er skráð hverju sinni. Skiptir ekki máli hvort greiðslunni er skipt niður ef heildarfjárhæð hlutarins fer yfir viðmiðunarfjárhæðina. Ákvæðið gildir um verslunareigendur, svo sem seljendur eðalmálma og -steina og aðra aðila, t.d. bílasölur, veðlánafyrirtæki, sölu atvinnutækja o.s.frv. þegar þeir selja eða kaupa einstaka vörur sem ná þessari fjárhæð eða hærri.

Um 3. gr.

    Í ákvæðinu eru nokkrar skilgreiningar sem ekki eru í gildandi lögum og rétt er að gera nánari grein fyrir.
    Í 6. tölul. er tekin upp skilgreining á aðilum sem eru í áhættuhópi vegna stjórnmálalegra tengsla. Hugtakið hefur ekki áður verið skilgreint í lögum um aðgerðir gegn peningaþvætti og fjármögnun hryðjuverka. Skilgreiningin er sambærileg þeirri sem fram kemur í reglugerð nr. 811/2008 um einstaklinga í áhættuhópi vegna stjórnmálalegra tengsla með tilliti til aðgerða gegn peningaþvætti og fjármögnun hryðjuverka. Gerðar eru þrjár breytingartillögur í samræmi við 9. tölul. 3. gr. tilskipunar 2015/849/EB. Í fyrsta lagi að fella alla einstaklinga sem teljast í áhættuhópi vegna stjórnmálalegra tengsla undir skilgreininguna – ekki aðeins þá sem eru búsettir utan Íslands, eins og nú er gert. Í öðru lagi er einstaklingum sem sinna framkvæmdastjórn stjórnmálaflokka bætt við þá sem teljast í áhættuhópi, í c-lið. Með framkvæmdastjórn stjórnmálaflokka er átt við einstaklinga innan stjórnmálaflokka sem hafa vald, einir sér eða með atbeina annarra, til að taka ákvörðun um frambjóðendur flokksins og vald til að ákveða ráðstöfun fjármuna hans. Í þriðja lagi er framkvæmdastjórum, aðstoðarframkvæmdastjórum og stjórnarmönnum alþjóðasamtaka og -stofnana bætt við þá einstaklinga sem í hópinn falla, í h-lið. Við mat á þekktum samstarfsmönnum og viðskiptatengslum skal horft til sambærilegra hugtaka í lögum um fjármálafyrirtæki, nr. 161/2002, og túlkunar á þessum hugtökum frá Evrópusambandinu eða alþjóðasamtökum.
    Í 9. tölul. er gjaldmiðill skilgreindur sem seðlar, mynt og aðrir gjaldmiðlar sem seðlabankar eða aðrir til þess bærir opinberir aðilar gefa út. Með tilvísun til annarra gjaldmiðla er m.a. átt við rafmynt sem seðlabankar víða um heim eru með til skoðunar að taka upp og gefa út sem gjaldmiðil.
    Samkvæmt 11. tölul. telst það til millibankaviðskipta þegar fjármálafyrirtæki veitir öðru fjármálafyrirtæki fjármálaþjónustu, m.a. í formi innstæðureikninga, alþjóðlegra millifærslna, greiðslujöfnunar, lausafjárstýringar, lánveitinga, verðbréfaviðskipta eða fjárfestinga. Hröð tækniþróun á vettvangi fjármálaþjónustu gerir það að verkum að ekki er unnt að telja upp með tæmandi hætti hvers konar þjónusta fellur undir ákvæðið. Mikilvægt er að tilkynningarskyldir aðilar meti með gagnrýnum hætti þau millibankaviðskipti sem þeir eiga og þær hættur sem kunna að stafa af slíkri þjónustu.
    Þrjár tillögur eru gerðar til breytinga á skilgreiningu gildandi laga á raunverulegum eiganda, sbr. 13. tölul. Í ii-lið a-liðar er kveðið á um með hvaða hætti eigi að bregðast við ef eignarhald lögaðila er svo dreift að engir einstaklingar eiga eða stýra viðskiptamanni, sbr. einnig 2. mgr. 10. gr. Í b-lið er nýmæli sem varðar það hver telst raunverulegur eigandi fjárvörslusjóða (e. trusts) eða annarra sambærilegra aðila (e. legal arrangements). Það skiptir ekki máli hvaða nafni slíkt fyrirkomulag er nefnt í öðrum tungumálum, s.s. fiducie (franska), treuhand (þýska) og fideicomiso (spænska). Ef uppbygging, skipulag og hlutverk þess er með sambærilegum hætti og fjárvörslusjóðir og viðkomandi fellur ekki undir skilgreiningu a-liðar um lögaðila þá ber að kanna eignarhald þeirra með sama hætti og um fjárvörslusjóði sé um að ræða. Afla ber fullnægjandi upplýsinga um fjárvörsluaðila (e. trustee), stofnaðila (e. settlor) og ábyrgðaraðila (e. protector), auk rétthafa og annarra aðila sem hafa bein eða óbein yfirráð fyrir fjárvörslusjóði.
    Áréttað er að gera þarf greinarmun á lagalegum eiganda og raunverulegum eiganda. Lagalegur eigandi er sá sem er skráður eigandi fjármuna, eigna eða fyrirtækja. Hann þarf þó ekki endilega að vera raunverulegur eigandi. Aðilar kunna að sjá sér hag í því að leyna eignarhaldi sínu, t.d. með því að fá aðra aðila til þess að koma fram sem lagalegur eigandi, með því að stofna flókið net fyrirtækja eða eignarhaldsfyrirtækja (skúffufélaga) eða með öðrum hætti. Raunverulegur eigandi er alltaf einstaklingur og er sá aðili sem í raun getur tekið ákvörðun um ráðstöfun fjármuna, stjórnun aðila eða sá aðili sem nýtur góðs af þeim eignum sem um ræðir.
    Í skilgreiningu á refsiverðri háttsemi, sbr. 14. tölul., er vísað annars vegar til 100. gr. a–c almennra hegningarlaga, nr. 19/1940, og hins vegar til frumbrota skv. 264. gr. sömu laga. Hvað varðar fjármögnun hryðjuverka er átt við fjármögnun allra þeirra brota sem falla undir 100. gr. a nefndra laga. Þá falla öll frumbrot peningaþvættis undir refsiverða háttsemi. Þetta geta t.d. verið brot á ávana- og fíkniefnalögum, fjársvik og annars konar auðgunarbrot, mútur, spilling, skattsvik og starfsemi skipulagðra glæpasamtaka, svo fremi sem brotið er refsivert að lögum.
    Ekki er lögð til breyting á skilgreiningum um sýndarfé, sbr. 16. tölul., og þjónustuveitendum stafrænna veskja, sbr. 20. tölul., sem tekin voru upp í gildandi lög með breytingalögum nr. 91/2018. Rétt er þó að árétta frekar til hvaða þátta beri að horfa við afmörkun á gildissviði þessara ákvæða.
          Tilvísun í fé í skilgreiningu á sýndarfé leiðir til þess að þjónustusamningar, vottunarkerfi og önnur sambærileg stafræn auðkenni falla utan skilgreiningarinnar.
          Þjónustuveitendur sem bjóða upp á viðskipti milli sýndarfjár, rafeyris og gjaldmiðla falla undir gildissvið frumvarpsins. Vildarpunktar eða annars konar viðskiptavild sem almennt er hluti af tryggðarkerfi fyrirtækja falla utan gildissviðs frumvarpsins.
          Þjónustuveitendur sem bjóða upp á vörsluþjónustu á auðkennum sýndarfjár (e. private key), sem notuð eru til að halda utan um, geyma og flytja sýndarfé falla undir gildissvið frumvarpsins. Þjónustuveitendur sem bjóða upp á vörslu á annars konar auðkennum falla þar með utan gildissviðs frumvarpsins. Sama á við um aðila sem leggja fram hug- eða vélbúnað ef þeir bjóða ekki jafnframt upp á vörslur á auðkennum sýndarfjár.
          Stafrænt veski er ekki skilgreint í frumvarpinu en skilgreiningu þess má leiða af skilgreiningu þjónustuveitanda stafrænna veskja, þ.e. að með stafrænu veski er átt við hugbúnað, kerfi eða annars konar miðil sem heldur utan um auðkenni sýndarfjár (e. private key). Þetta auðkenni gerir eigendum sýndarfjár kleift að ráðstafa sýndarfé í þeirra eigu. Varsla á öðrum auðkennum fellur þar af leiðandi utan gildissviðsins.
    Skilgreining á viðurkenndum persónuskilríkjum í 19. tölul. er nánast óbreytt frá gildandi lögum. Deili teljast aðeins hafa verið sönnuð á einstaklingum, samkvæmt a-lið 1. mgr. 10. gr., með framvísun þeirra skilríkja sem upp eru talin í ákvæðinu. Hér er þó lögð til sú breyting að undir viðurkennd persónuskilríki falli einnig nafnskírteini sem gefin eru út af erlendum stjórnvöldum sem eru til þess bær. Tilkynningarskyldum aðilum sem byggja áreiðanleikakönnun á nafnskírteinum gefnum út af erlendum stjórnvöldum ber að tryggja að um viðurkennd persónuskilríki sé að ræða, í skilningi laganna, t.d. með því að setja sig í samband við útgefanda þess en upp hafa komið tilvik þar sem framvísað hefur verið fölsuðum nafnskírteinum. Tilkynningarskyldum aðilum ber, með vísan til 33. gr. frumvarpsins, að tryggja að starfsmenn hljóti viðeigandi fræðslu og þjálfun við greiningu og mat á erlendum skilríkjum. Meginreglan er að tryggja ber að um frumskilríki sé að ræða. Það kann þó ekki að vera hægt í öllum tilvikum, t.d. þegar um er að ræða viðskipti erlendra aðila sem ekki eru staddir hér á landi. Í slíkum undantekningatilvikum er mikilvægt að gæta sérstakrar varkárni og fara t.d. fram á að lögbókandi (notarius publicus) eða annar viðeigandi aðili staðfesti réttmæti skilríkjanna. Áreiðanleikakönnun er ávallt á ábyrgð viðkomandi tilkynningarskylds aðila og á hans ábyrgð að tryggja að áreiðanleikakönnun byggi á fullnægjandi gögnum. Komið hafa upp tilvik þar sem aðilar eiga ekki fullnægjandi skilríki til að sanna á sér deili. Er hér t.d. átt við flóttamenn sem hafa komið til landsins án skilríkja eða á fölsuðum skilríkjum. Til að koma ekki í veg fyrir að þessir aðilar hafi aðgang að almennri fjármálaþjónustu, sbr. reglur Fjármálaeftirlitsins um heilbrigða og eðlilega viðskiptahætti, nr. 670/2013, er gert ráð fyrir því að heimilt sé að taka ferðaskilríki sem útgefin eru af Útlendingastofnun sem gild skilríki fyrir þessa aðila. Slík skilríki skulu þó aðeins veita aðgang að fjármálaþjónustu sem er nauðsynleg í nútímaþjóðfélagi og ef niðurstaða áhættumats felur í sér litla áhættu á peningaþvætti og fjármögnun hryðjuverka.
    Í 19. tölul. er hugtakið yfirstjórn skilgreint sem aðili, með fullnægjandi þekkingu á áhættu tilkynningarskylds aðila vegna peningaþvættis og fjármögnunar hryðjuverka, sem er nægilega háttsettur til að taka ákvarðanir varðandi slíka áhættu. Jafnframt er tekið fram að viðkomandi þurfi ekki í öllum tilvikum að vera stjórnarmaður í tilkynningarskyldum aðila. Í ljósi þess að stærð, umfang og stjórnskipulag tilkynningarskyldra aðila er mismunandi þykir ekki rétt að gera fortakslausa kröfu um að þessi aðili eigi sæti í stjórn hins tilkynningarskylda aðila. Í tilvikum stærri lögaðila, t.d. þeirra sem starfa á fjármálamarkaði, kunna þau lög sem eiga við um starfsemi þeirra að leiða til þess að þetta hlutverk sé í höndum stjórnar fyrirtækisins. Í öðrum tilvikum gæti framkvæmdastjóri aðilans eða ábyrgðarmaður skv. 34. gr. verið talinn til yfirstjórnar.

Um 4. gr.

    Ákvæðið byggist á 7. gr. tilskipunar 2015/849/EB og er nýmæli í löggjöf um aðgerðir gegn peningaþvætti og fjármögnun hryðjuverka. Ákvæðið tekur jafnframt mið af tilmælum FATF nr. 1.
    Í 1. mgr. kemur fram að Ríkislögreglustjóri skuli framkvæma áhættumat á peningaþvætti og fjármögnun hryðjuverka. Áhættumat skal framkvæmt samkvæmt viðurkenndri aðferðafræði og innihalda greiningu og mat á hættu á peningaþvætti og fjármögnun hryðjuverka. Þannig skal matið, eins og unnt er, byggja á öllum viðeigandi hlutlægum upplýsingum og gögnum frá stjórnvöldum, t.d. eftirlitsaðilum og réttarvörsluaðilum, markaðsaðilum og eftir atvikum erlendum ríkjum og stofnunum. Stjórnvöldum er skylt að veita Ríkislögreglustjóra upplýsingar sem nauðsynlegar eru við gerð áhættumats. Í því felst m.a. að eftirlitsaðilum er skylt að veita greinargóðar upplýsingar um starfsemi tilkynningarskyldra aðila sem þeir búa yfir eða afla sérstaklega við undirbúning áhættumatsins. Í þeim tilvikum þar sem takmarkaðar upplýsingar og gögn eru til staðar kann að þurfa að afla sérfræðiálits við mat á áhættu. Við gerð áhættumatsins skal jafnframt taka mið af áhættumati sem framkvæmdastjórn Evrópusambandsins framkvæmir en í því er fjallað um helstu áhættuþætti á innri markaði Evrópusambandsins. Áhættumatinu er ætlað að leiða í ljós helstu veikleika og ógnir sem beinast að íslenskum hagsmunum og tilgreina aðferðir og leiðir til að stýra og draga úr greindri áhættu, sem kann að felast í breytingu á gildissviði laganna, aukinni fræðslu, viðvörunum o.fl. Til að Ríkislögreglustjóra sé unnt að byggja áhættumatið á öllum viðeigandi hlutlægum upplýsingum og gögnum er kveðið á um skyldu stjórnvalda til að veita honum allar nauðsynlegar upplýsingar. Þetta eru m.a. upplýsingar um tilkynningarskylda aðila sem eftirlitsaðilar búa yfir og upplýsingar frá stjórnvöldum um stærð og umfang tilkynningarskyldra aðila eða einstakra markaða.
    Gert er ráð fyrir því í 2. mgr. að stýrihópur um aðgerðir gegn peningaþvætti og fjármögnun hryðjuverka muni leiða og samræma þær aðgerðir sem grípa þarf til í þessum tilgangi. Fjallað er nánar um stýrihópinn í athugasemdum við 39. gr.
    Í 4. mgr. er talið upp í sjö liðum í hvaða tilgangi áhættumatið skal notað. Fyrstu fjórir liðirnir fjalla um efnisþætti áhættumatsins en næstu þrír um notkun á niðurstöðum þess. Áhættumatið er grundvöllur fyrir áhættumiðað eftirlit eftirlitsaðila og áhættumat tilkynningarskyldra aðila auk þess sem niðurstöður þess skulu notaðar til að grípa til viðeigandi ráðstafana til að draga úr hættu í fjármálakerfinu. Að lokum er gerð sú krafa að áhættumatið sé birt opinberlega í heild eða að hluta. Í áhættumati kunna að vera upplýsingar sem eiga að fara leynt og mikilvægt að heimilt sé að undanskilja einstaka þætti þess frá birtingu. Ekki er kveðið sérstaklega á um hvar eigi að birta áhættumatið. Gera má ráð fyrir því að ráðuneytið og þau stjórnvöld sem eiga aðild að stýrihópi um aðgerðir gegn peningaþvætti og fjármögnun hryðjuverka muni birta áhættumatið á vefsíðum sínum auk þess sem hagsmunaaðilum verði gert viðvart um áhættumatið í gegnum eftirlitsaðila eða þau samtök sem þeir eru aðilar að.
    Að lokum er í 5. mgr. kveðið á um að afhenda skuli þjóðaröryggisráði, lögbærum innlendum stjórnvöldum, evrópsku eftirlitsstofnununum, Eftirlitsstofnun EFTA og lögbærum stjórnvöldum annarra aðildarríkja afrit af áhættumatinu. Með lögbærum stjórnvöldum annarra aðildarríkja er átt við stjórnvöld sem hafa eftirlit með tilkynningarskyldum aðilum, stjórnvöld sem taka á móti tilkynningum um grunsamleg viðskipti og önnur stjórnvöld sem hafa hlutverki að gegna í aðgerðum gegn peningaþvætti og fjármögnun hryðjuverka. Afhending getur hvort sem er verið að eigin frumkvæði eða samkvæmt beiðni.
    Gert er ráð fyrir því skv. a-lið 56. gr. að ráðherra setji reglugerð um framkvæmd áhættumats. Efni reglugerðarinnar mun fjalla bæði um áhættumat samkvæmt þessu ákvæði og áhættumat skv. 5. gr.

Um 5. gr.

    Ákvæðið er innleiðing á 8. gr. tilskipunar 2015/849/EB og í því er að finna nokkur nýmæli. Ákvæðið tekur jafnframt mið af tilmælum FATF nr. 1 og 15. Í 7. gr. núgildandi laga, sem byggist á 2. mgr. 8. gr. tilskipunar 2005/60/EB, er kveðið á um heimild tilkynningarskyldra aðila til þess að framkvæma áreiðanleikakönnun á grundvelli áhættumats. Með frumvarpi þessu er lagt til að öllum tilkynningarskyldum aðilum verði gert skylt að framkvæma áhættumat á starfsemi sinni og eru taldir upp í dæmaskyni helstu áhættuþættir sem leggja þarf mat á. Tilkynningarskyldum aðilum ber að hafa áhættumat sem framkvæmt er á grundvelli 4. gr. til hliðsjónar við gerð eigin áhættumats. Áhættumati samkvæmt þessu ákvæði, eins og áhættumati skv. 4. gr., er ætlað að leiða í ljós helstu veikleika og ógnir sem beinast að viðkomandi tilkynningarskyldum aðila og tilgreina aðferðir og leiðir til að stýra og draga úr greindri áhættu. Þegar áhættumat leiðir í ljós mikla áhættu ber viðkomandi tilkynningarskyldum aðila að beita aukinni áreiðanleikakönnun á meðan lítil áhætta kann að leiða til þess að heimilt sé að beita einfaldaðri áreiðanleikakönnun. Allir tilkynningarskyldir aðilar ættu við gerð áhættumats samkvæmt ákvæðinu að hafa hliðsjón af viðmiðunarreglum um áhættuþætti frá hinum evrópsku eftirlitsstofnunum (þ.e. Joint Guidelines under Articles 17 and 18(4) of Directive (EU) 2015/849 on simplified and enhanced customer due diligence and the factors credit and financial institutions should consider when assessing the money laundering and terrorist financing risk associated with individual business relationships and occasional transactions – til styttingar nefndar The Risk Factors Guidelines).
    Lagt er til í 1. mgr. að áhættumat sé skriflegt og innihaldi greiningu á öllum áhættuþáttum sem varða þá starfsemi sem verið er að meta hverju sinni. Tilkynningarskyldir aðilar stunda efnisólíka starfsemi og umfang hennar er mismunandi. Af þessum ástæðum er kveðið á um að matið skuli taka mið af stærð, eðli og umfangi þeirrar starfsemi sem verið er að meta. Í þessu felst m.a. að áhættumat þeirra sem bjóða einsleita þjónustu eða vörur, eins og t.d. fasteignasalar gera, er einfaldara en áhættumat fjármálafyrirtækja sem bjóða upp á fjölbreytilega þjónustu og vörur. Þetta dregur úr hættu á því að kröfur frumvarpsins séu of íþyngjandi gagnvart minni aðilum. Áhættumatið er grundvallarþáttur í áhættumiðuðu eftirliti tilkynningarskyldra aðila. Þó að um grundvallarskjal sé að ræða er mikilvægt, eftir því sem við á, að horfa til annarra viðeigandi þátta við áhættumiðað eftirlit.
    Áhættumat skal uppfæra við tvenns konar aðstæður skv. 2. mgr. Annars vegar á ákveðnum tíma, á tveggja ára fresti, og hins vegar þegar tilefni er til þess. Tilefni geta snúið að innri og ytri þáttum, t.d. þegar verið er að markaðssetja nýjar vörur, notast er við nýja tækni (bæði nýjar vörur og vörur sem þegar eru í boði), breytingar verða á viðskiptamannahópi, viðskiptalöndum, regluverki o.fl. Það er á ábyrgð tilkynningarskyldra aðila að þekkja starfsemi sína og bregðast við með viðeigandi aðgerðum verði breytingar í starfsumhverfi þeirra sem kalla á uppfærslu á áhættumati.
    Við tilteknar aðstæður, sbr. 3. mgr., geta eftirlitsaðilar veitt tilkynningarskyldum aðilum undanþágu frá gerð áhættumats. Ákvæðið er undanþága frá meginreglu um gerð áhættumats og ber að túlka sem slíka. Slík undanþága dregur úr hættu á því að gerðar séu of íþyngjandi kröfur til tilkynningarskyldra aðila með einfalda starfsemi. Það er á ábyrgð þess tilkynningarskylda aðila, sem óskar eftir undanþágu samkvæmt þessu ákvæði, að sýna fram á að skilyrði hennar séu uppfyllt.
    Áhættumat framkvæmt í samræmi við þetta ákvæði og viðurkennda aðferðafræði, sbr. athugasemdir um 4. gr. hér að framan, á að leiða í ljós helstu áhættuþætti starfseminnar. Til að hafa fullnægjandi eftirlit og til þess að draga úr og stýra greindum áhættuþáttum ber tilkynningarskyldum aðilum skv. 4. mgr. að hafa stefnu, stýringar og verkferla. Í a-lið 5. mgr. er tilgreint hvaða efnisþætti skuli að lágmarki fjallað um í stefnu, stýringum og verkferlum svo og að tilnefna eigi ábyrgðarmann eins og fjallað er um í 34. gr. Í b-lið 5. mgr. er kveðið á um að sjálfstæð endurskoðunardeild eða sjálfstæður úttektaraðili skuli framkvæma úttekt eða eftir atvikum prófanir á þeirri stefnu, eftirliti og málsmeðferð sem um getur í a-lið. Eins og á fleiri stöðum í ákvæðinu ber að taka mið af stærð, eðli og umfangi í starfsemi hins tilkynningarskylda aðila sem leiðir t.d. til þess að vægari kröfur eru gerðar til einfaldrar starfsemi með færri starfsmenn. Í tilvikum stærri lögaðila, t.d. þeirra sem starfa á fjármálamarkaði, kunna þau lög sem eiga við um starfsemi þeirra að leiða til þess að þeim sé skylt að hafa sjálfstæða endurskoðunardeild. Í öðrum tilvikum kann að vera fullnægjandi að kaupa slíka þjónustu frá utanaðkomandi aðila.
    Samkvæmt 6. mgr. er þess krafist að yfirstjórn samþykki og hafi eftirlit með stefnu, stýringum og verkferlum. Með yfirstjórn er átt við aðila innan tilkynningarskylds aðila með fullnægjandi þekkingu á áhættu viðkomandi tilkynningarskylds aðila vegna peningaþvættis og fjármögnunar hryðjuverka og sem er nægilega háttsettur eða á annan hátt bær til að taka ákvarðanir varðandi slíka áhættu.

Um 6. gr.

    Greinin, sem byggist á 9. gr. tilskipunar 2015/849/EB og tekur mið af athugasemdum FATF við tilmæli nr. 19, er að mestu leyti óbreytt frá 2. mgr. 26. gr. gildandi laga. Hér er lagt til að eftirlitsaðilar samkvæmt frumvarpinu skuli birta tilkynningar og leiðbeiningar varðandi áhættusöm og ósamvinnuþýð ríki. Birtingin getur m.a. verið á heimasíðu eftirlitsaðilanna, með dreifibréfi til tilkynningarskyldra aðila eða á öðru því formi sem eftirlitsaðilar telja viðeigandi hverju sinni.
    Áhættusöm og ósamvinnuþýð ríki teljast þau ríki þar sem staðfest hefur verið að varnir gegn peningaþvætti og fjármögnun hryðjuverka séu ófullnægjandi. Gæta ber sérstakrar varfærni þegar stofnað er til viðskipta eða samningssambanda við einstaklinga og lögaðila sem þar eru staðsettir, sbr. 13. og 14. gr., auk þess sem óheimilt er að byggja áreiðanleikakönnun á upplýsingum frá tilkynningarskyldum aðilum með staðfestu í viðkomandi ríkjum, sbr. 18. gr.
    Samkvæmt b-lið 56. gr. er gert ráð fyrir því að gefin verði út reglugerð um áhættusöm og ósamvinnuþýð ríki. Henni er ætlað að innleiða reglugerð Evrópuþingsins og ráðsins (EB) nr. 2016/1675. Tilvitnuð reglugerð (stofnreglugerð) tekur mið af ákvörðunum FATF um áhættusöm og ósamvinnuþýð ríki sem teknar eru í kjölfar allsherjarfunda FATF sem haldnir eru í febrúar, júní og október ár hvert. Eftirlitsaðilum er ætlað að tilkynna sérstaklega um þær breytingar sem verða á stofnreglugerðinni svo og öllum ákvörðunum FATF um áhættusöm og ósamvinnuþýð ríki en liðið geta allt að þrír mánuðir frá ákvörðun FATF þar til þær eru teknar upp í reglugerð Evrópuþingsins og ráðsins.
    Þar sem landfræðileg áhætta er hluti af áhættumati tilkynningarskyldra aðila er mikilvægt að allar tilkynningar og viðvaranir séu birtar eins fljótt og verða má.

Um 7. gr.

    Í gildandi lögum er gerð krafa um að tilkynningarskyldir aðilar hafi ávallt upplýsingar um viðskiptamann og raunverulegan eiganda þegar um lögaðila er að ræða, sbr. 2. og 4. mgr. 5. gr. þeirra laga. Þrátt fyrir að það feli í sér vísbendingu um að nafnlaus viðskipti séu óheimil er það þó hvergi tekið skýrt fram í gildandi lögum. Hér er því lagt til að ákvæði nýrra laga verði mun skýrara en gildandi ákvæði, sbr. 10. gr. tilskipunar 2015/849/EB, með þeim breytingum sem leiðir af tilskipun 2018/843/EB.
    Þannig tekur 7. gr. af allan vafa um að þeim tilkynningarskyldu aðilum, sem falla undir a–k-lið, sé óheimilt að bjóða upp á nafnlaus viðskipti. Tekur ákvæðið til allra viðskipta, hvaða nafni sem þau nefnast, svo sem innlánsreikninga, fjárvörslureikninga, geymsluhólfa, eignastýringar, stofnunar fyrirtækja, stafrænna veskja o.s.frv. Undir nafnlaus viðskipti falla einnig viðskipti þar sem nafn viðkomandi er tilbúningur. Sambærileg skylda hvílir á fjármálafyrirtækjum skv. 113. gr. laga um fjármálafyrirtæki, nr. 161/2002. Eigi tilkynningarskyldir aðilar í nafnlausum viðskiptum ber þeim að fara fram á að viðskiptamaður sanni á sér deili. Þeir skulu einnig afla upplýsinga um raunverulegan eiganda í samræmi við kröfur III. kafla. Áréttað er að lagalegur eigandi kann að vera annar aðili en raunverulegur eigandi, sbr. umfjöllun um raunverulegan eiganda í 3. gr. Sé ekki unnt að verða við kröfum ákvæðisins innan gefinna tímamarka ber að slíta samningssambandi við viðkomandi aðila auk þess sem skortur á upplýsingum kann að vera tilefni til tilkynningar til skrifstofu fjármálagreininga lögreglu skv. 21. gr.
    Starfsemi og viðskipti sem ætlað er að tryggja nafnleysi stríðir gegn markmiðum laganna um gagnsæi viðskipta og eignarhald. Er því lagt til í 2. mgr. að tilkynningarskyldum aðilum skv. a–k-lið og l–m-lið 2. gr. verði óheimilt að taka þátt í eða stuðla að viðskiptum sem ætlað er að dylja raunverulegt eignarhald. Hér undir fellur m.a. stofnun fyrirtækja, fyrirsvar og stjórnarseta fyrirtækja, stofnun innlendra eða erlendra bankareikninga og viðskipti með fjármálagerninga fyrir hönd viðskiptamanna þar sem tilgangurinn er að dylja hver er raunverulegur eigandi. Sem dæmi má nefna sölu á félagi í eigu tilkynningarskylds aðila (skúffufélag) sem selt er til viðskiptavinar og seljandi sér síðan um fyrirsvar, t.d. með því að útvega aðila til að taka að sér stjórn og framkvæmdastjórn félagsins, en nafn raunverulegs eiganda kemur ekki fram í opinberum gögnum. Áréttað er að hér er ekki um tæmandi upptalningu að ræða. Öll umsýsla, ráðgjöf, fyrirsvar og annars konar þjónusta þar sem nafn raunverulegs eiganda kemur ekki fram fellur undir ákvæðið.

Um 8. gr.

    Greinin, sem fjallar um við hvaða aðstæður beri að framkvæma áreiðanleikakönnun, er að mestu leyti samhljóða 4. gr. gildandi laga. Ákvæðið byggist á 11. gr. tilskipunar 2015/849/EB auk þess sem höfð er hliðsjón af tilmælum FATF nr. 10 og 22. Með viðvarandi samningssambandi er átt við öll viðskipti önnur en svokölluð einsskiptis viðskipti. Tímamörk sem marka upphaf viðvarandi samningssambands geta t.d. verið:
          við stofnun innlánsreiknings,
          við undirritun lánssamnings eða samnings um þjónustu,
          við undirritun eignaleigusamnings í lausafjárkaupum,
          við undirritun samnings um eignastýringu,
          við undirritun samnings um einkabankaþjónustu,
          við afhendingu greiðslukorts til viðskiptamanns.
    Með einstökum viðskiptum er eingöngu átt við viðskipti aðila sem ekki eru í viðvarandi samningssambandi við tilkynningarskyldan aðila.
    Lögð eru til tvö nýmæli. Í d-lið er lagt til að framkvæma skuli áreiðanleikakönnun þegar um er að ræða viðskipti með vöru eða þjónustu sem greitt er fyrir með reiðufé, í einni greiðslu eða fleiri sem virðast tengjast hver annarri, að fjárhæð 10.000 evrur eða meira. Áréttað er að þessi liður tekur eingöngu til viðskipta með vöru og þjónustu. Annars konar viðskipti falla undir b-lið. Tilkynningarskyldir aðilar þurfa að haga starfsemi sinni og eftirlitskerfum með þeim hætti að unnt sé að greina margar lægri færslur sem tengjast sama aðila eða sömu viðskiptum. Í e-lið er lagt til að tilkynningarskyldir aðilar skv. s-lið framkvæmi áreiðanleikakönnun við útgreiðslu vinninga að fjárhæð 2.000 evrur eða meira.
    Athuga skal að það skiptir ekki máli í hvaða gjaldmiðli viðskipti fara fram. Ef um annan gjaldmiðil en evru er að ræða skal umreikna hann yfir í evrur miðað við gengi þess dags sem viðskipti eiga sér stað.

Um 9. gr.

    Samkvæmt 3. tölul. 15. gr. a gildandi laga er tilkynningarskyldum aðilum heimilt að framkvæma einfaldaða áreiðanleikakönnun þegar um er að ræða rafeyri og tiltekin skilyrði eru uppfyllt. Hér eru lagðar til grundvallarbreytingar á þessari heimild, sem leiðir af 12. gr. tilskipunar 2015/849/EB og þeim breytingum sem leiðir af tilskipun 2018/843/EB. Samkvæmt frumvarpi þessu verður eingöngu heimilt að víkja frá einstökum þáttum áreiðanleikakönnunar þegar um útgáfu rafeyris er að ræða ef áhættumat sem framkvæmt er skv. 4. eða 5. gr. sýnir fram á að um litla áhættu sé að ræða. Það er í höndum tilkynningarskyldra aðila að meta hvort áhætta sé þess eðlis að það réttlæti að vikið sé frá einstökum þáttum áreiðanleikakönnunar, og þá hvaða þáttum, og þarf það mat að vera forsvaranlegt. Ekki er kveðið á um það í ákvæðinu hvaða þáttum áreiðanleikakönnunar er heimilt að víkja frá heldur er gert ráð fyrir að það mat sé lagt í hendurnar á tilkynningarskyldum aðilum og taki mið af reglugerð um áreiðanleikakönnun, sbr. c-lið 56. gr., sem ráðherra er ætlað að setja. Heimild tilkynningarskyldra aðila til að víkja frá einstökum þáttum áreiðanleikakönnunar víkur þó ekki til hliðar skyldum tilkynningarskyldra aðila til að hafa reglubundið eftirlit með einstökum færslum og samningssambandinu, sbr. 4. mgr. 10. gr.
    Ljóst er að ákvæðinu er m.a. ætlað að ná yfir fyrirframgreidd greiðslukort sem gefin eru út af tilkynningarskyldum aðilum og því verið að fækka verulega tilvikum sem sæta ekki áreiðanleikakönnun, enda eru fyrirframgreidd greiðslukort í eðli sínu áhættusöm vara að mati FATF (sjá Guidance for a risk-based approach to prepaid cards, mobile payments and internet-based payment services). Í þessu samhengi skiptir máli hvað varðar áhættumat og framkvæmd áreiðanleikakönnunar hvort um sé að ræða opin kort (e. open loop), þ.e. kort sem hægt er að nota með sama hætti og debetkort, og nota í verslun hvort sem er innan eða utan lands og á netinu, eða hvort um sé að ræða lokuð kort (e. closed loop) sem eingöngu er hægt að nota hjá tilteknum útgefanda, t.d. verslunarkeðju eða verslunarmiðstöð, en síðarnefndu kortin teljast almennt vera áhættuminni vara.
    Í 3. mgr. er tilkynningarskyldum aðilum sem hafa leyfi til færsluhirðingar (færsluhirða) bannað að taka við greiðslum með fyrirframgreiddum nafnlausum kortum sem gefin eru út í ríkjum utan aðildarríkja nema kortin uppfylli þær kröfur um áreiðanleikakönnun sem þar eru tilgreindar. Það er á ábyrgð færsluhirða að tryggja að kröfur ákvæðisins séu uppfylltar. Í því skyni kann t.d. að vera nauðsynlegt í einhverjum tilvikum að loka á tiltekin BIN (e. bank identification number). Samkvæmt bráðabirgðaákvæði III tekur 3. mgr. gildi tólf mánuðum eftir gildistöku laganna.

Um 10. gr.

    Greininni er ætlað að leysa af hólmi 5. gr. gildandi laga með þeim breytingum sem lagðar eru til. Breytingartillögurnar byggja á 13. gr. tilskipunar 2015/849/EB, sbr. breytingar sem leiða af tilskipun 2018/843/EB, auk þess sem höfð er hliðsjón af athugasemdum FATF við tilmæli nr. 10 og 22.
    Fyrstu tveir stafliðir 1. mgr. samsvara 1. mgr. 5. gr. gildandi laga. Þeir einstaklingar sem taldir eru upp í b-lið, þ.e. prókúruhafar og aðrir þeir sem hafa sérstaka heimild til að koma fram fyrir hönd viðskiptavinar gagnvart fjármálafyrirtæki, þar með taldir framkvæmdastjórar og stjórnarmenn, eru í þeirri stöðu að geta haft áhrif á starfsemi og rekstur viðkomandi aðila (e. relevant person) og því mikilvægt að allir sem þar eru taldir upp séu látnir sanna á sér deili. Í c-lið er nýmæli sem lýtur að skyldu þeirra sem koma fram fyrir hönd fjárvörslusjóða eða sambærilegs aðila til að veita tilkynningarskyldum aðilum upplýsingar um raunverulega eigendur, eins og þeir eru skilgreindir í 3. gr., auk þess að upplýsa um stöðu sína sem fjárvörsluaðili. Í d-lið, sem einnig er nýmæli, er gerð krafa um að þeir sem koma fram fyrir hönd annarra aðila sanni heimild sína til þess, t.d. með framvísun umboðs.
    Í 2. mgr. er sambærilegt ákvæði og er í 2. og 4. mgr. 5. gr. gildandi laga. Það tekur til upplýsinga og áreiðanleikakönnunar á raunverulegum eiganda lögaðila, fjárvörslusjóða og sambærilegum aðilum. Tilkynningarskyldur aðili skal meta með sjálfstæðum hætti hvort upplýsingar um hinn raunverulega eiganda séu réttar og fullnægjandi og að hann skilji starfsemi, eignarhald og stjórnskipulag þeirra viðskiptavina sem eru lögaðilar, fjárvörslusjóðir eða aðrir sambærilegir aðilar. Afla skal m.a. upplýsinga um nafn, félagaform, sönnun á tilvist, heimilisfang og upplýsinga um aðila sem sinna stjórnunarstöðum hjá fyrirtækinu eða félaginu (e. relevant persons). Samkvæmt ákvæðinu er sérstök rannsóknarskylda lögð á tilkynningarskylda aðila til að staðfesta þær upplýsingar sem þeim hafa verið veittar. Staðfesting getur farið fram með því að skoða opinberar skrár og opinbera umfjöllun, auk annarra upplýsinga sem nýtast við áreiðanleikakönnun. Í þeim tilvikum sem ekki tekst að finna raunverulegan eiganda, sbr. niðurlag 2. mgr., er mikilvægt að tilkynningarskyldir aðilar geti sýnt fram á að þeir hafi, í fyrsta lagi, reynt að finna raunverulegan eiganda, og, í öðru lagi, að í kjölfarið hafi þeir gripið til réttmætra ráðstafana til að afla fullnægjandi upplýsinga um þá einstaklinga sem í raun stjórna starfsemi viðskiptamanns.
    Hér þarf að hafa í huga greinarmuninn á lagalegum eiganda og raunverulegum eiganda, sbr. athugasemdir við 3. gr. Vakni grunur um að ekki hafi verið veittar upplýsingar um að raunverulegur eigandi sé annar en lagalegur eigandi ætti það að öllu jöfnu að leiða til tilkynningar til skrifstofu fjármálagreininga lögreglu skv. 21. gr. þar sem líkur eru á að verið sé að reyna að fela raunverulegt eignarhald.
    Hluti af áreiðanleikakönnun er að afla upplýsinga um tilgang og eðli viðskipta. Í samræmi við framangreint er lögð sú skylda á tilkynningarskylda aðila, sbr. 3. mgr., að leggja mat á, eða ef við á afla viðeigandi upplýsinga um, tilgang og eðli fyrirhugaðra viðskipta hjá verðandi viðskiptamanni. Það kann að vera að tilgangur sé augljós, t.d. þegar verið er að greiða reikninga, greiða fyrir þjónustu eða annað sambærilegt. Í öðrum tilvikum er tilgangur viðskipta ekki augljós, þ.e. þegar efnahagslegan tilgang þeirra má ekki leiða beint af þeim gögnum og upplýsingum sem liggja fyrir. Sé vafi um tilgang viðskipta ber að afla frekari upplýsinga hjá viðskiptamanni. Umfang upplýsingaöflunar fer eftir áhættumati tilkynningarskyldra aðila og gera má ráð fyrir því að því meiri sem áhættan er, þeim mun ítarlegri upplýsinga beri að afla. Misvísandi svör, gögn eða upplýsingar eða skortur á vilja til að veita upplýsingar um tilgang gætu gefið til kynna vafasöm viðskipti sem bæri að tilkynna til skrifstofu fjármálagreininga lögreglu skv. 21. gr.
    Í 4. mgr. eru taldar upp skyldur tilkynningarskyldra aðila hvað varðar reglubundið eftirlit. Ákvæði sama efnis er í 6. gr. gildandi laga. Lögð er til sú breyting, í c-lið, að krefjast þess að tilkynningarskyldir aðilar staðfesti, eftir því sem við á, uppruna þeirra fjármuna sem notaðir eru í viðskiptum. Í 1. mgr. 12. gr. gildandi laga á þessi krafa eingöngu við þegar um er að ræða viðskipti við einstaklinga í áhættuhópi vegna stjórnmálalegra tengsla. Í samræmi við markmið laganna ber hér að hafa hliðsjón af áhættumati skv. 4. og 5. gr. og því meiri sem hættan er, því ítarlegri kröfur eru gerðar til staðfestingar á uppruna fjármuna. Þó svo að áhættumat gefi til kynna minni áhættu kann þó að vera nauðsynlegt að framkvæma ítarlega skoðun, t.d. ef um er að ræða viðskipti sem eru umfangsmeiri en gera má ráð fyrir að efnahagslegur styrkur viðkomandi sé, miðað við stöðu hans.
    Ákvæði 5. mgr. er efnislega samhljóða 5. mgr. 5. gr. gildandi laga. Ákvæðinu er ætlað að koma í veg fyrir að viðskiptamaður komi fram fyrir og eigi viðskipti fyrir hönd þriðja aðila án þess að upplýst sé um hver sá þriðji aðili er. Tilkynningarskyldum aðilum ber með virkum hætti að meta hvort viðskiptamaður eigi viðskipti í eigin nafni eða komi fram fyrir hönd þriðja aðila þannig að í raun eigi þriðji aðili í viðskiptunum. Tilkynningarskyldir aðilar kunna að hafa beina vitneskju um að þessar aðstæður séu til staðar eða tilefni til að ætla að svo sé, t.d. vegna þátta sem tengjast viðskiptamanni eða tegund viðskipta. Krafa ákvæðisins er í samræmi við þann tilgang laganna að tilkynningarskyldir aðilar þekki viðskiptamann sinn. Viðskipti sem framkvæmd eru fyrir hönd þriðja aðila, án þess að um það sé upplýst fyrir fram (t.d. með framvísun umboðs), geta gefið til kynna að ætlunin sé að dylja slóð fjármuna og gefið tilefni til að senda skrifstofu fjármálagreininga lögreglu tilkynningu skv. 21. gr.
    Í 6. mgr. er áréttað að tilkynningarskyldir aðilar geti gert auknar kröfur við áreiðanleikakönnun í samræmi við áhættumat sem þeir framkvæma skv. 5. gr. Sú áhætta sem tilkynningarskyldir aðilar standa frammi fyrir er margbreytileg og við tilteknar aðstæður, aðrar en þær sem fjallað er sérstaklega um í 13.–17. gr., kann að vera tilefni til að beita aukinni áreiðanleikakönnun.
    Ákvæði 7.–9. mgr. eru nýmæli. Í 7. og 8. mgr. er fjallað um hvenær eigi að framkvæma áreiðanleikakönnun á rétthafa áhættu- og söfnunarlíftrygginga. Með rétthafa er átt við þann aðila sem nýtur góðs af þeim samningum sem falla undir ákvæðið, sem getur hvort sem er verið einstaklingur, lögaðili eða félagasamtök. Ef rétthafi er lögaðili, félagasamtök o.s.frv. skal farið eftir reglum um raunverulega eigendur. Rétt er að taka fram að undir söfnunarlíftryggingar falla hefðbundnar áhættu- og söfnunarlíftryggingar sem aðilar skv. c-lið 2. gr. bjóða upp á, svo og samningar um viðbótartryggingarvernd skv. lögum um skyldutryggingu lífeyrisréttinda og starfsemi lífeyrissjóða, nr. 129/1997, sama hver vörsluaðili er. Meginreglan er að kanna skal upplýsingar um rétthafa um leið og hann er þekktur eða tilnefndur. Í þeim tilvikum sem rétthafi er ekki tilnefndur eða hann er óþekktur, t.d. vegna þess að hann er tilnefndur samkvæmt tilteknum sérkennum, skal áreiðanleikakönnun fara fram áður en greiðsla samkvæmt samningnum er framkvæmd, hvort sem er að hluta eða í heild. Samkvæmt 9. mgr. eiga sömu sjónarmið við um fjárvörslusjóði og sambærilega aðila, sbr. b-lið 13. tölul. 3. gr.
    Í 10. mgr. er nýmæli sem kveður á um að framkvæmd áreiðanleikakönnunar, hvort sem er á nýjum eða núverandi viðskiptamönnum, skuli vera í samræmi við áhættumat skv. 5. gr. Við beitingu ákvæðisins ber að taka tillit til þess svigrúms sem aðilar hafa samkvæmt hinu síðarnefnda ákvæði. Kanna skal áreiðanleika upplýsinga þegar stofnað er til samningssambands og reglulega á samningstímanum við tilteknar aðstæður. Þá kann tilkynningarskyldum aðilum að vera skylt að endurskoða upplýsingar um raunverulegt eignarhald, t.d. vegna fyrirmæla í lögum eða samkvæmt öðrum skuldbindingum, t.d. milliríkjasamningum á sviði skattamála. Má í þessu samhengi nefna tilskipun 2011/16/EB og reglugerð Evrópuþingsins og ráðsins (EB) nr. 1240/2015 um framkvæmd áreiðanleikakannana vegna upplýsingaöflunar á sviði skattamála. Við áreiðanleikakönnun samkvæmt ákvæðinu er tilkynningarskyldum aðilum skylt að styðjast við allar nauðsynlegar upplýsingar. Í sumum tilfellum kann að vera fullnægjandi að styðjast við upplýsingar úr fyrirtækjaskrá. Í öðrum tilvikum kann þó að vera nauðsynlegt að afla ítarlegri gagna og upplýsinga. Mikilvægt er að tilkynningarskyldir aðilar sinni rannsóknarskyldu sinni með sjálfstæðum og rekjanlegum hætti.
    11. og 12. mgr. eru efnislega samhljóða 1. og 2. mgr. 9. gr. gildandi laga.

Um 11. gr.

    Samkvæmt 10. gr. skulu viðskiptamaður og raunverulegur eigandi sanna deili á sér með viðurkenndum skilríkjum áður en samningssamband kemst á eða viðskipti eiga sér stað. Tilkynningarskyldum aðila ber að sannreyna þær upplýsingar, þ.e. að skilríkjum sem framvísað er séu viðurkennd, í skilningi laganna.
    Ákvæði 11. gr., sem byggist á 14. gr. tilskipunar 2015/849/EB, að teknu tilliti til þeirra breytinga sem leiða af tilskipun nr. 2018/843/EB, og tekur mið af tilmælum FATF nr. 10 og 22, kveður á um undantekningar frá skyldu skv. 10. gr.
    Samkvæmt 1. mgr. er heimilt í undantekningartilvikum að víkja frá meginreglu 1. og 2. mgr. 10. gr. og heimila frestun á því að viðskiptamaður sanni á sér deili. Undanþágunni er ætlað að koma til móts við atvik þar sem til staðar eru tímabundnar óyfirstíganlegar hindranir sem koma í veg fyrir að viðskiptamaður geti sannað á sér deili, t.d. vegna þess að hann hefur glatað skilríkjunum, eða aðrar sambærilegar hindranir eru til staðar. Tilkynningarskyldum aðilum ber að leggja mat á trúverðugleika þeirra hindrana sem koma í veg fyrir að viðskiptamaður eða raunverulegur eigandi geti sannað á sér deili og skulu ekki veita undanþágu nema lítil hætta sé á peningaþvætti og fjármögnun hryðjuverka, í samræmi við áhættumat skv. 5. gr. Viðkomandi aðilar skulu sanna á sér deili eins fljótt og því verður við komið, þ.e. um leið og hindrunum er aflétt. Þar sem um undanþágu frá meginreglu 1. mgr. 10. gr. er að ræða sem miðar eingöngu að því að trufla ekki eðlilegan framgang viðskipta er áréttað að ekki er um opna heimild að ræða. Tilkynningarskyldum aðilum er réttast að setja sér viðmið um tímamörk í þessu skyni og skulu þau ekki vera lengri en nauðsyn krefur. Til þess að tryggja að aðilar sanni á sér deili innan gefinna tímamarka er æskilegt að tilkynningarskyldir aðilar haldi skrá utan um þau tilvik þar sem undanþáguheimildinni er beitt og ástæðu undanþágunnar.
    2. mgr. samsvarar 2. mgr. 8. gr. gildandi laga nema hvað ákvæðið nær til stofnunar samningssambands í stað bankareiknings skv. gildandi lögum. Með samningssambandi er m.a. átt við heimild til að stofna bankareikning, gera lánssamning, samning um fasteignakaup eða stofna til annars konar samninga eða viðskipta við viðkomandi aðila, þó með þeim fyrirvara að tryggja ber að framkvæmd viðskipta fari ekki fram. Hér er t.d. átt við að ekki sé unnt að taka út af bankareikningi eða millifæra af honum, efna samninga, ljúka við fjárfestingar o.s.frv. fyrr en áreiðanleikakönnun hefur farið fram.
    Ef um stofnun bankareiknings er að ræða gæti viðkomandi mögulega tekið á móti greiðslum en ekki fært út af reikningum fyrr en skilyrði 1. mgr. væru uppfyllt.
    Í 3. mgr. er að finna nýmæli sem kveður á um heimild tilkynningarskyldra aðila til að víkja frá því að framkvæma fullnægjandi áreiðanleikakönnun og láta viðskipti ná fram að ganga ef stöðvun þeirra gæti hindrað rannsókn eða saksókn vegna grunsamlegra viðskipta. Stöðvun viðskipta gæti gert viðkomandi viðvart um að grunur sé kominn upp í tengslum við áreiðanleikakönnunina (e. tipping off) og valdið réttarspjöllum ef þrýst er á frekari upplýsingar eða gögn. Við þessar aðstæður ber að tilkynna um viðskiptin til skrifstofu fjármálagreininga lögreglu, í samræmi við 21. gr., sem eftir atvikum veitir leiðbeiningar, sbr. 1. mgr. 22. gr. Þessi heimild er frábrugðin 2. mgr. 22. gr. þar sem þetta ákvæði fjallar um að víkja frá áreiðanleikakönnun til að koma í veg fyrir réttarspjöll, þ.e. þegar einhver þáttur í fari viðskiptamanns vekur upp grunsemdir, á meðan 2. mgr. 22. gr. tekur til þátta þar sem áreiðanleikakönnun hefur farið fram en tiltekin viðskipti eru grunsamleg.

Um 12. gr.

    Í ákvæðinu, sem byggist á 15. gr. tilskipunar 2015/849/EB og hefur hliðsjón af athugasemdum í skýrslu FATF við tilmæli nr. 1 og 10, er mælt fyrir um grundvallarbreytingar á heimildum til að framkvæma einfaldaða áreiðanleikakönnun. Í gildandi lögum er tilkynningarskyldum aðilum heimilt að framkvæma einfaldaða áreiðanleikakönnun þegar um er að ræða viðskipti við tiltekna aðila skv. 15. gr. og þegar um er að ræða ákveðnar tegundir viðskipta skv. 15. gr. a. Í stað framangreinds fyrirkomulags, sbr. einnig 9. gr. frumvarpsins, verður tilkynningarskyldum aðilum eingöngu heimilt að beita einfaldaðri áreiðanleikakönnun ef áhættumat sem framkvæmt er í samræmi við 4. og 5. gr. gefur til kynna litla hættu á peningaþvætti og fjármögnun hryðjuverka. Um framkvæmd einfaldaðrar áreiðanleikakönnunar fer eftir verklagi tilkynningarskylds aðila skv. 5. gr. og reglugerð um áreiðanleikakönnun sem sett er skv. c-lið 56. gr. Eftirlitsaðilum er skv. 38. gr. ætlað að hafa reglubundið eftirlit með áhættumati tilkynningarskyldra aðila sem m.a. felst í því að meta hvort niðurstöður þess séu forsvaranlegar.
    Í 2. mgr. er áréttað að þrátt fyrir einfaldaða áreiðanleikakönnun beri tilkynningarskyldum aðilum að hafa viðeigandi reglubundið eftirlit með færslum og samningssamböndum sínum.

Um 13. gr.

    Í ákvæðinu, sem byggist á 18. gr. tilskipunar 2015/849/EB með þeim breytingum sem leiðir af tilskipun 2018/843/EB, eru tilgreind þau tilvik þegar tilkynningarskyldum aðilum er skylt að framkvæma aukna áreiðanleikakönnun. Slík áreiðanleikakönnun skal framkvæmd þegar um er að ræða: a) viðskipti við aðila sem staðsettur er í ríki sem framkvæmdastjórn Evrópusambandsins, FATF eða eftir atvikum aðrir áreiðanlegir aðilar hafa skilgreint sem áhættusöm eða ósamvinnuþýð ríki, sbr. 6. gr., b) millibankaviðskipti eða millibankaviðskipti við skelbanka eins og hugtökin eru skilgreind í 3. gr., og c) viðskipti við einstaklinga í áhættuhópi vegna stjórnmálalegra tengsla. Aukin áreiðanleikakönnun samkvæmt framangreindu er ófrávíkjanleg nema 2. mgr. ákvæðisins eigi við. Jafnframt er tilkynningarskyldum aðilum skylt að framkvæma aukna áreiðanleikakönnun í öðrum tilvikum en þeim sem að framan greinir ef áhættumat skv. 4 eða 5. gr. gefur til kynna mikla áhættu.
    Samkvæmt 2. mgr. er heimilt að víkja frá aukinni áreiðanleikakönnun vegna viðskipta við aðila sem staðsettir eru í áhættusömu eða ósamvinnuþýðu ríki ef um er að ræða útibú eða dótturfélag tilkynningarskylds aðila sem er með staðfestu í aðildarríki, að því tilskildu að viðkomandi útibú eða dótturfélag sé hluti af samstæðu sem hefur á samstæðugrunni sett sér stefnu og ferla um aðgerðir gegn peningaþvætti og fjármögnun hryðjuverka, sbr. 32. gr., og útibúinu eða dótturfélaginu sé skylt að fara að öllu leyti eftir þeim. Það er í höndum tilkynningarskyldra aðila að tryggja að skilyrði fyrir beitingu ákvæðisins séu uppfyllt.
    Í 3. mgr. eru tilgreindar þær færslur sem tilkynningarskyldum aðilum ber að rannsaka sérstaklega og skulu sæta auknu eftirliti. Þetta eru færslur sem eru flóknar, óvenjulega háar eða óvenjuleg viðskiptamynstur. Ekki er hægt að gefa út algildan mælikvarða á hvað fellur undir framangreint en horfa má m.a. til þess hvort um er að ræða greiðslur sem:
          víkja frá því sem er hefðbundið í starfsemi viðkomandi tilkynningarskylds aðila,
          víkja frá því sem er hefðbundið hjá viðkomandi viðskiptamanni,
          víkja frá því sem er hefðbundið hjá sambærilegum hópi viðskiptamanna,
          eru háar færslur í reiðufé, hvort sem er í einni færslu eða mörgum færslum sem tengjast hver annarri og hvort sem um innborgun eða úttekt er að ræða.
    Jafnframt skulu færslur sem virðast hvorki hafa efnahagslegan né löglegan tilgang sæta aukinni skoðun og eftirliti. Efnahagslegur tilgangur er skilgreindur í 3. gr. sem ástæður að baki inn- og útgreiðslu, þ.e. hvaða vöru eða þjónustu er verið að greiða fyrir. Með auknu eftirliti er átt við að tilkynningarskyldur aðili skuli viðhafa aukið sjálfvirkt eða handvirkt eftirlit með viðskiptafærslum viðkomandi viðskiptavinar í gegnum viðskiptakerfi sín til þess að fylgjast með grunsamlegum viðskiptum. Nánar skal mælt fyrir um aukna áreiðanleikakönnun í reglugerð sem ráðherra setur skv. heimild í 56. gr.

Um 14. gr.

    Í greininni er kveðið á um efnisþætti aukinnar áreiðanleikakönnunar vegna viðskipta við einstaklinga, lögaðila eða aðra sambærilega aðila í áhættusömu eða ósamvinnuþýðu ríki, sbr. a-lið 13. gr. Ákvæðið byggist á 18. gr. a í tilskipun 2018/843/EB.
    Tilkynningarskyldum aðilum er skylt að lágmarki að framkvæma alla þætti a–g-liðar 1. mgr., sem felst í því að viðhafa yfirgripsmeiri og ítarlegri skoðun á öllum þáttum samningssambandsins og aukið reglubundið eftirlit.
    Með 2. mgr. eru tilgreindir viðbótarþættir sem tilkynningarskyldum aðilum er skylt, þegar við á, að framkvæma til að draga úr áhættu á peningaþvætti eða fjármögnun hryðjuverka sem geta falið í sér eina eða fleiri af eftirfarandi ráðstöfunum: a) ítarlegri áreiðanleikakönnun sem inniheldur viðbótargögn og upplýsingar sem tilkynningarskyldur aðili hefur ákveðið að kalla eftir á grundvelli skjalfests áhættumats, b) aukið eftirlit með framkvæmd viðskipta, sem getur falið sér kerfisbundið eftirlit, innri tilkynningarskyldu eða skýrsluskil, eða c) að takmarka samningssambönd eða viðskiptafærslur við tilgreind ríki.
    3. mgr. kveður á um úrræði og ráðstafanir sem eftirlitsaðilar geta gripið til eða mælt fyrir um vegna þátta sem tengjast áhættusömum eða ósamvinnuþýðum ríkjum.
    Nánar verður kveðið á um efnisþætti aukinnar áreiðanleikakönnunar í reglugerð sem ráðherra setur í samræmi við b-lið 56. gr.

Um 15. gr.

    Greinin, sem byggist á 19. gr. tilskipunar 2015/849/EB og athugasemdum FATF við tilmæli nr. 13, er nánast óbreytt frá 11. gr. gildandi laga.
    Í ákvæðinu er kveðið á um efnisþætti aukinnar áreiðanleikakönnunar vegna millibankaviðskipta fjármálafyrirtækja (e. correspondent relationship) við aðila utan aðildarríkja, sbr. b-lið 1. mgr. 13. gr. Önnur millibankaviðskipti falla undir 10. gr. frumvarpsins.
    Í a- og b-lið eru gerðar kröfur um að lagt sé fullnægjandi mat á viðkomandi aðila. Við framkvæmd matsins skv. a-lið skal hafa hliðsjón af opinberum gögnum til að meta orðspor viðkomandi aðila, hvort heimaríki aðila fylgir alþjóðlegum viðmiðum um aðgerðir gegn peningaþvætti og fjármögnun hryðjuverka og gæði þeirra eftirlitsstofnana sem viðhafa eftirlit með viðkomandi aðila. Eins skal leggja mat á verkferla, eftirlit og stýringar sem viðkomandi millibanki hefur sett sér til að koma í veg fyrir peningaþvætti og fjármögnun hryðjuverka í gegnum viðskiptakerfi viðkomandi. Tilkynningarskyldum aðilum ber að staðreyna framangreinda þætti með sjálfstæðum hætti og vera þess fullvissir að viðeigandi eftirlit, stýringar og verkferlar séu til staðar.
    C- og d-liðir er óbreyttir frá gildandi lögum. Hugtakið yfirstjórn er skilgreint í 3. gr. en auk þess er vísað til umfjöllunar við 17. gr. frumvarpsins um fyrirkomulag við öflun samþykkis frá yfirstjórn.
    Í niðurlagi ákvæðisins er fjallað um greiðslustreymisreikninga (e. payable-through account) en með þeim er átt við innstæðureikninga sem tilkynningarskyldur aðili (A) stofnar hjá öðrum tilkynningarskyldum aðila (B) og (A) veitir sínum viðskiptamönnum beinan aðgang að umræddum reikningi, þ.e. viðskiptamaður getur fært fjármuni í gegnum reikning í nafni (A) eins og um eigin reikning sé að ræða. Tilkynningarskyldur aðili skal tryggja og staðfesta með sjálfstæðum hætti að gagnaðili hafi framkvæmt viðeigandi áreiðanleikakönnun og viðhafi reglubundið eftirlit með viðskiptamönnum sem hafa beinan aðgang að umræddum reikningum. Tilkynningarskyldur aðili getur í því samhengi nýtt sér heimild 18. gr. laganna, um áreiðanleikakönnun þriðja aðila, að uppfylltum þeim kröfum sem þar eru gerðar.

Um 16. gr.

    Lagt er til að 24. gr. tilskipunar 2015/849/EB sé innleidd með 16. gr. frumvarpsins. Ákvæðið samsvarar að hluta til 13. gr. gildandi laga en hér er lagt til að bann við viðskiptum við skelbanka nái til fleiri tilkynningarskyldra aðila en þar er gert. Ákvæðið tekur jafnframt mið af tilmælum FATF nr. 13.
    Aðilum skv. a–k-liðum 2. gr. frumvarpsins er óheimilt að stofna til eða halda áfram millibankaviðskiptum við skelbanka. Eigi þessir aðilar í viðskiptum við skelbanka nú þegar ber að slíta þeim án tafar. Hugtakið skelbanki er skilgreint í 3. gr. sem fjármálafyrirtæki, eða aðili með sambærilega starfsemi, sem hefur starfsleyfi og staðfestu í öðru ríki en þar sem raunveruleg starfsemi eða stjórnun fer fram og er ótengdur eftirlitsskyldri samstæðu sem lýtur skilvirku eftirliti hjá viðeigandi eftirlitsaðila. Staðbundinn fulltrúi eða almennur starfsmaður fjármálafyrirtækisins innan þess ríkis sem hann hefur heimilisfesti eða staðfestu nægir ekki til þess að litið sé svo á að raunveruleg starfsemi eða stjórnun sé til staðar. Í þessu samhengi má benda á 26. gr. laga um vátryggingastarfsemi, nr. 100/2016, sem mælir fyrir um að Fjármálaeftirlitið skuli synja vátryggingafélagi um starfsemi ef raunverulegar höfuðstöðvar félagsins eru ekki hér á landi. Framangreint ákvæði byggist á 20. gr. tilskipunar 2009/138/EB en sambærileg ákvæði er að finna í tilskipunum um starfsleyfi annarra aðila á fjármálamarkaði.
    Bannið nær einnig til millibankaviðskipta við fjármálafyrirtæki sem heimila skelbönkum að nota reikninga sína.

Um 17. gr.

    Lagt er til í ákvæðinu að innleiddar verði 20.–23. gr. tilskipunar 2015/849/EB með þeim breytingum sem leiðir af tilskipun 2018/843/EB. Jafnframt er höfð hliðsjón af tilmælum FATF nr. 12 og 22.
    Með 1. mgr. ákvæðisins er lögð til grundvallarbreyting á því hvaða aðilar teljist vera einstaklingar í áhættuhópi vegna stjórnmálalegra tengsla (e. politically exposed persons). Í 12. gr. gildandi laga, sbr. einnig reglugerð nr. 811/2008, falla aðeins einstaklingar sem búsettir eru erlendis undir skilgreiningu á aðilum í áhættuhópi vegna stjórnmálalegra tengsla. Með breytingunni er lagt til að ákvæðið nái einnig til innlendra einstaklinga sem hafa stjórnmálaleg tengsl. Samkvæmt gildandi lögum hefur einnig aðeins verið litið til viðskiptamanna, þ.e. einstaklinga sem samningssamband eða viðskipti eru við, en verði frumvarpið að lögum skal einnig meta hvort raunverulegur eigandi lögaðila, fjárvörslusjóða o.s.frv. sé í áhættuhópi vegna stjórnmálalegra tengsla. Til þess hóps teljast þeir sem eru eða hafa verið háttsettir í opinberri þjónustu, nánasta fjölskylda þeirra og nánir samstarfsmenn, sbr. skilgreiningu í 3. gr. Í d-lið 56. gr. er gert ráð fyrir því að gefin verði út reglugerð um aðila í áhættuhópi vegna stjórnmálalegra tengsla, þ.m.t. um hvaða störf teljist til háttsettra opinberra starfa.
    Í 2. mgr. eru tilgreindar sérstakar ráðstafanir, til viðbótar við áreiðanleikakönnun skv. III. kafla, sem tilkynningarskyldum aðilum er skylt að framkvæma ef viðskiptamaður eða raunverulegur eigandi er í áhættuhópi vegna stjórnmálalegra tengsla.
    Í a-lið 2. mgr. er kveðið á um að afla skuli samþykkis frá yfirstjórn áður en stofnað er til samningssambands eða viðskipta. Mismunandi er hvernig stjórnskipulagi tilkynningarskyldra aðila er háttað en mælst er til þess að skjalfest sé í reglum eða ferlum viðkomandi tilkynningarskylds aðila hverjir hafi heimild eða umboð til samþykktar á samningssambandi eða viðskiptum við einstaklinga í áhættuhópi vegna stjórnmálalegra tengsla, svo það fari ekki á milli mála.
    Í b-lið 2. mgr. er lagt til að tilkynningarskyldum aðilum verði skylt að grípa til viðeigandi ráðstafana til að sannreyna uppruna auðs viðskiptamanns og þeirra fjármuna sem notaðir eru í samningssambandinu eða viðskiptunum. Með uppruna fjármuna er átt við hvaðan þeir fjármunir stafa sem notaðir eru í viðskiptasambandinu meðan uppruni auðs vísar til heildareigna viðskiptamanns. Í báðum tilvikum skal uppruni þeirra kannaður, svo sem hvort uppruni auðs og fjármuna er tekjur, arfur eða fjárfestingar. Markmiðið er að meta hvort viðskiptin séu í eðlilegum tengslum við fjárhagslega stöðu viðkomandi (sjá skýrslu FATF Guidance: Politically Exposed Persons). Ráðstafanir samkvæmt ákvæðinu fara eftir því hversu mikil áhætta tengist stjórnmálalegum tengslum viðkomandi og skulu þær vera fullnægjandi og viðeigandi og ekki ganga lengra en nauðsyn krefur. Könnun tilkynningarskyldra aðila samkvæmt ákvæðinu skal byggja á áreiðanlegum og sjálfstæðum gögnum og upplýsingum.
    Í c-lið 2. mgr. er lagt til að haft verði aukið reglubundið eftirlit með samningssambandinu. Hér er átt við umfangsmeira eftirlit en kveðið er á um í 4. mgr. 10. gr., sem felst m.a. í tíðara og umfangsmeira eftirliti en samkvæmt því ákvæði. Eftirlitið getur hvort sem er verið handvirkt eða sjálfvirkt, allt eftir umfangi, tegund starfsemi og skipulagi tilkynningarskyldra aðila.
    Í 3. og 4. mgr. er kveðið á um að tilkynningarskyldir aðilar sem selja áhættu- og söfnunarlíftryggingar skuli, með sama hætti og tilgreint er í 1. mgr., meta hvort vátryggður eða rétthafi séu í áhættuhópi vegna stjórnmálalegra tengsla. Séu slík tengsl fyrir hendi skal upplýsa yfirstjórn áður en úthlutun eða útgreiðsla í heild eða hluta fer fram og hafa aukið eftirlit með samningssambandinu eins og fram kemur í c-lið 2. mgr.
    Í 5. og 6. mgr. er fjallað um með hvaða hætti eigi að bregðast við verði breytingar á stöðu viðskiptamanna eftir að samningssambandi hefur verið komið á. Með ákvæðunum er ljóst að tilkynningarskyldir aðilar þurfa að viðhafa reglubundið eftirlit með viðskiptamönnum sínum til að kanna hvort staða þeirra taki breytingum á samningstímanum. Ekki er farin sú leið að mæla fyrir um með hvaða hætti þetta skuli gert en ráðstafanir tilkynningarskyldra aðila þurfa að vera viðeigandi, t.d. þannig að viðskiptamannagrunnur sé samkeyrður við lista yfir aðila sem teljast í áhættuhópi vegna stjórnmálalegra tengsla. Hægt er að óska eftir því að viðskiptamaður staðfesti stöðu sína við upphaf samningssambands með útfyllingu á áreiðanleikakönnun. Það er viðtekin venja að tilkynningarskyldir aðilar viðhafi reglubundið eftirlit með viðskiptamönnum með stjórnmálaleg tengsl á sama hátt og vegna alþjóðlegra þvingunaraðgerða, sbr. lög um framkvæmd alþjóðlegra þvingunarráðstafana, nr. 93/2008, sem felst í að samkeyra með til þess gerðu kerfi viðskiptamannalista við lista yfir aðila sem sæta alþjóðlegum þvingunaraðgerðum (e. sanction screening).
    Ákvæði um aukið eftirlit með einstaklingum sem eru í áhættuhópi vegna stjórnmálalegra tengsla er ætlað að vera fyrirbyggjandi en er ekki ætlað að gefa til kynna að allir þeir sem falli í þann hóp kunni að vera viðriðnir refsiverða háttsemi. Það er í andstöðu við tilgang laganna að hafna viðskiptum við einstaklinga á þeirri forsendu að þeir hafi þau tengsl sem fjallað er um í ákvæðinu (e. de-risking). Skilvirkt verklag tilkynningarskylds aðila um viðskipti við einstaklinga í áhættuhópi vegna stjórnmálalegra tengsla eykur gagnsæi og trúverðugleika. Það hefur einnig jákvæð áhrif á orðspor Íslands á alþjóðavettvangi og sýnir viðleitni Íslands til þess að sporna við mútum og spillingu.

Um 18. gr.

    Greinin byggist á 25.–27. og 29. gr. tilskipunar 2015/849/EB og samsvarar að hluta til 16. gr. gildandi laga og fjallar um heimild tilkynningarskyldra aðila til þess að reiða sig á upplýsingar þriðja aðila til þess að framkvæma áreiðanleikakönnun. Þeim breytingum sem lagðar eru til á ákvæðinu er m.a. ætlað að koma til móts við athugasemdir í skýrslu FATF við tilmæli nr. 17.
    Í 1. mgr. er kveðið á um að tilkynningarskyldur aðili þurfi ekki, áður en viðskipti hefjast, að framkvæma áreiðanleikakönnun á viðskiptamanni skv. a–e-lið 1. mgr. 10. gr., ef samsvarandi upplýsingar um hann koma fram fyrir tilstilli annars tilkynningarskylds aðila. Í 16. gr. gildandi laga er kveðið á um að tilkynningarskyldur aðili geti reitt sig á upplýsingar ef samsvarandi upplýsingar koma fram fyrir tilstilli fjármálafyrirtækis sem hlotið hefur starfsleyfi á Íslandi, greiðslustofnunar, rafeyrisfyrirtækis eða samsvarandi lögaðila sem hlotið hefur starfsleyfi á Evrópska efnahagssvæðinu. Sama gildi um upplýsingar sem koma fram fyrir tilstilli eftirlitsskyldrar lána- eða fjármálastofnunar frá löndum utan Evrópska efnahagssvæðisins sem gerðar eru sambærilegar kröfur til og í lögum þessum. Með hliðsjón af 25. gr. tilskipunar 2015/849/EB er lögð til sú breyting að tilkynningarskyldum aðilum verði gert heimilt að reiða sig á upplýsingar annarra tilkynningarskyldra aðila, óháð því hvers konar skráningu eða starfsleyfi þeir hafa. Þá gildir einu hvort aðilar eru innan eða utan EES-svæðisins að því gefnu að skilyrði 2. mgr. séu uppfyllt. Farin er sú leið hér að leggja ekki til að heimilt sé að reiða sig á upplýsingar þriðju aðila, heldur að heimilt sé að reiða sig á upplýsingar tilkynningarskyldra aðila að tilteknum skilyrðum uppfylltum. Þar sem kveðið er á um þriðja aðila í ákvæði þessu er átt við aðra tilkynningarskylda aðila.
    Tilgangur ákvæðisins er að komast hjá endurtekningum við að framkvæma áreiðanleikakannanir á viðskiptamönnum sem kunna að leiða til tafa og óhagkvæmni í viðskiptum og heimila því notkun áreiðanleikakönnunar annars tilkynningarskylds aðila að því gefnu að tilteknum skilyrðum hafi verið fullnægt. Í ákvæðinu er tekinn af allur vafi um það að endanleg ábyrgð á áreiðanleikakönnun er í höndum þess tilkynningarskylda aðila sem móttekur upplýsingar. Þriðji aðili eða aðili sem kemur á samningssambandi þriðja aðila við tilkynningarskyldan aðila ber einnig ábyrgð á því að framfylgja löggjöf um varnir gegn peningaþvætti og fjármögnun hryðjuverka, þar á meðal kröfunni um að tilkynna grunsamleg viðskipti og varðveita gögn, að því leyti sem hann á í samningssambandi við viðskiptavininn sem fellur undir löggjöf á þessu sviði.
    Í 2. mgr. er kveðið á um að heimild tilkynningarskylds aðila skv. 1. mgr. sé háð því að tvö skilyrði sem tiltekin eru í ákvæðinu séu uppfyllt. Þá er kveðið á um að tilkynningarskyldur aðili skuli staðreyna að þriðji aðili uppfylli kröfur þessarar málsgreinar. Með því er átt við að tilkynningarskyldur aðili gangi úr skugga um að sá sem býr yfir umræddum upplýsingum framkvæmi áreiðanleikakönnun og varðveiti gögn í samræmi við kröfur laganna og, í tilviki aðila sem eru ekki undir eftirliti Fjármálaeftirlitsins, lúti sambærilegu eftirliti og kveðið er á um í lögunum. Tilkynningarskyldur aðili skal grípa til ráðstafana til þess að ganga úr skugga um að skilyrðin séu uppfyllt, t.d. með því að afla ítarlegra upplýsinga frá þriðja aðila um framkvæmd áreiðanleikakönnunar og staðreyna að upplýsingarnar séu réttar. Í því sambandi kann að vera ástæða til þess að heimsækja aðilann til þess að tryggja að þær upplýsingar sem hann hefur veitt um stefnur, ferla og stýringar séu réttar og að framkvæmdin sé í samræmi við það verklag sem kynnt hefur verið. Úttekt á því hvort umrædd skilyrði 2. mgr. eru uppfyllt skal fara fram áður en samningssambandi er komið á og reglulega meðan á samningssambandinu stendur.
    Í 3. mgr., sem er nýmæli, er lagt til að tilkynningarskyldum aðila sem hefur í hyggju að byggja áreiðanleikakönnun á upplýsingum frá þriðja aðila beri að hafa hliðsjón af hættu á peningaþvætti og fjármögnun hryðjuverka í því ríki þar sem viðkomandi þriðji aðili er staðsettur. Í þessu felst m.a. að skoða áhættumat viðkomandi ríkis og hvernig vörnum gegn peningaþvætti og fjármögnun hryðjuverka er almennt háttað. Ákvæðið tekur mið af athugasemdum í skýrslu FATF við 16. gr. gildandi laga. Jafnframt er lagt til að þrátt fyrir 1. mgr. verði tilkynningarskyldum aðilum óheimilt að byggja á upplýsingum frá fyrirtækjum með staðfestu í áhættusömum og ósamvinnuþýðum ríkjum skv. 6. gr. laganna og reglugerð um áhættusöm ríki. Um er að ræða ríki sem staðfest hefur verið að viðhafi ófullnægjandi varnir gegn peningaþvætti og fjármögnun hryðjuverka og því varhugavert að heimila að byggja áreiðanleikakönnun á gögnum sem stafa frá tilkynningarskyldum aðilum með staðfestu í þessum ríkjum.
    Í 4. mgr. er að finna það nýmæli að tilkynningarskyldur aðili, sem byggir á áreiðanleikakönnun þriðja aðila, skuli tryggja að hann fái án tafar afhentar þær upplýsingar sem kveðið er á um í a–e-lið 1. mgr. 10. gr. Ákvæði 2. mgr. 16. gr. gildandi laga kveður aðeins á um að þriðji aðili sem veitir upplýsingarnar skuli, ef viðtakandi upplýsinganna óskar eftir því, án tafar gera upplýsingarnar aðgengilegar.. Breytingin sem lögð er til kemur til móts við athugasemdir í skýrslu FATF varðandi tilmæli nr. 17. Með hliðsjón af orðalaginu „án tafar“ er ljóst að um lítið svigrúm er að ræða og verður að ætla að afhending gagna skuli fara fram ekki síðar en innan eins til tveggja daga. Það er á ábyrgð tilkynningarskylds aðila að tryggja að afhending sé tafarlaus.
    Ákvæði 5. mgr. samsvarar efnislega 2. málsl. 2. mgr. 16. gr. gildandi laga en lagt er til að skýrar sé kveðið á um að tilkynningarskyldur aðili, sem reiðir sig á áreiðanleikakönnun þriðja aðila, skuli gera um það skriflegan samning þar sem staðfest er að veitandi upplýsinganna muni án tafar, sé þess óskað, afhenda afrit af viðurkenndum persónuskilríkjum og eftir atvikum öðrum gögnum sem sanna hver viðskiptamaður og raunverulegur eigandi er. Samningurinn skal einnig kveða á um skyldur aðila, m.a. skyldu þriðja aðila til þess að framkvæma áreiðanleikakönnun, viðhafa reglubundið eftirlit og tilkynna til ábyrgðarmanns grun um peningaþvætti og fjármögnun hryðjuverka, þagnarskyldu, heimild til þess að gera athugun á starfsstöð þriðja aðila og varðveislu gagna.
    Í 6. mgr. er kveðið á um að upplýsingar sem fengnar eru frá útvistunaraðila eða umboðsmanni sem telst vera hluti af tilkynningarskyldum aðila teljist ekki vera upplýsingar frá þriðja aðila. Hér er tekinn af allur vafi um að ekki er þörf á að gera skriflegan samning um upplýsingar samkvæmt þessu ákvæði þegar tilkynningarskyldur aðili byggir á upplýsingum frá útvistunaraðilum eða umboðsmönnum sem teljast vera hluti af hinum tilkynningarskylda aðila, t.d. þegar um er að ræða útvistun milli móður- og dótturfélags eða önnur tengsl sem leiða til þess að viðkomandi telst hluti af tilkynningarskyldum aðila.

Um 19. gr.

    Með ákvæðinu, sem er nýmæli, er innleidd 28. gr. tilskipunar 2015/849/EB. Lagt er til að Fjármálaeftirlitið, sem eftirlitsaðili á samstæðugrunni, geti með samkomulagi við lögbær stjórnvöld þar sem útibú og dótturfélög samstæðunnar eru staðsett, heimilað tilkynningarskyldum aðilum skv. a–e-lið 2. gr. að reiða sig á upplýsingar innan samstæðunnar. Sett eru þrenns konar skilyrði fyrir slíkri heimild sem lúta að skipulagi og eftirliti samstæðunnar sem eru önnur en skilyrði skv. 18. gr. frumvarpsins. Sækja þarf um slíka heimild til Fjármálaeftirlitsins og það er í höndum samstæðunnar að sýna fram á að skilyrðin séu uppfyllt.

Um 20. gr.

    Greinin felur í sér skyldu til að starfrækja skrifstofu sem tekur á móti tilkynningum um viðskipti þar sem grunur leikur á peningaþvætti eða fjármögnun hryðjuverka. Hér er lagt til að heiti peningaþvættisskrifstofu verði breytt í skrifstofa fjármálagreininga lögreglu (e. FIU Financial Intelligence Unit) en talið er að það heiti sé meira lýsandi en núverandi heiti. Ákvæðið byggist á 32. gr. tilskipunar 2015/849/EB. Samkvæmt 3. mgr. 8. gr. lögreglulaga, nr. 90/1996, sbr. 3. mgr. 25. gr. laga nr. 47/2015, annast héraðssaksóknari móttöku tilkynninga á grundvelli laga um aðgerðir gegn peningaþvætti og fjármögnun hryðjuverka. Héraðssaksóknari annast einnig greiningu á tilkynningum og miðlun upplýsinga sem fengnar eru með þeim hætti til annarra stjórnvalda að því marki sem nauðsynlegt er.
    Samkvæmt tilmælum FATF, svo og í samræmi við löggjöf helstu nágrannaríkja Íslands er varðar hlutverk, skyldur og verkefni skrifstofu fjármálagreininga lögreglu (FIU), er lögð mjög rík áhersla á að starfsemi hennar njóti sjálfstæðis frá annarri starfsemi, bæði starfsemi er varðar fjármálamarkaði og viðskipti en einnig gagnvart annarri starfsemi löggæslu og ákæruvalds. Til að mæta alþjóðlegum skuldbindingum og þróun alþjóðasamninga og reglna um varnir gegn peningaþvætti og fjármögnun hryðjuverka þykir rétt að fjallað sé um skrifstofu fjármálagreininga lögreglu, skilgreiningu, hlutverk, skyldur, verkefni og sjálfstæði í sérstöku ákvæði laganna, um leið og áréttað er að einu tengsl hennar við embætti héraðssaksóknara séu stjórnskipulegs eðlis. Málsgrein þessi er að mestu leyti nýmæli en kemur þó að hluta til einnig í stað 2. mgr. 17. gr. gildandi laga og er ítarlegri en hún. Er kveðið nánar á um móttöku og málsmeðferð vegna tilkynninga, gagnaöflun og miðlun upplýsinga, ásamt því sem kveðið er á um aðferðir við greiningar. Að öðru leyti þarfnast málsgreinin ekki skýringa.
    Í 2. mgr. er kveðið á um skyldu einstaklinga og lögaðila til að láta skrifstofu fjármálagreininga lögreglu í té og án tafar allar þær upplýsingar sem henni eru nauðsynlegar við framkvæmd verkefna sinna, sem geta verið aðgerðagreining og stefnumiðuð greining auk athugun mála sem tengjast peningaþvætti og fjármögnun hryðjuverka. Hér er um sömu heimild að ræða og eftirlitsaðilar hafa skv. 3. mgr. 38. gr. frumvarpsins. Eðli og tegund upplýsinganna skiptir ekki máli né heldur hvort þær varði þann sem beiðni um upplýsingar er beint til eða þriðja aðila. Til að afmarka nánar þessar mikilvægu heimildir til upplýsingaöflunar er sérstaklega tekið fram að ákvæði annarra laga um þagnarskyldu (t.d. ákvæði er varða viðskipta- og bankaleynd og aðrar upplýsingar um viðskipti og viðskiptamenn) takmarki ekki skyldu til að veita upplýsingar og aðgang að gögnum. Í samræmi við meginreglur laga um lögmenn, nr. 77/1998, um trúnaðar- og þagnarskyldu vegna starfa þeirra, þykir rétt að víkja frá skyldu þeirra til að veita upplýsingar þegar um er að ræða upplýsingar er varða lögmannsstörf þeirra í þágu skjólstæðings í tengslum við dómsmál, svo sem um lagalega stöðu skjólstæðings í tengslum við höfðun, málarekstur eða lok dómsmáls, svo fremi sem upplýsingarnar varða dómsmálið. Þá myndi þessi sama undantekning einnig gilda um endurskoðendur og aðrar starfsstéttir sem væru ella tilkynningaskyldar í þeim tilfellum er þessir aðilar aðstoða lögmann í vinnu við framangreind mál. Á hinn bóginn myndu ákvæði laganna og reglur um tilkynningarskyldu eiga við lögmenn í öllum öðrum tilvikum er varða t.d. störf þeirra í tengslum við viðskipti skjólstæðinga þeirra með eignir, fjármuni og hvers kyns aðrar millifærslur fjármuna eða aðgerðir, gerð löggerninga, viðskipti með fasteignir, lausafjármuni, félög og fyrirtækjastarfsemi, sbr. m-lið 2. gr.
    Í 3. mgr. er að finna ákvæði sem er samhljóða 4. mgr. 38. gr. Að öðru leyti þarfnast málsgreinin ekki skýringa.

Um 21. gr.

    Ákvæðið byggist á 33. gr. tilskipunar 2015/849/EB og tekur mið af tilmælum FATF nr. 20 og 23. Ákvæðið leggur víðtækar skyldur á tilkynningarskylda aðila sem eru nauðsynlegar til þess að skrifstofu fjármálagreininga lögreglu sé kleift að sinna lögbundnu hlutverki og verkefnum sínum.
    Tilkynningarskyldum aðilum er skylt að tilkynna öll grunsamleg viðskipti til skrifstofu fjármálagreininga lögreglu, að eigin frumkvæði, og veita henni allar nauðsynlegar upplýsingar við greiningu tilkynninga. Tilkynningar skulu sendar tímanlega, en í því felst að þær skulu sendar um leið og grunur vaknar um að tiltekin viðskipti eða færslur megi rekja til refsiverðrar háttsemi eða fjármögnunar hryðjuverka í samræmi við skilgreiningu þessara hugtaka í 3. gr. Undir grunsamleg viðskipti falla m.a. viðskipti sem ekki ná fram að ganga vegna þess að tilvonandi viðskiptamaður dregur sig í hlé eða hættir við viðskipti þegar tilkynningarskyldur aðili óskar eftir upplýsingum um þætti sem falla undir lögin. Með hugtakinu grunur er vísað til lægsta stigs gruns, þ.e. að sérhver grunur, óháð því hve mikill hann er, uppfyllir skilyrði greinarinnar um grun. Með grun er því að þessu leyti ekki gerð jafn ítarleg og afdráttarlaus krafa og almennt gildir í réttarfari um rökstuddan grun, eins og á t.d. við um beitingu og framkvæmd þvingunarráðstafana samkvæmt IX., X., XI., XIII. og XIV. kafla laga um meðferð sakamála, nr. 88/2008, heldur er hér átt við nægjanlegan grun. Betra er talið, og í samræmi við alþjóðlegar reglur á sviði aðgerða gegn peningaþvætti og fjármögnunar hryðjuverka, að tilkynningarskyldir aðilar tilkynni oftar en sjaldnar og það sé í höndum skrifstofu fjármálagreininga lögreglu að annast frekari meðferð og greiningar á tilkynntum upplýsingum. Væri í þessu sambandi nægjanlegt að grunur kviknaði um að fjármuni kunni að mega rekja til refsiverðrar háttsemi burtséð frá því hvort sá grunur reyndist síðar meir hafa verið reistur á fullnægjandi rökum. Í þessu felst að tilkynningarskyldur aðili þarf að annast ákveðna frumrannsókn og greiningu fyrir sitt leyti, hefur svokallaða rannsóknarskyldu (d. undersøgelsespligt). Rannsóknarskylda tilkynningarskylds aðila getur t.a.m. kviknað þegar viðskipti, millifærslur fjármuna eða annars konar umsýsla með eignir eða fjármuni virðist bera með sér að hún hafi ekki efnahagslegan eða lögmætan tilgang, um er að ræða óvenjulega umfangsmikil viðskipti eða flókin, viðskiptin eru óvenjuleg miðað við fyrri viðskipti hlutaðeigandi aðila, um er að ræða viðskipti sem varða aðila í áhættusömum ríkjum eða viðskipti sem hafa að öðru leyti á sér óvenjulegan blæ.
    Tilkynningar skulu sendar skrifstofu fjármálagreininga lögreglu með þeim hætti sem hún ákveður og þarf efni þeirra að vera það skýrt að ekki fari á milli mála hvaða einstöku eða afmörkuðu viðskipti eða millifærslu verið er að tilkynna og hvers vegna grunur sé um að hún tengist refsiverðri háttsemi.
    2. mgr. er óbreytt 3. mgr. 23. gr. gildandi laga og þarfnast ekki frekari skýringa.
    Í 3. mgr. er kveðið á um að tilkynningarskyldir aðilar skuli senda tilkynningar skv. 1. mgr. á skrifstofu fjármálagreininga lögreglu þess ríkis sem hinn tilkynningarskyldi aðili er með staðfestu í, þ.e. starfsleyfi og höfuðstöðvar. Samkvæmt því skulu tilkynningarskyldir aðilar, með staðfestu á Íslandi, senda tilkynningar sínar til skrifstofu fjármálagreininga lögreglu, sbr. 20. gr. Ef um er að ræða tilkynningarskyldan aðila sem starfar á Íslandi en er með staðfestu í öðru ríki þá ber honum að senda tilkynningar á skrifstofu fjármálagreininga lögreglu í staðfesturíkinu. Ábyrgðarmaður, sem tilnefndur er skv. 34. gr., skal tryggja að tilkynningar samkvæmt þessari málsgrein séu sendar réttum aðila.

Um 22. gr.

    Ákvæðið fjallar um skyldu til að forðast viðskipti og kemur í stað 18. gr. gildandi laga. Það byggist á 35. gr. tilskipunar 2015/849/EB og tekur mið af tilmælum FATF nr. 10. Í ákvæðinu er gengið út frá því sem meginreglu að leiki grunur á því að viðskipti megi rekja til refsiverðrar háttsemi skuli tilkynningarskyldur aðili ekki láta viðskipti ná fram að ganga. Þess í stað beri að senda tilkynningu til skrifstofu fjármálagreininga lögreglu og bíða leiðbeininga hennar. Ekki er kveðið á um efni leiðbeininga í ákvæðinu enda geta þær verið misjafnar eftir efni tilkynningar. Efni leiðbeininga gæti t.d. verið að framkvæma ekki viðskipti, sbr. 4. mgr. 20. gr., eða láta viðskipti ná fram að ganga til að tryggja vörslu fjármuna eða koma í veg fyrir réttarspjöll. Í undantekningartilvikum er tilkynningarskyldum aðila skv. 2. mgr. heimilt að láta viðskipti ná fram að ganga ef stöðvun þeirra hefði í för með sér að rannsókn og greining skrifstofu fjármálagreininga lögreglu yrði gerð erfiðari eða ef ómögulegt er að fresta viðskiptunum. Í þeim tilvikum skal tilkynna skrifstofu fjármálagreininga lögreglu um viðskiptin um leið og þau hafa farið fram.

Um 23. gr.

    Greinin byggist á 36. gr. tilskipunar 2015/849/EB og leysir af hólmi 1. mgr. 26. gr. gildandi laga. Með ákvæðinu eru tekin af öll tvímæli um að Fjármálaeftirlitið og aðrir eftirlitsaðilar með tilkynningarskyldum aðilum skuli, þrátt fyrir lögbundna þagnarskyldu, tilkynna án tafar til skrifstofu fjármálagreininga lögreglu verði þeir við framkvæmd starfa sinna varir við viðskipti er lúta mögulega að refsiverðri háttsemi. Ákvæðið nær jafnframt til allra opinberra aðila og kauphalla.
    Skýra ber hugtakið grunur með sama hætti og í 21. gr.
    Með öllum öðrum aðilum í 3. mgr. er átt við lögaðila og einstaklinga sem ekki ber að senda tilkynningar samkvæmt lögunum. Þessir aðilar kunna þó að verða varir við að tiltekna starfsemi eða viðskipti megi rekja til refsiverðrar háttsemi. Hafi viðkomandi aðilar réttmætan grun um slíkt er þeim heimilt að senda tilkynningu til skrifstofu fjármálagreininga lögreglu.

Um 24. gr.

    Ákvæðið er óbreytt frá 21. grein gildandi laga, fyrir utan að tilgreina í 1. málsl., til viðbótar við tilkynningarskylda aðila, starfsmenn þeirra og stjórnendur. Ákvæðið byggist á 36. gr. tilskipunar 2015/849/EB og tekur mið af tilmælum FATF nr. 21.

Um 25. gr.

    Með greininni, sem er nýmæli, er lagt til að innleidd verði 61. gr. tilskipunar 2015/849/EB. Ákvæði sambærilegs efnis er í 60. gr. a laga um fjármálafyrirtæki, nr. 161/2002, og vísað er til skýringa með því ákvæði eftir því sem við á.

Um 26. gr.

    Greinin, sem er nýmæli, byggist á 38. gr. tilskipunar 2015/849/EB. Sambærileg ákvæði eru í 60. gr. a og b laga um fjármálafyrirtæki, nr. 161/2002, og skal horft til þeirra ákvæða eftir því sem við á. Ákvæðinu er ætlað að tryggja að einstaklingar sem í góðri trú tilkynna um grun um peningaþvætti eða fjármögnun hryðjuverka sæti ekki hefndarráðstöfunum eða öðrum óvinveittum aðgerðum. Með einstaklingum er átt við starfsmenn tilkynningarskyldra aðila, hvort sem um er að ræða starfsmenn samkvæmt hefðbundnu ráðningarsambandi, verktaka eða annars konar samband sem byggir á vinnuframlagi gegn endurgjaldi. Markmiðið með því að kveða á um vernd þessara aðila er að stuðla að því að þeir tilkynni um grun um peningaþvætti og fjármögnun hryðjuverka til viðeigandi aðila, hvort sem er innan viðkomandi tilkynningarskylds aðila, til eftirlitsaðila eða skrifstofu fjármálagreininga lögreglu.
    Vernd einstaklinga sem tilkynna um grun samkvæmt ákvæðinu felst m.a. í því að þeir skulu njóta nafnleyndar og ekki vera beittir misrétti vegna tilkynningarinnar. Með misrétti er m.a. átt við uppsögn, mismunun, stöðulækkun eða annars konar órétti af hálfu vinnuveitanda. Ákvæðið felur ekki í sér tæmandi talningu á því hvað telst hér til misréttis.
    Kerfi eða ferlar sem settir eru upp innan tilkynningarskyldra aðila, sbr. 2. mgr. 25. gr., og kerfi eða ferlar sem settir eru upp hjá eftirlitsaðilum, sbr. 1. mgr. 25. gr., skulu þannig uppsettir að hægt sé að senda inn nafnlausar tilkynningar. Aðgangur að tilkynningum skal vera takmarkaður við þá aðila sem hafa umsjón með viðkomandi kerfi eða ferlum og eru þeir sem hafa aðgang að tilkynningum bundnir þagnarskyldu skv. 55. gr.
    Í 3. mgr. er kveðið á um öfuga sönnunarbyrði komi upp sú staða sem fjallað er um í 2. mgr. Sé einstaklingur beittur misrétti, t.d. sagt upp störfum eða beittur öðrum starfstengdum viðurlögum eða meingerð, hvílir það á vinnuveitanda að sýna fram á að uppsögnina megi ekki rekja beint eða óbeint til tilkynningar starfsmannsins. Brot vinnuveitanda í þessu sambandi getur leitt til skaðabótaskyldu samkvæmt almennum reglum.

Um 27. gr.

    Með ákvæðinu eru lagðar til nokkrar breytingar frá 20. gr. gildandi laga og byggja breytingarnar á 39. gr. tilskipunar 2015/849/EB með þeim breytingum sem leiðir af tilskipun 2018/843/EB.
    Ákvæði 1. mgr. samsvarar efnislega banni við upplýsingagjöf sem finna má í 1. mgr. 20. gr. gildandi laga, utan þess að í frumvarpinu er lagt til að bætt verði við banni við að veita upplýsingar um að tilkynning muni verða send, auk þess að vísa til greiningar á grundvelli tilkynningar, í stað rannsóknar, eins og gert er í gildandi lögum. Endurspeglar þessi breyting betur hlutverk skrifstofu fjármálagreininga lögreglu.
    Í 2. mgr. er lagt til að kveðið sé á um að ákvæði 1. mgr. komi ekki í veg fyrir miðlun upplýsinga á grundvelli tilkynningar til aðila sem hafa eftirlit með lögum þessum og í þágu lögregluaðgerða. Í a-lið 2. mgr. 20. gr. gildandi laga er kveðið á um að þrátt fyrir bann við upplýsingagjöf skv. 1. mgr. sé miðlun upplýsinga til Fjármálaeftirlitsins heimil. Með þessu ákvæði frumvarpsins er því verið að víkka út undanþágu frá banni við upplýsingagjöf á grundvelli tilkynningar þannig að upplýsingamiðlun sé heimil til allra eftirlitsaðila auk lögreglu.
    Ákvæði 3. mgr. frumvarpsins samsvarar efnislega 2. mgr. 20. gr. gildandi laga utan þess að heimild til miðlunar upplýsinga er þrengd þar sem lagt er til að hún sé aðeins heimil milli aðila sem nefndir eru í a–i-lið 2. gr. og sem eru hluti af samstæðu eins og hún er skilgreind í lögum um ársreikninga. Samkvæmt b-lið 2. mgr. 20. gr. gildandi laga er miðlun upplýsinga heimil innan samstæðu eins og hún er skilgreind í lögum um ársreikninga.
    Ákvæði 4. mgr. frumvarpsins samsvarar 3. mgr. 20. gr. gildandi laga.

Um 28. gr.

    Greinin byggist á 40. gr. tilskipunar 2015/849/EB. Efnislega sambærilegt ákvæði er í 6. mgr. 5. gr. gildandi laga. Varðveisluskylda nær til allra gagna og upplýsinga, sama á hvaða formi þau eru, sem aflað er í tengslum við áreiðanleikakönnun, svo og allra gagna sem sýna fram á færslur fyrir hönd viðskiptamanna eða viðskipti þeirra. Jafnframt skal varðveita upplýsingar um hvaða aðferðum var beitt við áreiðanleikakönnun. Undir framangreint falla upplýsingar um hvaða gagna var aflað svo og hvort einhverjar hindranir hafi verið við öflun upplýsinga. Fimm ára tímabilið byrjar að líða þegar samningssambandi lýkur, þegar um viðvarandi samningssamband er að ræða, eða þegar einstök viðskipti hafa átt sér stað ef ekki er um slíkt samningssamband að ræða. Varsla framangreindra upplýsinga og gagna telst til almannahagsmuna samkvæmt lögum um persónuvernd og vinnslu persónuupplýsinga, nr. 90/2018 (persónuverndarlögum), og reglugerð Evrópuþingsins og ráðsins (ESB) nr. 2016/679.
    Sé ekki málefnaleg ástæða til vörslu gagna og upplýsinga skv. 1. mgr., að liðnu því tímamarki sem ákvæðið kveður á um, ber í samræmi við ákvæði persónuverndarlaga að eyða þeim. Sé tilefni til geta eftirlitsaðilar og skrifstofa fjármálagreininga lögreglu mælt fyrir um að gögn séu varðveitt umfram tímamörk 1. mgr. eða allt að fimm ár til viðbótar. Þetta er undantekning frá meginreglu 1. mgr. og þurfa málefnaleg sjónarmið að vera til staðar, svo sem rannsóknarhagsmunir, til þess að framlenging sé tæk. Framlenging á varðveisluskyldu þarf jafnframt að taka mið af meðalhófi og ekki standa lengur en nauðsyn er til.
    Í 3. mgr. er kveðið á um að aðgangur að varðveittum gögnum og upplýsingum skuli vera í samræmi við persónuverndarlög. Í því felst m.a. að stýra skuli aðgengi að upplýsingum og veita ekki öðrum aðgang en þeim sem nauðsynlega þurfa á honum að halda.

Um 29. gr.

    Ekki er sérstaklega kveðið á um vinnslu persónuupplýsinga í gildandi lögum um aðgerðir gegn peningaþvætti og fjármögnun hryðjuverka. Þar sem persónuverndarlög gilda um sérhverja vinnslu persónuupplýsinga sem ætlað er að verði hluti af skrá verður að telja að upplýsingaöflun og meðferð upplýsinga samkvæmt gildandi lögum þurfi að samræmast persónuverndarlögum. Ákvæðið er því árétting á því að persónuverndarlög gilda þegar unnið er með persónuupplýsingar sem aflað hefur verið að teknu tilliti til þeirra frávika sem frumvarpið kveður á um. Ákvæðið byggist á 41. gr. tilskipunar 2015/849/EB.
    Í 1. mgr. er afmarkað að vinnsla persónuupplýsinga er eingöngu heimil í þeim tilgangi að koma í veg fyrir peningaþvætti og fjármögnun hryðjuverka. Önnur vinnsla, notkun eða miðlun er óheimil.
    Samkvæmt 2. mgr. er tilkynningarskyldum aðilum skylt að upplýsa nýja viðskiptamenn um vinnslu persónuupplýsinga og tilgang hennar. Með ákvæðinu er áréttuð fræðsluskylda tilkynningarskyldra aðila sem leiðir af persónuverndarlögum.
    Í 3. mgr. er kveðið á um tvenns konar takmarkanir á upplýsingarétti skráðs aðila. Mat á því hvort þær aðstæður sem ákvæðið tilgreinir séu til staðar er í höndum þess aðila sem beiðni um upplýsingar er beint til. Matið getur m.a. byggt á grun um þátttöku hins skráða aðila í refsiverðri háttsemi eða fyrirmælum eftirlitsaðila eða skrifstofu fjármálagreininga lögreglu. Þar sem um undantekningu frá upplýsingarétti skráðs aðila er að ræða þarf að gæta varfærni við slíkt mat. Skráður aðili sem hafnað er um upplýsingar á grundvelli þessa ákvæðis getur borið slíka ákvörðun undir Persónuvernd.

Um 30. gr.

    Ákvæðið byggist á 42. gr. tilskipunarinnar og tekur mið af tilmælum FATF nr. 11. Efnislega sambærilegt ákvæði er í 4. mgr. 23. gr. gildandi laga. Eins og annars staðar þar sem skyldur eru lagðar á tilkynningarskylda aðila ber að taka mið af stærð, eðli og umfangi starfsemi þeirra. Kerfi samkvæmt ákvæðinu fer því eftir framangreindum þáttum og geta verið allt frá einföldu viðskiptabókhaldi eða færslukerfi upp í flókin viðskiptakerfi og verið hvort sem er handvirk eða sjálfvirk, að því tilskildu að hægt sé að nálgast viðeigandi upplýsingar með skjótum hætti. Það er á ábyrgð tilkynningarskyldra aðila að tryggja að kerfi þeirra séu viðeigandi.

Um 31. gr.

    Greinin er nýmæli og byggist á 44. gr. tilskipunar 2015/849/EB og tekur mið af tilmælum FATF nr. 33 og athugasemdum í málsgreinum 29, 114–115, 152 og 161 í skýrslu FATF. Tölfræðiupplýsingar eru mikilvægur þáttur í áhættugreiningu í tengslum við peningaþvætti og fjármögnun hryðjuverka og geta gefið vísbendingar um helstu veikleika og aðferðir sem notaðar eru. Til að tryggja að viðeigandi tölfræðiupplýsingum sé safnað er í ákvæðinu kveðið á um skyldu eftirlitsaðila og skrifstofu fjármálagreininga lögreglu til að safna tilteknum upplýsingum.
    Eftirlitsaðilum ber m.a. að safna upplýsingum um:
          stærð og umfang tilkynningarskyldra aðila, sbr. a-lið,
          fjölda stöðugilda hjá eftirlitsaðilum og skrifstofu fjármálagreininga lögreglu, sbr. e-lið,
          fjölda athugana, þar á meðal vettvangsathugana og fjölda viðurlaga eða annarra ráðstafana sem eftirlitsaðilar grípa til, sbr. f-lið,
          fjölda upplýsingabeiðna frá erlendum systurstofnunum og afgreiðslu þeirra, sbr. g-lið.
    Skrifstofu fjármálagreininga lögreglu ber m.a. að safna upplýsingum um:
          fjölda og efni tilkynninga og eftirfylgni þeirra og rannsóknir, sbr. b-lið,
          fjölda saksókna og sakfellinga, sbr. b-lið,
          tegundir frumbrota þar sem slíkar upplýsingar eru tiltækar, sbr. b-lið,
          verðmæti eigna sem hafa verið frystar, haldlagðar eða gerðar upptækar, sbr. b-lið,
          hlutfall tilkynninga sem leiða til rannsókna, sbr. c-lið,
          fjölda upplýsingabeiðna frá erlendum systurstofnunum og afgreiðslu þeirra, sbr. d- og g-lið,
          fjölda stöðugilda hjá skrifstofu fjármálagreininga lögreglu, sbr. e-lið.
    Séu þessar upplýsingar ekki tiltækar hjá viðkomandi stjórnvöldum kunna þau að þurfa að afla þeirra frá viðeigandi aðilum með heimild í 2. mgr. 20. gr. eða 3. mgr. 38. gr., eftir því sem við á.
    Ákvæðið telur upp helstu upplýsingar sem stjórnvöldum ber að safna en felur ekki í sér tæmandi talningu. Dæmi um aðrar upplýsingar sem kunna að nýtast við framkvæmd laganna eru upplýsingar um gæði þeirrar aðstoðar sem erlendar systurstofnanir veita við framkvæmd laganna, t.d. um raunverulega eigendur.

Um 32. gr.

    Lagt er til að innleidd verði 45. gr. tilskipunar 2015/849/EB um samstæður og komið til móts við athugasemdir í skýrslu FATF varðandi tilmæli nr. 18 að því er varðar stefnur og ferla á samstæðugrunni. Efnislega er þó hluta ákvæðisins að finna í gildandi lögum.
    Í 1. mgr. kemur fram að tilkynningarskyldir aðilar sem eru hluti af samstæðu skuli setja sér stefnu og ferla, þar á meðal um vernd persónuupplýsinga og upplýsingamiðlun innan samstæðunnar varðandi málefni sem heyra undir lögin.
    Með 2. mgr. er kveðið á um að tilkynningarskyldir aðilar samkvæmt a–e-lið 2. gr. sem stunda starfsemi í öðru aðildarríki, hvort sem er í gegnum útibú eða dótturfélag, skuli fylgja ákvæðum laga um aðgerðir gegn peningaþvætti og fjármögnun hryðjuverka sem gilda í gistiríkinu ef þar eru gerðar að lágmarki sömu kröfur og í lögum þessum. Ákvæðið er nýmæli en gildandi lög fjalla ekki um lögum hvaða ríkis dótturfélög og útibú eigi að fylgja þegar þau starfa í öðru aðildarríki. Þar sem lögin byggjast á innleiðingu á tilskipunum Evrópusambandsins er gengið út frá því að löggjöf gistiríkja uppfylli sömu lágmarkskröfur og lög þessi. Einstök ríki kunna þó að gera strangari kröfur en lögin kveða á um og er tekinn af allur vafi um að tilkynningarskyldum aðilum samkvæmt þessu ákvæði er skylt að fylgja strangari kröfum í gistiríkinu.
    3. og 4. mgr. eru efnislega sambærilegar 2. mgr. 24. gr. gildandi laga. Dótturfélög og útibú sem stunda starfsemi í ríki utan aðildarríkja skulu fylgja lögum gistiríkisins nema þegar löggjöf þess gerir vægari kröfur en kveðið er á um í þessum lögum. Í slíkum tilvikum ber að fylgja þessum lögum upp að því marki sem löggjöf viðkomandi ríkis heimilar. Heimili löggjöf viðkomandi ríkis ekki sambærilegar kröfur og mælt er fyrir um í 1. mgr. skal viðkomandi tilkynningarskyldur aðili senda Fjármálaeftirlitinu tilkynningu þess efnis og leita annarra leiða eða ráðstafana til að bregðast við hættu á peningaþvætti og fjármögnun hryðjuverka. Séu slíkar ráðstafanir ekki tækar er gert ráð fyrir því að Fjármálaeftirlitið hafi aukið eftirlit með viðkomandi samstæðu og getur í því efnum gripið til þeirra ráðstafana sem það telur viðeigandi. Það hvílir á tilkynningarskyldum aðila að upplýsa Fjármálaeftirlitið til hvaða ráðstafana þeir hafa gripið samkvæmt ákvæðinu og hvort þær hafi verið fullnægjandi til að draga úr og stýra áhættu.
    Í 5. mgr. frumvarpsins er kveðið á um að tilkynningarskyldum aðilum sem tilheyra sömu samstæðu sé heimilt að miðla sín á milli upplýsingum sem falla undir lögin. Þá skulu tilkynningarskyldir aðilar sem tilheyra sömu samstæðu miðla sín á milli tilkynningum sem sendar hafa verið skrifstofu fjármálagreininga lögreglu um grun um að fjármuni megi rekja til refsiverðrar háttsemi eða fjármögnunar hryðjuverka, nema skrifstofa fjármálagreininga lögreglu fari fram á að það sé ekki gert. Ákvæðið er nýmæli og byggist á 45. gr. tilskipunar 2015/849/EB.
    Ákvæði 6. mgr. er nýmæli og byggist á 4. mgr. 45. gr. tilskipunar 2015/849/EB auk þess sem það á stoð í 6. gr. laga um evrópskt eftirlitskerfi á fjármálamarkaði, nr. 24/2017. Í ákvæðinu er mælt fyrir um að Fjármálaeftirlitið tilkynni hinum evrópsku eftirlitsstofnunum um það ef löggjöf ríkis utan aðildarríkja þar sem útibú eða dótturfélag er staðsett heimilar ekki sambærilegar kröfur og mælt er fyrir um í 1. mgr. en slík upplýsingagjöf er talin nauðsynleg fyrir innri markað Evrópusambandsins. Við mat á því hvort ríki utan aðildarríkja uppfylli kröfur ákvæðisins skal horft til þess hvort löggjöf viðkomandi ríkis hindri þá þætti sem taldir eru upp í ákvæðinu.

Um 33. gr.

    Ákvæðið er innleiðing á 46. gr. tilskipunar 2015/849/EB auk þess sem það tekur mið af tilmælum FATF nr. 18. Sambærilegt ákvæði er í 2. mgr. 23. gr. gildandi laga. Hér er kveðið á um það nýmæli að umboðsmenn, dreifingaraðilar og starfsmenn útibúa skuli hljóta sömu þjálfun og starfsmenn tilkynningarskyldra aðila og að þjálfun þeirra skuli taka mið af áhættu, eðli og stærð tilkynningarskylds aðila. Með því er átt við að tilkynningarskyldum aðilum ber að haga þjálfun til samræmis við greinda áhættu, sbr. áhættumat sem framkvæmt er í samræmi við 5. gr. Þjálfun starfsmanna er eitt af lykilatriðum í vörnum gegn peningaþvætti og fjármögnun hryðjuverka og er hluti af virku innra eftirliti tilkynningarskyldra aðila. Mikilvægt er að fyrir hendi sé áætlun um hvernig þjálfun verði háttað. Í slíkri áætlun þarf að koma fram mat á þörf og tíðni þjálfunar, t.d. eftir starfssviðum, einstökum rekstrareiningum, tegundum viðskiptamanna eða verkefnum. Þar sem starfsemi, umfang og áhætta tilkynningarskyldra aðila er mismunandi er ekki unnt að telja upp með tæmandi hætti hvaða efnisþætti þjálfun þarf að fela í sér en að lágmarki þurfa starfsmenn að kunna skil á:
          lögum, reglugerðum, reglum og eftir atvikum leiðbeinandi tilmælum um málaflokkinn, m.a. hvað varðar skyldur til að framkvæma áhættumat og áreiðanleikakönnun á grundvelli áhættumats, framkvæmd reglubundins eftirlits (sérstaklega að því er varðar grunsamleg viðskipti) og tilkynningar til ábyrgðarmanns og skrifstofu fjármálagreininga lögreglu,
          hvaða afleiðingar það getur haft fyrir tilkynningarskyldan aðila, starfsmenn hans og viðskiptamann ef reglur á þessu sviði eru ekki virtar,
          helstu hættum og nýjustu aðferðum við peningaþvætti og fjármögnun hryðjuverka.
    Fram kemur í 1. mgr. að þjálfun skuli fara fram við upphaf starfs og reglulega á starfstímanum. Með orðinu reglulega í þessu sambandi er átt við að almenn þjálfun þurfi að fara fram að lágmarki einu sinni á ári og eftir atvikum einnig við sérstakar aðstæður, t.d. ef breytingar eru gerðar á regluverki, áhættumati eða aðferðum við peningaþvætti og fjármögnun hryðjuverka. Það fer síðan eftir áhættu, eðli og stærð tilkynningarskylda aðilans hvort þörf sé á sértækari þjálfun fyrir tiltekna starfsmenn oftar en einu sinni á ári. Til þess að þjálfun sé viðeigandi er nauðsynlegt að hún fari a.m.k. fram með fræðslufundum eða námskeiðum sem miða eingöngu að fræðslu um þætti sem tengjast þessum málaflokki. Í einhverjum tilvikum kann að vera nauðsynlegt að láta starfsmenn þreyta próf til þess að kanna þekkingu þeirra á málaflokknum.
    2. mgr. 33. gr. frumvarpsins samsvarar 5. mgr. 23. gr. gildandi laga. Tilkynningarskyldir aðilar skulu hafa hliðsjón af stærð og eðli aðilans þegar metið er hvaða athuganir skuli gerðar á umsækjendum um stöður hjá þeim og í hvaða tilvikum skuli krafist sakavottorðs eða annarra sambærilegra skilríkja um feril og fyrri störf. Skulu þær reglur sem settar eru bæði kveða á um athugun áður en ráðning er gerð og með reglubundnum hætti meðan á ráðningarsambandi stendur. Með athugunum á umsækjendum og starfsmönnum í skilningi framangreinds er átt við mat á hæfni, þekkingu og sérþekkingu til þess að inna af hendi starfsskyldur sínar og háttsemi og heilindum einstaklingsins. Við þá athugun kann að vera ástæða til þess að fletta viðkomandi upp í opinberum skrám eða kerfum sem innihalda gagnagrunna með upplýsingum um t.d. dóma, þvingunarráðstafanir og fjölmiðlaumfjallanir.

Um 34. gr.

    Lagðar eru til breytingar á 22. gr. gildandi laga sem byggja á 4. mgr. 46. gr. tilskipunar 2015/849/EB. Í 2. mgr. er lagt til að auk tilkynningar til skrifstofu fjármálagreininga lögreglu um tilnefningu um ábyrgðarmann verði eftirlitsaðilum skv. 38. gr. jafnframt tilkynnt um tilnefningu hans.
    Þá er lögð til orðalagsbreyting á skyldum ábyrgðarmanns í 3. mgr. þar sem kveðið er á um að hann skuli sjá til þess að innleiddar séu stefnur, reglur og verkferlar sem stuðli að samræmdum starfsaðferðum og góðri framkvæmd laganna.
    Staða og hlutverk ábyrgðarmanns fer eftir starfsemi, stærð og umfangi hins tilkynningarskylda aðila. Hjá smærri tilkynningarskyldum aðilum, þar sem fáir starfsmenn eru, kann að vera eðlilegt að framkvæmdastjóri gegni stöðu ábyrgðarmanns. Í öðrum tilvikum getur ábyrgðarmaður verið framkvæmdastjóri ákveðins sviðs, forstöðumaður eða regluvörður. Hvert sem fyrirkomulagið er ber tilkynningarskyldum aðilum að tryggja að ábyrgðarmaður sé nægilega sjálfstæður til þess að geta sinnt skyldum sínum. Með því er m.a. átt við að ábyrgðarmaður hafi í krafti stöðu sinnar aðgang að nauðsynlegum upplýsingum og geti sent tilkynningar til skrifstofu fjármálagreininga lögreglu vegna viðskipta sem grunur leikur á að rekja megi til refsiverðrar háttsemi án íhlutunar annarra, hvort heldur næstu yfirmanna eða stjórnar tilkynningarskylda aðilans. Í einhverjum tilvikum, að teknu tilliti til eðlis og umfangs starfseminnar, kann að vera æskilegt að tilnefna jafnframt staðgengil ábyrgðarmanns til að gegna stöðunni í forföllum hans.
    Nánar verður kveðið á um starfsskyldur ábyrgðarmanns í reglugerð sem sett verður á grundvelli f-liðar 56. gr. en til þeirra teljast m.a. að:
          taka á móti tilkynningum um grun um peningaþvætti eða fjármögnun hryðjuverka frá starfsmönnum, skrá þær og varðveita ásamt öðrum gögnum á fullnægjandi hátt,
          gera ráðstafanir til að afla nauðsynlegra upplýsinga í tengslum við tilkynningar frá starfsmönnum,
          framkvæma eigin rannsóknir og úttektir á tilkynningum á grundvelli allra aðgengilegra upplýsinga,
          sjá til þess að skrifuð sé skýrsla um tilkynningar,
          senda tilkynningar til skrifstofu fjármálagreininga lögreglu um vitneskju eða grun um peningaþvætti eða fjármögnun hryðjuverka,
          hafa umsjón með samskiptum við stjórnvöld vegna laga um aðgerðir gegn peningaþvætti og fjármögnun hryðjuverka og tryggja að slík samskipti séu skilvirk,
          afla sér upplýsinga um og nota tilmæli og leiðbeiningar skrifstofu fjármálagreininga lögreglu, Fjármálaeftirlitsins, annarra stjórnvalda og alþjóðlegra stofnana, t.d. FATF,
          gera viðeigandi ráðstafanir til að viðhalda þekkingu sinni, t.d. með því að sækja námskeið, ráðstefnur og fyrirlestra um efnið,
          hafa umsjón með þjálfun og fræðslu annarra starfsmanna um málaflokkinn,
          leggja mat á hættu á peningaþvætti og fjármögnun hryðjuverka innan einstakra sviða eða rekstrareininga, m.a. út frá fjölda tilkynninga og umfangi og eðli starfseminnar,
          sjá til þess að mótaðar séu samræmdar starfsaðferðir hjá tilkynningarskyldum aðila sem stuðli að góðri framkvæmd á sviði aðgerða gegn peningaþvætti og fjármögnun hryðjuverka,
          framkvæma reglulega eftirfylgni með viðurkenndum starfsaðferðum hjá tilkynningarskyldum aðila og gera úrbætur eftir því sem við á,
          taka þátt í að móta aðferðir við framkvæmd áhættumats,
          tryggja að stjórn sé nægilega upplýst um áhættur að því er varðar aðgerðir gegn peningaþvætti og fjármögnun hryðjuverka og að hún taki virkan þátt í að draga úr og stýra slíkum áhættum,
          leggja árlega fram skýrslu til stjórnar tilkynningarskylds aðila.

Um 35. gr.

    Ákvæðið er að hluta til efnislega sambærilegt 25. gr. a gildandi laga og tekur mið af tilmælum FATF nr. 14. Lögð er til sú breyting að einstaklingar og lögaðilar sem starfrækja peninga- og verðmætasendingarþjónustu verði ekki lengur skráningarskyldir hjá Fjármálaeftirlitinu. Ástæðan er sú að aðilar sem stunda þessa starfsemi þurfa að sækja um starfsleyfi sem greiðslustofnun samkvæmt lögum um greiðsluþjónustu. Því er ekki rétt að skylda þessa aðila jafnframt til þess að skrá sig hjá Fjármálaeftirlitinu.
    3. mgr. er nýmæli og þarfnast ekki skýringa.

Um 36. gr.

    Greinin er nýmæli og með henni er komið til móts við athugasemdir í skýrslu FATF, m.a. í málsgreinum 284 og 292. Ekki er til skrá eða yfirlit yfir þá aðila sem lagt er til að verði skráningarskyldir samkvæmt ákvæðinu. Slík skrá er forsenda þess að hægt sé að hafa eftirlit með starfsemi þeirra í samræmi við frumvarpið. Þetta er sama fyrirkomulag og gildir um gjaldeyrisskiptastöðvar og þjónustuveitendur sýndarfjár og stafrænna veskja skv. 35. gr.
    Gert er ráð fyrir því að ríkisskattstjóri setji reglur um framkvæmd og skilyrði skráningar. Sama skylda hvílir á Fjármálaeftirlitinu skv. 35. gr. og má gera ráð fyrir því að efni reglnanna verði sambærilegt.
    Samkvæmt bráðabirgðaákvæði IV hafa þessir aðilar sexmánuði frá gildistöku laganna til þess að óska eftir skráningu hjá ríkisskattstjóra.

Um 37. gr.

    Ákvæði 1. mgr. samsvarar 25. gr. b gildandi laga. Í 2. mgr. er fjallað um skilyrði skráningar þeirra aðila sem falla undir 36. gr. Vægari kröfur eru gerðar til þessara aðila en þeirra sem falla undir eftirlit Fjármálaeftirlitsins. Annars vegar er gerð krafa um að viðkomandi aðilar hafi forræði á búi sínu í stað þess að hafa ekki mátt vera gjaldþrota síðustu fimm ár og hins vegar er kveðið á um að þeir megi ekki hafa brotið gegn ákvæðum tiltekinna laga síðustu þrjú ár í stað fimm ára. Mikilvægt er að gera þennan greinarmun þar sem áhrif þeirra aðila á markaði eru minni en þeirra aðila sem falla undir eftirlit Fjármálaeftirlitsins.

Um 38. gr.

    Ákvæðið byggist á 48. gr. tilskipunar 2015/849/EB.
    Samkvæmt 1. mgr. hefur Fjármálaeftirlitið eftirlit með þeim aðilum sem falla undir a–k-lið 2. gr. og er það fyrirkomulag óbreytt frá gildandi lögum.
    Í 2. mgr. er lögð til sú breyting að ríkisskattstjóri fari með eftirlit með öllum tilkynningarskyldum aðilum sem ekki falla undir eftirlit Fjármálaeftirlitsins, þ.e. tilkynningarskyldum aðilum skv. l–s-lið 1. mgr. 2. gr. Samkvæmt gildandi lögum fer Neytendastofa með eftirlit með þeim aðilum sem nú falla undir r-lið 1. mgr. 2. gr., eftirlitsnefnd fasteignasala með eftirlit með fasteignasölum og endurskoðendaráð með eftirlit með endurskoðendum. Enginn skilgreindur eftirlitsaðili hefur hingað til haft eftirlit með lögmönnum, happdrættum o.fl. Markmiðið með breytingunni er að tryggja að allir tilkynningarskyldir aðilar lúti eftirliti og er það talið til verulegs hagræðis að sameina allt eftirlit, að undanskildum þeim aðilum sem falla undir eftirlit Fjármálaeftirlitsins, á einn stað, bæði hvað varðar samræmi við eftirlit og uppbyggingu sérfræðiþekkingar.
    Í 3. mgr. er kveðið á um heimildir eftirlitsaðila til að afla gagna og upplýsinga í tengslum við athugun og eftirlit mála samkvæmt lögunum og aðferða við eftirlit. Ákvæðið byggist á samhljóða ákvæði í lögum um opinbert eftirlit með fjármálastarfsemi, nr. 87/1998. Gert er ráð fyrir því að eftirlitsaðilar beiti áhættumiðuðu eftirliti eins og kveðið er á um í tilmælum FATF nr. 1 og í 6. mgr. 48. gr. tilskipunarinnar. Í því felst að tíðni eftirlits- og vettvangsathugana taki mið af þeirri áhættu sem greind hefur verið af eftirlitsaðilum að teknu tillit til áhættumata sem unnin eru samkvæmt 4. og 5. gr.
    Einstaklingum og lögaðilum sem fengið hafa beiðni um gögn eða upplýsingar skv. 3. mgr. er óheimilt að upplýsa þriðja aðila um beiðnina. Slík upplýsingagjöf (e. tipping off) getur valdið réttarspjöllum og unnið gegn markmiðum laganna sem stefnt er að með frumvarpi þessu.
    Samkvæmt 5. mgr. er eftirlitsaðilum skylt að veita lögbærum stjórnvöldum annarra aðildarríkja aðstoð við eftirlit með erlendum tilkynningarskyldum aðilum sem starfa hér á landi en eru með höfuðstöðvar í öðru aðildarríki.
    Meðal þess sem eftirlitsaðilum er skylt að fylgjast með er áhættumat tilkynningarskyldra aðila. Öllum tilkynningarskyldum aðilum er skylt skv. 5. gr. að áhættumeta starfsemi sína og haga áreiðanleikakönnunum sínum og eftirliti í samræmi við greinda áhættu. Eftirlitið felst m.a. í því að meta hvort aðferðafræði við gerð áhættumatsins og niðurstöður þess séu í samræmi við fyrirliggjandi gögn og upplýsingar, hvort stefna, ferlar og reglur endurspegli niðurstöður áhættumatsins og séu að öðru leyti fullnægjandi og hvort tilkynningarskyldir aðilar hagi vinnubrögðum sínum í samræmi við niðurstöður áhættumatsins, stefnu, ferla og reglur. Við matið ber eftirlitsaðilum að taka viðeigandi tillit til þess svigrúms sem tilkynningarskyldir aðilar hafa skv. 5. gr.

Um 39. gr.

    Ákvæðið, sem er nýmæli, Hér er lagt til að lagastoð verði rennt undir skipan stýrihóps um aðgerðir gegn peningaþvætti og fjármögnun hryðjuverka og tekur mið af tilmælum FATF nr. 2 og 34 og athugasemdum sem koma fram í málsgreinum 10, 12, 41, 94 og 95 í skýrslu FATF.
    Stýrihópurinn er ekki stjórnsýslunefnd sem tekur ákvarðanir heldur samráðsvettvangur þeirra stjórnvalda sem eiga aðkomu að málaflokknum. Gert er ráð fyrir að hópurinn fundi að jafnaði mánaðarlega og oftar ef þess er þörf. Fulltrúi dómsmálaráðuneytið gegnir formennsku sem felst í að taka við tillögum um dagskrá, boða fundi og stýra þeim. Að öðru leyti er gert ráð fyrir því að hópurinn ákveði nánar með hvaða hætti unnið verði að markmiðum 1. mgr., t.d. með setningu starfsreglna.
    Verkefni stýrihópsins lúta m.a. að yfirsýn, stefnumótun og áætlanagerð og þátttöku við gerð áhættumats. Auk þess er gert ráð fyrir að stýrihópurinn geti gefið út leiðbeiningar, viðvaranir og sinnt fræðslu, hvort sem er til tilkynningarskyldra aðila, opinberra aðila eða almennings um málaflokkinn. Enn fremur er gert ráð fyrir því að stýrihópurinn hafi reglulegt samráð, hvort sem er við opinbera aðila, tilkynningarskylda aðila og aðra hagsmunaaðila og upplýsi þjóðaröryggisráð um helstu hættur tengdar málaflokknum þegar tilefni er til.
    Ráðherra skipar í stýrihópinn eftir tilnefningu frá hagsmunaaðilum, sem eru eftirlitsaðilar og önnur stjórnvöld sem koma að framkvæmd málaflokksins. Eftirlitsaðilar eru Fjármálaeftirlitið og ríkisskattstjóri. Önnur stjórnvöld sem koma að framkvæmd málaflokksins eru t.d. skrifstofa fjármálagreininga lögreglu, héraðssaksóknari, ríkislögreglustjóri, lögregla, skattrannsóknarstjóri, tollstjóri, Seðlabankinn, utanríkisráðuneytið, atvinnuvega- og nýsköpunarráðuneytið, fjármála- og efnahagsráðuneytið og dómsmálaráðuneytið. Er þessum stjórnvöldum ætlað í sameiningu að vinna að markmiðum 1. mgr.
    Lagt er til að þagnarskyldu sem lögum samkvæmt hvílir á fulltrúum hagsmunaaðila sem eiga sæti í stýrihópnum sé aflétt. Þannig er þeim gert kleift að vinna að þeim markmiðum sem stefnt er að með lögfestingu stýrihópsins, m.a. með því að ræða sín á milli um þekktar aðferðir, hættumerki (e. red flags), veikleika og aðrar þagnarskyldar upplýsingar sem þessi stjórnvöld kunna að búa yfir. Hér er þó ekki um opna heimild að ræða þar sem þagnarskylda ríkir eftir sem áður um þær upplýsingar sem ræddar eru í stýrihópnum, sbr. 55. gr.

Um 40. gr.

    Með greininni, sem er nýmæli, er lagt til að innleidd verði 49. gr. og 2. mgr. 52. gr. tilskipunar 2015/849/EB með þeim breytingum sem leiðir af tilskipun 2018/843/EB. Ákvæðið tekur mið af tilmælum FATF nr. 2 og málsgreinum 124, 137 og 138 í skýrslu FATF.
    Í 1. mgr., eins og í 39. gr., er þagnarskyldu aflétt af eftirlitsaðilum og öðrum stjórnvöldum sem vegna starfa sinna gegna skyldum við aðgerðir gegn peningaþvætti og fjármögnun hryðjuverka. Hér er um að ræða sömu stjórnvöld og talin eru upp í dæmaskyni í athugasemdum við 39. gr. Vakni grunur hjá þessum stjórnvöldum um peningaþvætti eða fjármögnun hryðjuverka er þeim skylt að tilkynna um það til þess stjórnvalds sem er bært til að taka málið til meðferðar. Nægilegt er að viðkomandi stjórnvald telji að málið kunni að heyra undir valdsvið annars stjórnvalds til að miðlun upplýsinga sé heimil og því ekki gerð krafa um að ótvíræð vissa liggi fyrir. Jafnframt er kveðið á um að stjórnvöld skuli veita gagnkvæma aðstoð í málum sem tengjast aðgerðum gegn peningaþvætti og fjármögnun hryðjuverka. Dæmi um slíkt er samvinna milli skattyfirvalda og héraðssaksóknara í málum þar sem skattsvik eru frumbrot peningaþvættis. Samkvæmt 55. gr. hvílir þagnarskylda á viðtakanda gagna og upplýsinga sem veitt eru á grundvelli þessa ákvæðis.
    Samkvæmt 2. mgr. ber að tryggja öryggi í miðlun upplýsinga og gagna. Ekki er farin sú leið að ákveða með hvaða hætti það skuli gert heldur eftirlátið viðkomandi stjórnvöldum að setja sér sameiginlegar reglur um efnið, sbr. 6. mgr. Miðlun skal fara fram eins fljótt og unnt er. Í því felst að miðla skuli upplýsingum og gögnum um leið og fyrir liggur að málefnið kunni að heyra undir annað stjórnvald.
    Í 3. mgr. er lögð áhersla á að upplýsingar sem miðlað er á grundvelli þessa ákvæðis er eingöngu heimilt að nota til að vinna að aðgerðum gegn peningaþvætti og fjármögnun hryðjuverka og að stjórnvaldi sem móttekið hefur upplýsingar á grundvelli þessa ákvæðis er óheimilt að afhenda þær þriðja aðila nema fyrir liggi ótvírætt samþykki frá þeim aðila sem veitti upplýsingarnar.
    Í 4. mgr. eru taldar upp þrenns konar aðstæður þar sem skrifstofu fjármálagreininga lögreglu er ekki skylt að veita upplýsingar. Mat á því hvort slíkar aðstæður séu til staðar er í höndum skrifstofu fjármálagreininga lögreglu.
    Eitt af hlutverkum skrifstofu fjármálagreininga lögreglu er að framkvæma stefnumiðaða greiningu, sbr. 20. gr., og halda utan um tilteknar tölfræðiupplýsingar, sbr. 31. gr. Vegna þessara verkefna er mikilvægt að skrifstofan fái endurgjöf á þær upplýsingar sem hún miðlar.

Um 41. gr.

    Greinin, sem er nýmæli, byggist á 50. gr. a í tilskipun 2018/843/EB og tekur mið af tilmælum FATF nr. 40. Ákvæðinu er ætlað að tryggja samvinnu milli ríkja í málum sem snúa að peningaþvætti og fjármögnun hryðjuverka. Þekkt er að glæpamenn reyni að hylja slóð sína með því að flytja fjármuni milli landa auk þess sem skipulögð glæpasamtök kunna að starfa samtímis í mörgum ríkjum. Mikilvægt er stjórnvöld geti miðlað og tekið á móti upplýsingum frá öðrum aðildarríkjum til að upplýsa mál sem gerast á yfirráðasvæði fleiri en eins aðildarríkis eða eftir atvikum utan aðildarríkja.
    Í 1. mgr., eins og í 1. mgr. 39. gr., er þagnarskyldu aflétt af eftirlitsaðilum og öðrum stjórnvöldum sem vegna starfa sinna gegna skyldum við aðgerðir gegn peningaþvætti og fjármögnun hryðjuverka. Tvö skilyrði eru sett fyrir því að heimilt sé að veita upplýsingar. Annars vegar að þagnarskylda fylgi gögnunum og hins vegar að miðlun upplýsinganna ógni ekki öryggi ríkisins, almannaöryggi eða öðrum sambærilegum hagsmunum og brjóti ekki í bága við íslensk lög eða alþjóðalög, sbr. 3. mgr. 42. gr. Séu þessi skilyrði uppfyllt er viðkomandi stjórnvöldum skylt að veita systurstofnunum sínum í öðrum aðildarríkjum umbeðna aðstoð og nota allar þær heimildir sem viðkomandi stjórnvöld hafa til þess að aðstoða við fram komna beiðni, sbr. 3. mgr., m.a. með því að kalla eftir upplýsingum frá tilkynningarskyldum aðilum ef þörf krefur. Eftirlitsaðilum og öðrum stjórnvöldum er jafnframt heimilt með sömu skilyrðum og áður greinir að miðla upplýsingum til systurstofnana í öðrum aðildarríkjum, að eigin frumkvæði, varði upplýsingar aðila eða atvik sem tengjast viðkomandi ríki.
    Í 2. mgr. eru taldir upp fjórir þættir sem geta ekki verið forsenda þess að hafna að veita systurstofnun í aðildarríkjum umbeðna aðstoð.
    Samkvæmt 5. mgr. gilda ákvæði 42. gr. eftir því sem við á um miðlun, notkun og áframsendingu upplýsinga og samninga við lönd utan aðildarríkja. Hér er m.a. átt við hvenær og með hvaða hætti upplýsingum er miðlað, sbr. 1. og 11. mgr. 42. gr., notkun veittra upplýsinga, sbr. 7. og 8. mgr., endurgjöf á mótteknar upplýsingar, sbr. 6. mgr., og samninga við systurstofnanir utan aðildarríkja, sbr. 9. mgr.
    Ekki er farin sú leið að ákveða með hvaða hætti upplýsingum samkvæmt ákvæðinu verði miðlað heldur eftirlátið viðkomandi stjórnvöldum að setja sér sameiginlegar reglur um efnið, sbr. 6. mgr. Miðlun skal fara fram eins fljótt og unnt er. Í því felst að miðla skuli upplýsingum og gögnum um leið og fyrir liggur að málefnið kunni að heyra undir annað stjórnvald.

Um 42. gr.

    Með ákvæðinu eru innleiddar 52.–57. gr. tilskipunar 2015/849/EB með þeim breytingum sem leiðir af tilskipun 2018/843/EB svo og 57. gr. a síðarnefndu tilskipunarinnar. Ákvæðið er nýmæli og fjallar um samvinnu og upplýsingamiðlun frá skrifstofu fjármálagreininga lögreglu til systurstofnana í aðildarríkjum.
    Í 1. mgr. er kveðið á um skyldu skrifstofu fjármálagreininga lögreglu að vinna með systurstofnunum í öðrum aðildarríkjum. Annars vegar með beinni aðstoð og hins vegar með miðlun upplýsinga í tengslum við meðferð eða greiningu mála sem tengjast peningaþvætti eða fjármögnun hryðjuverka. Upplýsingum skal miðlað hvort sem er að eigin frumkvæði, þ.e. þegar ljóst er að efni þeirra kann að varða annað aðildarríki, eða samkvæmt framkominni beiðni. Miðlun skal fara fram eins fljótt og unnt er. Í því felst annars vegar að miðla skuli upplýsingum og gögnum um leið og fyrir liggur að málefnið kunni að varða annað aðildarríki þegar um frumkvæðismál er að ræða og hins vegar um leið og búið er að afla viðeigandi gagna sem skal fara fram án ástæðulauss dráttar þegar um beiðni er að ræða. Ekki þurfa að liggja fyrir upplýsingar um tegund frumbrots þegar upplýsingum er miðlað á grundvelli þessa ákvæðis. Frumbrotið getur því verið óþekkt. Ekki er kveðið á um aðferðir til að óska eftir aðstoð eða upplýsingum frá skrifstofunni samkvæmt ákvæðinu, t.d. með tilnefningu sérstaks tengiliðar eða netfangs. Ákvörðun þess tilheyrir innra skipulagi og í höndum skrifstofunnar að ákveða hvert fyrirkomulagið verður.
    Til að geta veitt þá aðstoð sem kveðið er á um í 1. mgr. er skrifstofu fjármálagreininga lögreglu skylt að nota þær heimildir sem hún hefur samkvæmt lögum til að afla umbeðinna upplýsinga. Þetta geta verið upplýsingar úr fyrirtækjaskrá, frá eftirlitsaðilum eða eftir atvikum frá tilkynningarskyldum aðilum.
    Í 3. mgr. eru taldar upp með tæmandi hætti þær ástæður sem geta verið forsenda þess að neita að afhenda upplýsingar skv. 1. mgr.
    Óski systurstofnun eftir heimild til að áframsenda upplýsingar sem skrifstofa fjármálagreininga lögreglu hefur afhent viðkomandi systurstofnun ber að verða við slíkri beiðni nema til staðar séu þær aðstæður sem taldar eru upp í 4. mgr. Við þessar aðstæður hefur 3. mgr. ákvæðisins ekki komið í veg fyrir því að upplýsingar hafi verið veittar og því líkur á því að grundvallarákvæði laga komi ekki í veg fyrir áframsendingu þeirra. Hins vegar kann móttakandi upplýsinga að hafa í huga að nota þær í öðrum tilgangi en í máli sem tengist aðgerðum gegn peningaþvætti eða fjármögnun hryðjuverka eða upplýsingarnar gætu haft neikvæð áhrif á rannsókn sakamáls. Við slíkar aðstæður er skrifstofu fjármálagreiningu lögreglu heimilt að hafna áframsendingu þeirra. Hafi áframsendingu verið hafnað skal skrifstofa fjármálagreininga lögreglu útskýra á hvaða forsendum höfnunin byggir.
    Berist skrifstofu fjármálagreininga lögreglu tilkynningu um fjármuni sem grunur leikur á að rekja megi til refsiverðrar háttsemi eða fjármögnunar hryðjuverka sem tengist öðru aðildarríki er skrifstofunni skylt að áframsenda tilkynninguna til systurstofnunar í viðkomandi aðildarríki. Sama á við um tilkynningar sem varða önnur ríki en aðildarríki hafi skrifstofa fjármálagreininga lögreglu gert samstarfssamning við viðkomandi ríki.
    Í 6.–8. mgr. er fjallað um beiðni um aðstoð frá systurstofnunum skrifstofu fjármálagreiningar lögreglu í öðrum aðildarríkjum, m.a. hvert slík beiðni skuli send og hvaða efnisþættir eigi að vera tilgreindir. Áréttað er að upplýsingar frá systurstofnunum megi eingöngu nota við aðgerðir gegn peningaþvætti og fjármögnun hryðjuverka og að virða beri allar takmarkanir sem veitandi upplýsinga setur. Þar sem ákvæðið er samhljóða í allri Evrópulöggjöf er ekki við því búist að settar verði aðrar takmarkanir en þær sem leiða má af tilskipun 2015/849/EB. Önnur sjónarmið kunna þó að eiga við um upplýsingar sem koma frá ríkjum utan aðildarríkja sem gerður hefur verið samningur við skv. 9. mgr. Óski systurstofnun eftir endurgjöf á gagnsemi þeirra upplýsinga sem hún miðlaði skal verða við því eins fljótt og unnt er.
    Með 9. mgr. er skrifstofu fjármálagreininga lögreglu veitt afdráttarlaus heimild til þess að gera samning um samvinnu og miðlun upplýsinga við systurstofnanir utan aðildarríkja um mál sem tengjast peningaþvætti og fjármögnun hryðjuverka að því tilskildu að þagnarskylda hvíli á móttakanda upplýsinga og önnur ákvæði laganna séu uppfyllt.
    Í 10. mgr. er áréttað að mismunandi skilgreiningar aðildarríkja á refsiverðri háttsemi (frumbrotum) í tengslum við peningaþvætti og fjármögnun hryðjuverka komi ekki í veg fyrir miðlun upplýsinga. Refsiverð háttsemi í aðildarríkjum á að vera skilgreind með sama hætti, sbr. 4. tölul. 3. gr. tilskipunar 2015/849/EB, sbr. breytingar sem leiðir af tilskipun 2018/843/EB. Það ætti því vart að reyna á slíkt misræmi nema þegar um er að ræða miðlun upplýsinga við ríki utan aðildarríkja sem gerður hefur verið samningur við skv. 9. mgr.
    Samkvæmt 11. mgr. ber að tryggja að miðlun upplýsinga fari fram á öruggan hátt. Upplýsingar sem miðlað er samkvæmt ákvæðinu kunna að innihalda viðkvæmar persónuupplýsingar og því mikilvægt að reynt sé að koma í veg fyrir að óviðkomandi aðilar geti komist yfir þær upplýsingar sem miðlað er. Sem dæmi um miðlun með öruggum hætti má nefna kerfi sem eru sérstaklega hönnuð til traustrar miðlunar (t.d. Löke, Egmont Secure Web og FIU.net). Þegar sérstök kerfi til miðlunar eru ekki til staðar ber að tryggja öryggi gagna, t.d. með því að nota eingöngu traust eða vottuð kerfi, með lykilorðum, dulkóðun eða öðrum sambærilegum hætti.

Um 43. gr.

    Ákvæðið byggist á 50. gr. tilskipunar 2015/849/EB auk þess sem horft er til 5. og 6. gr. laga um evrópskt eftirlitskerfi á fjármálamarkaði, nr. 24/2017.

Almennt um XII. kafla.

    Kaflinn er innleiðing á 58.–61. gr. tilskipunar 2015/849/EB. Tilskipunin kveður á um að aðildarríki skuli tryggja að brot gegn lögunum, reglum og reglugerðum settum á grundvelli þeirra sæti viðeigandi stjórnsýsluviðurlögum sem eru í senn áhrifarík, viðeigandi og hafi fullnægjandi varnaðaráhrif. Tilskipunin kveður á um tiltekna lágmarksþætti, svo sem hvaða brot eigi að sæta viðurlögum, hverjir eigi að geta sætt viðurlögum og um lágmarksfjárhæðir sekta, en setja útfærslu að öðru leyti í hendur aðildarríkja til ákvörðunar enda kveður tilskipunin á um lágmarkssamræmingu, sbr. 5. gr. hennar. Einnig er í kaflanum höfð hliðsjón af tilmælum FATF nr. 35 og athugasemdum í skýrslu FATF í málsgreinum 304–306 og 310 og athugasemdum við tilmæli 27, 28 og 35.

Um 44. gr.

    Ákvæðið er árétting á heimildum sem telja verður að eftirlitsaðilar hafi almennt í krafti eftirlitsskyldu sinnar gagnvart tilkynningarskyldum aðilum. Þrátt fyrir að fyrirmæli um úrbætur séu í eðli sínu ekki viðurlög er ákvæðið staðsett fremst í viðurlagakafla frumvarpsins enda verður úrbótakrafa samkvæmt ákvæðinu eingöngu sett fram ef tilkynningarskyldir aðilar fylgja ekki viðeigandi lögum og reglum í starfsemi sinni. Krafa um úrbætur kemur ekki í veg fyrir beitingu annarra heimilda kaflans, svo sem stjórnvaldssektum. Það fer eftir eðli og umfangi brota hvort úrbótakrafa ein og sér sé viðeigandi eða hvort beita eigi öðrum ákvæðum kaflans samtímis. Þá getur úrbótakrafa orðið forsenda dagsekta skv. 45. gr., fari tilkynningarskyldir aðilar ekki eftir fyrirmælum eftirlitsaðila um úrbætur.

Um 45. gr.

    Eftirlitsaðilar geta beitt dagsektum við tvenns konar aðstæður. Annars vegar þegar tilkynningarskyldir aðilar verða ekki við kröfum þeirra um úrbætur innan þeirra fresta sem gefnir eru skv. 43. gr. og hins vegar þegar eftirlitsaðilum eru ekki veittar þær upplýsingar og gögn sem þeir telja nauðsynleg við eftirlit og athuganir mála sem falla undir frumvarpið skv. 3. mgr. 38. gr. Dagsektir vegna úrbótakröfu geta eingöngu beinst að tilkynningarskyldum aðilum á meðan dagsektir þar sem gögnum eða upplýsingum er ekki skilað geta beinst að hverjum þeim sem gagnabeiðni eða beiðni um upplýsingar beinist að, þar á meðal tilkynningarskyldum aðilum. Markmið dagsekta er þ.a.l. að knýja viðkomandi til að framkvæma viðeigandi úrbætur eða til þess að skila umbeðnum gögnum eða upplýsingum.
    Í ákvæðinu eru sett fram viðmið sem eftirlitsaðilum er heimilt að taka tillit til við ákvörðun á fjárhæð dagsekta sem lúta aðallega að fjárhagslegum styrk og eðli vanrækslu. Stærð, eðli og umfang tilkynningarskyldra aðila er mismunandi og eðlilegt að taka tillit til þess við ákvörðun á sektarfjárhæð. Dagsektir að fjárhæð 10.000 kr. á tilkynningarskyldan aðila með ársveltu undir fimm milljónum kr. geta haft sama hvata til að framkvæma úrbætur eða eftir atvikum skil á gögnum og upplýsingum og 500.000 kr. geta haft á tilkynningarskyldan aðila með ársveltu sem nemur hundruðum milljóna kr. eða meira. Með því að taka viðeigandi tillit til fjárhagslegs styrkleika við ákvörðun dagsekta eru varnaðaráhrif þeirra aukin.
    Samkvæmt 2. mgr. eru ákvarðanir um beitingu dagsekta teknar af æðsta aðila innan þeirra eftirlitsaðila sem falið er eftirlit samkvæmt frumvarpinu. Þegar um er að ræða dagsektir gagnvart aðilum skv. a–k-lið 2. gr. frumvarpsins er það stjórn Fjármálaeftirlitsins sem er bært til þess að taka ákvörðun um dagsektir en þegar um er að ræða aðila skv. l–s-lið er það ríkisskattstjóri.
    Það er meginregla 3. mgr. að álagðar dagsektir falla ekki niður þó svo að farið verði að kröfu eftirlitsaðila um úrbætur eða skil á gögnum eða upplýsingum. Sjálfkrafa niðurfelling þeirra myndi draga verulega úr eða gera að engu þau varnaðaráhrif sem dagsektum er ætlað að hafa. Frá meginreglunni er gerð sú undantekning að stjórn Fjármálaeftirlitsins eða eftir atvikum ríkisskattstjóri geti samþykkt lækkun eða niðurfellingu dagsekta. Fara ber með þessa undantekningu með sama hætti og aðrar undantekningar og túlka þröngri lögskýringu. Nauðsynlegt er að eftirlitsaðilar geti tekið tillit til óvæntra eða sérstakra atvika eða aðstæðna sem kunna að koma upp í tengslum við álagningu dagsekta. Atvik eða aðstæður þar sem lækkun eða niðurfelling kynni að koma til greina eru þegar til staðar eru óyfirstíganlegar hindranir til þess að verða við kröfu eftirlitsaðila.

Um 46. gr.

    Ákvæðið byggist á fyrirmynd sambærilegra ákvæða í löggjöf á fjármálamarkaði og er innleiðing á 58.–60. gr. tilskipunar 2015/849/EB.
    Í 1. mgr. er kveðið á um það hvaða brot á lögunum geta sætt stjórnvaldssektum og byggir sú upptalning að mestu leyti á 1. mgr. 59. gr. tilskipunarinnar. Stjórnvaldssektir geta hvort sem er verið lagðar á einstaklinga og lögaðila.
    Lagt er til í 2. mgr. að við ákvörðun stjórnvaldssekta beri eftirlitsaðilum að taka tillit til allra atvika sem skipta máli. Taldir eru þar upp níu þættir í dæmaskyni og byggir sú upptalning að mestu leyti á 4. mgr. 60. gr. tilskipunarinnar.
    Fjárhæðum stjórnvaldssekta er skipt upp eftir því hvaða tilkynningarskylda aðila er um að ræða. Í 3. mgr. eru ákvæði sem lúta að tilteknum tilkynningarskyldum aðilum sem lúta eftirliti Fjármálaeftirlitsins. Hér er um að ræða fjármálafyrirtæki, rafeyrisfyrirtæki, greiðslustofnanir og aðra mikilvæga starfsemi þar sem hætta á peningaþvætti er hvað mest. Annars vegar er kveðið á um fjárhæðir sem geta verið lagðar á tilkynningarskylda aðila sem falla undir a–h-lið 1. mgr. 2. gr. sem geta verið frá fimm millj. kr. til allt að 800 millj. kr. Við mat á fjárhæð sekta ber að horfa til þeirra þátta sem nefndir eru í 2. mgr. Hins vegar er kveðið á um persónulega ábyrgð þeirra einstaklinga sem starfa innan þessara lögaðila. Sé leitt í ljós að tiltekinn einstaklingur beri persónulega ábyrgð á broti geta eftirlitsaðilar lagt á hann stjórnvaldssekt allt frá 500 þús. kr. til 625 millj. kr. Sektir á lögaðila samkvæmt þessu ákvæði geta þó numið hærri fjárhæðum ef skilyrði 4. mgr. eru uppfyllt.
    Í 5. mgr. er ákvæði um stjórnvaldssektir til annarra tilkynningarskylda aðila, þ.e. aðila sem falla undir i–s-lið 2. gr. og einstaklinga sem starfa innan þessara lögaðila. Starfsemi þessara aðila er almennt umfangsminni en þeirra aðila sem falla undir 3. mgr. og því rétt að kveða á um lægri sektir vegna brota þeirra.
    Aðrar málsgreinar ákvæðisins eru hefðbundin viðurlagaákvæði sem eiga sér fyrirmynd í viðurlagaákvæðum á fjármálamarkaði, t.d. lögum um fjármálafyrirtæki, nr. 161/2002, og þarfnast ekki skýringa.

Um 47. gr.

    Greinin er samhljóða 111. gr. laga um fjármálafyrirtæki, nr. 161/2002.

Um 48. gr.

    Greinin er samhljóða 112. gr. a laga um fjármálafyrirtæki, nr. 161/2002.

Um 49. gr.

    Greinin er samhljóða 112. gr. laga um fjármálafyrirtæki. Tilkynning um upphaf rannsóknar skv. 2. mgr. getur m.a. falist í því að eftirlitsaðili kalli eftir skýringum eða gögnum varðandi tiltekna háttsemi. Ekki er nauðsynlegt að í erindi komi sérstaklega fram að um upphaf rannsóknar sé að ræða.

Um 50. gr.

    Ákvæðið er nýmæli og er innleiðing á d-lið 2. mgr. 59. gr. tilskipunar 2015/849/EB Brottvikning stjórnar og framkvæmdastjóra er íþyngjandi stjórnvaldsákvörðun og er eingöngu tæk hafi viðkomandi tilkynningarskyldur aðili brotið með alvarlegum, ítrekuðum eða kerfisbundnum hætti gegn ákvæðum laganna, reglugerða eða reglna sem settar eru á grundvelli þeirra. Úrræðið beinist að stjórn og eftir atvikum framkvæmdastjóra þar sem viðkomandi aðilar bera ábyrgð á starfsemi viðkomandi tilkynningarskylds aðila og ef atvik eru með þeim hætti sem nefnd eru í ákvæðinu verður að telja að líkur séu til þess að þeir hafi brugðist stjórnunar- eða eftirlitsskyldum sínum. Á grundvelli ákvæðisins er eftirlitsaðilum heimilt að víkja frá störfum einstökum stjórnarmönnum eða stjórninni í heild auk þess sem heimilt er að víkja framkvæmdastjóra frá störfum óháð því hvort brottvikning nái jafnframt til einstakra stjórnarmanna eða stjórnarinnar í heild. Með brottvikningu er vegið að atvinnuréttindum aðila og því mikilvægt að vanda alla málsmeðferð þar sem beiting ákvæðisins kemur til greina. Ákvæðið er sambærilegt 86. gr. i laga um fjármálafyrirtæki, sbr. breytingalög nr. 54/2018, þar sem um er að ræða brottvikningu vegna lögbrota eða óreiðu í starfsemi viðkomandi aðila, sem eiga undir stjórnunar- og eftirlitsskyldur stjórnar og framkvæmdastjóra, en lýtur ekki að almennum hæfisskilyrðum eins og 4. mgr. 10. gr. laga um opinbert eftirlit með fjármálastarfsemi, nr. 87/1998, kveður á um.
    Komi til brottvikningar er viðkomandi aðila óheimilt að taka sæti í stjórn eða framkvæmdastjórn tilkynningarskylds aðila sem fellur undir gildissvið laganna næstu fimm ár eftir brottvikningu.
    Í 2. mgr. er kveðið á um skyldu eftirlitsaðila til að tilkynna fyrirtækjaskrá um brottvikningu aðila skv. 1. mgr. Vegna hlutverks fyrirtækjaskrár sem skráningaraðila er mikilvægt að skráin hafi upplýsingar um þá aðila sem óheimilt er að taka sæti í stjórn eða framkvæmdarstjórn tilkynningarskyldra aðila.

Um 51. gr.

    Með ákvæðinu, sem er nýmæli, er innleiddur c-liður 2. mgr. 59. gr. tilskipunar 2015/849/EB. Ákvæðið tekur einnig mið af tilmælum FATF nr. 27. Afturköllun skv. 1. mgr. getur eingöngu beinst að tilteknum tilkynningarskyldum aðilum sem lúta eftirliti Fjármálaeftirlitsins.
    Jafnframt er ráðherra þeim sem fer með málefni lífeyrissjóða heimilt, sbr. 2. mgr., að skipa þeim umsjónarmann í samræmi við 46. gr. laga um skyldutryggingu lífeyrisréttinda og starfsemi lífeyrissjóða, nr. 129/1997, að undangenginni tilkynningu Fjármálaeftirlitsins.
    Sömu sjónarmið eiga við um afturköllun og eiga við um brottvikningu stjórnar og framkvæmdastjóra.

Um 52. gr.

    Greinin er samhljóða 18. gr. laga um opinbert eftirlit með fjármálastarfsemi, nr. 87/1998.

Um 53. gr.

    Ákvæðið er nýmæli og byggist á a-lið 2. mgr. 59. gr. tilskipunar 2015/849/EB, sbr. 60. gr. hennar. Birtingu viðurlaga er ætlað að hafa varnaðaráhrif þar sem brot á lögum geta haft áhrif á orðspor og trúverðugleika viðkomandi aðila og þar með vilja neytenda og annarra til að eiga viðskipti við hann. Fjármálaeftirlitinu er skv. 9. gr. a laga um opinbert eftirlit með fjármálastarfsemi, nr. 87/1998, heimilt að birta opinberlega niðurstöður í málum og athugunum sem byggja á lögunum. Sú heimild er almennari en sú birting sem lögð er til í þessu ákvæði auk þess sem um heimild en ekki skyldu er að ræða.
    Eftirlitsaðilum er skv. 1. mgr. skylt að birta á vefsíðu sinni upplýsingar um viðurlög sem beitt hefur verið á grundvelli laganna, þ.e. upplýsingar um stjórnvaldssektir, sáttir, brottvikningar og afturkallanir. Birting skal fara fram eins fljótt og unnt er eftir að brotlegum aðila hefur verið tilkynnt um ákvörðunina. Ekki er hægt að kveða á um það með algildum hætti hversu langur tími megi líða frá töku ákvörðunar þar til hún er birt en miðað við orðalag ákvæðisins er ljóst að svigrúmið er lítið og skal birting að jafnaði fara fram innan örfárra daga nema um óyfirstíganlegar hindranir sé að ræða. Veita skal upplýsingar um tegund og eðli brots og nafn þess lögaðila eða einstaklings sem viðurlagaákvörðun beindist að.
    Í 2. mgr. er kveðið á um undantekningu frá skyldu eftirlitsaðila til að birta viðurlagaákvarðanir. Hér er um að ræða sömu undantekningar og tilgreindar eru í 9. gr. a laga um opinbert eftirlit með fjármálastarfsemi, nr. 87/1998. Áréttað er að hér er um undantekningu frá meginreglu 1. mgr. að ræða. Hafi eftirlitsaðilar komist að þeirri niðurstöðu að undantekningar ákvæðisins eigi við hafa þeir val um þrjár leiðir. Í fyrsta lagi að fresta birtingu alfarið þar til undantekningar eiga ekki lengur við. Í öðru lagi að birta tilkynningu um tegund og eðli brots en fresta nafngreiningu þar til undantekningar eiga ekki lengur við. Í þriðja lagi að birta enga tilkynningu.
    Ákveði aðili sem beittur hefur verið viðurlögum að bera niðurstöðu ákvörðunarinnar undir dómstóla skulu eftirlitsaðilar birta á vefsíðu sinni upplýsingar um að ákvörðun þeirra hafi verið kærð svo og upplýsingar um niðurstöðu dómsmálsins þegar það liggur fyrir.
    Viðurlagaákvarðanir sem hafa verið birtar á vefsíðu eftirlitsaðila skulu vera aðgengilegar að lágmarki í fimm ár með þeirri undantekningu að afmá skal persónugreinanlegar upplýsingar ef áframhaldandi birting þeirra byggir ekki á málefnalegum ástæðum. Við mat á því hvort málefnalegar ástæður eru fyrir hendi ber að taka mið af persónuverndarlögum.
    Samkvæmt 5. mgr. ber eftirlitsaðilum að birta opinberlega þá stefnu sem þeir fylgja við framkvæmd birtingar. Ekki er gerð krafa um að eftirlitsaðilar setji sameiginlegar reglur en ætla má að efni þeirra verði sambærilegt.

Um 54. gr.

    Tilkynningin nær til þeirra viðurlaga sem ber að birta opinberlega, þ.e. stjórnvaldssekta, sátta, brottvikningar og afturköllunar. Greinin þarfnast að öðru leyti ekki skýringa.

Um 55. gr.

    Í 38.–41. gr. frumvarpsins er þagnarskyldu aflétt af eftirlitsaðilum og öðrum stjórnvöldum sem vegna starfa sinna gegna skyldum við aðgerðir gegn peningaþvætti og fjármögnun hryðjuverkum. Með ákvæðinu er áréttað að þagnarskylda fylgir þeim gögnum og upplýsingum sem miðlað er á grundvelli þessara ákvæða.
    Aðilum sem eiga sæti í stýrihópi skv. 39. gr. er þó heimilt að miðla upplýsingum sem þeir fá vegna þátttöku sinnar í stýrihópnum, innan eigin stjórnvalds, varði upplýsingarnar viðkomandi stjórnvald. Stjórnvald sem tekur við upplýsingum sem miðlað er samkvæmt framangreindu er bundið þagnarskyldu skv. 1. mgr. ákvæðisins.

Um 56. gr.

    Samkvæmt 56. gr. er ráðherra veitt heimild til að setja reglugerðir um nánari útfærslu á einstökum ákvæðum laganna. Samsvarandi heimild er í 28. gr. gildandi laga.
    Í reglugerð um áhættusöm og ósamvinnuþýð ríki er gert ráð fyrir að innleidd verði reglugerð Evrópuþingsins og ráðsins (EB) nr. 2016/1675.
    Í reglugerð um hvaða upplýsingar skulu fylgja millifærslum er gert ráð fyrir að innleidd verði reglugerð Evrópuþingsins og ráðsins (EB) nr. 2015/847 sem mun leysa af hólmi reglugerð nr. 386/2009 um sama efni.
    Við innleiðingu annarra reglugerða er, eftir atvikum, gert ráð fyrir að horft verði til leiðbeininga, viðmiðunarreglna og annars konar efnis sem gefið hefur verið út af hinum evrópsku eftirlitsstofnunum og alþjóðlegum stofnunum eða samtökum eins og FATF.
    Þær nýju reglugerðir sem hér er gert ráð fyrir lúta m.a. að framkvæmd áhættumats, álagningu dagsekta og stjórnvaldssekta og hlutverki ábyrgðarmanna. Í frumvarpi þessu er í fyrsta skipti kveðið á um skyldu til að framkvæma áhættumat. Er reglugerð þar að lútandi ætlað að fjalla um aðferðafræði og framkvæmd áhættumats, þar á meðal gagnaöflun og úrvinnslu gagna. Í frumvarpinu er einnig í fyrsta skipti kveðið á um beitingu stjórnsýsluviðurlaga vegna brota á lögum um aðgerðir gegn peningaþvætti og fjármögnun hryðjuverka. Mikilvægt er að tryggja að jafn íþyngjandi ákvarðanir og viðurlög eru séu teknar með réttmætum og samræmdum hætti og þess vegna gert ráð fyrir því að málsmeðferð við beitingu þeirra verði nánar útfærð í reglugerð. Jafnframt að sett verði reglugerð um störf ábyrgðarmanna sem gegna þýðingarmiklu hlutverki innan tilkynningarskyldra aðila og mikilvægt að tryggja að ekki ríki vafi um stöðu þeirra, ábyrgð og hlutverk.

Um 57. gr.

    Ákvæðið þarfnast ekki skýringa.

Um ákvæði til bráðabirgða V.

    Með 2. mgr. 38. gr. er lagt til að ríkisskattstjóri fari með eftirlit með öllum tilkynningarskyldum aðilum sem ekki falla undir eftirlit Fjármálaeftirlitsins, þ.e. tilkynningarskyldum aðilum skv. l–s-lið 1. mgr. 2. gr. Samkvæmt 25. gr. laga um aðgerðir gegn peningaþvætti og fjármögnun hryðjuverka, nr. 64/2006, fer Neytendastofa með eftirlit með þeim aðilum sem nú falla undir r-lið 1. mgr. 2. gr. Eftirlitsnefnd fasteignasala samkvæmt k-lið 2. mgr. 19. gr. laga um sölu fasteigna og skipa, nr. 70/2015, fer með eftirlit með fasteignasölum og samkvæmt 5. tölul. 2. mgr. 15. gr. laga um endurskoðendur, nr. 79/2008, fer endurskoðendaráð með eftirlit með endurskoðendum. Enginn skilgreindur eftirlitsaðili hefur hingað til haft eftirlit með lögmönnum, happdrættum o.fl. Lagt er til að eftirlit ríkisskattstjóra með þessum aðilum hefjist við gildistöku laganna. Þrátt fyrir það er mikilvægt að núverandi eftirlitsaðilar, Neytendastofa, eftirlitsnefnd fasteignasala og endurskoðendaráð, ljúki þeim verkefnum sem unnið er að á vettvangi stýrihópsins í tengslum við aðgerðir gegn peningaþætti og fjármögnun hryðjuverka, þar á meðal gerð áhættumats, mótun áhættumiðaðs eftirlits og öll önnur þau verkefni sem unnið er að á vettvangi stýrihóps um aðgerðir gegn peningaþvætti og fjármögnun hryðjuverka og aðstoði ríkisskattstjóra við úttektir frá gildistöku laganna og fram til 1. júní 2019. Þessir aðilar skulu jafnframt veita ríkisskattstjóra alla nauðsynlega aðstoð og leiðbeiningar vegna yfirtöku eftirlits.