Ferill 234. máls. Aðrar útgáfur af skjalinu: PDF - Word Perfect.


150. löggjafarþing 2019–2020.
Þingskjal 429  —  234. mál.




Svar


umhverfis- og auðlindaráðherra við fyrirspurn frá Karli Gauta Hjaltasyni um urðun úrgangs.


    Fyrirspurnin hljóðar svo:
     1.      Hverjir eru urðunarstaðir úrgangs hér á landi? Óskað er eftir upplýsingum um alla urðunarstaði í skilningi reglugerðar um urðun úrgangs nr. 738/2003, sem og eldri urðunarstaði og staðsetningu þeirra, eins langt aftur og upplýsingar liggja fyrir um.
     2.      Á hvaða tímabili var úrgangur urðaður á hverjum stað skv. 1. tölul., hvert er magn úrgangs á hverjum stað og hver er frágangur hans?
     3.      Hvernig flokkast úrgangur urðaður á hverjum stað skv. 1. tölul., hvert er hættustig úrgangsins fyrir umhverfið og heilbrigði manna og dýra?
    
    Urðun úrgangs er starfsleyfisskyld starfsemi, sbr. 14. gr. laga nr. 55/2003, um meðhöndlun úrgangs, og 6. gr. laga nr. 7/1998, um hollustuhætti og mengunarvarnir, og er Umhverfisstofnun útgefandi starfsleyfis. Svar við fyrirspurninni byggist því á upplýsingum frá Umhverfisstofnun um þá urðunarstaði sem starfa, eða störfuðu áður en þeim var lokað, á grundvelli starfsleyfis og felur í sér tæmandi yfirlit yfir þessa urðunarstaði. Öðru máli gegnir um gamla urðunarstaði, þ.e. þá sem voru í rekstri áður en starfsleyfisskylda kom til. Aðgengilegar og áreiðanlegar heimildir um slíka staði liggja ekki fyrir nema að takmörkuðu leyti. Skipulögð sorphreinsun og urðun úrgangs hefur tíðkast hér á landi í meira en öld. Í flestum tilfellum eru ekki til skráðar heimildir um staðsetningar gamalla urðunarstaða eða um þann úrgang sem þar var urðaður. Umfjöllunin um gamla urðunarstaði byggist á tveimur heimildum, annars vegar á yfirliti sem Umhverfisstofnun tók saman árið 2005 yfir mögulega menguð svæði, þ.m.t. gamla urðunarstaði, á landsvísu 1 og hins vegar á upplýsingum sem umhverfissvið Reykjavíkurborgar tók saman ári síðar um gamla urðunarstaði í Reykjavík. 2 Varðandi fyrri heimildina þá eru upplýsingar um gamla urðunarstaði misítarlegar eftir landshlutum og er rétt að gera ráð fyrir að yfirlitið sem á henni er byggt sé ekki tæmandi. Ef tekið er mið af því hvernig meðhöndlun úrgangs fór almennt fram áður fyrr má leiða líkur að því að urðun hafi að einhverju marki farið fram við flesta þéttbýlisstaði á landinu.
    Varðandi magn þess úrgangs sem hefur verið urðað þá nær saga flestra urðunarstaða það langt aftur að upplýsingar um heildarmagn á hverjum stað eru ekki aðgengilegar með auðveldum hætti. Síðasta áratug eða svo hafa skyldur rekstraraðila urðunarstaða er varða umsóknir um starfsleyfi og skil þeirra á gögnum aukist umtalsvert, ásamt því sem rafræn umsýsla tölulegra upplýsinga um magn úrgangs var tekin upp fyrir fáeinum árum. Þar af leiðandi koma einungis fram í þessu svari upplýsingar um magn úrgangs sem urðað var árlega á urðunarstöðum með starfsleyfi á tímabilinu 2014–2018, þ.e. eftir að rafrænar skráningar hófust.

Urðunarstaðir á Íslandi, staðsetning þeirra, rekstrartímabil og frágangur.
    Í töflu 1 er yfirlit yfir þá urðunarstaði sem eru með gilt starfsleyfi og upplýsingar um hvenær þeir fengu fyrst starfsleyfi, samkvæmt þeim upplýsingum sem aðgengilegar eru. Það gefur hugmynd um hvenær urðun á viðkomandi stað hófst en á sumum þessara urðunarstaða var þó hafinn rekstur öllu fyrr og því liggja ekki fyrir nákvæmar upplýsingar um rekstrartímabil. Það sama gildir um þá urðunarstaði sem voru með starfsleyfi á rekstrartíma en hefur nú verið lokað (tafla 2). Varðandi nákvæma staðsetningu starfandi urðunarstaða þá er hnitsetning þeirra gefin upp í þeim tilfellum þar sem þær upplýsingar eru aðgengilegar og nákvæm staðsetning urðunarstaða sem lokað hefur verið er gefin upp með landnúmeri viðkomandi landeignar. Við lokun gefur Umhverfisstofnun út skrifleg fyrirmæli til rekstraraðila um frágang og vöktun viðkomandi urðunarstaðar og er þeim þinglýst á viðeigandi landnúmer, sbr. 61. gr. laga um meðhöndlun úrgangs.

Tafla 1. Urðunarstaðir sem eru með gilt starfsleyfi.

Rekstraraðili Staðsetning Hnit Fékk fyrst starfsleyfi
X (ISN93) Y (ISN93)
Bolungarvíkurkaupstaður að Hóli 31.8.2000
Borgarbyggð Bjarnhólum 360102 451984 9.7.2002
Borgarfjarðarhreppur Brandsbölum 739418 568594 31.8.2000
Byggðasamlagið Hula Skógasandi 475090 332612 7.1.2000
Dalabyggð Höskuldsstöðum 9.9.2015
Elkem Ísland ehf. Grundartanga (eigin úrgangur) 365255 430671 24.11.1998
Fjarðabyggð Þernunesi 741266 507688 27.2.2008
Fljótsdalshérað Tjarnarlandi 16.11.2001
Langanesbyggð Bakkafirði 5.9.2002
Mýrdalshreppur við Uxafótarlæk 501748 324486 7.1.2000
Norðurá bs. Stekkjarvík 441621 580285 26.11.2010
Norðurál Grundartangi ehf. Grundartanga (eigin úrgangur) 365420 430794 26.3.1997
Norðurþing Laugardal 574546 617914 24.11.1997
Norðurþing Kópaskeri 9.9.2002
Rio Tinto á Íslandi hf. Straumsvík (eigin úrgangur) 7.11.2005
Skaftárhreppur Stjórnarsandi 475090 332612 7.1.2000
SORPA bs. Álfsnesi 366625 412355 11.6.2001
Sorpsamlag Strandasýslu ehf. Skeljavík 377099 581129 15.5.2006
Sorpstöð Rangárvallasýslu bs. Strönd 690508 590017 13.12.2007
Sorpstöð Suðurlands bs. Kirkjuferjuhjáleigu 475090 332612 22.9.1998
Sorpurðun Vesturlands hf. Fíflholtum, nýr urðunarstaður 349952 469714 5.2.2014
Stykkishólmsbær Ögri 370296 514887 9.11.2006
Sveitarfélagið Hornafjörður í landi Syðri-Fjarðar 692966 428910 9.12.2002
Vopnafjarðarhreppur Búðaröxl 690508 590017 5.9.2002

Tafla 2. Urðunarstaðir sem voru með starfsleyfi en hefur nú verið lokað.

Rekstraraðili Staðsetning Landnúmer Fékk fyrst starfsleyfi Fyrirmæli um frágang og vöktun gefin út
Akraneskaupstaður við Berjadalsá 172746 4.12.2002 13.11.2014
Akureyrarbær Glerárdal 220320 24.9.1999 13.8.2014
Blönduósbær Draugagili 221109 3.3.2005 9.7.2014
Bæjarveitur Vestmannaeyja Bústaðagryfju 221478 24.9.1999 26.3.2014
Breiðdalshreppur 3 Heydalamelum 31.8.2000 Verða gefin út
Dalabyggð Búðardal 137556 9.7.2002 11.6.2014
Funi-Sorpbrennsla Klofningi 138618 24.9.1999 15.11.2012
Grundarfjarðarbær Hrafnkelsstöðum 136625 4.12.2002 5.12.2012
Húnaþing vestra Syðri-Kárastöðum 144501 27.7.2001 29.4.2015
Sveitarfélagið Skagaströnd Neðri-Harrastöðum 145864 3.3.2005 19.6.2014
Langanesbyggð Þórshöfn 221636 5.9.2002 23.4.2014
Sorpstöð Suðurlands bs. 4 Kirkjuferjuhjáleigu 174184 22.9.1998 13.5.2015
Sorpurðun Vesturlands hf. Fíflholtum, eldri urðunarstaður 135995 17.8.1998 11.6.2014
Sveitarfélagið Hornafjörður Svínafelli 160192, -95 og -96 4.12.2002 10.4.2013
Sveitarfélagið Skagafjörður Skarðsmóum 145958 7.12.1987 13.8.2014
Vesturbyggð Vatnseyrarhlíð 222306 18.11.2002 29.1.2015

    Í töflu 3 er yfirlit yfir gamla urðunarstaði, þ.e. sem voru í rekstri áður en starfsleyfisskylda kom til. Ítarlegustu upplýsingarnar varða gamla urðunarstaði í Reykjavík og þar liggja jafnan fyrir upplýsingar um nákvæma staðsetningu og um rekstrartímabil. Upplýsingar um gamla urðunarstaði annars staðar á landinu eru ekki eins ítarlegar. Ekki liggja fyrir haldbærar upplýsingar um frágang allra þessara gömlu staða og gera má ráð fyrir að hann sé mismunandi. Í sumum tilfellum eru þessir staðir komnir undir byggð eða hafa verið nýttir undir starfsemi af einhverju tagi. Aðrir staðir eru afskekktir.

Tafla 3. Gamlir urðunarstaðir sem ekki höfðu starfsleyfi (yfirlitið er ekki tæmandi).

Staðsetning Nánari staðsetning Í notkun (u.þ.b.)
Reykjavík Selsvör við Ánanaust 1900– 1940
Reykjavík frá Grandavegi vestur að býlinu Eiði 1940– 1954
Reykjavík við Reykjavíkurtjörn og fyrir neðan Háskólann 1900– 1928
Reykjavík í Vatnsmýrinni fyrir neðan gamla Kennaraskólann 1930– 1955
Reykjavík Skólavörðuholti 1900– 1928
Reykjavík við Skúlagötu, neðan Barónsstígs 1930– 1950
Reykjavík við sorpbrennslu við Stórhöfða 1953– 1967
Reykjavík sorpeyðingarstöðinni við Stórhöfða 1958– 1978
Reykjavík við Fossaleyni 1958– 1965
Reykjavík í Stekkjabrekku við Vesturlandsveg 1958– 1967
Reykjavík í Ártúni 1958– 1968
Reykjavík Geirsnefi 1960– 1967
Reykjavík Keldnaholti 1960– 1973
Reykjavík við loftskeytastöð í Gufunesi 1960– 1970
Reykjavík Gufuneshaugum 1967– 1991
Reykjavík við Kirkjusand Um og eftir 1967
Hafnarfjörður Hamranesi
Sunnan Reykjavíkur
Reykjanes Stafnesi 1980–2002
Reykjanes Miðnesheiði
Reykjanesbær við Hafnaveg
Ölfus við Selfoss
Egilsstaðir Þórsnesi
Reyðarfjörður
Eskifjörður Hólmanesi
Neskaupstaður ofan við gamla frystihúsið
Seyðisfjörður við gamla brennarann
Breiðdalsvík við gamla brennarann
Hornafjörður Fjárhúsavík
Ólafsfjörður
Mývatnssveit við Kísiliðju
Mývatnssveit norðan Kísiliðju
Raufarhöfn
Akureyri (tveir gamlir urðunarstaðir)
Dalvík
Grenivík
Hrísey
Húsavík Saltvík
Þingeyjarsveit Húsabakka, Aðaldal
Þingeyjarsveit Kvígindisdal
Heiðarfjall
Mosfellsbær nærri vegamótum Hafravatnsvegar og Úlfarsfellsvegar

Magn og hættustig úrgangs sem urðaður hefur verið á hverjum urðunarstað.
    Eins og áður hefur komið fram liggja ekki fyrir aðgengilegar upplýsingar um það heildarmagn sem urðað hefur verið á hverjum urðunarstað. Í töflu 4 er hins vegar að finna upplýsingar um magn þess úrgangs sem urðaður var á tímabilinu 2014–2018 á hverjum þeirra urðunarstaða sem eru starfandi (tafla 1). Á þessu tímabili fór ekki fram urðun á þeim stöðum sem hefur verið lokað (tafla 2), að undanskildum urðunarstað Breiðdalshrepps þar sem voru urðuð samtals 435 tonn á tímabilinu og urðunarstað Húnaþings vestra þar sem urðuð voru 1.067 tonn árið 2014.
    Þeir urðunarstaðir sem eru starfandi og hafa starfsleyfi til að taka á móti úrgangi frá öðrum hafa allir heimild til að taka annaðhvort á móti almennum úrgangi eða óvirkum úrgangi til urðunar. Almennur úrgangur er allur úrgangur annar en spilliefni og óvirkur úrgangur er úrgangur sem breytist ekki verulega líf-, efna- eða eðlisfræðilega og hefur ekki skaðleg áhrif á umhverfið, t.d. múrbrot, gler og uppmokstur. Dæmi um almennan úrgang er sorp frá heimilum og úrgangur frá atvinnustarfsemi sem ekki telst vera spilliefni. Almennur úrgangur hefur að jafnaði meiri áhrif á umhverfið en óvirkur úrgangur en telst samt sem áður hættulítill. Þessir urðunarstaðir eru því almennt ekki ætlaðir til urðunar á spilliefnum. Það sama gildir um þá urðunarstaði sem voru með starfsleyfi en lokað hefur verið, þ.e. þeir tóku annað hvort á móti almennum úrgangi eða óvirkum úrgangi. Í gildi eru reglur sem kveða á um mat á hættulegum eiginleikum úrgangs og í hvaða tilfellum flokka eigi úrgang sem spilliefni, sbr. reglugerð nr. 1040/2016 um skrá yfir úrgang og mat á hættulegum eiginleikum úrgangs. Vakin er athygli á því að þótt urðunarstöðum fyrir almennan úrgang sé almennt ekki heimilt að taka á móti spilliefnum þá er þeim heimilt, að uppfylltum tilteknum skilyrðum, að taka við spilliefnum sem flokkast sem stöðug og óvirk, sbr. 4. mgr. 6. gr. reglugerðar nr. 738/2003 um urðun úrgangs. Það heyrir til undantekninga að þessi heimild eigi við. Jafnframt er athygli vakin á að starfandi urðunarstaðir eru undir reglubundnu eftirliti Umhverfisstofnunar og við þá fer jafnan fram reglubundin vöktun á losun mengunarefna, svo sem í yfirborðsvatn eða í grunnvatn. Reglubundin vöktun fer líka fram við þá urðunarstaði sem hefur verið lokað, svo lengi sem telja má að mengunarhætta stafi af þeim.
    Þrír af þeim urðunarstöðum sem eru starfandi eru ekki hefðbundnir urðunarstaðir, heldur svokallaðar flæðigryfjur. Tvær þessara gryfja eru staðsettar á Grundartanga og ein í Straumsvík og eru þær sérstaklega útbúnar til förgunar á eigin úrgangi sem fellur til við framleiðslustarfsemi þeirra fyrirtækja sem standa að rekstri þeirra. Þeim er ekki heimilt að taka við úrgangi frá öðrum til förgunar. Í starfsleyfum fyrirtækjanna er tiltekið hvaða úrgangi er heimilt að farga en í sumum tilfellum er um að ræða spilliefni. Líkt og aðrir starfandi urðunarstaðir þá eru þessir þrír staðir undir reglubundnu eftirliti Umhverfisstofnunar og við þá fer fram reglubundin vöktun á mengunarefnum í sjó, sjávarseti og í kræklingi.
    Varðandi þá gömlu urðunarstaði sem staðsettir eru í Reykjavík þá eru þeir misstórir og hefur magn úrgangs á hverjum þeirra verið áætlað frá nokkrum tugum til tugþúsunda tonna. Talið er að á flestum þessara urðunarstaða hafi verið urðaður hættulítill úrgangur en á nokkrum þeirra eru taldar miklar líkur á að urðuð hafi verið spilliefni. Ekki liggja fyrir upplýsingar um stærð gamalla urðunarstaða annars staðar á landinu en þeir voru að líkindum flestir ætlaðir til urðunar á hættulitlum úrgangi. Líkt og í Reykjavík verður þó að teljast líklegt að á a.m.k. sumum þeirra hafi jafnframt verið urðuð spilliefni.

Tafla 4. Magn úrgangs sem urðaður var 2014–2018.

Magn [tonn]
Rekstraraðili Staðsetning 2018 2017 2016 2015 2014
Bolungarvíkurkaupstaður að Hóli 45 48 25 7 236
Borgarbyggð Bjarnhólum 18 16 3 16 0
Borgarfjarðarhreppur Brandsbölum 139 49 162 75 153
Byggðasamlagið Hula Skógasandi 537 395 577 390 419
Dalabyggð Höskuldsstöðum 31 68 9 0
Elkem Ísland ehf. Grundartanga 4137 3367 3558 5340 3538
Fjarðabyggð Þernunesi 1735 2824 2991 2164 2075
Fljótsdalshérað Tjarnarlandi 2214 1537 1504 1434 1341
Langanesbyggð Bakkafirði 197 87 0 0
Mýrdalshreppur við Uxafótarlæk 537 0 0 0
Norðurá bs. Stekkjarvík 18410 20523 20241 18267 16088
Norðurál Grundartangi ehf. Grundartanga 11052 10809 24199 11644 7537
Norðurþing Laugardal 536 616 593 503 0
Norðurþing Kópaskeri
Rio Tinto á Íslandi hf. Straumsvík 4387 4675 20817 27278 4411
Skaftárhreppur Stjórnarsandi 197 198 197 198 181
SORPA bs. Álfsnesi 147196 141688 122540 108546 102493
Sorpsamlag Strandasýslu ehf. Skeljavík 245 50 314 48 344
Sorpstöð Rangárvallasýslu bs. Strönd 1788 1820 1529 1737 2089
Sorpstöð Suðurlands bs. Kirkjuferjuhjáleigu 0 0 0 0 0
Sorpurðun Vesturlands hf. Fíflholtum, nýr urðunarstaður 17573 14168 12586 11225 11462
Stykkishólmsbær Ögri 228 185 0 30 188
Sveitarfélagið Hornafjörður í landi Syðri-Fjarðar 3312 2782 1903 2257 2103
Vopnafjarðarhreppur Búðaröxl 786 909 1237 1048 576

1    Umhverfisstofnun (2005). Report on Soil Protection and Remediation of Contaminated Sites in Iceland. A preliminary study.
2    Umhverfissvið Reykjavíkurborgar (2006). Gamlir urðunarstaðir í Reykjavík.
3    Starfsleyfi urðunarstaðarins í Breiðdalshreppi er fallið úr gildi og hefur rekstraraðili hafið lokunarferli.
4    Urðunarstaðnum að Kirkjuferjuhjáleigu hefur verið lokað og fyrirmæli um frágang og vöktun gefin út en starfsleyfi staðarins er enn í gildi.