Ferill 508. máls. Aðrar útgáfur af skjalinu: PDF - Word Perfect.


149. löggjafarþing 2018–2019.
Þingskjal 1082  —  508. mál.




Svar


ferðamála-, iðnaðar- og nýsköpunarráðherra við fyrirspurn frá Bjarti Aðalbjörnssyni um raforkudreifingu.


     1.      Er á dagskrá stjórnvalda að koma á hringtengingu rafmagns á þeim stöðum á Norðaustur- og Austurlandi sem ekki njóta hringtengingar, t.d. á Vopnafirði, Þórshöfn og í Neskaupstað?
    Ráðuneytið óskaði eftir umsögnum frá Landsneti og RARIK vegna fyrirspurnarinnar, að því er varðar áform fyrirtækjanna á Norðaustur- og Austurlandi. Byggjast eftirfarandi svör m.a. á upplýsingum þaðan.
    Milli afhendingarstaðar Landsnets á Kópaskeri og Þórshafnar liggur nú 33 kV jarðstrengur, sem er í eigu RARIK. Flutningsgeta strengsins er það lítil að hún býður ekki upp á rafvæðingu fiskimjölsverksmiðjunnar á Þórshöfn. Ekki er hægt að spennuhækka strenginn upp í 66 kV til þess að auka flutningsgetu hans, því að hann er ekki gerður fyrir þá spennu. Þrátt fyrir að lagður yrði nýr 66 kV strengur ykist flutningsgetan til Þórshafnar aðeins takmarkað.
    Til að anna rafvæðingu fiskimjölsverksmiðjunnar á Þórshöfn þyrfti að leggja 132 kV jarðstreng, eða loftlínu, frá Kópaskeri til Þórshafnar og spennuhækka línuna frá Laxá, eða Þeistareykjum, til að auka flutningsgetuna. Afhendingarstaður Landsnets yrði þá samhliða því fluttur til Þórshafnar.
    Nefna má að önnur hugsanleg uppbyggingarleið á svæðinu væri 132 kV hringur frá Héraði, um Vopnafjörð, Þórshöfn, Kópasker og Þeistareyki. Ljóst er að slík framkvæmd yrði verulega kostnaðarsöm og myndi kalla á endurbyggingu nokkurra lína, auk nýrra lína og tengivirkja. Auknar tekjur Landsnets, vegna mögulega aukinnar raforkunotkunar í kjölfar framkvæmdarinnar, myndu ekki standa undir þeim kostnaði.
    Úrbætur að því er varðar raforkuflutning til Þórshafnar, og bætt afhendingaröryggi, eru til skoðunar en engar ákvarðanir liggja fyrir að svo stöddu.
    Af hálfu Landsnets eru nú í gangi verkefni á Austfjörðum með það að markmiði að auka flutningsgetu, draga úr orkutapi og bæta afhendingaröryggi raforku. Liður í því er ný tenging til Neskaupstaðar, sem mun liggja um Norðfjarðargöng, en rör fyrir jarðstreng var lagt í þau við gerð þeirra. Undirbúningur að þessari tengingu er í fullum gangi og stefnt er að því að framkvæmdir hefjist í ár. Með henni verður Neskaupstað tryggð tvöföld tenging.
    Almennt séð forgangsraðar Landsnet framkvæmdum sínum á grundvelli raforkulaga og stefnu stjórnvalda um uppbyggingu flutningskerfisins, sbr. þingsályktun nr. 26/148 frá 11. júní 2018, eins og endurspeglast í kerfisáætlun fyrirtækisins á hverjum tíma. Í þeirri þingsályktun kemur m.a. eftirfarandi fram í töluliðum 3 og 8:
    „3. Treysta skal flutningskerfið betur, tengja betur lykilsvæði og tryggja afhendingaröryggi raforku um land allt. Skulu Eyjafjarðarsvæði, Vestfirðir og Suðurnes vera sett í forgang.“
    „8. Tryggja skal að flutningskerfið mæti þörfum fyrir aukin orkuskipti í samgöngum og haftengdri starfsemi, m.a. að því er varðar innviði fyrir rafbíla, notkun raforku í höfnum og raforku til fiskimjölsbræðslna.“

     2.      Hyggst ráðherra beita sér fyrir því að byggt verði upp flutningsnet sem tryggi þessum stöðum næga og stöðuga raforku svo allar fiskimjölsverksmiðjur á þessu svæði geti rafvæðst? Ef svo er, þá hvenær?
    Allar fiskimjölsbræðslur á Norðaustur- og Austurlandi, að verksmiðjunni á Þórshöfn undanskilinni, geta verið með rafmagn til bræðslu. Eins og staðan er núna er raforkukerfið því tilbúið til að anna öllum fiskimjölsverksmiðjum á svæðinu nema á Þórshöfn. Varðandi úrbætur á flutningi raforku til Þórshafnar vísast til svars við 1. tölul. fyrirspurnarinnar.