Ferill 379. máls. Aðrar útgáfur af skjalinu: PDF - Word Perfect.


149. löggjafarþing 2018–2019.
Þingskjal 794  —  379. mál.




Svar


fjármála- og efnahagsráðherra við fyrirspurn frá Andrési Inga Jónssyni um fjárfestingarstefnu lífeyrissjóða.


     1.      Hvaða mælikvarða notar Fjármálaeftirlitið til að meta siðferðisleg viðmið í fjárfestingum lífeyrissjóða, sbr. 36. gr. laga nr. 129/1997?
    Fjármálaeftirlitið hefur eftirlit með að starfsemi lífeyrissjóða og vörsluaðila séreignarsparnaðar sé í samræmi við ákvæði laga, reglugerða og reglna settra samkvæmt þeim og er eftirlit með fjárfestingarstefnu hluti þess. Við vinnslu svarsins óskaði ráðuneytið eftir upplýsingum frá Fjármálaeftirlitinu.
    Í svari Fjármálaeftirlitsins kemur fram að ekki hafi verið mótaðar sérstakar kröfur eða viðmið um siðferðisleg viðmið varðandi fjárfestingar lífeyrissjóða. Litið hafi verið svo á að nánari afmörkun sé á hendi sérhvers lífeyrissjóðs enda gefi hvorki lagatexti 5. tölul. 1. mgr. 36. gr. laga nr. 129/1997, um skyldutryggingu lífeyrisréttinda og starfsemi lífeyrissjóða, með síðari breytingum, né greinargerð með frumvarpi til laganna leiðbeiningar um viðmið.

     2.      Telur ráðherra samfélagslega ábyrgð falla undir siðferðisleg viðmið í fjárfestingum lífeyrissjóða og ef svo er, hvernig er lagt mat á samfélagslega ábyrgð fjárfestingarstefnu?
    Siðferðisleg viðmið rúmast vel innan alþjóðlegra skilgreininga um ábyrgar fjárfestingar ásamt þáttum er lúta að umhverfismálum, samfélagslegum þáttum og stjórnarþáttum. Þegar siðferðisleg viðmið eru höfð að leiðarljósi í fjárfestingum lífeyrissjóða má halda því fram að sjóðirnir komi einnig fram af samfélagslegri ábyrgð fyrir hönd eigenda sinna.
    Ekki er lagt sérstak mat á samfélagslega ábyrgð í fjárfestingarstefnu lífeyrissjóða af hálfu eftirlitsaðila. Lögbundið eftirlit Fjármálaeftirlitsins snýr að því hvort lífeyrissjóðir hafi sett sér siðferðisleg viðmið og hvernig þeim sé framfylgt. Ráðuneytinu er kunnugt um að einhverjir lífeyrissjóðir hafi nú þegar sett sér stefnu um samfélagsleg markmið til viðmiðunar í fjárfestingum sínum.

     3.      Telur ráðherra að umhverfisþættir, eins og t.d. áhrif fjárfestinga og fyrirtækja á loftslagsbreytingar, falli undir siðferðisleg viðmið og ef svo er, hvernig er lagt mat á þá þætti fjárfestingarstefnu?
    Í athugunum Fjármálaeftirlitsins á fjárfestingarstefnu lífeyrissjóða hefur komið í ljós að fjölmargir sjóðir hafa tekið mið af viðmiðunum Sameinuðu þjóðanna um ábyrgar fjárfestingar. Einnig eru dæmi um að sjóðir hafi í fjárfestingum sínum haft til hliðsjónar góða umhverfis-, félags- og stjórnarhætti. Ráðuneytinu er kunnugt um að á vettvangi Evrópsku vátrygginga- og lífeyrissjóðaeftirlitsstofnunarinnar (EIOPA) er unnið að viðmiðunum um umhverfis- og samfélagsþætti ásamt stjórnarþáttum við fjárfestingarákvarðanir lífeyrissjóða. Fjármálaeftirlitið hefur og mun fylgjast með því hvernig þeirri vinnu vindur fram og í framhaldi verður tekin ákvörðun um hvort aukið verði við viðmið sem lífeyrissjóðir skulu setja sér í fjárfestingum sínum. Ljóst er að samfélagsleg ábyrgð lífeyrissjóða þarf að vera gegnsæ og aðgengileg. Auk þess er æskilegt að lífeyrissjóðir fjárfesti í verkefnum sem tengjast endurnýjanlegum orkugjöfum og verkefnum sem spara orku fremur en í verkefnum tengdum jarðefnaeldsneyti.

     4.      Hversu margir lífeyrissjóðir fengu fjárfestingarstefnu sína staðfesta af Fjármálaeftirlitinu á árinu 2017?
    Lífeyrissjóðum og öðrum vörsluaðilum séreignarsparnaðar ber samkvæmt lögum nr. 129/1997 að senda Fjármálaeftirlitinu upplýsingar um fjárfestingarstefnu sína fyrir 1. desember hvert ár. Lögin áskilja ekki að stofnunin staðfesti fjárfestingarstefnu lífeyrissjóða. Samkvæmt upplýsingum frá Fjármálaeftirlitinu fer stofnunin yfir fjárfestingarstefnur sjóðanna og gerir athugasemdir ef tilefni er til.