Ferill 490. máls. Aðrar útgáfur af skjalinu: PDF - Word Perfect.


150. löggjafarþing 2019–2020.
Þingskjal 847  —  490. mál.




Svar


sjávarútvegs- og landbúnaðarráðherra við fyrirspurn frá Jóni Þór Ólafssyni um starfsemi Fiskistofu.


     1.      Hvernig metur ráðherra framtíðarstarfsemi Fiskistofu miðað við það fjármagn sem stofnuninni var úthlutað á grundvelli fjárlaga fyrir árið 2020?
    Ráðuneytið hefur samþykkt rekstraráætlun sem Fiskistofa gerði fyrir árið 2020 og er hún innan þess fjárhagsramma sem stofnuninni er markaður í fjárlögum. Rekstur Fiskistofu fyrir árið 2020 er því fjármagnaður.
    Fiskistofa vinnur nú að margvíslegum verkefnum sem snúa að því að nýta bestu tækni við starfsemina. Þannig má nefna að verið er að taka í notkun smáforrit fyrir aflaskráningu smábáta og jafnframt er unnið að því að tengja þá skráningu um önnur upplýsingakerfi stofnunarinnar. Þá er hröð þróun í upplýsingatækni og eftirlitstækni í sjávarútvegi sem er líkleg til að hafa áhrif á starfsemi Fiskistofu í framtíðinni. Samkvæmt upplýsingum frá Fiskistofu hefur stofnunin lagt kapp á að nýta upplýsingatækni til að leysa verkefni sem áður voru unnin af starfsfólki og hefur það tekist vel. Upplýsingatækni er að mati Fiskistofu álitlegasta leiðin til að stofnunin geti sinnt þjónustu sinni og eftirliti miðað við það fjármagn sem stofnuninni er lagt til. Í því ljósi hefur verið sett fram skýr framtíðarsýn þar sem áhersla er m.a. lögð á framsækna upplýsingatækni á öllum sviðum starfseminnar. Markvisst er unnið að því að innleiða nýjustu tækni í því skyni að gera þjónustu skilvirkari og eftirlit markvissara.

     2.      Telur ráðherra að stofnunin geti sinnt lögbundnu hlutverki sínu og haldið óbreyttum starfsmannafjölda?
    Í desember 2018 skilaði Ríkisendurskoðun skýrslu til Alþingis um eftirlit Fiskistofu. Í skýrslu Ríkisendurskoðunar kemur fram að stjórnendur Fiskistofu telja að stofnunin sé og hafi verið undirmönnuð miðað við fjölda og umfang eftirlitsverkefna. Ómögulegt sé að sinna öllu því eftirliti sem henni ber að sinna m.a. vegna skorts á úrræðum og viðurlögum. Ráðuneytið hefur að öðru leyti talið að Fiskistofa hafi uppfyllt eftirlitsskyldu sína með vigtun, brottkasti og samþjöppun miðað við þær fjárheimildir sem stofnunin hefur haft yfir að ráða.
    Að mati Ríkisendurskoðunar þarf að ráðast í ýmsar úrbætur til að Fiskistofa geti sinnt eftirliti með skilvirkum og árangursríkum hætti. Telur Ríkisendurskoðun mikilvægt að skilgreind verði skýr árangursmarkmið um eftirlitshlutverk Fiskistofu, að mótuð sé skýr afstaða til þess hverju eftirlitið eigi að skila og að gripið sé til nauðsynlegra ráðstafana til að árangursmarkmiðum verði náð. Í þeirri vinnu þarf m.a. að endurskoða fjölda þeirra starfsmanna sem sinna eftirliti, taka skýra afstöðu til þeirra vandkvæða sem hafa háð eftirliti stofnunarinnar og leysa úr þeim.
    Til að bregðast við skýrslu Ríkisendurskoðunar skipaði ráðherra verkefnastjórn um bætt eftirlit með fiskveiðiauðlindinni. Jafnframt skipaði ráðherra samráðshóp með fulltrúum allra þingflokka á Alþingi, stofnana og helstu hagaðila í sjávarútvegi til ráðgjafar um hvernig bæta megi eftirliti með nýtingu fiskveiðiauðlindarinnar.
    Tillagna hópsins er að vænta á næstunni.

     3.      Fjölgar verkefnum stofnunarinnar á næstunni og ef svo er, hefur hún fjármagn til að takast á við þau og til að fjölga starfsfólki ef þörf krefur?
    Verkefni Fiskistofu taka stöðugum breytingum. Eins og að framan greinir er nú lögð mikil áhersla á nýtingu upplýsingatækni. Það kallar á ný verkefni og talsverða vinnu sem mun skila sér síðar. Öll stærri verkefni sem kalla á viðbótarkostnað eru metin í samráði við viðeigandi stofnun og þeim ekki falin ný verkefni án þess að þau séu fjármögnuð.