Ferill 976. máls. Aðrar útgáfur af skjalinu: PDF - Word Perfect.


149. löggjafarþing 2018–2019.
Þingskjal 1835  —  976. mál.




Beiðni um skýrslu


frá forsætisráðherra um áhrif ráðstöfunar 1,125% af vergri landsframleiðslu til aðgerða til að stemma stigu við hamfarahlýnun.

Frá Smára McCarthy, Andrési Inga Jónssyni, Albertínu Friðbjörgu Elíasdóttur, Birni Leví Gunnarssyni, Guðjóni S. Brjánssyni, Halldóru Mogensen, Hönnu Katrínu Friðriksson, Helga Hrafni Gunnarssyni, Jóni Þór Ólafssyni, Loga Einarssyni, Þorgerði K. Gunnarsdóttur og Þórhildi Sunnu Ævarsdóttur.


    Með vísan til 54. gr. stjórnarskrárinnar og 54. gr. laga um þingsköp Alþingis er þess óskað að forsætisráðherra flytji Alþingi skýrslu um möguleg áhrif á íslenskt samfélag ef ákveðið yrði að fylgja ráðleggingum skýrslu milliríkjanefndar Sameinuðu þjóðanna um loftslagsbreytingar (IPCC) um fjárfestingar í innviðum vegna hamfarahlýnunar.
     1.      Til hvaða aðgerða gæti ríkisstjórnin gripið ef ákveðið yrði að fjárfesta 1,125% af vergri landsframleiðslu íslenska ríkisins á ári til tíu ára til beinna aðgerða gegn hamfarahlýnun?
     2.      Hvaða hvata gæti ríkisstjórnin boðið einkaaðilum sem gætu leitt til fjárfestinga upp á 3,375% af vergri landsframleiðslu á ári til beinna aðgerða gegn hamfarahlýnun?
     3.      Hver yrðu helstu áhrif framangreindra aðgerða á:
                  a.      fyrirtæki landsins og yrðu áhrifin mismunandi eftir stærð eða starfsgreinaflokkun þeirra,
                  b.      einstaklinga, bæði íbúa landsins og ferðamenn?
     4.      Hver gætu heildaráhrifin orðið á afkomu ríkissjóðs af þessum aðgerðum og á verga landsframleiðslu?
     5.      Hversu mikið er hægt að áætla að kolefnisfótspor Íslands mundi minnka við framangreindar aðgerðir?

Greinargerð.

    Í skýrslu milliríkjanefndar Sameinuðu þjóðanna um loftslagsbreytingar (IPCC) frá október 2018 er fjallað um nauðsyn þess að lönd leggi til minnst 2,5% af vergri landsframleiðslu í innviðafjárfestingar í raforkuframleiðslu til að draga úr losun gróðurhúsalofttegunda. Þar sem íslenskur raforkuiðnaður hefur mun minna kolefnisfótspor en þekkist í öðrum löndum má ætla að það þurfi aðeins aðgerðir til að draga úr koltvísýringslosun frá jarðvarmavirkjunum til að þetta geti talist uppfyllt. Hins vegar segir jafnframt í skýrslunni að OECD-ríkin þurfi að jafnaði að verja tæplega tvöfaldri þeirri fjárhæð til breytinga á samgönguinnviðum og öðrum innviðum til að ná tilætluðum árangri samkvæmt forsendum skýrslu IPCC. Þá er gert ráð fyrir að fjórðungur þeirra fjárfestinga komi af opinberu fé, en að einkageirinn fjármagni um þrjá fjórðu framkvæmda. Með hliðsjón af þessu má ætla að samkvæmt þeim spálíkönum sem notuð eru í skýrslu IPCC ætti íslenska ríkið að verja um 1,125% af vergri landsframleiðslu í innviðafjárfestingar, í þeim tilgangi að draga úr losun gróðurhúsalofttegunda. Til samanburðar eru heildarframlög til fjárfestinga í samgöngum samkvæmt fjárlögum 2019 um 0,7% af vergri landsframleiðslu.
    Skýrslubeiðendur telja skýrslubeiðni þessa umfangsmikla og að hún veiti ráðherra töluvert svigrúm til að meta til hvaða aðgerða sé unnt að grípa til að bregðast við loftslagsbreytingum og hamfarahlýnun af þeirra völdum með skilvirkum og áhrifaríkum hætti.