Ferill 872. máls. Aðrar útgáfur af skjalinu: PDF - Word Perfect.


149. löggjafarþing 2018–2019.
Þingskjal 1589  —  872. mál.




Svar


forsætisráðherra við fyrirspurn frá Guðmundi Andra Thorssyni um virkjanir innan þjóðlendna.


     1.      Er stefnumörkun í gildi um vernd óbyggðra víðerna innan þjóðlendna?
    Samkvæmt 3. gr. laga um náttúruvernd, nr. 60/2013, ber að standa vörð um óbyggð víðerni landsins. Lögin miða jafnframt skv. 1. gr. að vernd og sjálfbærri nýtingu auðlinda og annarra náttúrugæða. Í 1. gr. laga nr. 48/2011, um verndar- og orkunýtingaráætlun, segir að tryggja skuli að nýting landsvæða þar sem er að finna virkjunarkosti byggist á langtímasjónarmiðum og heildstæðu hagsmunamati þar sem tekið er m.a. tillit til verndargildis náttúru með sjálfbæra þróun að leiðarljósi. Í skipulagslögum, nr. 123/2010, er kveðið á um landsskipulagsstefnu. Landsskipulagsstefnan felur í sér stefnu ríkisins í skipulagsmálum og almenn sjónarmið til leiðbeiningar við skipulagsgerð sveitarfélaga. Í landsskipulagsstefnu 2015–2026, sbr. þingsályktun nr. 19/145, segir að staðinn verði vörður um náttúru og landslag miðhálendisins vegna náttúruverndargildis og mikilvægis fyrir útivist. Uppbygging innviða á miðhálendinu taki mið af sérstöðu þess. Þá segir að viðhaldið verði sérkennum og náttúrugæðum miðhálendisins með áherslu á verndun víðerna, landslagsheilda, mikilvægra vistgerða og gróðurlenda og verðmætra menningarminja.
    Forsætisráðherra fer með málefni þjóðlendna, sbr. lög nr. 58/1998, um þjóðlendur og ákvörðun marka eignarlanda, þjóðlendna og afrétta. Í upphafi þessa árs gaf forsætisráðuneytið út og birti á vefsvæði sínu stefnu um samþykki fyrir nýtingu lands og landsréttinda innan þjóðlendna. Þar eru sett fram þau sjónarmið sem ráðherra leggur til grundvallar við ákvörðun um nýtingu lands og landsréttinda innan þjóðlendna í þeim tilgangi að skapa aukinn fyrirsjáanleika og festu í stjórnsýsluframkvæmd ráðuneytisins.
    Stefnunni er ætlað að setja viðmið um það með hvaða hætti ráðuneytið leggur mat á og tekur ákvörðun um að samþykkja fyrirætlanir um nýtingu lands og landsréttinda eins og þær birtast í skipulagsáætlunum og fyrirhugaðri leyfisveitingu sveitarfélaga. Frumkvæðið liggur því hjá sveitarfélögunum en í hlut ráðuneytisins kemur að leggja mat á tillögur um nýtingu lands og landsréttinda á síðari stigum. Því er mikilvægt að sveitarfélögum og hugsanlegum framkvæmdaraðilum sé ljóst að hverju þeir ganga.
    Sérstakur kafli í stefnunni er tileinkaður víðernum en þjóðlendur eru að mestu óbyggð víðerni sem eiga fáa sína líka á heimsvísu. Því er mikilvægt að samspil verndunar þessara svæða og landnýtingar byggist á skýrri stefnu og við mótun hennar sé litið til verndarheilda og verðmætis víðerna þannig að ljóst sé hvar landnýtingu sleppir og varðveisla víðerna tekur við, svo sem segir í stefnunni.

     2.      Hver er afstaða ráðherra til stóraukinnar ásóknar orkufyrirtækja í óbyggð svæði undir smærri vatnsaflsvirkjanir og vindorkuver?
    Tekið skal fram að óbyggð svæði eru auðvitað víðar en innan þjóðlendu. Eftirfarandi svar er afmarkað við þjóðlendur, sbr. afmörkun í heiti fyrirspurnar. Leyfi forsætisráðuneytisins þarf til að reisa virkjanir innan þjóðlendu. Áform um tvær smærri virkjanir (undir 10 MW) hafa komist á það stig að viðkomandi hefur óskað eftir viðræðum við ráðuneytið um leyfi. Einnig er ráðuneytinu kunnugt um áform um vindorkuver Landsvirkjunar við Búrfell. Þar fyrir utan fær ráðuneytið umsóknir um rannsóknarleyfi til umsagnar. Ráðuneytið hefur veitt umsögn um 15 rannsóknarleyfi frá Orkustofnun frá árinu 2009 og þar af munu níu rannsóknarleyfi vera í gildi innan þjóðlendu, sum hver vegna smávirkjana.
    Ráðuneytið hefur ekki forsendur til að meta hvort merkja megi stóraukna ásókn orkufyrirtækja í óbyggð svæði undir smærri virkjanir. Til þess að geta svarað því þyrfti einnig að skoða óbyggð svæði utan þjóðlendu og afmarka hvaða tímabil sé verið að ræða um í samanburði við fyrri tímabil.
    Hingað til hefur ráðuneytið ekki tekið sjálfstæða afstöðu til virkjunaráforma á grundvelli umhverfislöggjafar eða umhverfissjónarmiða enda önnur stjórnvöld sem hafa það hlutverk. Hin nýja stefna sem áður var nefnd tekur einungis til leyfisveitinga sveitarfélaga þar sem samþykki ráðherra er áskilið, sem sagt til minni háttar framkvæmda. Hún vísar þó veginn um að hliðstæð sjónarmið verði einnig höfð að leiðarljósi varðandi umsýslu ráðuneytisins með þjóðlendum að öðru leyti og þar sem virkjanir eru stór þáttur. Eitt af því sem stjórnvöld þurfa að gæta að er að þótt rammaáætlun nái einungis til virkjana sem eru stærri en 10MW þá séu umhverfisverndarsjónarmið einnig tekin fyllilega með í reikninginn varðandi minni virkjanir.
    Í stjórnarsáttmála ríkisstjórnarinnar kemur fram að langtímaorkustefna verði sett á kjörtímabilinu í samráði við alla þingflokka. Ferðamála-, iðnaðar- og nýsköpunarráðherra hefur skipað starfshóp til að vinna langtímaorkustefnu. Ráðgert er að starfshópurinn ljúki störfum á fyrri hluta árs 2020. Samkvæmt erindisbréfi á starfshópurinn að fjalla meðal annars um sjálfbæra nýtingu orkuauðlinda og hvernig tryggja megi raforkuframboð fyrir almenning og atvinnulíf.
    Þá ber að geta þess að regluverk um virkjanir þar sem nýttar eru auðlindir á opinberu forræði er í endurskoðun, m.a. vegna athugasemda Eftirlitsstofnunar EFTA. Sú endurskoðun lýtur bæði að úthlutun nýtingarleyfa og endurgjaldi.