Ferill 810. máls. Aðrar útgáfur af skjalinu: PDF - Word Perfect.


149. löggjafarþing 2018–2019.
Þingskjal 2105  —  810. mál.




Svar


fjármála- og efnahagsráðherra við fyrirspurn frá Þorgerði K. Gunnarsdóttur um álagningu skatta og gjalda til að sporna við loftslagsbreytingum og útgjöld til aðgerða gegn loftslagsbreytingum.


     1.      Hvaða skatta og gjöld lagði ríkið á árið 2018 sem höfðu það að markmiði að sporna með einhverjum hætti við loftslagsbreytingum?
    Kolefnisgjald hefur það markmið að leiðarljósi að hvetja til notkunar vistvænna ökutækja, orkusparnaðar, minni losunar gróðurhúsalofttegunda og aukinnar notkunar á innlendum orkugjöfum. Vörugjöld á ökutæki og bifreiðagjald, sem eru tengd með beinum hætti við koltvísýringslosun ökutækja, hafa einnig fyrrnefnd markmið ásamt því að þjóna sem almenn tekjuöflun fyrir ríkissjóð.
    Sé litið fram hjá tilgreindum markmiðum skattheimtunnar og horft á áhrif skattstofnsins á loftslagsbreytingar þá eru vörugjöld á bensín, olíugjald og kílómetragjald skattar sem sporna við loftslagsbreytingum þrátt fyrir að upphaflegt markmið gjaldanna sé að fjármagna vegakerfið.

     2.      Hverjar voru tekjur ríkissjóðs af álagningu eftirfarandi skatta og gjalda á árinu 2018 sem höfðu það að markmiði að sporna við loftslagsbreytingum:
                  a.      kolefnisgjalds,
                  b.      annarra skatta og gjalda?

    Í töflu 1 eru sýndar tekjur ríkissjóðs af kolefnisgjaldi og öðrum sköttum og gjöldum sem höfðu það markmið að sporna við loftslagsbreytingum. Upplýsingarnar koma úr ríkisreikningi ársins 2018 og eru í milljónum króna.

Tafla 1. Tekjur ríkissjóðs af völdum sköttum.

Millj. kr. 2018
Kolefnisgjald 5.317
Vörugjöld af ökutækjum 9.522
Bifreiðagjald 7.441
Vörugjald á bensín 12.214
Olíugjald 11.787
Kílómetragjald 1.323
Heimild: Ríkisreikningur 2018.
    
     3.      Hvernig skiptist greiðsla skattanna sem spurt er um í 2. tölul. milli einstaklinga annars vegar og fyrirtækja hins vegar?
    Kolefnisgjald er lagt á við innflutning eldsneytis og kemur síðan fram í verðlagningu þess eftir markaðsaðstæðum. Endanlegur neytandi ber því gjaldið en ekki sá aðili sem skilar gjaldinu í ríkissjóð. Þá er gögnum um vörugjöld af ökutækjum og bifreiðagjaldi ekki safnað eftir fyrirtækjum og einstaklingum. Af þeim ástæðum er ekki unnt að sjá af gagnagrunnum skattkerfisins hvernig greiðsla umræddra skatta skiptist milli einstaklinga og fyrirtækja.

     4.      Hvaða tíu fyrirtæki greiða hæst kolefnisgjald?
    Líkt og fram kemur í svari við 3. tölul. þá ber endanlegur neytandi kolefnisgjaldið en ekki sá aðili sem skilar gjaldinu í ríkissjóð. Því liggur ekki fyrir hvaða tíu fyrirtæki greiða hæst kolefnisgjald.

     5.      Hver eru helstu útgjöld ríkisins til málefna til að sporna við loftslagsbreytingum?
    Aðgerðir til að sporna við loftslagsbreytingum eru á ábyrgð fleiri en eins ráðuneytis en þó aðallega umhverfis- og auðlindaráðuneytis. Því var leitað til þess um svar við þessari spurningu.
    Fjölmargar stofnanir hins opinbera koma að þeirri vinnu að sporna við loftslagsbreytingum, ýmist með beinum aðgerðum svo sem landgræðslu, skógrækt og endurheimt votlendis, eða með rannsóknum og vöktun sem undirbyggja aðgerðir svo sem vegna súrnunar sjávar eða hopunar jökla. Yfirlit yfir það fjármagn sem hver þessara ríkisaðila nýtir sérstaklega til þess að sporna við loftslagsbreytingum liggur ekki fyrir enda oft samlegð með öðrum verkefnum hlutaðeigandi stofnunar.
    Í fjármálaáætlun 2019–2023 er gert ráð fyrir að á málefnasviði 17 Umhverfismál verði fjárframlög til loftslagsmála aukin sérstaklega um 6,8 milljarða kr. Í nýsamþykktri fjármálaáætlun er gert ráð fyrir að þessi upphæð verði um 8 milljarðar kr. á tímabilinu 2020–2024. Þá má nefna að á öðrum málefnasviðum er fjármagn nýtt til þess að sporna við loftslagsbreytingum svo sem með eflingu almenningssamgangna, breyttum ferðavenjum og stuðningi við borgarlínu.

     6.      Hvað er áætlað að ríkissjóður verði af miklum tekjum vegna niðurfellingar virðisaukaskatts og gjalda af rafbílum og öðrum bílum sem uppfylla skilyrði niðurfellingar?
    Niðurfelling virðisaukaskatts af rafmagns-, vetnis- og tengiltvinnbifreiðum upp að ákveðnu hámarki hefur það markmið að styrkja samkeppnishæfni umræddra ökutækja gagnvart hinum hefðbundnu bensín- og dísilknúnu ökutækjum og flýta þannig fyrir orkuskiptum í vegasamgöngum. Efnahagslegur hvati sem niðurfellingin leiðir af sér hefur áhrif á ákvarðanir neytenda. Það er því óraunhæft að áætla með góðu móti hvað ríkissjóður verður af miklum tekjum vegna niðurfellingar virðisaukaskatts þar sem óvíst er hvort og hvernig bifreið neytendur hefðu keypt ef niðurfellingin hefði ekki verið í gildi. Í töflu 2 má hins vegar sjá hve hárri fjárhæð niðurfelling virðisaukaskatts hefur numið frá því hún var fyrst lögfest 2012. Gögnin koma frá tollstjóra og eru á verðlagi hvers árs.

Tafla 2. Niðurfelling VSK af rafmagns- og tengiltvinnbifreiðum

Millj. kr. 2012 2013 2014 2015 2016 2017 2018
Niðurfelling VSK af rafmagns- og tengiltvinnbifreiðum 34 95 210 468 916 2.295 3.035
     Heimild: Tollstjóri.

     7.      Hefur ríkissjóður tekjur umfram útgjöld af álagningu skatta og gjalda til að sporna við loftslagsbreytingum? Ef svo er, telur ráðherra eðlilegt í ljósi þeirrar vár sem steðjar að mannkyninu vegna loftslagsbreytinga að ríkissjóður hagnist af álagningu skatta og gjalda í nafni loftslagsmála?
    Skattar hafa almennt það hlutverk að afla ríkissjóði tekna sem nýttar eru til að standa undir starfsemi hans. Skattar eru einnig viðurkennt stjórntæki til þess að vinna gegn neikvæðum ytri áhrifum með því að hafa áhrif á ákvarðanir og hegðun einstaklinga og fyrirtækja. Þeir skattar sem nefndir eru hér að framan hækka kostnaðinn við að brenna jarðefnaeldsneyti og er ætlað að draga úr notkun þess og þar með neikvæðum ytri áhrifum sem bruni þess skapar og þeim þjóðhagslega kostnaði sem hann hefur í för með sér. Markmið með skattlagningunni er að stuðla að samdrætti koltvísýringslosunar en ekki að fjármagna aðgerðir gegn loftslagsbreytingum. Í því samhengi má nefna að með tilkomu laga um opinber fjármál renna allar skatttekjur í ríkissjóð og er ráðstöfun þeirra ákveðin af Alþingi með fjárlögum hvers árs. Þá er vert að benda á að skattarnir sem hér er fjallað um leggjast hlutfallslega þyngra á hina tekjulægri. Það eru því réttlætissjónarmið að baki því að nota tekjur af þeim að einhverju leyti til tekjujöfnunar í gegnum skattkerfið og/eða samneyslu og tilfærslukerfi ríkisins. Þörfin fyrir þess háttar inngrip minnkar hins vegar með tímanum skili skattarnir tilskildum árangri.