Ferill 363. máls. Aðrar útgáfur af skjalinu: PDF - Word Perfect.


149. löggjafarþing 2018–2019.
Þingskjal 866  —  363. mál.




Svar


umhverfis- og auðlindaráðherra við fyrirspurn frá Karli Gauta Hjaltasyni um fjölda starfsmanna sem vinna við gerð lagafrumvarpa.


    Fyrirspurnin hljóðar svo:
     1.      Hversu margir starfsmenn, skipt niður á störf lögfræðinga og annarra, vinna að undirbúningi, samningu, yfirlestri og frágangi lagafrumvarpa í ráðuneytinu? Þess er óskað að tilgreint verði starfshlutfall við verkefnið ef ekki er um fullt starf að ræða.
     2.      Í hversu miklum mæli byggist vinna við gerð lagafrumvarpa á vegum ráðuneytisins á aðkeyptri vinnu utanaðkomandi sérfræðinga?
     3.      Hversu mikið greiddi ráðuneytið árlega árin 2008–2017 fyrir vinnu utanaðkomandi sérfræðinga við gerð lagafrumvarpa?

    Hjá ráðuneytinu er gert ráð fyrir sjö stöðum lögfræðinga á þremur fagskrifstofum ráðuneytisins og er frumvarpagerð hluti af starfslýsingu þeirra. Aðrir sérfræðingar á fagskrifstofum ráðuneytisins auk skrifstofustjóra taka einnig þátt í eða koma með einhverjum hætti að vinnu við gerð lagafrumvarpa, t.d. yfirlestri, eftir því sem tilefni er til og miðað við þeirra sérfræðikunnáttu. Það sama á við um sérfræðinga á skrifstofu fjármála og rekstrar varðandi mat á fjárhagsáhrifum frumvarpa. Breytilegt er ár frá ári hversu stór hluti af störfum þessara sérfræðinga er vegna vinnu við gerð lagafrumvarpa og ekki er haldið sérstaklega utan um þann vinnuþátt í störfum þeirra.
    Aðkeypt sérfræðivinna lögfræðinga við gerð lagafrumvarpa hefur verið óveruleg á tímabilinu 2008–2017. Heildarkostnaður á tímabilinu nam tæpum 3,2 millj. kr. án vsk. og sundurliðast þannig að á árinu 2009 nam kostnaðurinn 75.000 kr., árið 2011 1.000.000 kr., árið 2012 88.000 kr. og árið 2017 nam kostnaðurinn 1.999.000 kr.