Ferill 9. máls. Aðrar útgáfur af skjalinu: PDF - Word Perfect.


149. löggjafarþing 2018–2019.
Þingskjal 1895  —  9. mál.
2. umræða.



Nefndarálit


um frumvarp til laga um mannanöfn.

Frá meiri hluta allsherjar- og menntamálanefndar.


    Nefndin hefur fjallað um málið og fengið á sinn fund Berglindi Báru Sigurjónsdóttur og Fanneyju Óskarsdóttur frá dómsmálaráðuneyti, Rán Ingvarsdóttur og Ingibjörgu Ruth Gulin frá forsætisráðuneyti, Stellu Halldórsdóttur frá umboðsmanni barna, Halldóru Gunnarsdóttur frá mannréttindaskrifstofu Reykjavíkurborgar, Heiðu Björgu Pálmadóttur frá Barnaverndarstofu, Daníel E. Arnarsson frá Samtökunum ´78, Sæborgu Ninju Guðmundsdóttur og Logn Draumland frá Trans Íslandi, Brynjar Pétursson og Áslaugu Benediktsdóttur frá Útlendingastofnun, Ingu Helgu Sverrisdóttur frá Þjóðskrá Íslands, Ármann Jakobsson, Guðrúnu Kvaran, Láru Magnúsardóttur, Hallfríði Þórarinsdóttur, Eirík Rögnvaldsson og Sigurð Konráðsson, Aðalstein Hákonarson og Auði Björgu Jónsdóttur frá mannanafnanefnd, Hrafn Svein bjarnar son og Guðrúnu Nordal og Ara Pál Kristinsson frá Stofnun Árna Magnússonar í íslenskum fræðum.
    Nefndinni bárust umsagnir frá Ármanni Jakobssyni, Barnaverndarstofu, Hallfríði Þórarinsdóttur, Eiríki Rögnvaldssyni, Guðrúnu Kvaran, Hrafni Sveinbjarnarsyni, Jóhannesi B. Sigtryggssyni og Ágústu Þorbergsdóttur, Láru Magnúsardóttur, mannanafnanefnd, mannréttindaskrifstofu Reykjavíkurborgar, Óháða söfnuðinum, Persónuvernd, Samtökunum ´78, Trans Íslandi og Intersex Íslandi, Sigurði Konráðssyni, umboðsmanni barna, Útlendingastofnun og Þjóðskrá Íslands.
    Við meðferð málsins fyrir nefndinni var almennt samhljómur á meðal gesta um að tímabært væri að endurskoða lög um mannanöfn, nr. 45/1996, og að þörf væri á að gera tilteknar breytingar á lögunum, þar á meðal er varða hlutverk mannanafnanefndar, ákvæði um nafnbreytingar og um karlmanns- og kvenmannsnöfn, misræmi í heimild til að nota erlend nöfn á afkomendur eftir því hvort um eiginnafn eða millinafn er að ræða og fleira. Í þessu samhengi bendir meiri hlutinn á að innanríkisráðuneytið hóf að skoða árið 2015 hvort þörf væri á að endurskoða lög um mannanöfn, nr. 45/1996, og kallaði eftir sjónarmiðum almennings um hugsanlega endurskoðun laganna. Ráðuneytið kynnti drög að frumvarpi árið 2016 og var gefinn kostur á að senda umsögn um málið. Ekki hefur verið tekin afstaða til framhalds málsins í ráðuneytinu.
    Aftur á móti komu fram sjónarmið um að frumvarp þetta leiddi til nýrra og jafnvel ófyrirsjáanlegra álitaefna. Þá skorti í einhverjum tilvikum nánari útfærsla á fyrirkomulagi og/eða skýringar í greinargerð um ástæður þess að ekki væri kveðið á um t.d. ráðgjöf um nafngift, rithátt, röð nafna, millinöfn, mannanafnaskrá eða amaákvæði. Auk þess var nefndinni bent á mikilvægi þess að taka tillit til íslenskrar tungu, íslensks málkerfis og íslenskrar nafnahefðar.
    Með hliðsjón af framangreindu telur meiri hlutinn æskilegt að löggjöf á þessu sviði verði skoðuð nánar. Að því sögðu er það mat meiri hlutans að nálgast þurfi breytingar á fyrirkomulagi mannanafna og laga um mannanöfn með öðrum hætti, þar sem ekki er skilið á milli mannanafna og íslenskrar tungu að öðru leyti. Að auki er ekki hægt að fullyrða um afleiðingar eða áhrif frumvarpsins yrði það samþykkt. Meiri hlutinn telur því ekki unnt að samþykkja frumvarpið.

Alþingi, 19. júní 2019.

Páll Magnússon,
form., frsm.
Andrés Ingi Jónsson. Anna Kolbrún Árnadóttir.
Birgir Ármannsson. Steinunn Þóra Árnadóttir. Þórarinn Ingi Pétursson.