Ferill 551. máls. Aðrar útgáfur af skjalinu: PDF - Word Perfect.


150. löggjafarþing 2019–2020.
Þingskjal 906  —  551. mál.




Skýrsla


Íslandsdeildar þingmannaráðstefnunnar um norðurskautsmál fyrir árið 2019.


1. Inngangur.
    Á vettvangi þingmannanefndar um norðurskautsmál (SCPAR) bar á árinu 2019 hæst umræður um loftslagsmál, formennskuáætlun Íslands í Norðurskautsráðinu, niðurstöður síðasta ráðherrafundar ráðsins og hvernig stuðla megi að áframhaldandi stöðugleika á svæðinu.
    Nefndin lagði að venju ríka áherslu á umhverfismál og horfði sérstaklega til loftslagsbreytinga. Loftslagsbreytingar eru stærsta váin á norðurslóðum og var fulltrúum þingmannanefndarinnar tíðrætt um hvernig draga mætti úr neikvæðum afleiðingum þeirra. Ræddu þátttakendur m.a. hvernig draga mætti úr hækkun hitastigs af völdum loftslagsbreytinganna sem eru tvöfalt hraðari á svæðinu en annars staðar í heiminum.
    Jafnframt var formennskuáætlun Íslands í Norðurskautsráðinu í brennidepli en Ísland tók við formennsku til tveggja ára af Finnum í maí 2019. Áætlunin ber yfirskriftina Saman til sjálfbærni á norðurslóðum sem vísar til þess að meginviðfangsefni ráðsins krefjast samvinnu yfir landamæri og er áminning um að starf ráðsins hefur frá upphafi snúist um að tryggja sjálfbæra þróun á svæðinu. Í áætluninni er lögð megináhersla á þrjú málefnasvið: málefni hafsins, loftslagsmál og grænar orkulausnir, og fólkið og samfélög á norðurslóðum. Þá verður haldið áfram vinnu við að styrkja innra starf Norðurskautsráðsins sem krefjast samvinnu yfir landamæri.
    Tíðindum sætti að engin sameiginleg ályktun var gefin út á ráðherrafundi Norðurskautsráðsins sem haldinn var í Rovaniemi 6.–7. maí 2019. Stjórnvöld í Washington þrýstu á um að tilvísanir í loftslagsbreytingar og Parísarsamkomulagið yrðu teknar út úr texta ályktunarinnar en önnur ríki ráðsins voru mótfallin þeirri afstöðu. Af því leiddi að í fyrsta sinn í sögu Norðurskautsráðsins náðist ekki samkomulag um ályktun. Í þingmannanefnd Norðurskautsráðsins kom fram að sú niðurstaða hefði valdið aðildarríkjunum vonbrigðum og áhyggjum en áhersla væri þó á að halda samstarfinu áfram með sameiginleg markmið að leiðarljósi.
    Fulltrúar Íslandsdeildarinnar lögðu m.a. áherslu á stafrænt norðurskaut og mikilvægi þess að styðja við þróun máltækni á norðurslóðum. Þannig gætu íbúar norðurskautssvæðisins verið virkir þátttakendur í hinum stafræna heimi. Þá var sjónum beint að nauðsyn þess að viðhalda sterku alþjóðlegu samstarfi á norðurslóðum til að stuðla að áframhaldandi friði og stöðugleika.
    Af fleiri málum sem voru ofarlega á baugi hjá þingmannanefndinni má nefna olíumengun á hafsvæði norðurslóða, menntamál, líffræðilega fjölbreytni og versnandi samskipti milli Rússlands og Bandaríkjanna. Að auki fóru fram umræður um stefnu aðildarríkjanna í málefnum norðurskautsins og jafnréttismál á svæðinu.

2. Almennt um þingmannaráðstefnu um norðurskautsmál.
    Þingmannaráðstefnan um norðurskautsmál (CPAR) er umræðuvettvangur þingmanna frá ríkjum við norðurskaut, sem og fulltrúa ríkisstjórna, háskólastofnana og félagasamtaka sem láta sig málefni norðursins varða. Fyrsta ráðstefna þingmanna og fulltrúa norðurskautssvæða var haldin í Reykjavík árið 1993, en nokkur samvinna norðurskautsríkja hófst þegar samþykkt var áætlun um umhverfisvernd á norðurslóðum í Rovaniemi í Finnlandi árið 1991. Ráðstefnan í Reykjavík árið 1993 var hins vegar undanfari þingmannanefndar um norðurskautsmál (SCPAR) sem formlega var sett á laggirnar árið 1994. Nefndin er stjórnarnefnd þingmannaráðstefnu um norðurskautsmál sem haldin er á tveggja ára fresti.
    Meginviðfangsefni nefndarinnar eru að skipuleggja þingmannaráðstefnuna og fylgja eftir samþykktum hennar, sem og að fylgjast grannt með störfum Norðurskautsráðsins. Þingmannanefndin fundar að jafnaði þrisvar á ári og einn þingmaður frá hverju aðildarríki situr í nefndinni. Þjóðþing Bandaríkjanna, Kanada, Rússlands og Norðurlanda eiga fulltrúa í nefndinni og auk þess á Evrópuþingið fastan fulltrúa. Nokkur samtök þingmanna, frumbyggja og þjóðarbrota á norðurslóðum eiga fasta áheyrnarfulltrúa í nefndinni með rétt til þátttöku í umræðum, svo sem Norðurlandaráð og Vestnorræna ráðið.
    Almennt má segja að helstu verkefni í norðurskautssamstarfi lúti að sjálfbærri þróun og umhverfismálum. Sérstök áhersla hefur einnig verið lögð á varðveislu menningararfleifðar og lífshátta þeirra þjóðflokka er byggja landsvæðin við norðurskaut, sem og aukna efnahagslega og félagslega velferð og velmegun íbúa norðursins. Þá hefur þingmannanefndin á undanförnum árum lagt sérstakan metnað í að eiga frumkvæði að margs konar verkefnum sem hægt er að leggja fyrir Norðurskautsráðið til framkvæmdar.
    Áhersla hefur verið lögð á verkefni sem snúa að ýmsum málum sem snerta forgangsverkefni Norðurskautsráðsins, en ráðið byggist á sameiginlegri yfirlýsingu og samstarfi ríkisstjórna aðildarríkjanna átta. Jafnvel þótt samstarf norðurskautsríkja eigi sér fremur stutta sögu hefur það leitt til margvíslegra sameiginlegra verkefna og stofnana. Eftirlit með og mat á umhverfi norðurskautssvæðanna hefur frá byrjun verið forgangsverkefni ráðsins. Fjölmargar vandaðar vísindarannsóknir hafa verið gerðar á vegum vinnuhópa ráðsins, m.a. um mengunarhættu, áhrif mengunar á vistkerfi norðurslóða og varðveislu líffræðilegs fjölbreytileika.
    Undir lok formennskutíðar Íslands árið 2004 var gefin út skýrsla um áhrif loftslagsbreytinga á norðurskautssvæðinu, Arctic Climate Impact Assessment. Skýrslan er fyrsta svæðisbundna allsherjarrannsókn á loftslagsbreytingum sem birt hefur verið eftir að samningur Sameinuðu þjóðanna um loftslagsbreytingar var gerður. Skýrslan vakti mikla athygli og hefur verið notuð sem eins konar grunnur að alþjóðlegri umræðu um loftslagsbreytingar á norðurslóðum. Spár skýrslunnar gefa til kynna að um næstu aldamót verði norðurskautshafsvæðið íslaust að sumarlagi. Talið er að þær loftslagsbreytingar sem verða á 10 ára tímabili á norðurslóðum gerist á 25 ára tímabili annars staðar. Hitastig á norðurslóðum hækkar að jafnaði tvisvar sinnum hraðar en annars staðar í heiminum. Þótt hitastig hækki á norðurslóðum eins og á jörðinni allri sýnir skýrslan hins vegar að loftslagsbreytingar hafa mismunandi og ójöfn áhrif á ólík svæði jarðar. Á sumum stöðum hlýnar til muna en annars staðar kólnar þótt meðaltal hitastigs jarðar fari hækkandi. Þessar víðtæku loftslagsbreytingar hafa margs konar afleiðingar, svo sem hækkun yfirborðs sjávar og breytingu sjávarfalla. Hlýnandi hafstraumar leiða svo til enn örari loftslagsbreytinga.
    Þrír lagalega bindandi samningar hafa verið gerðir á vettvangi Norðurskautsráðsins. Sá fyrsti var undirritaður af aðildarríkjunum á leiðtogafundi Norðurskautsráðsins í Nuuk í maí 2011, um leit og björgun á norðurslóðum (SAR). Segja má að samningurinn sé fordæmisgefandi og vísir að frekari samningsgerð og nánara samstarfi milli ríkja ráðsins. Talið hefur verið brýnt að bregðast við fyrirsjáanlega aukinni umferð á hafi og í lofti og annarri starfsemi á norðurslóðum, m.a. vegna loftslagsbreytinga, og aukinni hættu á slysum. Í samningnum eru afmörkuð leitar- og björgunarsvæði sem hvert ríkjanna átta ber ábyrgð á og kveðið er á um skuldbindingar þeirra og samstarf við leitar- og björgunaraðgerðir. Annar samningurinn var undirritaður á leiðtogafundi ráðsins í Kiruna í Svíþjóð árið 2013, um gagnkvæma aðstoð vegna olíumengunar í hafi og sá þriðji árið 2017 um aukið alþjóðlegt vísindasamstarf á norðurslóðum.

3. Skipan Íslandsdeildar.
    Aðalmenn Íslandsdeildar árið 2019 voru Ari Trausti Guðmundsson, formaður, þingflokki Vinstrihreyfingarinnar – græns framboðs, Líneik Anna Sævarsdóttir, varaformaður, þingflokki Framsóknarflokks, og Björn Leví Gunnarsson, þingflokki Pírata. Varamenn voru Halla Signý Kristjánsdóttir, þingflokki Framsóknarflokks, Kolbeinn Óttarsson Proppé, þingflokki Vinstrihreyfingarinnar – græns framboðs, og Smári McCarthy, þingflokki Pírata. Ritari Íslandsdeildar var Arna Gerður Bang.
    Formaður situr fyrir hönd Íslandsdeildar í þingmannanefndinni en í forföllum hans situr varaformaður fundi nefndarinnar. Öll Íslandsdeildin sækir ráðstefnu nefndarinnar sem haldin er á tveggja ára fresti. Íslandsdeildin kemur saman eftir þörfum og þá gerir formaður grein fyrir starfi þingmannanefndarinnar og nefndarmenn fá jafnframt upplýsingar um starf Norðurskautsráðsins. Íslandsdeild hélt þrjá fundi á árinu 2019.

4. Fundir þingmannanefndar um norðurskautsmál 2019.
    Þingmannanefndin hélt þrjá fundi á árinu og tók formaður Íslandsdeildar þátt í þeim öllum auk sjöttu þingmannaráðstefnu hinnar norðlægu víddar. Jafnframt sótti formaður aukafundi nefndarinnar í New York og Washington 9.–11. desember. Hér á eftir verður gerð stuttlega grein fyrir því sem fram fór á fundum þingmannanefndarinnar.

Fundur þingmannanefndar um norðurskautsmál í Múrmansk 27.–28. mars 2019.
    Af hálfu Alþingis sóttu fundinn Ari Trausti Guðmundsson, formaður, og Arna Gerður Bang, ritari. Helstu mál á dagskrá voru áhersluatriði þingmannanefndarinnar sem kynntar yrðu á ráðherrafundi Norðurskautsráðsins í maí, kynning á áherslum formennsku Íslands í Norðurskautsráðinu og skilaboð nefndarinnar til næsta formennskuríkis. Önnur mál á dagskrá voru norðurslóðastefna Rússa, þróun samgöngumála á norðurslóðum með áherslu á norðursjóleiðina og aukið samstarf Barentssvæðisins og norðurslóða. Formaður þingmannanefndarinnar, Eirik Sivertsen frá Noregi, og Igor Chernyshenko, þingmaður frá Rússlandi, stýrðu fundinum.
    Við upphaf fundarins buðu Andrey Chibis, ríkisstjóri Múrmansk, og Sergey Dubovoy, þingforseti Múrmansk-umdæmisins fundargesti velkomna og lögðu báðir áherslu á mikilvægi þess að geta hist á norðurslóðum til þess að ræða málefni svæðisins. Því næst kynnti Nikolay Korchunov, sendiherra Rússlands gagnvart norðurskautinu, norðurslóðastefnu Rússlands. Hann ræddi um mikilvægi ferðaþjónustu á norðurslóðum og sagði gott samstarf m.a. við Ísland í þeim efnum styrkjandi fyrir greinina. Áhersluatriði stjórnvalda væru að bæta lífsskilyrði frumbyggja og tryggja siglingar og sjálfbæra fiskveiðistefnu auk þess sem vísindi og rannsóknir væru í forgangi. Þá væri sjónum í auknum mæli beint að þróun og nýsköpun í efnahagsmálum, en mikill vöxtur væri í efnahagslífinu á svæðinu. Athygli vakti að sendiherrann gagnrýndi nýja varnarstefnu Bretlands á norðurslóðum (e. Arctic Defence Strategy) og það sem hann nefndi hernaðaruppbyggingu undir hatti NATO. Enn fremur minntist hann á fyrirætlun Rússa um að hlíta alþjóðalögum varðandi stjórnun hafsvæða í Norður-Íshafinu og hafsbotnsréttindi.
    Ari Trausti Guðmundsson spurði Korchunov hvort hann sæi fyrir sér notkun annarra og umhverfisvænni valkosta en jarðgass til að draga úr kolefnislosun. Korchunov sagði það vera í stöðugri skoðun og nefndi vindorku sem valmöguleika á svæðinu og samstarfsverkefni við Finnland í þeim efnum. Hann sagði notkun olíu og gass hafa farið minnkandi og hlut umhverfisvænna orkugjafa vaxið, þótt enn væri mikil eftirspurn eftir olíu og gasi sem ekki sæi fyrir endann á. Eirik Sivertsen spurði hvort nýjar fisktegundir væru komnar til Norður-Rússlands í kjölfar minnkandi hafíss á norðurslóðum og hvernig tryggja mætti hlut íbúa og frumbyggja í vaxandi mikilvægi svæðisins. Korchunov svaraði því til að minni háttar breytingar hefðu orðið á fisktegundum á svæðinu undanfarin ár og nýjar hefðu komið meðan aðrar hefðu fært sig um set.
    Elena Tikhonova, ráðherra efnahags- og þróunarmála í Múrmansk-umdæmi, kynnti samstarf á Barentssvæðinu og norðurslóðum. Ari Trausti spurði hversu mikilvægar fiskveiðar væru fyrir Múrmansk-svæðið og hvernig fyrirhugað væri að þróa starfsgreinina. Einnig spurði hann um þróun ferðaþjónustu á svæðinu. Tikhonova svaraði því til að fiskveiðar væru ein mikilvægasta starfsgreinin en umdæmið væri þó svo vel sett að vera ekki efnahagslega háð einni atvinnugrein og væru námurekstur og ferðaþjónusta jafnframt mikilvægar greinar. Varðandi ferðaþjónustu á svæðinu sagði Tikhonova möguleikana mikla og greinina hafa vaxið hratt síðustu ár. Á síðasta ári hefðu um 400.000 ferðamenn heimsótt svæðið, það væri mikil fjölgun en stærstur hluti þeirra hefði komið frá Asíu. Sjónum væri beint í auknum mæli að ferðaþjónustu og þróunin væri bæði jákvæð og hröð. Enn fremur sagði hún það alvarlega áskorun að fólk flyttist í auknum mæli burt frá svæðinu. Því væri áhersla lögð á að bæta lífskjör íbúanna og liður í því væri að niðurgreiða húshitun á svæðinu og bæta vegakerfið og innviði.
    Eirik Sivertsen ítrekaði mikilvægi samstarfs norðurskautsríkjanna þar sem sjónum væri beint að loftslagsbreytingum og mannlífsþróun á svæðinu. Hann lagði áherslu á mikilvægi alþjóðlegrar samvinnu og góðan árangur Norðurskautsráðsins í því sambandi. Sameiginleg markmið allra ríkja norðurslóða væru að viðhalda friði og stöðugleika á svæðinu og Norðurskautsráðið gegndi þar lykilhlutverki.
    Framkvæmdastjóri þingmannanefndarinnar greindi frá fyrirhugaðri þátttöku og innleggi formanns á ráðherrafundi Norðurskautsráðsins í maí 2019 í Rovaniemi. Innlegg hans byggðist á yfirlýsingu ráðstefnu þingmannanefndarinnar sem haldin var í Inari í september 2018. Hann óskaði enn fremur eftir tillögum og athugasemdum frá nefndarmönnum um áherslur erindisins.
    Því næst kynnti Ari Trausti Guðmundsson áhersluatriði formennskuáætlunar Íslands í Norðurskautsráðinu en Ísland tók við formennsku til tveggja ára af Finnum í maí 2019. Hann sagði Ísland hafa skýra sýn varðandi formennskutímabilið sem byggðist á fjórum megináhersluatriðum með sjálfbæra þróun sem meginþema. Áhersla yrði lögð á að styrkja og efla samstarf Norðurskautsráðsins innan allra þriggja stoða sjálfbærnihugtaksins, umhverfismála, efnahagsmála og félagsmála.
    Hann sagði jafnframt að meginþemu formennsku Íslands í Norðurskautsráði væru í fyrsta lagi málefni hafsins, en stærstur hluti norðurslóða er hulinn sjó og velferð stórs hluta íbúa svæðisins byggist á nýtingu auðlinda úr hafi. Lögð yrði sérstök áhersla á að styrkja samstarf aðildarríkja Norðurskautsráðsins við að draga úr plastmengun í sjó og fyrirhugað væri að halda alþjóðlega vísindaráðstefnu um efnið í Reykjavík í apríl 2020. Í öðru lagi væru loftslagsmál og grænar lausnir í orkuframleiðslu í forgrunni. Í því sambandi hygðist Ísland halda áfram með áherslur formennsku Finnlands varðandi samstarf á sviði veðurfræði. Þá yrði farið af stað með verkefni við að kortleggja jökla með stafrænni aðferð (e. digital elevation method) sem veitti okkur nákvæmari upplýsingar um hopun jökla á norðurslóðum. Í þriðja lagi væri þema um styrkingu samfélaga á norðurslóðum. Ljóst væri að á komandi áratugum yrði aðlögun að sífellt hlýnandi norðurslóðum áskorun fyrir mörg smærri samfélög á svæðinu, ekki síst frumbyggja. Í fjórða lagi væri styrking Norðurskautsráðsins og að Ísland héldi áfram að vinna að bættu og öflugra ráði. Að lokum sagði Ari Trausti að Ísland legði áherslu á að styrkja áframhaldandi gott samstarf á norðurslóðum og stuðla að stöðugleika og friði á svæðinu.
    Næsta mál á dagskrá var starfsemi þingmannanefndarinnar og málefni norðurskautsins innan einstakra aðildarríkja hennar. Aaja Chemnitz Larsen, fulltrúi Danmerkur/Grænlands í nefndinni, tók til máls og sagði frá fyrirhuguðum kosningum í Danmörku á næstunni og að hún sæti því líklega sinn síðasta fund. Hún ræddi einnig um þá afstöðu Grænlands, sem hún er ósátt við, að vilja ekki fullgilda Parísarsáttmála Sameinuðu þjóðanna. Þá greindi Eirik Sivertsen frá áherslum í norska þinginu og sagði frá gagnlegri tvíhliða heimsókn fulltrúa stórþingsins til Múrmansk fyrr í mánuðinum og lagði áherslu á mikilvægi samstarfs innan málaflokksins.
    Guðjón S. Brjánsson, varaforseti Vestnorræna ráðsins, sótti fundinn fyrir hönd ráðsins. Hann tók til máls og sagði þar m.a. frá þemaráðstefnu Vestnorræna ráðsins sem fram fór í janúarlok 2019 í Reykjavík. Þar var til umræðu staða vestnorrænu ríkjanna í breyttum heimi alþjóðastjórnmála. Jafnframt sagði Ari Trausti frá hringborðsfundi þingmanna og hugveitunnar Polar Research & Policy Initiative um ferðaþjónustu á norðurslóðum sem haldinn var á Alþingi 22. mars 2019.
    Enn fremur skrifuðu nefndarmenn undir bréf til ríkisstjórnar Íslands þar sem henni var óskað til hamingju með formennsku í Norðurskautsráðinu og upplýst var um áherslur og umræður nefndarinnar. Þá var lagt til að tekið yrði til umræðu á næsta fundi þingmannanefndarinnar uppbygging herafla á norðurslóðum. Formaður nefndarinnar sagði málefnið viðkvæmt og það ekki hafa áður verið á dagskrá nefndarinnar en áhugavert væri að skoða hvernig hægt væri að nálgast það í samræmi við markmið samstarfsins.

Fundur þingmannanefndar um norðurskautsmál í Ottawa 23.–24. maí 2019.
    Af hálfu Alþingis sóttu fundinn Ari Trausti Guðmundsson, formaður þingmannanefndar um norðurskautsmál, og Arna Gerður Bang ritari. Helstu mál á dagskrá voru niðurstöður ráðherrafundar Norðurskautsráðsins, sem haldinn var í Rovaniemi 6.–7. maí 2019, og olíumengun á hafsvæði norðurslóða. Önnur mál á dagskrá voru menntamál og líffræðileg fjölbreytni auk norðurslóðastefnu Kanada. Formaður þingmannanefndarinnar, Eirik Sivertsen frá Noregi, stýrði fundinum.
    Fyrsta mál á dagskrá var kynning Alison LeClaire, sendiherra norðurslóða í Kanada, á niðurstöðum ráðherrafundar Norðurskautsráðsins sem haldinn var í Rovaniemi 6.–7. maí 2019. Fundinn sóttu utanríkisráðherrar allra átta aðildarríkja Norðurskautsráðsins, en þau eru Bandaríkin, Kanada, Rússland og Norðurlönd. Að auki sótti fundinn forustufólk sex frumbyggjasamtaka sem eru fullir þátttakendur í starfsemi Norðurskautsráðsins og fulltrúar 39 áheyrnaraðila, en á meðal þeirra eru Kína, Frakkland, Indland, Þýskaland, Japan og Suður-Kóreu. LeClaire sagði ljóst að það sem mesta athygli og áhyggjur vekti á fundi ráðherranna væri að engin sameiginleg ályktun hefði verið gefin út eins og venja væri. Í aðdraganda fundarins höfðu stjórnvöld í Washington þrýst á um að tilvísanir í loftslagsbreytingar og Parísarsamkomulagið yrðu teknar út úr texta ályktunarinnar. Það hefði leitt til átaka um innihald hennar, því önnur ríki ráðsins hefðu verið alfarið á móti þeirri afstöðu. Þetta þótti vera enn eitt dæmið um að stjórnvöld vestanhafs væru ekki samstiga aðildarríkjum Norðurskautsráðsins og fleiri ríkjum hvað loftslagsmál varðar.
    Með ályktun ráðherrafundarins átti að leggja víðtækan pólitískan grunn að starfi Norðurskautsráðsins til tveggja ára undir formennsku Íslands. Aldrei fyrr hafði það gerst í sögu Norðurskautsráðsins frá stofnun þess árið 1996 að ekki næðist samkomulag um ályktun af þessu tagi. Í stað ályktunarinnar rituðu ráðherrarnir undir samstarfsyfirlýsingu eða tveggja blaðsíðna skjal með minna formlegt gildi en fullgild ályktun fundarins. Ráðherrayfirlýsingunni var ætlað að skapa ramma um samstarf ríkisstjórnanna sem mynda Norðurskautsráðið. Í sameiginlegu ráðherrayfirlýsingunni sem allir utanríkisráðherrarnir staðfestu með undirritun sinni var ekki minnst á loftslagsbreytingar. Þess í stað var lýst viðurkenningu á fjölbreytileika samfélaga, menningar og efnahags á norðurslóðum og áréttaður stuðningur við velferð íbúa á norðurskautssvæðinu, sjálfbæra þróun og vernd umhverfis. LeClaire sagði að óneitanlega hefði þessi niðurstaða verið vonbrigði fyrir aðildarríkin en áhersla væri þó á að halda áfram á sömu braut með sameiginleg markmið að leiðarljósi.
    Enn fremur sagði LeClaire orð Mike Pompeo, utanríkisráðherra Bandaríkjanna, um að Bandaríkjamenn létu meira til sín taka á norðurslóðum til þess að stemma stigu við „ágengri hegðun“ Kínverja og Rússa á svæðinu hafa vakið athygli og áhyggjur. Þá varaði Pompeo jafnframt við því á fundinum að norðurslóðir væru nú orðnar að vettvangi „alþjóðlegs valds og samkeppni“ vegna mikilla náttúruauðlinda sem þar væri að finna, einkum í formi olíu og jarðgass, sjaldgæfra málma og fiskistofna. Þá gagnrýndi hann tilraunir Kínverja til að seilast til áhrifa á norðurslóðum, en Kína er áheyrnarríki í Norðurskautsráðinu.
    Eirik Sivertsen, formaður nefndarinnar, greindi frá innleggi sínu á ráðherrafundinum í Rovaniemi þar sem hann áréttaði mikilvægi samstarfs norðurskautsríkjanna þar sem sjónum væri beint að loftslagsbreytingum og mannlífsþróun á svæðinu. Hann lagði enn fremur áherslu á að sameiginleg markmið allra ríkja norðurslóða væru að viðhalda stöðugleika á svæðinu og að Norðurskautsráðið gegndi þar mikilvægu hlutverki.
    Næst kynnti Tero Vauraste, varaformaður Norðurslóða-viðskiptaráðsins, starfsemi ráðsins. Hann sagði markmið Norðurslóða-viðskiptaráðsins þau að efla og viðhalda viðskiptatengslum milli norðurslóðaríkjanna átta. Það væri m.a. gert með því að standa vörð um viðskiptatengda hagsmuni á norðurslóðum, skipuleggja fundi og ráðstefnur er varða almenn málefni um viðskiptatækifæri á norðurslóðum og vinna með stjórnvöldum. Þá greindi hann frá því að í tengslum við ráðherrafundinn í Rovaniemi í maí 2019 hafi ráðið skrifað undir viljayfirlýsingu við Norðurskautsráðið um að koma skipulagi á samstarf og auðvelda samvinnu milli Norðurskautsráðsins og Noðurslóða-viðskiptaráðsins.
    Næsta mál á dagskrá var starfsemi þingmannanefndarinnar og málefni norðurskautsins innan einstakra aðildarríkja hennar. Ari Trausti Guðmundsson greindi frá því að Ísland hefði tekið formlega við formennskukeflinu af Finnum á ráðherrafundi Norðurskautsráðsins í Rovaniemi í maí 2019. Þá ræddi hann einnig nauðsyn þess að bandarískir þingmenn og fulltrúar Evrópuþingsins sæktu alla fundi SCPAR. Finna þyrfti leiðir til að tryggja það, að frumkvæði SCPAR. Eirik Sievertsen formaður tók undir það og vildi kanna leiðir til þess.
    Kári Páll Højgaard, 2. varaformaður Vestnorræna ráðsins, var fulltrúi ráðsins á fundinum. Hann ræddi starf ráðsins að undanförnu og nefndi sérstaklega að áhersla yrði lögð á vernd og vöxt tungumálanna í vestnorrænu ríkjunum á komandi starfsári. Það tengdi hann m.a. áherslu SCPAR á tungumál fólks á norðurslóðum sem m.a. var getið um í yfirlýsingu þingmannaráðstefnunnar sem samþykkt var í Inari haustið 2018. Jafnframt kynnti Oddný G. Harðardóttir, fulltrúi Norðurlandaráðs á fundinum, áherslur ráðsins í norðurslóðamálum. Hún sagði ráðið m.a. leggja áherslu á bann við notkun svartolíu (HFO) sem geti haft alvarlegar afleiðingar á viðkvæmt lífríki hafsvæða norðurslóða og líffræðilegan fjölbreytileika. Þá sagði hún fulltrúa Norðurlandaráðs harma það að ekki hefði náðst að komast að samkomulagi um sameiginlega ályktun á ráðherrafundi Norðurskautsráðsins. Nauðsynlegt væri að norðurskautsríkin stæðu saman og töluðu einni röddu um mikilvæg málefni norðurslóða og það væri von Norðurlandaráðs að þetta tilvik endurtæki sig ekki.

Fundur þingmannanefndar um norðurskautsmál í Bodø 18. nóvember 2019.
    Fundur þingmannanefndar um norðurslóðamál (SCPAR) fór fram 18. nóvember. Af hálfu Alþingis sóttu fundinn Ari Trausti Guðmundsson, formaður, og Arna Gerður Bang, ritari. Helstu mál á dagskrá voru málefni Norðurskautsráðsins og áherslur næstu þingmannaráðstefnu um norðurskautsmál sem haldin verður í Tromsø 2020.
    Fyrsta mál á dagskrá var kynning Bård Ivar Svendsen, sendiherra Noregs gagnvart norðurslóðum, á vinnu Norðurskautsráðsins. Svendsen áréttaði vonbrigði aðildarríkja ráðsins eftir síðasta ráðherrafund sem haldinn var í Rovaniemi í maí 2019 þar sem ekki var gefin út sameiginleg ályktun eins og venja er. Bandarísk stjórnvöld höfðu þrýst á um að tilvísanir um Parísarsamkomulagið og loftslagsbreytingar yrðu teknar úr texta ályktunarinnar og því hafi önnur aðildarríki verið alfarið á móti. Þá sagði hann málefni áheyrnaraðila Norðurskautsráðsins mikið til umræðu, ekki síst í ljósi aukins áhuga og áforma Kína á svæðinu. Enn fremur lýsti hann yfir ánægju með formennskuáætlun Íslands og áherslu á hafið og íbúa svæðisins sem hann sagði samræmast áherslum Noregs á svæðinu.
    Ari Trausti Guðmundsson tók þátt í umræðum fundarins og sagði mikilvægt að ræða öryggismál á norðurslóðum svo mögulegt væri að viðhalda friðsæld á svæðinu. Hann spurði hvort Svendsen teldi að öryggismál yrðu sett á dagskrá ráðsins á næstunni í ljósi aukins áhuga og samkeppni um auðlindir. Svendsen sagði ljóst að öryggismál væru að verða fyrirferðarmeiri í umræðu um svæðið en enn væri ekki ljóst með hvaða hætti þau yrðu rædd innan ráðsins. Sum aðildarríkjanna ættu nú þegar gott tvíhliða samstarf sín á milli þar sem öryggismál væru til umræðu, t.d. Noregur og Rússland. Þá sagði hann að horft yrði til kosninganna í Bandaríkjunum varðandi vinnu Norðurskautsráðsins og áherslur þess á loftslagsbreytingar. Ari Trausti Guðmundsson minnti á þessum fundi aftur á nauðsyn þess að bandarískir þingmenn og fulltrúar Evrópuþingsins sæktu alla fundi SCPAR. Finna þyrfti leiðir til að tryggja það, að frumkvæði SCPAR.
    Þá fór fram umræða um hugsanleg þemu fyrir næstu ráðstefnu þingmannanefndarinnar sem verður haldin í Tromsø í byrjun september 2020. Ari Trausti Guðmundsson kynnti þau umræðuefni sem Íslandsdeild leggur áherslu á og snúa í fyrsta lagi að stafrænni þróun á norðurslóðum, í öðru lagi að rannsókn á sífrera og í þriðja lagi að fræðsluverkefni frumbyggja á norðurslóðum. Norska þingkonan Margunn Ebbesen lagði til að málefni ungs fólks á norðurslóðum yrði til umræðu og tók fulltrúi Grænlands, Aaja Larsen, undir þá tillögu. Tekin verður ákvörðun um val á umræðuefnum á næsta fundi þingmannanefndarinnar. Guðjón S. Brjánsson, formaður Vestnorræna ráðsins, var fulltrúi ráðsins á ráðstefnunni. Hann ræddi um ársfund ráðsins sem haldinn var í Nuuk í október 2019 og þemaráðstefnu þess sem halda skyldi í Færeyjum í lok janúar 2020. Á þemaráðstefnunni yrði sjónum beint að tungumálum íbúa vestnorrænu landanna og hvernig hægt væri að styrkja þau í sessi, sér í lagi út frá stafrænni þróun á breiðum grunni. Jafnframt kynnti Oddný G. Harðardóttir áherslur Norðurlandaráðs í Norðurslóðamálum.
    
Þingmannaráðstefna hinnar norðlægu víddar í Bodø 18.–20. nóvember 2019.
    Sjötta þingmannaráðstefna hinnar norðlægu víddar og fundur þingmannanefndar um norðurslóðamál voru haldin í Bodø 18.–20. nóvember. Norðlæga víddin er samstarfsvettvangur Evrópusambandsins, Íslands, Noregs og Rússlands um þróun mála í norðanverðri Evrópu. Vettvangurinn var settur á fót árið 1999 og umræðuvettvangur þingmanna svæðisins árið 2009. Þingmannaráðstefnan er haldin til skiptis annað hvert ár af þjóðþingum aðildarríkjanna þriggja og Evrópuþinginu. Af hálfu Alþingis sóttu ráðstefnuna Ari Trausti Guðmundsson, formaður Íslandsdeildar þingmannanefndar um norðurskautsmál, Silja Dögg Gunnarsdóttir, formaður Íslandsdeildar Norðurlandaráðs og Guðjón S. Brjánsson, formaður Íslandsdeildar Vestnorræna ráðsins, auk Örnu Gerðar Bang, ritara.
    Málefnasamstarf hinnar norðlægu víddar fer fram í fjórum stofnunum; samstarfsvettvangi á sviði umhverfismála, á sviði samgangna og flutninga, á sviði lýðheilsu og velferðarmála og á sviði menningar. Verkefni málefnasamvinnunnar eru fjármögnuð úr sameiginlegum sjóðum á vegum aðildarlandanna auk lána frá alþjóðlegum fjármálastofnunum. Stórir áfangar hafa náðst á samstarfsvettvangi um umhverfismál í tveimur stórum verkefnum. Annað verkefnið sneri að hreinsun frárennslisvatns frá rússneskum borgum í Eystrasaltið og hitt að flutningi kjarnorkuúrgangs frá Barentshafi til vinnslustöðva. Á samstarfsvettvangi um samgöngur og flutninga er unnið að smærri og afmarkaðri verkefnum varðandi samgöngur, aðallega byggingu hafna og vega. Á vettvangi lýðheilsu og velferðarmála er t.d. unnið að verkefnum varðandi áfengisneyslu, sýklalyfjaónæmi og heilsu fanga. Á vettvangi menningar er áhersla á að styðja við skapandi greinar og þá sérstaklega í dreifbýli.
    Meginþemu ráðstefnunnar voru alþjóðlegt samstarf í samgöngumálum og öryggi á sjó á norðurslóðum, samstarf í umhverfismálum innan hinnar norðlægu víddar og sjálfbær ferðaþjónusta og menningarlegt frumkvöðlastarf. Jafnframt fór fram umræða um bætta heilsu og samfélagslega velferð á svæði norðlægu víddarinnar og framtíðarsýn og þróun stefnu norðlægu víddarinnar.
    Í opnunarræðu sinni ræddi Tone Wilhelmsen Trøen, þingforseti Noregs, um loftslagsbreytingar og alvarleg áhrif þeirra á norðurslóðir. Hún benti á að norðurskautið væri viðkvæmt svæði sem nauðsynlegt væri að standa vörð um og sagði samstarf um hina norðlægu vídd vera mikilvægan þátt á þeirri vegferð. Ýmsir ávörpuðu ráðstefnuna, þar á meðal Ida Pinnerød, bæjarstjóri Bodø, Paavo Lipponen, fyrrverandi forsætisráðherra Finnlands, og Eirik Sivertsen, formaður þingmannanefndar um norðurslóðamál. Í máli sínu lagði Sivertsen áherslu á sameiginlega ábyrgð landanna á öryggi, þróun og verndun norðurslóða. Á tuttugu ára afmæli hinnar norðlægu víddar hefði kjarninn í samvinnunni verið áhersla á nærumhverfi fólks og hagnýta og uppbyggilega samvinnu. Þingmannaráðstefnan væri mikilvægur þáttur samstarfsins og þær miklu áskoranir sem svæðið stæði frammi fyrir undirstrikuðu þörfina á áframhaldandi samvinnu.
    Rætt var um alþjóðlegt samstarf í samgöngumálum og öryggi á sjó á norðurslóðum. Silja Dögg Gunnarsdóttir stýrði umræðunum þar sem m.a. var rætt um aukið samstarf við að þróa samgönguáætlun fyrir svæðið. Einnig var áhersla lögð á að styrkja samstarf yfir landamæri til að efla viðskiptaþróun og verslun á svæðinu. Þá tók Silja Dögg þátt í umræðum um samstarf í umhverfismálum og spurði formann umhverfisnefndar norska þingsins, Ketil Kjenseth, hver staðan væri á verkefnum um fljótandi vindmyllur í Noregi. Hann sagði enn ekki vera næga reynslu komna á notkun fljótandi vindmylla en hann teldi ljóst að tæknin væri samkeppnishæf. Fljótandi vindorkugarðar væru frábrugðnir hefðbundnum vindorkugörðum í hafi að því leyti að vindmyllurnar stæðu ekki á botni, heldur flytu þær á yfirborðinu, væru tengdar saman með rafmagnsköplum og þeim haldið stöðugum með akkerum. Tæknin nýttist þar af leiðandi á mun dýpri hafsvæðum en ella.
    Enn fremur tók Ari Trausti Guðmundsson þátt í pallborðsumræðum um þróun stefnu norðlægu víddarinnar. Hann sagði friðsamlegt samstarf og samtal um öryggismál á norðurslóðum á breiðum grunni nauðsynlegt og vettvang norðlægu víddarinnar mikilvægan umræðugrundvöll en þó ætti að halda hernaðarmálum utan vettvangsins og ræða þau mál annars staðar. Mikilvægt væri að norðurslóðir yrðu áfram svæði án vaxandi spennu milli ríkja.
    Ari Trausti Guðmundsson var fulltrúi sendinefndar Alþingis í undirbúningsnefnd við gerð ráðstefnuyfirlýsingarinnar. Hann lagði m.a. áherslu á aukið átak varðandi kolefnisjöfnun með skógrækt og verndun jarðvegs. Einnig benti hann á nauðsyn þess að styrkja samstarf varðandi stafræn samskipti og upplýsingamiðlun innan norðlægu víddarinnar. Á fundinum kom fram skýr tenging loftslagsmála við starfsemi fyrirtækja á norðurslóðum og var tekið undir töluleg markmið Parísarsamkomulagsins. Í lok ráðstefnunnar var yfirlýsing fundarins samþykkt einróma.

Aukafundir þingmannanefndar um norðurskautsmál í New York og Washington 9.–11. desember 2019.
    Aukafundir þingmannanefndar um norðurslóðamál (SCPAR) fóru fram 9.–11. desember í New York og Washington. Af hálfu Alþingis sótti fundina Ari Trausti Guðmundsson. Auk Ara Trausta sóttu fundina fyrir hönd þingmannanefndarinnar norski þingmaðurinn Eirik Sivertsen, formaður SCPAR, og finnski þingmaðurinn Miko Kärnä. Tilgangur fundanna var að efla tengsl þingmannanefndarinnar við stofnanir Sameinuðu þjóðanna, bandaríska þingið og opinberar stofnanir. Fundirnir voru skipulagðir í samvinnu við sendiráð og fastanefndir Íslands, Finnlands og Noregs gagnvart Sameinuðu þjóðunum.
    Fulltrúar SCPAR áttu fund með Satya Tripathi, varaframkvæmdastjóra SÞ og forstjóra Umhverfisstofnunar SÞ (UNEP) í New York. Á fundinum fór fram umræða um SCPAR og snertifleti við UNEP og norðurslóðir. Tripathi greindi frá sýn stofnunarinnar á norðurslóðir og benti á allmörg atriði þar sem leiðir liggja saman, m.a. varðandi verndun lífræðilegrar fjölbreytni og stuðning við einkageirann um mikilvæg umhverfisverkefni. Hann mælti m.a. með því að norrænu þjóðirnar skoðuðu hugmynd að „grænum bönkum“ og því hvernig koma megi á grænum flugskatti á heimsvísu.
    Ulrika Modéer, yfirmaður tengsla hjá Þróunarsamvinnustofnun SÞ (UNDP), fór yfir möguleg svið samvinnu milli stofnunarinnar og SCPAR. Hún sagði engar sérstakar norðurslóðaáherslur vera í starfi UNDP en snertifletir væru þó augljósir. Nefndi t.d. andófið gegn sótlosun á norðurslóðum, loftslagsbreytingar og öryggismál og mikilvægi svokallaðs blás hagkerfis á heimsvísu. Ari Trausti Guðmundsson útskýrði m.a. áherslur SCPAR á fræðslukerfi þar sem frumbyggjar fræða aðra í heimsbyggðinni og stafrænt samskiptanet á norðurslóðum sem UNEP gæti jafnvel stýrt uppbyggingu á og samhæfingu.
    Jafnframt áttu fulltrúar frá rammasamningi Sameinuðu þjóðanna um loftslagsbreytingar (UNFCCC) og Hafréttarsáttmála Sameinuðu þjóðanna (UNCLOS) fund með fulltrúum SCPAR ásamt Gabriele Goettsche-Wanli, forstjóra DOALAS, lagaskrifstofu varðandi málefni hafsins og hafréttarmál. Hinn 9. desember áttu þingmennirnir jafnframt fund með fulltrúum átta náttúruverndar- og almannasamtaka. Í framhaldinu var haldinn umræðufundur hjá finnsku fastanefndinni gagnvart Sameinuðu þjóðunum, með framsögum og umræðum. Ari Trausti Guðmundsson ræddi um áhrif loftslagsbreytinga á efnahagslíf á norðurslóðum og nefndi máli sínu til stuðnings dæmi frá Íslandi.
    Í Washington DC áttu fulltrúar SCPAR fund í Center for Strategic and International Studies þar sem m.a. var rætt um öryggismál á breiðum grunni, fiskveiðar á norðurslóðum, líffræðilega fjölbreytni, samkeppni stórvelda á norðurslóðum og afstöðu Bandaríkjanna. Heather A. Conley, sérfræðingur hjá stofnuninni, greindi frá vinnu við verkefnið Global Ocean Security and Conservancy Program. Þá var einnig rætt um mikilvægi áframhaldandi samtals á norðurslóðum um m.a. öryggismál. Jafnframt var lögð áhersla á að viðhalda vísindasamstarfi og að viðhalda lágri spennu á svæðinu.
    Enn fremur hittu norrænu þingmennirnir bandarísku þingmennina Rick Larsen og Don Young og ræddu við þá um þátttöku bandarískra þingmanna á þingmannaráðstefnu norðurslóða og formannaráðstefnu CPAR. Ari Trausti Guðmundsson greindi frá mikilvægi þess að tryggja þátttöku bandarískra þingmanna á viðburðum þingmannanefndarinnar og að ákjósanlegast væri að föst alþjóðanefnd væri um norðurslóðamál í bandaríska þinginu. Tekið var vel í að bregðast við boðum frá SCPAR á fundi nefndarinnar, en þó sérstaklega ráðstefnu CPAR sem er haldin er annað hvert ár. Rick Larsen teldi þó erfitt að setja á stofn alþjóðanefnd um málefni norðurslóða og lagði frekar til að unnið yrði að því að virkja þingmenn t.d. í umhverfismálum, efnahagsmálum og öryggismálum. Einnig var fundað með öldungadeildarþingkonunni Lisu Murkowski og þingmönnunum Joe Manchin, Steve King og Sheldon Whitehouse. Rætt var m.a. um nýtt Arctic Security Study Center í Bandaríkjunum, orkuskipti á sjó, nýtt alþjóðlegt ár heimskautasvæðanna ( Polar Year) og Arctic Business Index sem Norðurskautsefnahagsráðið ( Arctic Economic Council) vinnur að um þessar mundir.
    Þá var haldinn fundur í Arctic Institute með Victoria Herrmann, forstjóra stofnunarinnar. Varnar- og öryggismál voru rædd í víðum skilningi, grænn banki í Alaska, fjárfestingar og umsvif Kína og nauðsyn almenns stafræns nets á norðurslóðum.
    Að lokum voru fundir í Wilson Center Polar Institute, þar sem lögð var áhersla á samstarf við norrænu löndin um eflingu Norðurskautsráðsins í ljósi yfirlýsingar Mike Pompeo, utanríkisráðherra Bandaríkjanna, á ráðherrafundi ráðsins í Rovaniemi árið 2019. Helstu mál á fundinum voru:
     1.      Umræðuvettvangur fyrir varnar- og öryggismál á norðurslóðum, í breiðum skilningi og utan Norðurskautsráðsins og að CPAR gæti verið ráðstefna þar sem fræðimenn frá mörgum löndum kynna niðurstöður sínar og túlkanir fyrir ráðherrum eða fulltrúum ríkisstjórna, stjórnmálamönnum og öðrum fræðimönnum. Slíka ráðstefnu mætti endurtaka og jafnvel flytja úr stað með breyttu sniði á ákveðnu tímabili.
     2.      Nýtt alþjóðlegt ár heimskautasvæðanna gæti orðið að veruleika í gegnum Alþjóðavísindanefnd norðurslóða (IASC) með tilstilli annarra vísindanefnda og stofnana.
     3.      Nauðsyn þess að setja fram áætlun um vísindarannsóknir vegna mögulegra fiskveiða í hánorðri. Undir það var tekið enda eitt af verkefnunum er hljóta að fylgja fiskveiðisamningi Norðurskautsráðsins sem er í gildi.

Alþingi, 3. febrúar 2020.

Ari Trausti Guðmundsson,
form.
Líneik Anna Sævarsdóttir,
varaform.
Björn Leví Gunnarsson.