Ferill 9. máls. Aðrar útgáfur af skjalinu: PDF - Word Perfect.


149. löggjafarþing 2018–2019.
Þingskjal 1915  —  9. mál.
2. umræða.



Breytingartillaga


við frumvarp til laga um mannanöfn.

Frá minni hluta allsherjar- og menntamálanefndar (HHG, GuðmT, JSV).


     1.      Við 1. gr.
                  a.      Á eftir orðunum „foreldra í eignarfalli“ í 3. mgr. komi: taki það fallbeygingu.
                  b.      Við 3. mgr. bætist nýr málsliður, svohljóðandi: Einstaklingi sem hefur hlutlausa skráningu kyns í þjóðskrá er heimilt að nota nafn föður eða móður í eignarfalli án viðbótar.
                  c.      Við bætast fjórar nýjar málsgreinar, svohljóðandi:
                      Nú gengur móðir ófeðraðs barns í hjónaband og má þá kenna barnið til stjúpforeldris þess.
                      Heimilt er með leyfi Þjóðskrár Íslands að barn sem kennt hefur verið til kynforeldris sé kennt til stjúpforeldris. Leita skal samþykkis þess kynforeldris sem ekki fer með forsjá barnsins, ef unnt er, áður en ákvörðun er tekin um slíkt leyfi. Nú er kynforeldri ekki samþykkt breytingu á kenninafni og getur Þjóðskrá Íslands þá eigi að síður leyft breytinguna ef sérstaklega stendur á og telja verður að breytingin verði barninu til verulegs hagræðis.
                      Ákvörðun skv. 5. og 6. mgr. skal háð samþykki stjúpforeldris.
                      Heimilt er með leyfi Þjóðskrár Íslands að fósturbarn, sem er í varanlegu fóstri hjá fósturforeldrum, sé kennt til fósturforeldris. Leita skal samþykkis kynforeldra barnsins, ef unnt er, áður en ákvörðun er tekin um slíkt leyfi. Nú er kynforeldri ekki samþykkt breytingu á kenninafni og getur Þjóðskrá Íslands þá eigi að síður leyft breytinguna ef sérstaklega stendur á og telja verður að breytingin verði barninu til verulegs hagræðis.
     2.      2. mgr. 2. gr. orðist svo:
                  Barn öðlast nafn með skráningu nafngjafar hjá Þjóðskrá Íslands. Þeir sem fara með forsjá barns bera ábyrgð á tilkynningu til Þjóðskrár Íslands óháð því hvort barni er gefið nafn við athöfn hjá skráðu trúfélagi eða lífsskoðunarfélagi eða ekki.
     3.      Við 3. gr.
                  a.      2.–3. mgr. falli brott.
                  b.      4. mgr. orðist svo:
                      Breyting á nafni barns undir 18 ára aldri er jafnframt háð samþykki forsjáraðila þess, beggja séu þeir tveir. Breyting forsjáraðila á nafni barns skal háð samþykki þess í samræmi við aldur og þroska.
                  c.      Við bætast tvær nýjar málsgreinar, svohljóðandi:
                      Einstaklingur sem neytir réttar til að breyta skráningu kyns síns í þjóðskrá hefur rétt til að breyta eiginnafni og kenninafni.
                      Barn yngra en 18 ára getur með samþykki forsjáraðila sinna eða sérfræðinefndar skv. 9. gr. laga um kynrænt sjálfræði breytt eiginnafni og kenninafni sínu samhliða breytingu á skráningu kyns. Ef barnið fær hlutlausa skráningu kyns gildir ákvæði 2. málsl. 3. mgr. 1. gr.
     4.      Á eftir 4. gr. komi ný grein, svohljóðandi:
                  Berist Þjóðskrá Íslands tilkynning um eiginnafn barns yngra en 18 ára, skv. 2. eða 3. gr., sem ætla má að miklar líkur séu á að geti orðið nafnbera til ama skal það ekki skráð að svo stöddu í þjóðskrá. Þjóðskrá Íslands skal kveða upp úrskurð svo fljótt sem við verður komið og eigi síðar en tveimur vikum frá því að tilkynning um eiginnafn barst. Þjóðskrá Íslands er heimilt að afla umsagnar Stofnunar Árna Magnússonar og umboðsmanns barna. Úrskurðum Þjóðskrár Íslands er ekki unnt að skjóta til æðra stjórnvalds.
                  Ráðherra skal kveða nánar á um málsmeðferð skv. 1. mgr. í reglugerð.
     5.      Fyrirsögn II. kafla orðist svo: Nafnbreytingar og skráning.
     6.      Við 6. gr.
                  a.      Í stað orðsins „forsjármanna“ og í stað orðsins „forsjármenn“ tvívegis í 1. mgr. komi: forsjáraðila; forsjáraðilar; og: forsjáraðila.
                  b.      Í stað orðanna „janúar 2019“ komi: janúar 2020.
     7.      Á eftir 6. gr. komi ný grein, svohljóðandi:
                  Þjóðskrá Íslands sér um að skrá eiginnöfn og er hún nefnd mannanafnaskrá í lögum þessum.
     8.      7. gr. orðist svo:
                  Ráðherra fer með mál er varða mannanöfn og setur í reglugerð nánari fyrirmæli um framkvæmd þessara laga, m.a. um rithátt, umritunarreglur og miðlun nafna.
     9.      8. gr. orðist svo:
                  Lög þessi öðlast gildi 1. janúar 2020.
                  Jafnframt falla þá úr gildi lög um mannanöfn, nr. 45/1996, með síðari breytingum.
                  Þrátt fyrir ákvæði 1. mgr. er frestur til 1. júlí 2021 til að laga skráningarform, eyðublöð, skilríki og þess háttar að fyrirmælum 3.–4. mgr. 3. gr. laga þessara.
     10.      Við 9. gr.
                  a.      1. tölul. falli brott.
                  b.      B-liður 2. tölul. falli brott.
                  c.      Við bætist nýr töluliður, svohljóðandi: Lög um Stofnun Árna Magnússonar í íslenskum fræðum, nr. 40/2006: Við 3. gr. laganna bætist nýr stafliður, svohljóðandi: vera til ráðgjafar fyrir almenning um mannanöfn, mannanafnahefðir, rithátt, beygingar og stunda rannsóknir á þessu sviði; þá veitir stofnunin Þjóðskrá Íslands umsögn skv. 5. gr. laga um mannanöfn.
     11.      Við bætist ákvæði til bráðabirgða, svohljóðandi:
                  Við gildistöku laga þessara verða millinöfn skráð sem eiginnöfn í þjóðskrá. Öllum er heimilt að breyta þeirri skráningu í samræmi við ákvæði laganna.