Ferill 1021. máls. Aðrar útgáfur af skjalinu: PDF - Word Perfect.


149. löggjafarþing 2018–2019.
Þingskjal 2107  —  1021. mál.




Svar


fjármála- og efnahagsráðherra við fyrirspurn frá Ólafi Ísleifssyni um vexti, gengistryggingu o.fl.


    Við vinnslu svarsins var m.a. byggt á upplýsingum sem fengnar voru frá Seðlabanka Íslands, Fjármálaeftirlitinu og atvinnuvega- og nýsköpunarráðuneytinu.

     1.      Frá hvaða lánastofnunum stafa þær upplýsingar sem Seðlabanki Íslands byggir ákvarðanir um vexti á, sbr. 4. og 10. gr. laga um vexti og verðtryggingu, nr. 38/2001, og hvers vegna eru lánakjör lífeyrissjóða ekki höfð til hliðsjónar?
    Í 4. gr. laga um vexti og verðtryggingu, nr. 38/2001, segir:
    „Þegar greiða ber vexti skv. 3. gr., en hundraðshluti þeirra eða vaxtaviðmiðun er að öðru leyti ekki tiltekin, skulu vextir vera á hverjum tíma jafnháir vöxtum sem Seðlabanki Íslands ákveður með hliðsjón af lægstu vöxtum á nýjum almennum óverðtryggðum útlánum hjá lánastofnunum og birtir skv. 10. gr. Í þeim tilvikum sem um verðtryggða kröfu er að ræða skulu vextir vera jafnháir vöxtum sem Seðlabankinn ákveður með hliðsjón af lægstu vöxtum á nýjum almennum verðtryggðum útlánum hjá lánastofnunum og birtir skv. 10. gr.“
    Lánastofnanir eru skilgreindar í lögum um fjármálafyrirtæki, nr. 161/2001. Samkvæmt 2. tölul. 1. mgr. 1. gr. a laganna eru lánastofnanir fjármálafyrirtæki sem taka á móti innlánum eða öðrum endurgreiðanlegum fjármunum frá almenningi og veita lán fyrir eigin reikning. Þau fjármálafyrirtæki sem hafa fengið starfsleyfi skv. 1.–3.tölul. 1. mgr. 4. gr. sömu laga geta talist lánastofnanir, þ.e. viðskiptabankar, sparisjóðir og lánafyrirtæki. Lífeyrissjóðir teljast því ekki til lánastofnana og eru vaxtakjör þeirra þar af leiðandi ekki höfð til hliðsjónar við ákvarðanir um vexti skv. 4. gr. laga um vexti og verðtryggingu, nr. 38/2001.

     2.      Hver var annars vegar fjöldi og hins vegar heildarfjárhæð óverðtryggðra lána fjármálafyrirtækja til heimila með veði í íbúð fram að gildistöku svokallaðra neyðarlaga, nr. 125/2008? Svar óskast sundurliðað eftir árum svo langt aftur sem gögn ná.
    Fyrstu óverðtryggðu íbúðalánin í hagtölum Seðlabankans koma fram í lok október 2008, eftir gildistöku laga nr. 125/2008. Viðskiptabankar hófu að bjóða 25–40 ára óverðtryggð íbúðalán haustið 2011. Fram að því höfðu óverðtryggð íbúðalán verið boðin viðskiptavinum sem hluti af lausnum við endurskipulagningu útlána eftir fjármálahrunið 2008. Til dæmis var gengisbundnum lánasamningum sem dæmdir voru ólöglegir ýmist breytt í verðtryggð eða óverðtryggð lán í íslenskum krónum.
    Seðlabankinn hefur safnað gögnum um þessi lán og birt á vefsíðu sinni sem talnaefni um bankakerfið á undirsíðunni „Hagtölur“. Fram að gildistöku neyðarlaganna voru engin lán í þessum flokki en í lok október 2008 námu þau 512 millj. kr., mánuði síðar 486 millj. kr. og í árslok 2008 490 millj. kr.
    Ekki liggja fyrir upplýsingar um fjölda óverðtryggðra lána til heimila með veði í íbúðarhúsnæði, hvorki hjá Seðlabanka Íslands né Fjármálaeftirlitinu.

     3.      Hvenær óskaði ráðuneytið eftir álitum Aðalsteins E. Jónassonar hrl., dags. 17. júní 2010, og Jóhannesar Karls Sveinssonar hrl., dags. 20. júní 2010, um dóma Hæstaréttar í málum um gengistryggingu, ásamt viðbótarminnisblaði Aðalsteins, dags. 21. júní 2010, um mögulega skaðabótaábyrgð ríkisins vegna viðbragða við þeim dómum? Hvers vegna var þeirra aflað? Kemur til greina að birta álitin opinberlega og eftir atvikum önnur gögn um málið?
    Dómar Hæstaréttar um gengistryggð lán voru stór áfangi í úrlausn ágreinings og erfiðrar fjárhagslegrar stöðu sem upp var komin fyrir heimili og fyrirtæki í landinu í kjölfar fjármálaáfallsins 2008. Í aðdraganda dómsuppkvaðningarinnar voru lagðar fyrir ríkisstjórn nokkrar sviðsmyndir um dómsniðurstöður og möguleg viðbrögð við þeim en eftir að dómarnir lágu fyrir ræddi ríkisstjórnin ítarlega til hvaða aðgerða hún ætti að grípa m.a. til að draga úr óvissu og tryggja jafnræði og réttaröryggi við uppgjör gengistryggðra skuldbindinga í ljósi dómanna. Efnahags- og viðskiptaráðherra leitaði til sérfræðinga á þeim réttarsviðum er vörðuðu gengistryggð lán og samningsskuldbindingar og útbjó minnisblöð sem lögð voru fyrir ríkisstjórnina bæði áður og eftir að niðurstaða Hæstaréttar lá fyrir. Leitað var til nokkurra sérfræðinga, m.a. Aðalsteins E. Jónassonar, Jóhannesar Karls Sveinssonar og Eyvindar G. Gunnarssonar. Var það talin vænleg leið til að fá fram ólík sjónarhorn og vanda undirbúning.
    Málefni fyrrum efnahags- og viðskiptaráðuneytis skiptast í dag milli fjármála- og efnahagsráðuneytis annars vegar og atvinnuvega- og nýsköpunarráðuneytis hins vegar. Skriflegar álitsbeiðnir til hæstaréttarlögmannanna sem spurt er um finnast hvorki í málaskrá fjármála- og efnahagsráðuneytis né atvinnuvega- og nýsköpunarráðuneytis. Af öðrum gögnum í málaskrá má hins vegar sjá að óskað var eftir áliti Jóhannesar Karls og viðbótarminnisblaði Aðalsteins í kjölfar ríkisstjórnarfundar 18. júní 2010. Af minnisblaði Aðalsteins dagsettu 17. júní 2010 er ljóst að það er skrifað eftir að dómarnir féllu daginn áður, en hann hafði áður útbúið minnisblað fyrir efnahags- og viðskiptaráðuneytið um hugsanleg viðbrögð við dómum Hæstaréttar í aðdraganda dómsuppkvaðninganna sem lagt var fyrir ríkisstjórnarfund 11. júní 2010.
    Til greina kemur að birta álitin og önnur gögn um málið að undangenginni athugun á því hvort að birting þeirra samræmist t.d. upplýsingalögum.

     4.      Hvaða upplýsingar og gögn liggja fyrir um tilefni, aðdraganda og útfærslu á tilmælum Fjármálaeftirlitsins og Seðlabanka Íslands til fjármálafyrirtækja vegna óskuldbindandi gengistryggingarákvæða nr. 20/2010 frá 30. júní 2010?
    Í sjálfum tilmælunum er gerð grein fyrir tilefni þeirra, aðdraganda og útfærslu. Rétt þótti að skapa ramma um meðferð lánasamninga með óskuldbindandi gengistryggingarákvæðum uns dómstólar kvæðu upp endanlega úrskurði um meðferð einstakra samninga, sem talið var að gæti tekið nokkuð langan tíma, eins og raunin varð. Til frekari glöggvunar á tilefni, aðdraganda og útfærslu tilmælanna er bent á inngangsorð Arnórs Sighvatssonar, þáverandi aðstoðarseðlabankastjóra, og Gunnars Andersen, þáverandi forstjóra Fjármálaeftirlitsins, á blaða- og fréttamannafundi sem haldinn var til að kynna tilmælin. Tilmælin og inngangsorðin má finna á vefsíðu Fjármáleftirlitsins:
www.fme.is/utgefid-efni/frettir-og-tilkynningar/frettir/nr/650
    Þá má einnig finna nánari upplýsingar um tilefni, aðdraganda og útfærslu tilmælanna í fylgiskjölum við þetta svar sem inniheldur svar Fjármálaeftirlitsins til umboðsmanns Alþingis, dags. 23. júlí 2010, og svar Seðlabanka Íslands til umboðsmanns Alþingis, dags. 23. júlí 2010. Álit umboðsmanns í málinu má finna hér:
www.umbodsmadur.is/alit-og-bref/mal/nr/2302/skoda/mal/

     5.      Hvenær má búast við að þau bráðabirgðaákvæði sem bættust við lög um vexti og verðtryggingu, nr. 38/2001, með lögum nr. 151/2010 verði endurskoðuð?
    Bráðabirgðaákvæði sem bættust við lög um vexti og verðtryggingu, nr. 38/2001, með lögum nr. 151/2010, voru sett í tilefni dóma Hæstaréttar 16. júní 2010 sem skáru úr um ólögmæti bindingar lána í íslenskum krónum við gengi erlendra gjaldmiðla og dóms 16. september 2010 um vaxtareikning slíkra ólögmætra gengistryggðra lána. Dómarnir leiddu í ljós annmarka á framkvæmd laga nr. 38/2001, um vexti og verðtryggingu og þótt dómarnir hafi létt á mestu óvissunni var talið hætt við að ágreiningur yrði gerður um lögmæti fjölda samninga á víðtæku sviði skammtíma- og langtímafjármögnunar. Þá höfðu vaknað upp spurningar um jafnræði meðal skuldara, einkum á neytendamarkaði. Megintilgangurinn með setningu ákvæðanna var að draga úr þessari óvissu með það að markmiði að sambærileg mál fengju sambærilega niðurstöðu auk þess að tryggja réttaröryggi við uppgjör lána með óskuldbindandi gengisviðmiðun. Í skýringum við einstakar greinar frumvarpsins kemur fram að bráðabirgðaákvæðunum var ætlað að leggja skýrar línur varðandi uppgjör og úrvinnslu samninga með gengistryggingarákvæði í kjölfar dóma Hæstaréttar. Frá því ákvæðin voru leidd í lög hafa þau þjónað þessum tilgangi og ekki hefur verið sérstakt tilefni til að endurskoða þau en slík endurskoðun færi að öllum líkindum fram samhliða öðrum breytingum á lögum um vexti og verðtryggingu.