Ferill 303. máls. Aðrar útgáfur af skjalinu: PDF - Word Perfect.


149. löggjafarþing 2018–2019.
Þingskjal 857  —  303. mál.
2. umræða.



Nefndarálit með breytingartillögu


um frumvarp til laga um breytingu á lögum um fjármálafyrirtæki, nr. 161/2002, með síðari breytingum (stjórn og endurskoðun).

Frá meiri hluta efnahags- og viðskiptanefndar.


    Nefndin hefur fjallað um málið og fengið á sinn fund Leif Arnkel Skarphéðinsson frá fjármála- og efnahagsráðuneyti, Hörpu Jónsdóttur og Kristjönu Jónsdóttur frá Seðlabanka Íslands, Björk Sigurgísladóttur og Guðrúnu Finnborgu Þórðardóttur frá Fjármálaeftirlitinu og Reyni Stefán Gylfason og Hrafnhildi Helgadóttur frá KPMG. Nefndinni bárust umsagnir um málið frá Fjármálaeftirlitinu og Seðlabanka Íslands auk minnisblaðs frá fjármála- og efnahagsráðuneyti.
    Með frumvarpinu eru lagðar til breytingar á lögum um fjármálafyrirtæki, nr. 161/2002, um atriði sem varða stjórn fjármálafyrirtækja og endurskoðun. Breytingarnar má rekja til CRD IV-tilskipunarinnar svokölluðu sem tekin hefur verið upp í íslenskan rétt í áföngum á undanförnum árum. Lúta þær einkum að takmörkunum á öðrum störfum framkvæmdastjóra og stjórnarmanna fjármálafyrirtækja annars vegar og upplýsinga- og tilkynningarskyldu endurskoðenda fjármálafyrirtækja hins vegar.
    Í umsögn Seðlabanka Íslands til nefndarinnar var lagt til að við 4. gr. frumvarpsins yrði bætt ákvæði um að Fjármálaeftirlitinu bæri að upplýsa Seðlabankann um tilkynningar sem eftirlitinu bærust og vörðuðu lausafjárstöðu fjármálafyrirtækis. Í minnisblaði til nefndarinnar benti ráðuneytið á að skv. 2. mgr. 15. gr. laga um opinbert eftirlit með fjármálastarfsemi, nr. 87/1998, bæri Fjármálaeftirlitinu að upplýsa Seðlabankann um atriði sem nýttust í starfsemi bankans. Í ákvæðinu er þess sérstaklega getið að komi í ljós grunsemdir um bresti í fjárhagslegri stöðu eftirlitsskyldra aðila skuli Fjármálaeftirlitið tafarlaust gera seðlabankastjóra viðvart. Meiri hlutinn telur að sú upplýsingaskylda sem nefnd er í umsögn Seðlabankans rúmist innan þeirrar skyldu sem kveðið er á um í 2. mgr. 15. gr. eftirlitslaganna og telur því ekki þörf á að leggja til breytingu um þetta atriði.
    Í kjölfar ábendingar í umsögn Fjármálaeftirlitsins og að höfðu samráði við ráðuneytið leggur meiri hlutinn til breytingar á orðalagi í 2. efnismgr. 4. gr. frumvarpsins um skyldu endurskoðanda til að tilkynna Fjármálaeftirlitinu um ákveðin atriði sem varða starfsemi fjármálafyrirtækis. Breytingarnar lúta einkum að hugtakanotkun og er annars vegar lagt til að í stað hugtaksins félag verði notast við hugtakið fjármálafyrirtæki og hins vegar að í b-lið ákvæðisins verði rætt um áframhaldandi starfsemi í stað áframhaldandi rekstrar.
    Auk framangreinds leggur meiri hlutinn til að við frumvarpið bætist grein þar sem kveðið verði á um breytingu á 2. mgr. 90. gr. laganna sem lýtur að starfstíma endurskoðanda. Samkvæmt ákvæðinu skal kjörtímabil endurskoðanda eða endurskoðunarfyrirtækis fjármálafyrirtækis vera fimm ár og hefur ákvæðið m.a. verið gagnrýnt fyrir ósveigjanleika, ekki síst þegar til stendur að samræma starfstíma endurskoðenda á milli móður-, dóttur- eða systurfélaga, sbr. 3. mgr. 90. gr. Samkvæmt frumvarpi til nýrra heildarlaga um endurskoðendur og endurskoðun, sem nefndin hefur til umfjöllunar, fellur umrætt ákvæði 2. mgr. 90. gr. laga um fjármálafyrirtæki úr gildi og nýjar reglur um starfstíma endurskoðenda, sem byggjast á ákvæðum reglugerðar (ESB) nr. 537/2014 um endurskoðun á einingum tengdum almannahagsmunum, taka við. Samkvæmt þeim reglum má ákvarða starfstíma endurskoðanda fyrir fjármálafyrirtæki allt frá einu ári upp í tíu ár. Meiri hlutinn hefur skilning á þeirri gagnrýni sem gildandi ákvæði 2. mgr. 90. gr. laga um fjármálafyrirtæki hefur sætt og leggur til orðalagsbreytingu á ákvæðinu með það að markmiði að auka sveigjanleika við ákvörðun starfstíma við skipun endurskoðanda eða endurskoðunarfyrirtækis fjármálafyrirtækis.
    Þá leggur meiri hlutinn til orðalagsbreytingu á b-lið 6. gr. frumvarpsins sem er tæknilegs eðlis og þarfnast ekki skýringar.
    Að framangreindu virtu leggur meiri hlutinn til að málið verði samþykkt með eftirfarandi

BREYTINGU:



     1.      Á eftir 3. gr. komi ný grein er orðist svo:
                  2. mgr. 90. gr. laganna orðast svo:
                  Endurskoðanda eða endurskoðunarfyrirtæki skv. 1. mgr. skal kjósa á aðalfundi fjármálafyrirtækis til a.m.k. eins árs, þó ekki lengur en til tíu ára. Fjármálafyrirtæki getur vikið endurskoðanda eða endurskoðunarfyrirtæki frá áður en kjörtímabili skv. 1. málsl. lýkur að fengnu áliti endurskoðendaráðs. Að öðru leyti gilda ákvæði 20. gr. laga um endurskoðendur, nr. 79/2008, um starfstíma endurskoðanda eða endurskoðunarfyrirtækis fjármálafyrirtækis.
     2.      2. efnismgr. 4. gr. orðist svo:
                  Endurskoðanda er skylt að gera Fjármálaeftirlitinu tafarlaust viðvart fái hann vitneskju, í starfi sínu fyrir fjármálafyrirtækið eða aðila sem er í nánum tengslum við það, um atriði eða ákvarðanir sem:
                  a.      fela í sér veruleg brot á löggjöf sem gildir um starfsemi fjármálafyrirtækisins eða hvers konar brot sem koma til skoðunar á grundvelli 9. gr.,
                  b.      kunna að hafa áhrif á áframhaldandi starfsemi fjármálafyrirtækisins, þ.m.t. atriði sem hafa verulega þýðingu fyrir fjárhagsstöðu hlutaðeigandi fjármálafyrirtækis,
                  c.      leitt geta til þess að endurskoðandi mundi synja um áritun eða gera fyrirvara við ársreikning fjármálafyrirtækisins.
     3.      B-liður 6. gr. orðist svo: Á eftir 29. tölul. kemur nýr töluliður, svohljóðandi: 92. gr. um upplýsinga- og tilkynningarskyldu endurskoðanda.

Alþingi, 24. janúar 2019.

Óli Björn Kárason,
form., frsm.
Þorsteinn Víglundsson. Brynjar Níelsson.
Bryndís Haraldsdóttir. Oddný G. Harðardóttir. Ólafur Þór Gunnarsson.
Ásgerður K. Gylfadóttir. Smári McCarthy.