Ferill 647. máls. Aðrar útgáfur af skjalinu: PDF - Word Perfect.


149. löggjafarþing 2018–2019.
Þingskjal 1711  —  647. mál.
2. umræða.



Nefndarálit


um frumvarp til laga um breytingu á ýmsum lagaákvæðum sem tengjast fiskeldi (áhættumat erfðablöndunar, úthlutun eldissvæða, stjórnvaldssektir o.fl.).

Frá minni hluta atvinnuveganefndar.


    Með frumvarpinu er leitast við að uppfæra gildandi löggjöf um fiskeldi. Sambærilegt frumvarp var lagt fram á síðasta þingi og var ljóst strax í upphafi að gera þyrfti umtalsverðar breytingar á frumvarpinu. Því er eðlilegt að gefinn hafi verið góður tími til umfjöllunar í nefndinni, en alls voru haldnir 19 fundir um málið.
    Það sést ágætlega á þeim fjölda umsagna sem nefndinni bárust um málið hversu umdeilt það er, en alls bárust 46 umsagnir og 81 aðili mætti til fundar við nefndina vegna þessa máls. Ólík sjónarmið varðandi fiskeldi koma fram í þessum umsögnum sem hafa allar á sinn hátt gagnast við vinnu nefndarinnar og ber að þakka þeim sem sendu inn umsagnir.
    Því skal haldið til haga að við umfjöllun málsins í nefndinni hefur verið lögð áhersla á að fá öll sjónarmið fram og sem bestar upplýsingar um fiskeldismálin í heild. Til dæmis fór nefndin til Björgvinjar til að kynna sér reynslu Norðmanna af fiskeldi sem var um margt mjög gagnlegt og mætti viðhafa slík vinnubrögð í umfjöllun fleiri mála á þinginu. Það er löngu tímabært að löggjöf um greinina verði færð til nútímahorfs enda mikil tækifæri fyrir fiskeldi til að vaxa og dafna á Íslandi, ef rétt er á málum haldið. Því er mikilvægt að slíkur vöxtur sé í ríkri sátt við náttúruna og að gerðar séu skýrar kröfur til rekstrarleyfishafa að vanda til verka.
    Meiri hlutinn leggur til að gerðar verði nokkrar nauðsynlegar breytingar á frumvarpinu. Minni hlutinn tekur undir þær flestar, en í nokkrum veigamiklum atriðum er þó ástæða til að ganga lengra til að tryggja að hér verði í gildi framsækin fiskeldislöggjöf sem tryggir hagsmuni náttúrunnar og taki mið af hagsmunum nærsamfélagsins og atvinnugreinarinnar. Það er sannfæring minni hlutans að ef gerðar eru skýrar kröfur til fiskeldis, ekki síst varðandi umhverfis- og náttúruvernd, skili það aukinni arðsemi af fiskeldi til lengri tíma fyrir íslenskt samfélag. Um allan heim eru þjóðir að sækja fram og auka framleiðslu í fiskeldi. Til dæmis stefna Norðmenn á að fara úr 1,2 milljóna tonna framleiðslu í um 5 milljónir tonna árið 2050. Ísland, með ríflega 70 þúsund tonna framleiðslu, mun eiga erfitt uppdráttar í slíkri samkeppni. Sérstaða íslenskrar framleiðslu liggur í gæðum vörunnar og þar gæti Ísland komið til móts við ríkar kröfur um sjálfbærni og náttúruvernd og skapað sér sérstöðu á markaðnum.
    Af þeirri ástæðu leggur minni hlutinn til eftirfarandi breytingar á frumvarpinu.

Samráðsnefnd um fiskeldi.
    Í 2. gr. frumvarpsins er fjallað um svokallaða samráðsnefnd um fiskeldi. Er gert er ráð fyrir að ráðherra skipi nefndina og hún sé stjórnvöldum til ráðgjafar vegna málefna fiskeldis. Minni hlutinn tekur undir að eðlilegt sé að ólíkir hagsmunaaðilar og stjórnvöld hittist reglulega og fjalli um það sem er efst á baugi hverju sinni varðandi fiskeldi. Jafnframt tekur minni hlutinn undir þá tillögu meiri hlutans að bætt verði fulltrúa í samráðsnefndina sem tilnefndur verði af umhverfis- og auðlindaráðherra. Minni hlutinn væntir þess að sá fulltrúi verði frá óháðum náttúruverndarsamtökum. Að mati minni hlutans er ótrúlegt að frumvarpið hafi farið í gegnum ríkisstjórn án þess að formleg aðkoma umhverfis- og auðlindaráðherra að samráðsnefndinni hafi verið tryggð. Víðar í frumvarpinu má sjá skort á aðkomu umhverfis- og auðlindaráðherra sem meiri hlutinn reynir nú að koma til móts við og tekur minni hlutinn undir nauðsyn þess að það sé gert.
    Fyrir nefndinni komu fram sjónarmið um að óheppilegt væri að samráðsnefnd skipuð fulltrúum hagsmunaaðila ætti að fjalla fræðilega um forsendur og úrvinnslu þeirra gagna sem áhættumat byggist á. Minni hlutinn tekur eindregið undir þessi sjónarmið sem komu fram m.a. hjá erfðanefnd landbúnaðarins, Hafrannsóknastofnun og Náttúrufræðistofnun Íslands. Tryggja verður vísindafólki og Hafrannsóknastofnun nauðsynlegt svigrúm til að byggja upp faglegt áhættumat. Ellegar er líklegt að trúverðugleiki fiskeldis og eining um atvinnugreinina verði undir. Leggur minni hlutinn því til að greininni verði breytt í samræmi við framangreint, þannig að nefndin verði stjórnvöldum til ráðgjafar vegna málefna fiskeldis en áhættumat erfðablöndunar verði þar sérstaklega undanskilið.

Rýni áhættumats erfðablöndunar.
    Minni hlutinn tekur undir þau sjónarmið sem hafa komið fram um að nauðsynlegt sé að aðferðafræði Hafrannsóknastofnunar sæti faglegri rýni. Leggur minni hlutinn því til að skipuð verði nefnd óháðra vísindamanna á sviði fiskifræði, stofnerfðafræði og/eða erfðafræði til að rýna aðferðafræði Hafrannsóknastofnunar við mat á burðarþoli og gerð áhættumats. Nefndin skili áliti sínu og tillögum til ráðherra fyrir 1. maí 2020 og ráðherra skili Alþingi í kjölfarið skýrslu um niðurstöður nefndarinnar og viðbrögð við þeim. Tillagan er nánast samhljóða tillögu meiri hlutans en minni hlutinn telur mikilvægt að nefndin verði skipuð erlendum óháðum aðilum og leggur því til framangreinda breytingu.

Skipting hafsvæða í eldissvæði, auglýsing og úthlutun þeirra.
    Í 1. mgr. 3. gr. frumvarpsins er lagt til að Hafrannsóknastofnun ákveði skiptingu fjarða eða hafsvæða í eldissvæði á grundvelli burðarþols og bestu heildarnýtingar mögulegra eldissvæða að höfðu samráði við Skipulagsstofnun. Í nýlegum lögum um skipulag haf- og strandsvæða er í 1. gr. fjallað um gerð strandsvæðaskipulags, kynningu og samráð. Þannig skal svæðisráð taka saman lýsingu á skipulagsverkefninu þar sem fram komi hvaða áherslur svæðisráð hafi við gerð skipulagsins, upplýsingar um forsendur, fyrirliggjandi stefnu og fyrirhugað skipulagsferli, svo sem um kynningu og samráð við skipulagsgerðina gagnvart stjórnvöldum, almenningi og öðrum hagsmunaaðilum og hvernig staðið verði að umhverfismati áætlana. Enn strangari skilyrði eru sett fram um samráð við hagsmunaaðila og íbúa í skipulagslögum og segir m.a. í 2. mgr. 30. gr. þeirra laga að áður en tillaga að aðalskipulagi er tekin til afgreiðslu í sveitarstjórn skuli hún, forsendur hennar og umhverfismat, þegar við á, kynnt íbúum sveitarfélagsins og öðrum hagsmunaaðilum á almennum fundi eða á annan fullnægjandi hátt. Skal kynningin auglýst með áberandi hætti og tillagan kynnt sveitarstjórnum aðliggjandi sveitarfélaga og svæðisskipulagsnefnd, þar sem við á. Þá er Ísland aðili að Árósasamningnum en þar er m.a. kveðið á um aðgang að upplýsingum, þátttöku almennings í ákvarðanatöku og aðgang að réttlátri málsmeðferð í umhverfismálum, sbr. 7. gr. um þátttöku almennings í skipulagi, áætlunum og stefnumiðum er varða umhverfi.
    Með allt þetta til hliðsjónar leggur minni hlutinn til breytingu á 3. gr. frumvarpsins þess efnis að Hafrannsóknastofnun geri tillögu að skiptingu fjarða og hafsvæða í eldissvæði til ráðherra og að áður en ráðherra staðfesti slíka tillögu skuli kynna hana og veita þriggja vikna frest til að skila inn athugasemdum. Telur minni hlutinn að með þeirri breytingu séu skilyrði Árósasamningsins uppfyllt.

Sjókvíaeldi í lokuðum kerfum.
    Á síðustu árum hefur verið hröð þróun og aukin nýsköpun í fiskeldi um allan heim. Í Noregi hefur t.d. mikið verið lagt í að rannsaka og þróa nýja tækni lokaðra sjókvía sem margt bendir til að geti verið framtíðin í fiskeldi. Sömuleiðis hefur nokkur kraftur verið í rannsóknum á framleiðslu geldfisks á síðustu árum, m.a. hér á Íslandi, en tilraunir með slíkt eldi í sjó hefjast fljótlega á Austfjörðum.
    Í umsögnum kom fram það sjónarmið að mikilvægt væri að ný löggjöf fæli í sér frekari hvata fyrir rekstraraðila til að haga framleiðslu sinni með sem umhverfisvænstum hætti. Sannarlega eru tekin jákvæð skref í þá átt í breytingartillögu meiri hlutans en minni hlutinn telur að ganga þurfi lengra í þá átt að styrkja hvata til fyrirtækja að nota bestu mögulegu tækni sem völ er á. Því leggur minni hlutinn til að einnig verði gjöld vegna umhverfissjóðs fiskeldis hækkuð fyrir opnar kvíar.

Rekstrarleyfi.
    Minni hlutinn fagnar tillögu meiri hlutans um að rekstrarleyfi verði gefin út til 16 ára og tekur undir hana. Það er fagnaðarefni að ríkisstjórnarflokkarnir leggi til tímabundna samninga þegar kemur að nýtingu sameiginlegra auðlinda þjóðarinnar. Með því er tryggður fyrirsjáanleiki fyrir greinina en jafnframt komið í veg fyrir hefðarrétt og ótímabundinn afnotarétt eigenda fiskeldisfyrirtækjanna.
    Minni hlutinn telur rétt að skerpa á því að í rekstrarleyfi sé kveðið á um hámark heimilaðs lífmassa í hverri kví og leggur því til breytingu þess efnis.
    Í frumvarpinu er kveðið á um að umsóknir sem þegar eru til staðar falli niður á þeim svæðum sem ekki eru þegar burðarþolsmetin. Aðrar umsóknir haldi sér. Minni hlutinn tekur undir að eðlilegt er að tekið verði tillit til fjárfestinga og fyrirsjáanleika fyrirtækja í greininni. Þess vegna er rétt að ákveðnar umsóknir sem komnar eru inn í kostnaðarsamt ferli hjá Matvælastofnun haldi sér. Samkvæmt frumvarpinu eins og það var lagt fram er hins vegar gert ráð fyrir að gamla löggjöfin gildi áfram um þau svæði sem hafa verið burðarþolsmetin. Það telur minni hluti óásættanlegt enda á nýja löggjöfin að ýta undir að staðið verði að eldi á sjálfbæran hátt þar sem litið er til hagsmuna samfélagsins, náttúrunnar og fyrirtækjanna í mati á umsóknum. Að sama skapi þarf að tryggja möguleika á ákveðinni nýliðun og opna þá glugga sem raunhæft er í þá veru.
    Minni hlutinn bendir á að tillaga meiri hlutans um breytingu á b-lið 23. gr. (sem verður 24. gr.) getur valdið óvissu um túlkun ákvæðisins með tilliti til þess hvaða umsóknir teljist uppfylla 8. gr. laganna eins og þau voru fyrir breytingu. Mikilvægt er að skýrt sé hvaða umsóknir fái umfjöllun samkvæmt gömlu löggjöfinni og hverjar þeirra falli þá í raun niður og þurfi að hefja umsóknarferli samkvæmt nýju löggjöfinni. Leggur minni hlutinn til að það orðalag verði lagfært, auk þess að litið verði til þess að umsóknir fyrir burðarþolsmetin svæði, þar sem áhættumat liggur fyrir og heimilar ekki fiskeldi, falli niður að þremur árum liðnum ef engin breyting hefur orðið á áhættumati Hafrannsóknastofnunar. Umsóknir á svæðum þar sem ekkert burðarþolsmat hefur verið gert falli að sama skapi niður, líkt og segir í frumvarpinu.

Tímabundnar rannsóknir.
    Með 17. gr. frumvarpsins er lögð til sú breyting að heimila Hafrannsóknastofnun að stunda tímabundnar rannsóknir, einni eða í samvinnu við aðra, í fiskveiðilandhelgi Íslands á eldi lagardýra, eldisaðferðum, atferli eldisfisks, mannvirkjum, búnaði og heilbrigði lagardýra. Með tilliti til þess að á Íslandi eru fiskeldisrannsóknir stundaðar af fleirum en starfsfólki innan Hafrannsóknastofnunar leggur minni hlutinn til að þessi grein frumvarpsins verði rýmkuð þannig að háskólum sem hafa reynslu af rannsóknum í tengslum við fiskeldi verði einnig heimilað að stunda slíkar tímabundnar rannsóknir.

Jökulfirðir.
    Þó að ekki hafi verið fjallað um það sérstaklega í nefndinni í vetur er ljóst að það er afar umdeilt hvort heimila eigi fiskeldi á verndarsvæðum eins og t.d. í Jökulfjörðum. Þeir tilheyra að hluta Hornstrandafriðlandinu sem er einstakt svæði á heimsvísu. Þar lagðist búseta af um miðja síðustu öld, áður en innviðir eins og vegir og raflínur voru lagðar. Minni hlutinn telur mikilvægt að slíkar náttúruperlur fái að njóta sérstöðu sinnar og verði friðaðar til framtíðar. Er því lögð til sú breyting á 3. gr. að óheimilt verði að heimila nýtingu Jökulfjarða undir fiskeldi.

Eftirlitsstofnanir.
    Minni hlutinn áréttar mikilvægi þess að þeim stofnunum sem fá aukið hlutverk samkvæmt frumvarpinu verði samhliða samþykkt þess tryggt nauðsynlegt fjármagn svo að þær geti sinnt eftirliti og ríkri ábyrgð sinni af fullri alvöru. Það er jafnframt skoðun minni hlutans að eftirlitsaðilar með fiskeldi verði staðsettir sem næst þeim stöðum þar sem fiskeldi er stundað.

Laxalús.
    Eitt af því sem hefur staðið vexti laxeldis í Noregi helst fyrir þrifum undanfarin ár er laxalús. Þrátt fyrir að sú lús sem komið hefur upp á Íslandi hingað til sé aðeins brot af því sem er í Noregi er mikilvægt að Íslendingar læri af reynslu Norðmanna og grípi til viðeigandi ráðstafana. Því er mikilvægt að settar verði strax reglur um viðbrögð við lúsinni og sömuleiðis verði sett skýr markmið hvað hana varðar. Telur minni hlutinn brýnt að stjórnvöld lýsi yfir að fiskeldi á Íslandi skuli vera laust við laxalús eftir árið 2025. Í samræmi við framangreint leggur minni hlutinn til að ráðherra verði falið að leggja fram aðgerðaáætlun eigi síðar en árið 2021 með það að markmiði að íslenskt fiskeldi verði lúsalaust eftir árið 2025 og fram að því verði aðeins notaðar umhverfisvænar aðferðir við að vinna á laxalús. Við umfjöllun nefndarinnar kom fram að lúsaeitri hafi verið beitt í íslensku fiskeldi. Telur minni hlutinn því jafnframt mikilvægt að rekstraraðilum verði gert skylt að merkja sérstaklega umbúðir þeirra afurða sem lúsaeitur hafi verið notað á.

Skattar, nýsköpun o.fl.
    Minni hlutinn telur að málið þarfnist enn töluverðrar skoðunar og bendir á að enn er eftir að skoða ýmsa anga þess. Minni hlutinn telur t.d. brýnt að tekið verði á lítilli eiginfjármögnun og tryggt verði að rekstrarleyfishafar greiði tekjuskatt á Íslandi en tekjur þeirra renni ekki í greiðslu til svokallaðra „móðurfélaga“ erlendis, líkt og virðist gilda að hluta um álfyrirtæki. Er hvatt til að skattalög verði skoðuð í þessu samhengi.
    Minni hlutinn hvetur ráðherra jafnframt til að búa til fleiri og sterkari hvata til nýsköpunar og þróunar á umhverfisvænni leiðum til fiskeldis, t.d. notkun lokaðra kvía, landeldi o.fl. Við gerð slíkra hvata verði m.a. litið til atriða á borð við tímabundinn afslátt á tollum og endurgreiðslu á virðisaukaskatti við uppbyggingu á umhverfisvænni rekstri.

Endurskoðun laga.
    Minni hlutinn tekur undir þá tillögu meiri hlutans að bæta við lögin nýju bráðabirgðaákvæði sem kveði á um að lögin verði endurskoðuð eigi síðar en 1. maí 2024. Eins og kemur fram í nefndaráliti meiri hlutans hefur mikil og ör þróun átt sér stað í fiskeldi undanfarin ár og ekkert sem bendir til annars en að hún verði áfram hröð á næstu árum. Minni hlutinn telur mikilvægt að stefnt verði að því að fiskeldi á Íslandi verði í fremstu röð. Það verði að lúta skýru regluverki, hafa sjálfbærni að leiðarljósi og taka ríkt tillit til umhverfis, náttúru og samfélags. Þess vegna er brýnt að það skref sem nú er tekið til að uppfæra löggjöf um fiskeldi verði nýtt í þá veru.

    Minni hlutinn leggur til að frumvarpið verði samþykkt með breytingum sem lagðar eru til í sérstöku þingskjali.
    Þorgerður K. Gunnarsdóttir, áheyrnarfulltrúi í nefndinni, er samþykk áliti þessu.

Alþingi, 22. maí 2019.

Albertína Friðbjörg Elíasdóttir,
frsm.
Jón Þór Ólafsson.