Ferill 246. máls. Aðrar útgáfur af skjalinu: PDF - Word Perfect.


149. löggjafarþing 2018–2019.
Þingskjal 482  —  246. mál.




Svar


dómsmálaráðherra við fyrirspurn frá Jóni Steindóri Valdimarssyni um þýðingu á íslenskum lögum og reglugerðum.


    Fyrirspurnin hljóðar svo:
     1.      Hafa íslensk lög og reglugerðir verið þýdd á vegum ráðuneytisins og undirstofnana þess? Ef svo er, er óskað eftir að fram komi á hvaða tungumál var þýtt, hvenær þýðing var birt og hvenær þýðing var síðast uppfærð.
     2.      Hafa ráðuneytið og undirstofnanir þess markað stefnu eða hyggjast marka stefnu um þýðingar, m.a. í ljósi þeirrar öru fjölgunar sem hefur orðið á fólki sem býr og starfar á Íslandi en hefur íslensku ekki að móðurmáli?

    Á heimasíðu Stjórnarráðsins er að finna ýmsar upplýsingar á ensku, þar á meðal íslensk lög sem þýdd hafa verið á önnur tungumál, aðallega ensku. Það er á forræði hvers og eins ráðuneytis að láta þýða löggjöf sem undir ábyrgðarsvið þess heyrir og halda henni við.
    Við ákvörðun um hvaða löggjöf, sem heyrir undir dómsmálaráðuneytið, er þýdd yfir á erlent tungumál, sem er enska í öllum tilvikum, hefur m.a. verið litið til þess hvaða löggjöf er mest notuð í samskiptum opinberra stofnana við erlenda aðila, svo sem eftirlitsaðila hjá alþjóðastofnunum, aðra samstarfsaðila og erlenda ríkisborgara sem réttindi eiga á Íslandi.
    Hvað varðar þýðingar fyrir þá sem hér búa og starfa en hafa ekki íslensku að móðurmáli hefur í flestum tilvikum verið brugðist við því með upplýsingagjöf á erlendum tungumálum um tiltekin atriði. Má þar nefna sem dæmi að fyrir sveitarstjórnarkosningar sl. vor lét ráðuneytið þýða upplýsingar um kosningarrétt og aðrar nauðsynlegar upplýsingar varðandi kosningarnar á ellefu tungumál. Þá er á heimasíðu Útlendingastofnunar að finna upplýsingar um dvalarleyfi, áritanir, íslenskan ríkisborgararétt og alþjóðlega vernd. Er slíkt í flestum tilvikum markvissara heldur en þýðing á löggjöfinni sjálfri.
    Ráðuneytið hefur látið þýða eftirfarandi lög og reglugerðir á ensku. Þá er unnið að þýðingu á lögum um meðferð einkamála, lögum um meðferð sakamála og útlendingalögum á ensku:
     *      Lög um kosningar til sveitarstjórna, nr. 5/1998. Framangreind lög hafa verið þýdd á ensku og eru þau uppfærð til ársins 2006. Síðan þá hafa verið gerðar nokkrar breytingar á þeim lögum sem ekki hafa verið þýddar.
     *      Lög um gjaldþrotaskipti o.fl., nr. 21/1991. Framangreind lög hafa verið þýdd á ensku og eru þau uppfærð til ársins 2011. Síðan þá hafa verið gerðar nokkrar breytingar á þeim lögum sem ekki hafa verið þýddar.
     *      Lög um öflun sönnunargagna vegna ætlaðra brota á hugverkaréttindum, nr. 53/2006. Framangreind lög hafa verið þýdd á ensku. Þau voru sett árið 2006 og hafa ekki verið uppfærð síðan. Síðan þá hafa verið gerðar nokkrar breytingar á þeim lögum sem ekki hafa verið þýddar.
     *      Lög um meðferð einkamála, nr. 91/1991. Þýddar hafa verið einstakar greinar. Unnið er að þýðingu á lögunum í heild.
     *      Lög um meðferð sakamála, nr. 88/2008. Þýddar hafa verið einstakar greinar. Unnið er að þýðingu á lögunum í heild.
     *      Lögreglulög, nr. 90/1996. Framangreind lög hafa verið þýdd á ensku og eru þau uppfærð til ársins 2017. Ekki hafa verið gerðar neinar breytingar á lögunum síðan þá.
     *      Lög um framsal sakamanna og aðra aðstoð í sakamálum, nr. 13/1984. Framangreind lög hafa verið þýdd á ensku og eru þau uppfærð til ársins 2008. Síðan þá hafa verið gerðar nokkrar breytingar á lögunum sem ekki hafa verið þýddar.
     *      Lög um ávana- og fíkniefni, nr. 65/1974. Framangreind lög hafa verið þýdd á ensku og eru þau uppfærð til ársins 2011. Síðan þá hafa verið gerðar nokkrar breytingar á lögunum sem ekki hafa verið þýddar.
     *      Almenn hegningarlög, nr. 19/1940. Framangreind lög hafa verið þýdd á ensku og eru þau uppfærð til ársins 2015. Síðan þá hafa verið gerðar nokkrar breytingar á lögunum sem ekki hafa verið þýddar.
     *      Lög um lögmenn, nr. 77/1998. Framangreind lög hafa verið þýdd á ensku og eru uppfærð til ársins 2004. Síðan þá hafa verið gerðar nokkrar breytingar á lögunum sem ekki hafa verið þýddar.
     *      Lög um aðgerðir gegn peningaþvætti og fjármögnun hryðjuverka, nr. 64/2006. Framangreind lög hafa verið þýdd á ensku og eru uppfærð til ársins 2016. Síðan þá hefur þeim verið breytt einu sinni en breytingin ekki þýdd.
     *      Lög um sjóði og stofnanir sem starfa samkvæmt staðfestri skipulagsskrá, nr. 19/1988. Framangreind lög hafa verið þýdd á ensku og eru uppfærð til ársins 2006. Síðan þá hafa verið gerðar nokkrar breytingar á lögunum sem ekki hafa verið þýddar.
     *      Lög um mannanöfn, nr. 45/1996. Framangreind lög hafa verið þýdd á ensku og eru uppfærð til ársins 2006. Síðan þá hafa verið gerðar nokkrar breytingar á lögunum sem ekki hafa verið þýddar.
     *      Lög um happdrætti, nr. 38/2005. Framangreind lög hafa verið þýdd á ensku og eru uppfærð til ársins 2006. Síðan þá hafa verið gerðar nokkrar breytingar á lögunum sem ekki hafa verið þýddar.
     *      Lög um kosningar til Alþingis, nr. 24/2000. Framangreind lög hafa verið þýdd á ensku og eru uppfærð til ársins 2008. Síðan þá hafa verið gerðar nokkrar breytingar á lögunum sem ekki hafa verið þýddar.
     *      Lög um Rauða krossinn á Íslandi og merki Rauða krossins, Rauða hálfmánans og Rauða kristalsins, nr. 115/2014. Framangreind lög hafa verið þýdd á ensku og hafa ekki tekið neinum breytingum frá því að lögin voru sett.
     *      Lögræðislög, nr. 71/1997. Framangreind lög hafa verið þýdd á ensku. Þau hafa ekki verið uppfærð síðan þau tóku gildi. Nokkrar breytingar hafa verið gerðar á þeim sem ekki hafa verið þýddar.
     *      Lög um eignarrétt og afnotarétt fasteigna, nr. 19/1966. Framangreind lög hafa verið þýdd á ensku og eru uppfærð til ársins 2002. Síðan þá hafa verið gerðar nokkrar breytingar á lögunum sem ekki hafa verið þýddar.
     *      Erfðalög, nr. 8/1962. Framangreind lög hafa verið þýdd á ensku og eru uppfærð til ársins 2013. Síðan þá hafa ekki verið gerðar neinar breytingar á lögunum.
     *      Lög um Landhelgisgæslu Íslands, nr. 52/2006. Framangreind lög hafa verið þýdd á ensku og eru uppfærð til ársins 2006, sama ár og þau voru sett. Síðan þá hafa verið gerðar nokkrar breytingar á lögunum sem ekki hafa verið þýddar.
     *      Lög um almannavarnir, nr. 82/2008. Framangreind lög hafa verið þýdd á ensku og eru uppfærð til ársins 2008. Síðan þá hafa verið gerðar nokkrar breytingar á lögunum sem ekki hafa verið þýddar.
     *      Lög um íslenskan ríkisborgararétt, nr. 100/1952. Framangreind lög hafa verið þýdd á ensku og eru uppfærð til ársins 2012. Síðan þá hafa verið gerðar nokkra breytingar á lögunum sem ekki hafa verið þýddar.
     *      Lög um viðurkenningu og fullnustu erlendra ákvarðana um forsjá barna, afhendingu brottnuminna barna o.fl., nr. 160/1995. Framangreind lög hafa verið þýdd á ensku og hafa ekki verið uppfærð síðan þau tóku gildi. Síðan þá hafa verið gerðar nokkrar breytingar á lögunum sem ekki hafa verið þýddar.
     *      Barnalög, nr. 76/2003. Framangreind lög hafa verið þýdd á ensku og eru uppfærð til ársins 2013. Síðan þá hafa verið gerðar nokkrar breytingar á lögunum sem ekki hafa verið þýddar.
     *      Lög um ættleiðingar, nr. 130/1999. Framangreind lög hafa verið þýdd á ensku og hafa ekki verið uppfærð frá því að þau tóku gildi. Síðan þá hafa verið gerðar nokkrar breytingar á lögunum sem ekki hafa verið þýddar.
     *      Reglugerð um réttarstöðu handtekinna manna, yfirheyrslur hjá lögreglu o.fl., nr. 651/2009. Framangreind reglugerð hefur verið þýdd á ensku og hefur ekki tekið neinum breytingum frá því að hún var sett.
     *      Reglugerð um breytingu á reglugerð um meðferð persónuupplýsinga hjá lögreglu, nr. 322/2001, og er reglugerðin nr. 926/2004. Framangreind reglugerð hefur verið þýdd á ensku og var verið að breyta fyrri reglugerð. Því er reglugerð nr. 322/2001 uppfærð til ársins 2004.
     *      Reglugerð um fjárvörslureikninga lögmanna o.fl., nr. 1192/2005. Framangreind reglugerð hefur verið þýdd yfir á ensku og hefur ekki tekið neinum breytingum frá því að hún var sett.
     *      Reglugerð um starfsábyrgðartryggingar lögmanna, nr. 200/1999. Framangreind reglugerð hefur verið þýdd á ensku og hefur ekki tekið neinum breytingum frá því að hún var sett.
     *      Reglugerð um meðhöndlun tilkynninga um ætlað peningaþvætti eða fjármögnun hryðjuverka, nr. 175/2016. Framangreind reglugerð hefur verið þýdd á ensku og hefur ekki tekið neinum breytingum frá því að hún var sett.
     *      Reglugerð um rétt útlendinga, sem falla undir samninginn um Evrópska efnahagssvæðið eða stofnsamning Fríverslunarsamtaka Evrópu, til að öðlast eignarrétt eða afnotarétt yfir fasteignum, nr. 702/2002. Framangreind reglugerð hefur verið þýdd á ensku og er uppfærð til ársins 2002. Gerð var breyting á reglugerðinni árið 2013 en breytingin var felld úr gildi sama ár.
     *      Reglugerð um próf í íslensku fyrir umsækjendur um íslenskan ríkisborgararétt, nr. 1129/2008. Framangreind reglugerð hefur verið þýdd á ensku og er uppfærð til ársins 2008. Breyting á reglugerðinni var gerð árið 2014 sem hefur ekki verið þýdd.