Ferill 433. máls. Aðrar útgáfur af skjalinu: PDF - Word Perfect.


150. löggjafarþing 2019–2020.
Þingskjal 679  —  433. mál.
2. umræða.



Nefndarálit með breytingartillögu


um frumvarp til laga um breytingu á búvörulögum, nr. 99/1993, með síðari breytingum (endurskoðun samnings um starfsskilyrði nautgriparæktar).

Frá meiri hluta atvinnuveganefndar.


    Nefndin hefur fjallað um málið og fengið á sinn fund Ásu Þórhildi Þórðardóttur, Elísabetu Önnu Jónsdóttur og Arnar Frey Einarsson frá atvinnuvega- og nýsköpunarráðuneytinu, Sigurð Eyþórsson frá Bændasamtökum Íslands, Jóhönnu Maríu Sigmundsdóttur frá Landssambandi kúabænda, Bjarna Ragnar Brynjólfsson frá Samtökum afurðastöðva í mjólkuriðnaði og Birgi Óla Einarsson og Steingrím Ægisson frá Samkeppniseftirlitinu.
    Umsögn barst frá Samkeppniseftirlitinu.
    Með frumvarpinu er lagt til að 2. og 3. mgr. 53. gr. búvörulaga, sem kveða á um innlausn greiðslumarks, verði felldar brott og lögð til breyting á 54. gr. sem kveður m.a. á um að aðilaskipti að greiðslumarki mjólkur skuli fara fram á markaði.
    Meginmarkmiðið með frumvarpinu er að framfylgja samkomulagi um breytingar á samningi um starfsskilyrði nautgriparæktar, sem var undirritað 25. október 2019, sem fela í sér að fallið verði frá niðurfellingu heildargreiðslumarks.
    Fyrir nefndinni kom almennt fram ánægja með frumvarpið. Var bent á að kúabændur hafi samþykkt samkomulagið með 76% greiddra atkvæða. Enn fremur hafi verið samþykkt meðal bænda með 89% atkvæða að halda kvótakerfinu í mjólkurframleiðslu. Breytingin sé því að beiðni bændanna sjálfra. Var nefndinni bent á að í fleiri löndum væri stjórnun mjólkurmarkaðar með greiðslumarki og að til stæði að koma hér á jafnvægisverðsmarkaði. Var bent á að skipa eigi starfshóp sem fari yfir verðlagningu á mjólk og mjólkurvörum. Nefndinni var jafnframt bent á að ráðherra verði heimilt að setja hámarksverð á greiðslumark verði verðþróun á markaði óeðlileg. Þetta muni auka fyrirsjáanleika og hjálpa bændum t.d. í rekstraráætlanagerð.
    Fyrir nefndinni komu fram sjónarmið um að greiðslumark í mjólkurframleiðslu væri markaðstruflandi framleiðslustuðningur og best væri að það yrði aflagt. Stuðningur í formi greiðslumarks í búvörulögum feli í sér framleiðslustýringu og breyta þurfi stuðningi til bænda með þeim hætti að hann ýti ekki undir offramleiðslu.
    Meiri hluti nefndarinnar bendir á að niðurstöður atkvæðagreiðslna meðal bænda bendi eindregið til þess að kvótakerfi í mjólkurframleiðslu sé það fyrirkomulag sem henti greininni. Bendir nefndin enn fremur á að unnið sé að aðgerðum sem auki fyrirsjáanleika og auðveldi bændum þannig rekstur þeirra.

    Meiri hluti nefndarinnar telur frumvarp þetta til bóta og leggur til að það verði samþykkt með eftirfarandi

BREYTINGU:


    Fyrirsögn frumvarpsins orðist svo: Frumvarp til laga um breytingu á búvörulögum, nr. 99/1993, með síðari breytingum (greiðslumark mjólkur).

Alþingi, 10. desember 2019.

Lilja Rafney Magnúsdóttir,
form., frsm.
Ásmundur Friðriksson. Halla Signý Kristjánsdóttir.
Njáll Trausti Friðbertsson. Sigurður Páll Jónsson. Rósa Björk Brynjólfsdóttir.
Þorgrímur Sigmundsson.