Ferill 332. máls. Aðrar útgáfur af skjalinu: PDF - Microsoft Word.


150. löggjafarþing 2019–2020.
Þingskjal 376  —  332. mál.
Stjórnarfrumvarp.



Frumvarp til laga


um breytingu á ýmsum lögum varðandi leyfisveitingar (einföldun regluverks).

Frá ferðamála-, iðnaðar- og nýsköpunarráðherra.



I. KAFLI

Breyting á lögum um verslunaratvinnu, nr. 28/1998, með síðari breytingum.

1. gr.

    4. mgr. 1. gr. laganna fellur brott.

2. gr.

    2. og 3. gr. laganna falla brott.

3. gr.

    II. kafli laganna fellur brott.

4. gr.

    III. kafli laganna fellur brott.

5. gr.

    12. og 13. gr. laganna falla brott.

6. gr.

    Við 2. mgr. 14. gr. laganna bætast tveir nýir málsliðir, svohljóðandi: Bifreiðasali skal, áður en gengið er frá afsali notaðs ökutækis, greina kaupanda með sannanlegum hætti frá þeim rétti hans að láta óháðan aðila meta ástand ökutækis, svo sem faggilta skoðunarstofu eða faggilt skoðunarverkstæði. Hafi bifreiðasali ástæðu til að ætla að ástandi ökutækis sé ábótavant ber honum að vekja athygli kaupanda á þeim annmarka.

7. gr.

    15. gr. laganna fellur brott.

8. gr.

    18. og 19. gr. laganna falla brott.

9. gr.

    24. gr. laganna orðast svo:
    Brot gegn ákvæðum IV. kafla um sölu notaðra ökutækja eða gegn 7. mgr. 23. gr. um sendingu skilagreina um sölu listmuna varðar sektum eða fangelsi allt að einu ári.

II. KAFLI

Breyting á iðnaðarlögum, nr. 42/1978, með síðari breytingum.

10. gr.

    1. gr. laganna orðast svo:
    Lög þessi taka til rekstrar handiðnaðar í atvinnuskyni. Heimilisiðnaður skal undanþeginn ákvæðum laganna.

11. gr.

    Eftirfarandi breytingar verða á 2. gr. laganna:
     a.      Í stað orðsins „iðnað“ í 1. mgr. kemur: handiðnað.
     b.      Í stað orðsins „iðnaði“ tvívegis í fyrri málsl. 2. mgr. kemur: handiðnaði.

12. gr.

    3.–7. gr. laganna falla brott.

13. gr.

    1. mgr. 10. gr. laganna orðast svo:
    Hver maður getur leyst til sín meistarabréf ef hann fullnægir eftirfarandi skilyrðum:
     1.      Er íslenskur ríkisborgari eða ríkisborgari aðildarríkis að samningnum um Evrópska efnahagssvæðið, stofnsamnings Fríverslunarsamtaka Evrópu eða Færeyingur. Erlendur ríkisborgari, sem á lögheimili hér á landi og hefur átt það samfellt í a.m.k. eitt ár, skal vera undanþeginn skilyrði um íslenskt ríkisfang.
     2.      Er lögráða og hefur forræði á búi sínu.
     3.      Hefur lokið sveinsprófi, unnið síðan undir stjórn meistara í iðngrein sinni í minnst eitt ár og jafnframt lokið meistaraprófi í iðninni frá meistaraskóla. Eigi sveinn ekki völ á starfi undir stjórn meistara í nýrri iðngrein sinni fyrstu fimm árin eftir löggildingu hennar telst tveggja ára starf hans í þeirri grein jafngilt starfi hjá meistara en sýslumaður skal gefa viðkomandi félagi iðnaðarmanna, m.a. landssamtökum meistara og sveina, kost á að segja álit sitt á því hvort völ sé á slíku starfi. Sama gildir í iðngreinum þar sem ekki er starfandi meistari eða þar sem sveinn á af öðrum ástæðum sannanlega engan kost á starfi undir stjórn meistara.

14. gr.

    Eftirfarandi breytingar verða á 12. gr. laganna:
     a.      Orðin ,,og iðnaðarleyfi“ í 1. mgr. falla brott.
     b.      Við 1. mgr. bætist nýr málsliður, svohljóðandi: Sýslumaðurinn sem fær umsókn frá aðila sem á ekki lögheimili á Íslandi lætur, þrátt fyrir ákvæði 1. málsl., af hendi meistarabréf, uppfylli aðili önnur skilyrði laganna.
     c.      Orðin „eða iðnaðarleyfi“ í 2. mgr. falla brott.
     d.      Orðið „iðnaðarleyfi“ í 4. mgr. fellur brott.

15. gr.

    Eftirfarandi breytingar verða á 13. gr. laganna:
     a.      1. mgr. orðast svo:
                      Sýslumaður skal halda skrá yfir meistarabréf sem veitt eru samkvæmt lögum þessum.
     b.      2. mgr. fellur brott.

16. gr.

    Í stað orðsins „iðnað“ tvívegis í 1. tölul. 1. mgr. 15. gr. laganna kemur: handiðnað.

17. gr.

    Orðið „iðnaðarleyfis“ í 16. gr. laganna fellur brott.

18. gr.

    Heiti laganna verður: Lög um handiðnað.

III. KAFLI

Breyting á lögum um samvinnufélög, nr. 22/1991, með síðari breytingum.

19. gr.

    Á eftir orðinu „ráðherra“ í 4. málsl. 5. mgr. 4. gr. laganna kemur: eða sá sem hann framselur vald sitt.

20. gr.

    Á eftir orðinu „ráðherra“ í 3. mgr. 52. gr. laganna kemur: eða þeim sem hann framselur vald sitt.

21. gr.

    Á eftir orðinu „ráðherra“ í 5. málsl. 1. mgr. 57. gr. laganna kemur: eða þeim sem hann framselur vald sitt til.

IV. KAFLI

Brottfall ýmissa laga og gildistaka.

22. gr.

    Eftirfarandi lög falla úr gildi:
     1.      Lög um eignarnám á vatnsréttindum í Andakílsá o.fl., nr. 20/1921.
     2.      Lög um heimild fyrir ríkisstjórnina til að taka eignarnámi jarðirnar Borg, Dynjanda og Rauðsstaði í Auðkúluhreppi, Vestur-Ísafjarðarsýslu, nr. 17/1957.
     3.      Lög um verkstjóranámskeið, nr. 49/1961.
     4.      Lög um breytingu á lausaskuldum iðnaðarins í föst lán, nr. 36/1964.
     5.      Lög um undirbúningsfélag saltverksmiðju á Reykjanesi, nr. 47/1976.
     6.      Lög um virkjun Hvítár í Borgarfirði, nr. 26/1977.
     7.      Lög um heimild fyrir ríkisstjórnina til að taka eignarnámi hluta jarðarinnar Deildartungu í Reykholtsdalshreppi ásamt jarðhitaréttindum, nr. 57/1979.
     8.      Lög um steinullarverksmiðju, nr. 61/1981.
     9.      Lög um sjóefnavinnslu á Reykjanesi, nr. 62/1981.
     10.      Lög um aukningu hlutafjár í Kísiliðjunni hf., nr. 53/1982.
     11.      Lög um kísilmálmverksmiðju á Reyðarfirði, nr. 70/1982.
     12.      Lög um heimild fyrir ríkisstjórnina til að selja lagmetisiðju ríkisins í Siglufirði, nr. 26/1984.
     13.      Lög um heimild fyrir ríkisstjórnina til að selja Landssmiðjuna, nr. 125/1984.
     14.      Lög um stofnun Fjárfestingarbanka atvinnulífsins hf., nr. 60/1997.
     15.      Lög um niðurfellingu laga um kísilgúrverksmiðju við Mývatn, nr. 80/1966, með síðari breytingum, og um ráðstöfun eigna Kísilgúrsjóðs, nr. 152/2008.
     16.      Lög um heimild til samninga um gagnaver í Reykjanesbæ, nr. 57/2010.

23. gr.

    Lög þessi öðlast þegar gildi.

Greinargerð.

1. Inngangur.
    Frumvarp þetta er samið í atvinnuvega- og nýsköpunarráðuneytinu. Í stjórnarsáttmála Framsóknarflokks, Sjálfstæðisflokks og Vinstrihreyfingarinnar – græns framboðs um ríkisstjórnarsamstarf og eflingu Alþingis kemur fram að ríkisstjórnin leggi áherslu á að stjórnsýslan sé skilvirk og réttlát og að átak verði gert í einföldun regluverks í þágu atvinnulífs og almennings. Frumvarp þetta er fyrsti áfangi í aðgerðaáætlun atvinnuvega- og nýsköpunarráðuneytisins um einföldun regluverks á málefnasviði ferðamála-, iðnaðar- og nýsköpunarráðherra.
    Með frumvarpinu er lagt til að felldar verði niður nokkrar tilgreindar leyfisveitingar og skráningar sem ekki er talið nauðsynlegt að séu í lögum. Með því er leyfisveitingum almennt fækkað og dregið úr óþarfa kvöðum á atvinnulífið. Jafnframt er með frumvarpinu lagt til að felld verði úr gildi lög sem talin eru úrelt og hafa ekki sjálfstætt gildi lengur.
    Í öðrum og þriðja áfanga aðgerðaáætlunarinnar verður horft til þess að draga enn frekar úr óþarfa reglubyrði, auka rafræna þjónustu hins opinbera þannig að aðilar úr atvinnulífi geti nálgast þjónustu hins opinbera og sinnt erindum sem beinast að stjórnvöldum á einum stað á netinu. Þá verða einnig lagðar til breytingar sem eru til þess fallnar að efla virka samkeppni á grundvelli tillagna úr samkeppnismati OECD sem unnið er í samstarfi OECD, atvinnuvega- og nýsköpunarráðuneytisins, Samkeppniseftirlitsins og annarra stjórnvalda, auk tillagna úr vinnu stýrihóps sem starfandi er í ráðuneytinu um endurmat eftirlitsreglna sem heyra undir málefnasvið ráðuneytisins.

2. Tilefni og nauðsyn lagasetningar.
    Líkt og áður kom fram er að finna áherslu á einföldum regluverks í stjórnarsáttmála ríkisstjórnarinnar. Áhersla á einföldun regluverks til hagsbóta fyrir atvinnulífið hefur verið hluti stefnumótunar innan Stjórnarráðsins um árabil og hafa nokkur skref verið stigin í þá átt á undanförnum árum. Með aðgerðaáætlun um einföldun regluverks á málefnasviði ferðamála-, iðnaðar- og nýsköpunarráðherra er lögð fram áætlun um hvernig megi einfalda það regluverk sem gildir um atvinnulífið á málefnasviði ráðherra svo raunhæft sé. Er miðað við að fyrsta áfanga aðgerðaáætlunarinnar ljúki á þessu ári, öðrum áfanga á næsta ári og þriðja áfanga árið 2021.
    Samkvæmt tölfræði OECD er reglubyrði atvinnustarfsemi hér á landi með því mesta sem gerist innan landa OECD og á það sérstaklega við um þjónustustarfsemi. Íþyngjandi og flókið regluverk og óþarflega mikil reglubyrði er til þess fallin að auka kostnað á vinnumarkaði og draga úr skilvirkni. Sé það regluverk sem gildir um atvinnustarfsemi hér á landi meira íþyngjandi en í nágrannalöndum okkar dregur það úr samkeppnishæfni landsins og þar með lífsgæðum almennings. Það gerir að verkum að erfiðara verður að reka fyrirtæki sem leiðir til hærra verðs fyrir vörur og þjónustu, sem kemur niður á bæði atvinnulífi og neytendum. Víðtæk leyfisskylda á atvinnustarfsemi skapar aðgangshindranir inn á viðkomandi markaði og dregur þannig úr samkeppni og þeim þjóðfélagslega ábata sem hlýst af virkri samkeppni auk þess sem óþarfa leyfisskylda felur í sér kostnað fyrir atvinnulífið og stjórnvöld. Mikilvægt er því að hugað sé að því að draga úr óþarfa skorðum á atvinnustarfsemi eins og mögulegt er þar sem slíkar breytingar eru til þess fallnar að styðja við almannahag. Einnig þarf að meta í hvert og eitt skipti hvort aukin reglubyrði sé réttlætanleg og leita þarf jafnvægis milli þess ávinnings sem hlýst af reglusetningu og þeim kostnaði sem henni fylgir.
    Mikilvægt er að árétta að einföldun regluverks felur ekki aðeins í sér að dregið sé úr eftirlitsreglum eða umfangi þeirra heldur einnig að gæði regluverksins séu ásættanleg og feli ekki í sér óþarfa reglubyrði eða duldar samkeppnishindranir. Þannig er jafnan mögulegt að ná markmiðum laga- eða reglusetningar með mismunandi hætti. Alla jafna ber stjórnvöldum að velja þá leið sem felur það í sér að vera minnst íþyngjandi fyrir atvinnulífið en sú leið verður einnig að vera til þess fallin að ná markmiðum stjórnvalda í málaflokknum. Markmið þessa frumvarps er að einfalda regluverk með því að fella niður leyfi sem ekki er talin þörf á lengur og sem almennt eru aðeins grundvöllur fyrir útgáfu annarra leyfa án þess að hafa sjálfstætt gildi. Slík leyfi fela því aðeins í sér óþarfa flækjustig og reglubyrði fyrir atvinnulífið. Einnig felur frumvarpið í sér brottfall ákvæða sem ekki er lengur þörf á þar sem efnislega sambærilegar reglur eru í öðrum lögum. Frumvarpið er því til þess fallið að einfalda og draga úr kostnaði stjórnvalda og þeirrar atvinnustarfsemi sem hingað til hefur fallið undir þá leyfisskyldu sem lögð er til að verði felld brott. Jafnframt felur frumvarpið í sér lagahreinsun á úreltum lögum á forræði ferðamála-, iðnaðar- og nýsköpunarráðherra.

3. Meginefni frumvarpsins.
    Frumvarpið skiptist efnislega í fjóra kafla þar sem lagðar eru til breytingar á lögum um verslunaratvinnu, iðnaðarlögum, lögum um samvinnufélög og loks er lagt til brottfall laga sem hafa lokið hlutverki sínu og ekki er lengur þörf á að séu í gildi.

3.1. Breyting á lögum um verslunaratvinnu.
    Þær breytingar sem lagðar eru til á lögum um verslunaratvinnu fela í sér brottfall ákvæða sem telja verður að þjóni ekki tilgangi sínum lengur, þ.e. afnám skráningarskyldu verslana og verslunarreksturs og sérákvæða þar að lútandi og afnám löggildingar bifreiðasala. Skilyrði fyrir því að aðila sé heimilt að stunda verslun á Íslandi er samkvæmt lögum um verslunaratvinnu að verslunin sé skráð í sérstaka skrá sem halda skal um verslanir. Slík skrá hefur þó ekki verið haldin og rekstraraðilum verslana hefur ekki verið gert að skrá starfsemina. Ekki er talið nauðsynlegt að halda slíka skrá eða kveða almennt á um skráningarskyldu verslana. Verslun í atvinnuskyni telst vera atvinnurekstur óháð því í hvaða formi hún er rekin. Skv. 2. gr. laga um fyrirtækjaskrá, nr. 17/2003, skal fyrirtækjaskrá m.a. geyma upplýsingar um einstaklinga, félög og aðra aðila sem stunda atvinnurekstur eða sjálfstæða starfsemi. Skv. 3. gr. laganna skal fyrirtækjaskrá halda aðgreinanlegar skrár yfir hlutafélög, einkahlutafélög, samvinnufélög, sameignarfélög, samlagsfélög, firmu eins manns og sjálfseignarstofnanir sem stunda atvinnurekstur. Skv. 4. gr. laganna skal skráningin innihalda ákveðnar upplýsingar ásamt atvinnugreinarnúmeri viðkomandi atvinnustarfsemi samkvæmt atvinnugreinaflokkun Hagstofu Íslands. Á grundvelli laganna er því haldin skrá um þá atvinnustarfsemi sem stunduð er í landinu. Um sérstök skilyrði til að stunda atvinnurekstur í tilteknu rekstrarformi fer m.a. eftir framangreindum lögum sem gilda um sérhvert rekstrarform. Í þeim lögum er til að mynda kveðið á um hæfisskilyrði forsvarsmanna. Um verslunarrekstur gilda einnig önnur almenn lög, svo sem lög um eftirlit með viðskiptaháttum og markaðssetningu, nr. 57/2005. Ekki verður því séð að þörf sé á sérstakri skráningarskyldu verslana á grundvelli laga um verslunaratvinnu.
    Í frumvarpinu er lagt til að II. kafli laganna falli brott í heild sinni en þar er auk skráningarskyldu kveðið á um tilteknar skyldur seljenda gagnvart viðskiptavinum. Ekki er þörf á þeim sérákvæðum þar sem umrædd háttsemi fellur almennt undir lög nr. 57/2005. Varðandi réttindi og skyldur farandsala, sem kveðið er á um í 7. gr. laganna, gildir 2. mgr. 13. gr. reglugerðar um lögreglusamþykktir nr. 1127/2007 og geta sveitarstjórnir á grundvelli ákvæðisins sett reglur um farandsölu í samþykktum sínum.
    Í frumvarpinu er lagt til að III. kafli laganna falli brott en hann snýr að sölu notaðra muna. Í 8. gr. er kveðið á um skrásetningu og verðmerkingu þegar notuðum munum er veitt móttaka til endursölu, í 9. gr. er reglugerðarheimild sem ekki hefur verið nýtt og í 10. gr. er kveðið á um aðgæsluskyldu við kaup og sölu notaðra lausafjármuna og að óheimilt sé að veita móttöku notuðum lausafjármunum til endursölu frá ólögráða einstaklingum. Þessi ákvæði eru að mati ráðuneytisins óþörf og bæta engu við gildandi rétt. Þeir sem selja notaða muni verða almennt að sýna árvekni gagnvart því að þeir séu ekki að selja þýfi og skv. 69.–72. gr. lögræðislaga, nr. 71/1997, þarf samþykki yfirlögráðanda fyrir ráðstöfun ólögráða manns á eignum sínum sem eru að nokkru verðmæti og fellur lausfé þar undir.
    Í frumvarpinu er einnig lagt til að leyfi til sölu notaðra ökutækja verði fellt brott. Verði frumvarpið samþykkt mun því ekki þurfa sérstakt opinbert leyfi til að halda verslun með notuð ökutæki eða hafa milligöngu um sölu notaðra ökutækja. Í lögunum mun þó verða kveðið á um ákveðnar skyldur sem munu áfram hvíla á þeim sem hafa atvinnu af milligöngu um sölu notaðra ökutækja, svo sem um upplýsingaöflun um ökutækið og gögn sem skulu liggja fyrir og nauðsynleg eru vegna kaupanna, skyldu til að viðhafa góðar viðskiptavenjur og skyldu til að annast skjalagerð sem leiðir af kaupsamningi. Þá mun reglugerð nr. 44/2003 um upplýsingaskyldu í viðskipum með notuð ökutæki, sem sett var með stoð í 14. gr. laga um verslunaratvinnu, halda gildi sínu hvað varðar önnur atriði en leyfisbréf og brottfall leyfis. Að auki munu önnur lög sem gilda almennt um alla atvinnustarfsemi einnig gilda um störf bifreiðasala. Lagt er til að leyfisskyldan verði felld brott þar sem ekki verður talið að nægilega sterk rök liggi fyrir henni. Almennt er ekki einkaréttur á milligöngu um sölu notaðra ökutækja á EES-svæðinu og er slík löggjöf til að mynda hvergi annars staðar á Norðurlöndum. Mikilvægt er í þessu sambandi að mögulegur kaupandi hafi allar þær upplýsingar sem skipta máli við kaup notaðs ökutækis og hafi möguleika á því að óska eftir ástandsskoðun fyrir kaup. Ekki verða því lagðar til breytingar á kröfum um upplýsingaskyldu við sölu notaðra ökutækja.
    Um kaup og sölu notaðra ökutækja gilda almennar reglur kröfuréttar og reglur laga um lausafjárkaup, nr. 50/2000, eða laga um neytendakaup, nr. 48/2003, eftir stöðu aðila. Skv. 99. gr. laga um lausafjárkaup, 63. gr. laga um neytendakaup og 40. gr. laga um þjónustukaup, nr. 42/2000, geta aðilar að lausafjárkaupum, neytendakaupum og þjónustukaupum snúið sér til kærunefndar lausafjár- og þjónustukaupa greini þá á um réttindi sín og skyldur samkvæmt framangreindum lögum. Hefur nefndin þá veitt álit sitt um það einkaréttarlega ágreiningsefni sem um ræðir hverju sinni. Með lögum um úrskurðaraðila á sviði neytendamála, nr. 81/2019, mun kærunefnd vöru- og þjónustukaupa á grundvelli V. kafla laganna leysa kærunefnd lausafjár- og þjónustukaupa af hólmi. Valdsvið nefndarinnar nær til ágreinings um samninga sem neytendur gera við seljendur um kaup á vöru og þjónustu, þó ekki til ágreinings sem er til meðferðar hjá dómstólum eða dómur hefur gengið um. Skv. 5. mgr. 18. gr. laganna eru úrskurðir nefndarinnar aðfararhæfir að liðnum 30 daga fresti sem seljandi hefur til að tilkynna nefndinni að hann uni ekki úrskurðinum. Skv. 19. gr. laganna er ráðherra heimilt að ákveða með reglugerð að kærunefndin skuli birta nöfn þeirra seljenda sem tilkynnt hafa að þeir uni ekki úrskurði nefndarinnar. Þegar um er að ræða kaup á notaðri bifreið í umboðssölu eða með milligöngu umboðsmanns, sbr. 4. mgr. 1. gr. laga um neytendakaup, getur ágreiningur vegna kaupanna, t.d. ágreiningur vegna galla, átt undir valdsvið nefndarinnar sem leysir úr málum með bindandi úrskurði. Lögin taka gildi 1. janúar 2020 og mun þá hin nýja nefnd leysa kærunefnd lausafjár- og þjónustukaupa af hólmi en úrlausnir hennar hafa verið óbindandi álit.

3.2. Breyting á iðnaðarlögum.
    Í II. kafla frumvarpsins eru lagðar til breytingar á iðnaðarlögum þess efnis að iðnaðarleyfi verði lagt af og lögin muni framvegis, verði frumvarpið samþykkt, aðeins gilda um löggiltar handiðngreinar. Ekki er lengur talin þörf á að gefa út iðnaðarleyfi þar sem þau hafa litla sjálfstæða þýðingu þar sem skilyrði fyrir því að fá útgefið iðnaðarleyfi eru almenn og gilda almennt um aðra atvinnustarfsemi, fyrir utan matskennd skilyrði um viðskiptaþekkingu og bókhaldskunnáttu. Ekki verður séð að málefnaleg rök séu fyrir því að brot í opinberu starfi eða störfum sem þarf opinbert leyfi til eigi að hafa sérstaka þýðingu umfram önnur brot á almennum hegningarlögum. Eftirlit með því að aðilar sem starfa í iðnaði hafi útgefið iðnaðarleyfi hefur ekki verið virkt og ekki er talin sérstök þörf á því. Þróunin hefur orðið sú að iðnaðarleyfi hefur verið notaður sem grundvöllur annarra leyfa. Sem dæmi þá er iðnaðarleyfi grundvöllur þess að fá leyfi til framleiðslu áfengis á grundvelli áfengislaga, nr. 75/1998, og reglugerðar nr. 828/2005 um framleiðslu, innflutning og heildsölu áfengis í atvinnuskyni. Í 3. gr. reglugerðarinnar er kveðið á um skilyrði þess að fá leyfi til framleiðslu áfengis og er iðnaðarleyfi eitt þeirra skilyrða en ekki verður séð að málefnaleg nauðsyn sé á því eða að skilyrði um útgáfu iðnaðarleyfis bæti neinu við eða hafi neitt sjálfstætt gildi umfram önnur skilyrði reglugerðarinnar til að fá leyfi til framleiðslu áfengis. Iðnaðarleyfi, sbr. einnig skráð verslun skv. kafla 3.1, telst einnig til skilyrða fyrir því að fá leyfi til SMT- eða VEF-tollafgreiðslu á grundvelli 24. gr. tollalaga, nr. 88/2005, en auk iðnaðarleyfis eru þar fleiri skilyrði fyrir umræddu leyfi til tollafgreiðslu. Þau skilyrði eru strangari en skilyrði fyrir útgáfu iðnaðarleyfis og því verður ekki séð að sérstök nauðsyn sé fyrir skilyrði um iðnaðarleyfi til að fá leyfi til SMR- eða VEF-tollafgreiðslu. Því verður ekki séð annað en að iðnaðarleyfi sé fyrst og fremst notað sem grundvöllur fyrir öðrum leyfum og feli því eingöngu í sér óþarfa reglubyrði fyrir atvinnulífið.
    Mikilvægt er að árétta að um ýmiss konar iðnað gildir fjöldi laga og reglna á tilteknum sviðum, t.d. um aðbúnað á vinnustöðum þar sem iðnaður er stundaður, um umhverfisáhrif iðnaðar og mengunaravarnir o.fl. Þannig gildir t.d. reglugerð nr. 550/2018 um losun frá atvinnurekstri og mengunarvarnaeftirlit um hvers konar starfsemi og framkvæmdir hér á landi, í lofthelgi, efnahagslögsögu og farkostum sem ferðast undir íslenskum fána, sem hafa í för með sér losun út í andrúmsloft, vatn og jarðveg eða myndun úrgangs. Með reglugerðinni fylgja viðaukar þar sem talin er upp starfsleyfisskyld starfsemi á grundvelli 5. gr. reglugerðarinnar, en þar er m.a. um að ræða fjölbreytta iðnaðarstarfsemi. Umhverfisstofnun gefur út starfsleyfi á grundvelli reglugerðarinnar, sem eru bundin ítarlegum skilyrðum sem fram koma í 8. gr., og hefur almennt eftirlit með framkvæmd hennar. Allar helstu kröfur sem nú eru gerðar til iðnaðarstarfsemi með tilliti til almannahagsmuna er því að finna í öðrum lögum og reglum en iðnaðarlögum.

3.3. Breyting á lögum um samvinnufélög.
    Í III. kafla frumvarpsins er lögð til breyting á lögum um samvinnufélög, sem varðar heimildir ráðherra til að veita undanþágur frá innköllunarskyldu á grundvelli laganna. Í fyrsta lagi er lögð til breyting á 4. gr. laganna um stofnun samvinnufélags. Í 5. mgr. 4. gr. kemur fram að á stofnfundi samvinnufélags skuli bera stofnun félagsins upp til umræðu og atkvæða og ef 15 aðilar eða fleiri komi sér saman um félagsstofnun og bindist samtökum og gerist félagsmenn setji þeir félaginu samþykktir í samræmi við lögin og teljist þá félagið löglega stofnað en ráðherra geti heimilað frávik frá lágmarksfjölda stofnenda. Er í frumvarpinu lagt til að ráðherra verði heimilt að framselja vald sitt til að veita undanþágu frá lágmarksfjölda stofnenda samvinnufélags.
    Í öðru lagi er lögð til breyting á 52. gr. laganna um lækkun stofnsjóðs samvinnufélags. Í 2. mgr. 52. gr. kemur fram að ef tekin er ákvörðun á félagsfundi um lækkun stofnsjóðs samvinnufélags og að lækkuninni skuli ráðstafað til félagsmanna, til greiðslu hluthafa í B-deild stofnsjóðs eða til afskriftar á greiðsluskyldu í stofnsjóði félagsins, skuli tvívegis birta áskorun í Lögbirtingablaðinu til kröfuhafa félagsins um að tilkynna kröfur sínar til félagsstjórnar innan tveggja mánaða frá fyrstu birtingu áskorunarinnar. Skv. 3. mgr. 52. gr. er ráðherra heimilt að veita félagi undanþágu frá innköllunarskyldu skv. 2. mgr. ef félag sannar að það eigi fyrir skuldum og ljóst þykir að kröfuhafar félagsins bíði ekki tjón af því. Í frumvarpinu er lagt til að ráðherra verði heimilt að framselja vald sitt til að veita undanþáguna.
    Í þriðja lagi er um að ræða undanþágu frá innköllunarskyldu þegar um samruna félaga er að ræða. Í 1. mgr. 57. gr. laga um samvinnufélög kemur fram að þegar tvö félög sameinast með yfirtöku annars á hinu skuli stjórn þess félags sem yfirtekur annað félag láta birta tvisvar sinnum í Lögbirtingablaði áskorun til lánardrottna félagsins um að lýsa kröfum sínum innan þriggja mánaða frá fyrstu birtingu áskorunar talið. Eignum félagsins skal haldið aðgreindum þar til fresturinn er útrunninn og lýstum kröfum fullnægt. Ekki þarf að halda eignunum aðgreindum ef allir lánardrottnar samþykkja eða þeim er sett fullnægjandi trygging. Sanni félag að það eigi fyrir skuldum er ráðherra heimilt að veita undanþágu frá innköllun samkvæmt framangreindu. Með frumvarpinu er lagt til að ráðherra verði veitt heimild til að framselja vald sitt til að veita undanþágu frá framangreindri innköllunarskyldu og er lagt upp með að ráðherra muni með reglugerð framselja ríkisskattstjóra vald til að veita undanþáguna.
    Breytingarnar sem lagðar eru til á lögum um samvinnufélög og varða undanþágur frá innköllunarskyldu eru í samræmi við breytingar sem gerðar voru á lögum um hlutafélög, nr. 2/1995, og lögum um einkahlutafélög, nr. 138/1994, með lögum nr. 68/2010, en með þeim lögum var ráðherra veitt heimild til að framselja undanþáguvald um nokkur atriði samkvæmt lögum um hlutafélög og lögum um einkahlutafélög. Með reglugerð nr. 485/2013 var ákveðið undanþáguvald flutt til ríkisskattstjóra á grundvelli samnings milli atvinnuvega- og nýsköpunarráðuneytisins og ríkisskattstjóra. Rétt þykir að sams konar heimildir verði í lögum um samvinnufélög þannig að sama stjórnvaldið taki sambærilegar ákvarðanir á grundvelli félagaréttar og er breytingin því til einföldunar fyrir starfsemi ráðuneytisins enda er talið að verkefnið heyri frekar undir embætti ríkisskattstjóra.

4. Samræmi við stjórnarskrá og alþjóðlegar skuldbindingar.
    Frumvarpið snertir atvinnulífið og atvinnufrelsi borgaranna. Í 75. gr. stjórnarskrárinnar kemur fram að öllum sé frjálst að stunda þá atvinnu sem þeir kjósa     en þessu frelsi megi þó setja skorður með lögum, enda krefjist almannahagsmunir þess. Frumvarpið felur í sér einföldun regluverks og aukið frelsi borgaranna til að stunda þá atvinnu sem þeir kjósa. Þannig verður ekki lengur talið réttlætanlegt að þær skorður við atvinnustarfsemi, sem felast í leyfisveitingum þeim sem nú er lagt til að felldar verði brott, séu við lýði. Ekki er því ástæða til að ætla að frumvarpið fari gegn ákvæðum stjórnarskrárinnar og þá felur frumvarpið ekki í sér breytingu á lögum sem sett hafa verið til innleiðingar á þjóðréttarskuldbindingum Íslands.

5. Samráð.
    Við vinnslu frumvarpsins var haft samráð við dómsmálaráðuneytið, fjármála- og efnahagsráðuneytið, Tollstjóra og Sýslumanninn á höfuðborgarsvæðinu varðandi þær réttarheimildir sem heyra undir þessa aðila þar sem skráning verslunar eða iðnaðarleyfis er grundvöllur annars konar leyfa. Drög að frumvarpi voru síðan kynnt almenningi í samráðsgátt stjórnvalda og bárust tíu umsagnir. Nokkrir umsagnaraðilar lögðust gegn því að leyfi til sölu notaðra ökutækja yrðu felld niður, nokkrir gerðu athugasemdir við þau áform að fella iðnaðarleyfi niður án þess þó að leggjast gegn því og nokkrir umsagnaraðilar kváðust jákvæðir í garð frumvarpsins og aðgerðaáætlunar ráðuneytisins um einföldun regluverks. Þær athugasemdir sem gerðar voru við áform um að fella niður leyfi voru þess efnis að bent var á að opinbert leyfi, og námskeið sem undanfari þess að öðlast slíkt leyfi, fælu í sér kröfu um fagmennsku og fagþekkingu á málaflokknum og væri til þess fallið að viðhalda trausti í viðskiptum með notuð ökutæki sem væri sérlega mikilvægt. Þá var bent á að fyrirkomulag um sölu notaðra bíla væri víðast hvar í Evrópu öðruvísi en hér á landi sem væri réttlæting fyrir því að opinbert leyfi þyrfti til að stunda atvinnustarfsemina. Niðurstaða ráðuneytisins að loknu opnu samráði er að athugasemdirnar séu ekki þess efnis að þær leiði til breytinga á þeim áformum sem kynnt voru. Margt hefur breyst í umhverfi viðskipta með notuð ökutæki frá þeim tíma þegar starfsemin var fyrst gerð leyfisskyld. Þá verða svik í viðskipum refsiverð hér eftir sem hingað til. Niðurstaðan er því að ekki séu rök til þess að opinbert leyfi þurfi til þeirrar atvinnustarfsemi sem frumvarpið tekur til. Að auki voru nokkrar tæknilegar breytingar gerðar á frumvarpinu.

6. Mat á áhrifum.
    Með frumvarpinu eru lagðar til breytingar á lögum um verslunaratvinnu og iðnaðarlögum, sem eru til þess fallnar að einfalda það regluverk sem gildir um þá starfsemi sem fallið hefur undir framangreind lög. Auk framangreindra laga þarf sú atvinnustarfsemi sem hefur fallið hér undir að vera í samræmi við önnur lög. Þær sértæku reglur laga um verslunaratvinnu sem gilt hafa um verslunarrekstur gilda almennt um alla atvinnustarfsemi sem felur í sér sölu á vöru og þjónustu til neytenda á grundvelli laga um eftirlit með viðskiptaháttum og markaðssetningu, nr. 57/2005. Það er einfaldara í framkvæmd fyrir þá sem stunda verslunarrekstur að lagareglur séu ekki endurteknar í mörgum lögum, mögulega með blæbrigðamun á orðalagi sem felur í sér aukið flækjustig.
    Með brottfalli ákvæða um iðnaðarleyfi í iðnaðarlögum fellur brott leyfisskylda sem ekki verður séð að hafi haft sjálfstæða þýðingu í töluverðan tíma. Iðnaðarleyfi hafa verið notuð sem grundvöllur annarra leyfa og því aðeins falið í sér aukið flækjustig og óþarfa reglubyrði. Iðnaðarleyfi hafa einnig haft í för með sér kostnað þar sem leyfishafi hefur þurft að greiða 54.000 kr. fyrir útgáfu leyfis á grundvelli laga um aukatekjur ríkissjóðs, nr. 88/1991. Þar sem iðnaðarleyfi hafa ekki sjálfstæða þýðingu verður að telja gjaldið óþarfa skattbyrði á atvinnugreinar, sem rétt er að fella niður.
    Það er almennt til þess fallið að draga úr aðgangshindrunum að atvinnustarfsemi að fella niður iðnaðarleyfi, skráningu verslana og leyfisveitingubifreiðasala og skapa þar með skilyrði fyrir fleiri aðila til að hefja starfsemi og veita þeim sem fyrir eru aðhald með aukinni samkeppni. Frumvarpinu er ætlað að skapa skilyrði fyrir aukinni samkeppni og lækka verð til neytenda.
    Verði frumvarpið óbreytt að lögum mun ríkissjóður verða af tekjum vegna útgáfu iðnaðarleyfa en þær hafa verið óverulegar síðustu ár. Á tímabilinu 2014–2019 voru gefin út 27 iðnaðarleyfi hjá Sýslumanninum á höfuðborgarsvæðinu og Sýslumanninum í Reykjavík þegar það embætti var og hét.
    Sýslumaður hefur haft sértækt eftirlit með starfsemi löggiltra bifreiðasala. Það eftirlit mun leggjast af verði frumvarpið samþykkt óbreytt og um starfsemi bifreiðasala munu þá gilda lög um eftirlit með viðskiptaháttum og markaðssetningu, nr. 57/2005, sem Neytendastofa hefur eftirlit með og hafa einnig gilt um starfsemina. Því er einnig um að ræða einföldun á verkefnum og hlutverkum opinberra eftirlitsaðila. Skv. 51. tölul. 11. gr. laga um aukatekjur ríkissjóðs, nr. 88/1991, skal greiða 54.000 kr. fyrir leyfi til sölu notaðra ökutækja til fimm ára og 5.000 kr. fyrir endurnýjun leyfis. Frá gildistöku laga um breytingar á ýmsum lögum vegna þjónustuviðskipta á innri markaði Evrópska efnahagssvæðisins, nr. 77/2011, sem breyttu m.a. 13. gr. laga um verslunaratvinnu, hafa leyfin verið gefin út ótímabundið. Sú aðgangshindrun sem felst í gjaldi fyrir leyfi verður því felld brott. Ríkissjóður mun verða af tekjum af útgáfu leyfa en 51 leyfi hefur verið gefið út frá árinu 2015. Sértækt eftirlit sýslumanns mun falla niður en kostnaður af því hefur verið óverulegur.
    Prófnefnd bifreiðasala starfar skv. 13. gr. laga um verslunaratvinnu og reglugerð nr. 45/2003 um námskeið og próf til að öðlast leyfi til sölu notaðra ökutækja. Próf hefur að jafnaði verið haldið einu sinni á ári og prófgjald verið ákveðið 105.000 kr. síðustu ár, sem hefur staðið undir kostnaði við námskeið og próf. Verði frumvarpið óbreytt að lögum mun hlutverk prófnefndarinnar falla niður og lagt upp með að reglugerð nr. 45/2003 verði felld úr gildi.
    Áhrif af brottfalli úreltra laga eru engin.
    Verði frumvarpið óbreytt að lögum fela fjárhagsáhrif þess í sér óverulega lækkun á tekjum ríkissjóðs, annars vegar vegna niðurfellingar iðnaðarleyfis og hins vegar vegna niðurfellingar á leyfisskyldu fyrir sölu og milligöngu um sölu notaðra ökutækja. Frumvarpið hefur engin áhrif á útgjöld ríkissjóðs.

Um einstakar greinar frumvarpsins.

Um 1. gr.

    Í 1. gr. er lagt til að 4. mgr. 1. gr. laga um verslunaratvinnu falli brott. Í ákvæðinu segir að ef ágreiningur verði um hvort um verslun fari samkvæmt lögunum skeri skráningaraðili úr honum innan þrjátíu daga og að þeim úrskurði megi áfrýja til ráðuneytisins og að sá úrskurður skuli liggja fyrir innan þrjátíu daga. Af orðalagi og samhengi ákvæðisins verður ráðið að það átti að ná til þess þegar verslun væri rekin án skráningar og ágreiningur væri uppi um hvort um skráningarskylda verslun væri að ræða. Þar sem lagt er til í frumvarpi þessu að ákvæði um skráningu verslunar falli brott úr lögunum er 4. mgr. 1. gr. laganna óþörf.

Um 2. gr.

    Í 2. gr. er lagt til að 2. og 3. gr laganna falli brott. Í 2. gr. laganna kemur fram að til að stunda verslun í íslenskri landhelgi skuli uppfylla ákvæði laga um verslunaratvinnu og að atvinnustarfsemin skuli skráð í samræmi við löggjöf um skráningu firma, hlutafélaga og einkahlutafélaga, samvinnufélaga og sjálfseignarstofnana, eftir því sem við á. Líkt og áður kom fram fer skráning á atvinnustarfsemi hér á landi samkvæmt lögum um fyrirtækjaskrá, nr. 17/2003. Skv. 3. gr. þeirra laga skal m.a. halda aðgreinanlegar skrár yfir atvinnustarfsemi sem rekin er í mismunandi félagaformum. Viðkomandi atvinnustarfsemi þarf ávallt einnig að uppfylla skilyrði viðkomandi sérlaga. Samkvæmt framangreindu er 2. gr. laga um verslunaratvinnu óþörf.
    Í 3. gr. laga um verslunaratvinu eru orðskýringar. Þær taka allar til verslunarreksturs með einum eða öðrum hætti en hugtakið föst starfsstöð kemur einnig fyrir í 2. mgr. 20. gr. laganna sem kveður á um frjáls uppboð. Kemur þar fram að frjáls uppboð utan fastrar starfsstöðvar séu háð leyfi sýslumanns. Ekki er í frumvarpi þessu lagðar til breytingar á V. kafla laganna um frjáls uppboð. Skilgreining 3. gr. á fastri starfsstöð er efnislega í samræmi við skýringu hugtaksins í öðrum lögum og ber að beita samræmisskýringu við túlkun hugtaksins enda eru með þessari breytingu ekki lagðar til neinar breytingar á því hvernig skilja beri hugtakið. Ekki er því ástæða til að ætla að hugtakið verði skýrt öðruvísi í lögum um verslunaratvinnu þó svo að 3. gr. laganna falli brott í heild sinni.

Um 3. gr.

    Með ákvæðinu er lagt til að II. kafli laganna falli brott en í kaflanum er kveðið á um almenn skilyrði fyrir rétti til að stunda verslun. Í 4. gr. er kveðið á um skráningarskyldu verslunar í firmaskrá, hlutafélagaskrá, samvinnufélagaskrá eða skrá á grundvelli löggjafar um sjálfseignarstofnanir. Slík skráning fer nú samkvæmt lögum um fyrirtækjaskrá. Í 2. mgr. 4. gr. laganna kemur fram að dánarbú og gjaldþrotabú hafa rétt til að stunda áfram verslun í samræmi við ákvæði laga um verslanaskrár, firmu og prókúruumboð. Um uppgjör dánarbúa og gjaldþrotabúa fer samkvæmt viðeigandi sérlögum. Hlutverk skiptastjóra gjaldþrotabúa er að hámarka virði búsins í þágu kröfuhafa og fellur sala eigna þess þar undir og ekki er þörf á sérstöku leyfi til slíks þegar ákvæði um skráningu verslana hafa verið felld brott. Varðandi skipti dánarbúa þá njóta þau hæfis til að eiga og öðlast réttindi samkvæmt lögum um skipti á dánarbúum o.fl., nr. 20/1991. Ekki er þörf á sérákvæðum hvað þetta varðar en einnig verður að telja eðlilegt að atvinnustarfsemi sé ekki stunduð í dánarbúi.
    Í 5. gr. laga um verslunaratvinnu kemur fram upplýsingaskylda seljanda gagnvart kaupanda um atriði er varða seljanda og rekstur hans. Háttsemi seljanda gagnvart kaupanda, sem fæli í sér brot gegn 5. gr. laganna mundi almennt fela í sér villandi viðskiptahætti sem bannaðir eru á grundvelli laga um eftirlit með viðskiptaháttum og markaðssetningu, nr. 57/2005.
    Skv. 3. gr. frumvarpsins fellur 6. gr. laganna einnig brott en í henni er kveðið á um staðfestingu skráningaraðila á því að verslun hafi verið skráð samkvæmt lögunum.
    Í 7. gr. laganna, sem fellur einnig brott verði frumvarp þetta óbreytt að lögum, kemur fram að samþykktir sveitarstjórna skuli gilda um réttindi og skyldur þeirra sem stunda farandsölu, séu ekki sett ákvæði um það í lögum um verslunaratvinnu. Skv. 2. mgr. 13. gr. reglugerðar nr. 1127/2007 um lögreglusamþykktir getur sveitarstjórn sett samþykktir um farandsölu og sölu á götum, torgum og öðrum stöðum. Þannig geta sveitarstjórnir ákveðið með samþykktum hvar og hvenær innan sveitarfélagsins heimilt er að stunda farandsölu og um réttindi og skyldur þeirra sem stunda farandsölu.

Um 4. gr.

    Með 4. gr. er lagt til að III. kafli laganna um sölu notaðra lausafjármuna falli brott. Talið er óþarft að kveða sérstaklega á um þessar reglur í lögunum. Um sölu notaðra muna á uppboðum gilda sérákvæði V. kafla laganna eftir því sem við á og einnig 19. gr. og 2. mgr. 37. gr. laga um lausafjárkaup, nr. 50/2000, sem fela í sér sérstakar reglur um gallamat og vanefndaúrræði þegar hlutir eru seldir á uppboði, hvort sem um er að ræða nýja eða notaða hluti.
    Skv. 2. mgr. 10. gr. laga um verslunaratvinnu er óheimilt að kaupa eða veita móttöku notuðum lausafjármunum til endursölu frá ólögráða aðila. Ekki verður um efnisbreytingu á gildandi rétti að ræða þó að ákvæðið verði fellt brott því að skv. 69.–72. gr. lögræðislaga, nr. 71/1997, þarf samþykki yfirlögráðanda fyrir ráðstöfun á eign ófjárráða einstaklings. Á það m.a. við um kaup og sölu á lausafé ef um tiltölulega mikið verðmæti er að tefla. Ákvæði III. kafla laganna var öðrum þræði ætlað að koma með einum eða öðrum hætti í veg fyrir sölu illa fenginna hluta. Í því sambandi er minnt á að endursala stolinna hluta er refsivert brot skv. 264. gr. almennra hegningarlaga, nr. 19/1940, hvort sem um ásetnings- eða gáleysisbrot er að ræða. Er því ljóst að á þeim sem selur notaða lausafjármuni hvílir sérstök aðgæsluskylda enda getur sala þeirra annars verið refsiverð.

Um 5. gr.

    Með 5. gr. er lagt til að 12. og 13. gr. laga um verslunaratvinnu falli brott en ákvæðin snúa að leyfisskyldu fyrir rekstri verslunar eða umboðssölu með notuð ökutæki og skilyrðum þar að lútandi.

Um 6. gr.

    Með ákvæðinu er lögð til breyting á 14. gr. laganna þess efnis að þau atriði 15. gr. laganna er varða skyldur bifreiðasala verði áfram í lögunum en færð í 2. mgr. 14. gr. Ákvæðið varðar skyldu bifreiðasala til að greina kaupanda frá þeim rétti að fá óháðan þriðja aðila til að meta ástand ökutækis og þá skyldu að greina kaupanda frá því ef ástandi ökutækis er ábótavant.

Um 7. gr.

    Með ákvæðinu er lagt til að 15. gr. laganna falli brott. Í 1. mgr. er kveðið á um skyldur bifreiðasala um góða viðskiptahætti, jafnræði, viðskiptakjör, samningsskilmála og upplýsingar um verð. Framangreind atriði falla öll undir ákvæði laga um eftirlit með viðskiptaháttum og markaðssetningu, nr. 57/2005, og er því óþarfi að kveða sérstaklega á um þau í lögum um verslunaratvinnu. Þau atriði sem rétt þykir að standi áfram í lögunum eru færð í 2. mgr. 14. gr., sbr. 6. gr. frumvarpsins, og þá mun einnig halda gildi sínu reglugerð nr. 44/2003 um upplýsingaskyldu í viðskiptum með notuð ökutæki, sem felur í sér sértæka upplýsingaskyldu þeirra aðila sem selja eða hafa milligöngu um sölu notaðra ökutækja. Að öðru leyti þarfnast ákvæðið ekki skýringa.

Um 8. gr.

    Með 8. gr. er lagt til að 18. og 19. gr. laga um verslunaratvinnu falli brott. Ákvæðin taka til einkaréttar leyfishafa á því að kalla sig bifreiðasala og eftirlits með starfsemi bifreiðasala. Ekki er talin þörf á sérstöku eftirliti með störfum bifreiðasala umfram það sem almennt gildir um atvinnustarfsemi. Þannig munu áfram ýmis lög gilda um starfsemi sem varðar t.d. háttsemi aðila á markaði og um þjónustu þeirra sem hafa milligöngu um sölu notaðra ökutækja gilda almennar reglur kröfuréttar, auk sértækra reglna um upplýsingaskyldu við sölu notaðra ökutækja samkvæmt reglugerð nr. 44/2003. Um kaup notaðra ökutækja gilda annaðhvort lög um lausafjárkaup, nr. 50/2000, eða lög um neytendakaup, nr. 48/2003, eftir því hvernig staða aðila að kaupunum er hverju sinni.

Um 9. gr.

    Í 9. gr. er lögð til breyting á refsiákvæði laga um verslunaratvinnu. Breytingin leiðir af öðrum breytingum sem lagðar eru til á lögunum og felur í sér brottfall refsiákvæða vegna brota gegn ákvæðum laganna sem lagt er til að verði felld brott.

Um 10. gr.

    Með 10. gr. er lagt til að 1. gr. iðnaðarlaga verði breytt þannig að lögin gildi eftirleiðis aðeins um löggiltan handiðnað í atvinnuskyni en ekki um verksmiðjuiðnað. Í því felst að verksmiðjuiðnaður verður ekki leyfisskyldur á grundvelli iðnaðarlaga með útgáfu iðnaðarleyfis en um verksmiðjuiðnað gilda önnur lög eftir atvikum sem fjallað er um í kafla 3.2 í greinargerðinni. Lögin munu því aðeins gilda um löggiltar handiðngreinar og eftir sem áður fellur heimilisiðnaður utan gildissviðs laganna.
    Samkvæmt 8. gr. iðnaðarlaga ákveður ráðherra í reglugerð hvaða handiðngreinar séu löggiltar, sem felur í sér að þeim einum sé heimilt að starfa í slíkum greinum sem hafa meistarabréf, sveinsbréf eða eru nemar til sveinsprófs, sbr. 3. mgr. 8. gr. laganna, og sbr. einnig reglugerð nr. 940/1999 um löggiltar iðngreinar. Ekki er því nauðsynlegt að skilgreina hvað telst handiðnaður. Heimilisiðnaður mun falla utan gildissviðs laganna eins og verið hefur hið minnsta allt frá setningu laga um iðju og iðnað, nr. 18/1927, og síðar lögum sama efnis nr. 79/1971. Heimilisiðnaður á sér aldalanga sögu hér á landi og er samofinn íslenskri þjóðarvitund. Hann felst í stuttu máli í framleiðslu matvæla og nytjahluta á heimilum fólks til notkunar og neyslu í daglegu lífi þess sjálfs og má rekja til þess tíma þegar mun meira var framleitt á heimilum landsmanna en nú tíðkast enda voru verslunar- og lifnaðarhættir þá aðrir og einangrun mikil. Á 20. öld breyttist þetta og kom nokkrum sinnum til árekstra milli þeirra sem störfuðu í löggiltum iðngreinum og þeirra sem stunduðu heimilisiðnað sér til framfærslu. Slíkt hefur minnkað mjög á síðustu árum og áratugum þó að einhver markatilvik komi enn upp. Um mörkin milli heimilisiðnaðar og löggilts handiðnaðar verður helst litið til þess að heimilisiðnaður er ekki stundaður í atvinnuskyni heldur á grunni gamallar íslenskrar menningar. Sé heimilisiðnaður stundaður til að afla tekna og vörur þær sem framleiddar eru boðnar almennt til sölu með reglubundnum hætti verður að telja að farið sé inn á svið löggiltrar handiðnar hafi sú handiðn verið löggilt í reglugerð ráðherra. Með vísan til framangreinds er ekki lagt til að heimilisiðnaður verði sérstaklega skilgreindur í lögunum.

Um 11. gr.

    Í 11. gr. eru lagðar til breytingar á 2. gr. iðnaðarlaga sem leiða af því að iðnaðarleyfi eru lögð af.

Um 12. gr.

    Í 12. gr. er lagt til að 3.–7. gr. iðnaðarlaga falli brott. Ákvæðin snúa að útgáfu iðnaðarleyfa og skilyrðum fyrir útgáfu þeirra og öðrum atriðum tengdum þeim. Ráðgert er að fella einnig brott reglugerð nr. 620/1995 á grundvelli 3. gr. iðnaðarlaga, sbr. reglugerð nr. 805/2018, en efnisatriðum reglugerðarinnar verður komið fyrir í 13. gr. laganna.

Um 13. gr.

    Með ákvæðinu er lögð til breyting á 1. mgr. 10. gr. iðnaðarlaga þar sem kveðið er á um skilyrði þess að aðili geti leyst til sín meistarabréf. Skilyrði fyrir meistarabréfi er nú að finna á tveimur stöðum í lögunum, annars vegar í almennum leyfisskilyrðum 3. gr. og hins vegar í 10. gr. Þar sem lagt er til að iðnaðarleyfi verði lögð af og 3. gr. í heild sinni falli brott eru önnur atriði sem varða leyfisskilyrði og eðlilegt er að gildi áfram um heimild til að leysa til sín meistarabréf færð í 10. gr. laganna.

Um 14. gr.

    Með 14. gr. er lagt til að efnisatriði reglugerðar nr. 620/1995 verði færð í 12. gr. laganna. Í 12. gr. kemur fram að sýslumaður, þar sem aðili á lögheimili, láti af hendi meistarabréf samkvæmt umsókn frá aðila þar um. Í reglugerð nr. 620/1995 kemur fram að þegar um sé að ræða aðila sem á ekki lögheimili hér á landi gefi sá sýslumaður sem fær umsókn frá þeim aðila út meistarabréf, enda uppfylli aðilinn önnur skilyrði laganna, sem eru aðallega í 10. gr. þar sem fram koma þau skilyrði sem aðili þarf að uppfylla til að leysa til sín meistarabréf í handiðngrein sinni.

Um 15. gr.

    Í 15. gr. eru lagðar til breytingar á 13. gr. iðnaðarlaga þess efnis að sýslumaður haldi skrá yfir meistarabréf og jafnframt að tilkynningarskylda leyfishafa leyfis til sölu notaðra ökutækja til sýslumanns falli brott í samræmi við aðrar breytingar frumvarpsins.

Um 16. gr.

    Með 16. gr. er lagt til að heimild til að sekta aðila sem reki iðnað án þess að hafa leyfi eða leyfi öðrum að reka iðnað í skjóli síns leyfis takmarkist við rekstur handiðnaðar. Leiðir breytingin af því að iðnaðarleyfi eru lögð af.

Um 17. gr.

    Með 17. gr. er lögð til breyting á 16. gr. laganna sem þarfnast ekki skýringa.

Um 18. gr.

    Í ákvæðinu er lagt til að heiti laganna verði lög um handiðn í samræmi við breytt gildissvið sem lagt er til með frumvarpi þessu um að lögin muni eftirleiðis aðeins gilda um löggiltar handiðngreinar.

Um 19. gr.

    Með 19. gr. frumvarpsins er lögð til breyting á 4. gr. laga um samvinnufélög, nr. 22/1991, sem felur í sér að ráðherra sé heimilt að framselja vald sitt til að veita undanþágu frá lágmarksfjölda stofnenda samvinnufélags.

Um 20. gr.

    Í 20. gr. frumvarpsins er lögð til breyting á 3. mgr. 52. gr. laga um samvinnufélög um heimild ráðherra til að framselja vald sitt til að veita undanþágu frá innköllunarskyldu á grundvelli ákvæðisins.

Um 21. gr.

    Með 21. gr. frumvarpsins er lögð til breyting á 5. málsl. 1. mgr. 57. gr. laga um samvinnufélög. Með ákvæðinu er ráðherra veitt heimild til að framselja undanþáguvald vegna innköllunarskyldu þegar um er að ræða samruna félaga.

Um 22. gr.

    Með 22. gr. frumvarpsins er lagt til brottfall ýmissa laga sem hafa lokið hlutverki sínu. Ákvæðið þarfnast annars ekki skýringa.

Um 23. gr.

    Ákvæðið þarfnast ekki skýringa.