Ferill 1019. máls. Aðrar útgáfur af skjalinu: PDF - Word Perfect.


149. löggjafarþing 2018–2019.
Þingskjal 2096  —  1019. mál.




Svar


fjármála- og efnahagsráðherra við fyrirspurn frá Nönnu Margréti Gunnlaugsdóttur um breytingar á skattalögum.


    Fyrirspurnin hljóðar svo:
     Hvaða breytingar hafa verið gerðar á skattalögum sem voru til hækkunar skatta og samþykkt í tíð ríkisstjórnar Jóhönnu Sigurðardóttur 2009–2013? Óskað er upplýsinga um hvaða skattar, sem hækkaðir voru á umræddu tímabili, hafa síðar verið lækkaðir eða færðir til fyrra horfs.

    Hér á eftir verður farið yfir helstu breytingar á skattkerfinu sem gerðar voru á umræddu tímabili 2009–2013 og fólu í sér skattahækkanir með annaðhvort breytingum á gildandi sköttum eða gildistöku nýrra skatta, og hvort þeir hafi síðar verið lækkaðir eða færðir til fyrra horfs.

Tekjuskattur einstaklinga.
    Talsverðar breytingar voru gerðar á tekjuskattskerfi einstaklinga á tímabilinu 2009–2013 sem á heildina litið var ætlað að skila ríkissjóði meiri tekjum en ella. Kerfisbreyting sem tók gildi 1. janúar 2010 þar sem m.a. skattþrepum var fjölgað úr einu í þrjú leiddi til umtalsverðrar tekjuaukningar. Í tengslum við tilfærslu á málefnum fatlaðra frá ríki til sveitarfélaga 1. janúar 2011 hækkaði útsvarshlutfall sveitarfélaga um 1,2 prósentustig og grunnþrep tekjuskattsins lækkaði um leið jafnmikið en samkvæmt upphaflegu áhrifamati var það metið til u.þ.b. 10 ma.kr. tilfærslu skatttekna frá ríki til sveitarfélaga. Árleg breyting persónuafsláttar og þrepamarka hafði áhrif á álagningu tekjuskattsins á ári hverju og hið sama gildir um sérstakar tímabundnar ívilnandi reglur sem gilt hafa. Dæmi um íþyngjandi reglu á tímabilinu 2009–2013 er svokölluð 20/50-regla um að hluti arðgreiðslu skyldi í vissum tilvikum skattlagður sem launatekjur fremur en fjármagnstekjur hjá einstaklingum og var hún felld brott 2014. Frá árinu 2013 hafa áfram verið gerðar ýmsar breytingar á tekjuskattinum og hafa þær almennt verið til lækkunar á tekjum ríkisins.

Fjármagnstekjuskattur.
    Fjármagnstekjuskattur var hækkaður í áföngum úr 10% í 20% á árunum 2009 til 2011. Frítekjumark fyrir vaxtatekjur tók gildi 1. janúar 2010 (við álagningu 2011) sem leiddi til þess að fjármagnstekjuskattur lækkaði fyrir mjög marga gjaldendur þrátt fyrir hækkun skatthlutfallsins. Um leið tók gildi 30% skattfrelsi leigutekna vegna langtímaleigu íbúðarhúsnæðis. Tekinn var upp afdráttarskattur á vaxtatekjur erlendra aðila 2009, skatthlutfall hans var lækkað sérstaklega 2012 en hefur síðan hreyfst í takt við almennt skatthlutfall. Skatthlutfall fjármagnstekjuskatts var óbreytt 20% frá 2011 uns það var hækkað í 22% 1. janúar 2018. Frítekjumark vaxtatekna hefur tvisvar verið hækkað eftir vorið 2013, með gildistöku gagnvart tekjum ársins 2014 og síðar 2017. Hlutfall skattfrjálsra leigutekna var hækkað úr 30% í 50% og gilti hækkunin fyrir leigutekjur ársins 2016.
Tekjuskattur lögaðila.
    Skatthlutfall lögaðila var hækkað í áföngum úr 15% í 20% á árunum 2010 til 2011 (átt er við rekstrarár, fjárhagsáhrif fyrir ríkið verða með eins árs töf). Það hefur verið óbreytt síðan.

Nefskattar.
    Svokallaðir nefskattar eru tveir: gjald í Framkvæmdasjóð aldraðra og útvarpsgjald og breytist hin fasta fjárhæð beggja oftast um áramót. Frá 2009 til 2013 hækkaði gjald í Framkvæmdasjóð aldraðra alls um 18,0% og útvarpsgjald alls um 14,0%, en vísitala neysluverðs hækkaði um 19,8% á sama tíma. Hvorugur hækkaði því að raunvirði á tímabilinu. Frá 2013 til 2018 hækkaði gjald í Framkvæmdasjóð aldraðra alls um 15,6% en útvarpsgjald lækkaði um 10,7% meðan verðbólga nam 10,2%.

Fjársýsluskattur.
    Nýr 5,45% fjársýsluskattur tók gildi 1. janúar 2012. Skatthlutfall hans hækkaði í 6,75% 1. janúar 2013. Það lækkaði í 5,5% 1. janúar 2014 og hefur verið óbreytt síðan þá.

Sérstakur fjársýsluskattur.
    Nýr 6% sérstakur fjársýsluskattur tók gildi 1. janúar 2012 með 1 ma.kr. skattleysismörkum. Skatthlutfall og skattleysismörk hafa verið óbreytt síðan.

Auðlegðarskattur.
    Nýr auðlegðarskattur tók gildi undir árslok 2009 og var lagður á í fyrsta sinn við álagningu opinberra gjalda á einstaklinga á árinu 2010. Ákvæði um hann voru tímabundin, þau giltu í fimm ár og var hann lagður á í síðasta sinn við álagninguna 2014.

Erfðafjárskattur.
    Erfðafjárskattur var hækkaður úr 5% í 10% 1. janúar 2011. Skattleysismörk voru hækkuð um leið úr 1,0 m.kr. í 1,5 m.kr. Skatthlutfallið hefur verið óbreytt síðan.

Virðisaukaskattur.
    Almennt skattþrep VSK var hækkað úr 24,5% í 25,5% 1. janúar 2010. Það var lækkað í 24% 1. janúar 2015. Neðra skattþrep VSK var 7% á árunum 2009 til 2014 en var hækkað í 11% 1. janúar 2015.

Almenn vörugjöld.
    Vörugjald á mat- og drykkjarvöru með sykurinnihald var hækkað verulega 2009. 1. mars 2013 tóku gildi kerfisbreytingar þar sem innleidd voru ný viðmið sem juku tekjur ríkis af slíkri skattlagningu. Í ársbyrjun 2015 voru öll almenn vörugjald sem lögð voru á samkvæmt lögum nr. 97/1987, þar á meðal þau sem höfðu verið hækkuð 2013, aflögð.

Vörugjöld á ökutæki, eldsneyti, áfengi og tóbak (sértæk vörugjöld).
    Vörugjald á ökutæki er hlutfallslegur skattur sem ásamt bifreiðagjaldi hefur miðast við losun koltvísýrings síðan kerfisbreyting þess efnis tók gildi 1. janúar 2011. Síðan þá hafa ekki verið gerðar kerfisbreytingar sem ætlað er að lækka skattbyrðina en skattstofninn hefur hins vegar minnkað vegna fjölgunar vistvænna bíla. Vörugjöld á bensín, díselolíu, áfengi og tóbak eru lögð á sem föst fjárhæð á magneiningu (svokölluð krónutölugjöld) og voru þau hækkuð nokkuð umfram verðbólgu á árunum 2009 til 2013. Þær hækkanir hafa ekki gengið til baka heldur hafa gjöldin almennt verið látin halda sér að raungildi á tímabilinu 2013– 2019, með minni háttar frávikum. Gjald á neftóbak og annað tóbak nema sígarettur, var hækkað sérstaklega 2017 til að jafna gjaldtöku á tóbaksinnihald ólíkra tegunda. Áfengisgjöld voru hækkuð til mótvægis við lækkun VSK á áfengi sem tók gildi 1. janúar 2016 og fól sú hækkun því í sér tilfærslu milli ólíkra tegunda skattlagningar en hvorki skattahækkun né -lækkun.

Kolefnisgjald.
    Nýr skattur, kolefnisgjald, tók gildi 1. janúar 2010 í fjórum gjaldflokkum og var innleiddur í þremur áföngum uns gjaldfjárhæðin náði að jafngilda markaðsverði losunarheimilda í viðskiptakerfi ESB (ETS-kerfinu). Gjaldið er lagt sem föst fjárhæð á magneiningu eldsneytis af jarðefnauppruna og telst því til svokallaðra krónutölugjalda. Það hefur síðan þá tekið breytingum sem miðast hafa að grunni til við innlenda verðbólgu, með minni háttar frávikum. Gjaldið hefur þann tilgang að draga úr losun koltvísýrings og hefur því ekki verið brottfellt eða lækkað.

Bifreiðagjald og kílómetragjald.
    Bifreiðagjald og kílómetragjald eru lögð á sem fastar fjárhæðir á magneiningu. Líkt og sértæku vörugjöldin hér að framan voru þau hækkuð umfram verðbólgu á árunum 2009–201 3. Eftir 2013 hafa þau fylgt verðbólgu með minni háttar frávikum.

Orkuskattur á heitt vatn.
    Nýr orkuskattur á heitt vatn tók gildi 1. janúar 2010. Hann er lagður á sem hlutfall af stofni og hefur verið óbreyttur frá gildistöku.

Orkuskattur á rafmagn.
    Nýr orkuskattur á rafmagn tók gildi 1. janúar 2010. Hann var lagður á sem föst fjárhæð á magneiningu. Hann féll úr gildi 31. desember 2015.

Sérstakur skattur á fjármálafyrirtæki („bankaskattur“).
    Nýr bankaskattur tók í fyrsta sinn gildi 1. janúar 2011 sem 0,041% skattur á heildarskuldir fjármálafyrirtækja. Á árunum 2012 og 2013 var einnig lagður á viðbótarskattur sem nam 0,0875% til að fjármagna sérstaka vaxtaniðurgreiðslu til heimila. Að öðru leyti var skatthlutfall hans óbreytt fram til 1. janúar 2014 þegar það var hækkað úr 0,041% í 0,376%. Um leið var skattskyldan útvíkkuð til fjármálafyrirtækja í slitameðferð og lögfest var 50 ma.kr. skattleysismark sem hafði ekki verið til staðar áður. Í gildandi fjármálaáætlun kemur fram að fyrirhugað er að lækka bankaskattinn í fjórum jöfnum áföngum, úr 0,376% í 0,145% árin 2021–2024.

Tryggingagjald.
    Á árunum 2009–2011 tóku gildi breytingar á gjaldhlutfalli tryggingagjalds og hækkaði heildargjaldið (að markaðsgjaldi og gjaldi í Ábyrgðasjóð launa meðtöldum) úr 5,34% í 8,65%. Í ársbyrjun 2012 byrjaði gjaldið að lækka til baka og það stóð í 7,69% um vorið 2013. Gjaldið hefur síðan þá verið lækkað fimm sinnum og mun lækka í sjötta sinn 1. janúar 2020. Það nam 5,34% í febrúar 2009, 7,69% vorið 2013, 6,60% árið 2019 og lækkar í 6,35% 1. janúar 2020.