Ferill 614. máls. Aðrar útgáfur af skjalinu: PDF - Word Perfect.


149. löggjafarþing 2018–2019.
Þingskjal 1019  —  614. mál.




Tillaga til þingsályktunar


um breytta framsetningu launaseðla ríkisins og stofnana þess.


Flm.: Áslaug Arna Sigurbjörnsdóttir, Óli Björn Kárason, Unnur Brá Konráðsdóttir, Vilhjálmur Árnason, Bryndís Haraldsdóttir, Njáll Trausti Friðbertsson, Páll Magnússon.


    Alþingi ályktar að fela fjármála- og efnahagsráðherra það verkefni að breyta framsetningu launaseðla ríkisins og stofnana þess með þeim hætti að þar komi fram hvernig staðgreiðslu viðkomandi launþega er skipt. Sérstaklega verði tilgreind fjárhæð tekjuskatts og útsvars launamanns, bæði fjárhæð hvors liðar og hlutfall þeirra af heildarlaunum og einnig komi fram með skýrum hætti sú fjárhæð sem launagreiðandi greiðir vegna launamanns í tryggingagjald og önnur launatengd gjöld.

Greinargerð.

    Markmiðið með þingsályktuninni er að auka gagnsæi skattheimtu, að auka almenna þekkingu um það hvernig skatti er skipt milli útsvars og tekjuskatts sem og þekkingu um tryggingagjald og önnur launatengd gjöld launagreiðanda. Með þessu er lagt upp með að ríkið gangi á undan með góðu fordæmi og breyti framsetningu launaseðla sinna. Eðlilegt er að launamenn hafi upplýsingar um það á launaseðli hve stór hluti þeirra opinberu gjalda sem þeir greiða af launum sínum rennur annars vegar til ríkisins í formi tekjuskatts og hins vegar til sveitarfélags í formi útsvars.
    Allt launafólk sem hefur tekjur undir um 745 þús. kr. á mánuði greiðir hærri fjárhæð af launum sínum í útsvar til sveitarfélaga en það greiðir í tekjuskatt ef miðað er við skattstofn sem myndast við 4% iðgjald í lífeyrissjóð og 2% séreignarsparnað í frádrátt frá heildarlaunum, sem er algengt form. Til dæmis greiðir einstaklingur með 500 þús. kr. í mánaðarlaun um 49.300 kr. í tekjuskatt að frádregnum persónuafslætti en tæpar 67.900 kr. í útsvar. Einstaklingur með 300 þús. kr. í laun á mánuði greiðir, miðað við núverandi álagningu, um 7.000 kr. í tekjuskatt en um 40.700 kr. í útsvar.
    Í tveggja þrepa tekjuskattskerfi er staðgreiðsluhlutfall launafólks 36,94% á tekjur undir um 927 þús. kr. mánuði. Meðalútsvar er 14,44% en tekjuskattur ríkisins 22,5% í neðra þrepi og 31,8% í efra þrepi. Persónuafsláttur er 56.447 kr. á mánuði.
    Á undanförnum árum hefur skipting staðgreiðslu af launum einstaklinga milli ríkis og sveitarfélaga breyst verulega. Á sama tíma og ríkið hefur lækkað sitt skatthlutfall hafa mörg sveitarfélög hækkað útsvar sitt. Sveitarfélögin geta samkvæmt lögum um tekjustofna sveitarfélaga ákveðið útsvar á bilinu 12,44–14,52%. Af 72 sveitarfélögum leggja 55 á hámarksútsvar. Sveitarfélögin hafa þannig haft hluta skattalækkunarinnar af launafólki.

Dæmi um launaseðil:
Launaliður Taxti Launaupphæð
Mánaðarlaun 500.000 kr. 500.000 kr.
Frádráttarliðir Taxti Upphæð
Stéttarfélag 0,7% 3.500 kr.
Lífeyrissjóður 4% 20.000 kr.
Séreignarsparnaður 2% 10.000 kr.
Skattstofn 470.000 kr.
Skattþrep 1 22,5% 105.750 kr.
Persónuafsláttur - 56.447 kr.
Tekjuskattur 49.303 kr.
Útsvar 14,44% 67.868 kr.
Frádr. samtals 150.671 kr.
Útborgað 349.329 kr.

Um tryggingagjald.
    Öllum launagreiðendum ber að greiða tryggingagjald með hverjum starfsmanni. Tryggingagjaldið er nú 6,6% eftir að hafa lækkað um 0,25 prósentustig um síðustu áramót. Hæst vegur þar almenna tryggingagjaldið (5,15%) en aðrir liðir gjaldsins eru atvinnutryggingagjald, gjald í Ábyrgðasjóð launa og markaðsgjald.
    Tryggingagjaldið ber að greiða óháð fjárhæð launa. Með öðrum orðum er greitt sama hlutfall burtséð frá því hversu lág eða há laun viðkomandi starfsmanns eru. Fyrir hvern starfsmann með 350 þús. kr. í mánaðarlaun greiðir atvinnurekandi um 25.750 kr. í tryggingagjald. Fyrir starfsmann með 750 þús. kr. í mánaðarlaun nemur gjaldið um 55 þús. kr. Miðað er við að 11,5% mótframlag launagreiðanda bætist við heildarlaun.
    Flest bókhaldskerfi sýna nú þegar framlag atvinnurekenda í lífeyrissjóð, hvort tveggja vegna lögbundinna iðgjalda eða séreignarsparnaðar.
    Lagt er til að greiðsla tryggingagjaldsins verði sjáanleg á launaseðlum opinberra starfsmanna. Rökin fyrir því eru þau sömu og fyrir aðgreiningu á tekjuskatti og útsvari; að auka þekkingu og vitund launafólks á launum og launatengdum gjöldum. Iðulega er rætt um tryggingagjald þegar rætt er um kjaramál í víðu samhengi, sérstaklega í samskiptum tengdum hagsmunum atvinnulífsins og hins opinbera. Tryggingagjald snertir ekki hinn almenna starfsmann með beinum hætti þar sem hann þarf ekki að standa skil á því sjálfur. Það verður aftur á móti að teljast til bóta að launafólk sé vel upplýst um gjöld á borð við tryggingagjald og um leið þann kostnað sem launatengd gjöld fela í sér.