Ferill 679. máls. Aðrar útgáfur af skjalinu: PDF - Word Perfect.


150. löggjafarþing 2019–2020.
Þingskjal 1239  —  679. mál.




Svar


dómsmálaráðherra við fyrirspurn frá Albertínu Friðbjörgu Elíasdóttur um aðgerðaáætlun byggðaáætlunar.


     1.      Hefur ráðuneytið skilgreint hvaða störf sé hægt að vinna utan ráðuneytisins í samræmi við aðgerðaáætlun byggðaáætlunar? Ef já, hver eru þau störf?
    Ráðuneytið hefur skilgreint störf sem við auglýsingu væri mögulegt að skilgreina án staðsetningar. Störfin eru ýmis sérfræðistörf sem nú þegar er sinnt í ráðuneytinu og metið er að mögulegt væri að vinna að fullu eða að hluta án staðsetningar. Þá er unnið að greiningu á störfum undirstofnana en henni er ekki lokið.

     2.      Hve mörg störf er nú þegar búið að ráða í utan höfuðborgarsvæðisins í samræmi við aðgerðaáætlun byggðaáætlunar?
    Dómsmálaráðuneytið hefur ekki ráðið í stöðugildi utan höfuðborgarsvæðisins. Ráðuneytið hefur horft yfir málefnasvið ráðherra og þar hafa verkefni verið flutt út á land. Þau störf hafa ekki verið auglýst án staðsetningar en hafa verið unnin í embættum á landsbyggðinni.

     3.      Hefur ráðuneytið mótað sér áætlun til að uppfylla kröfu byggðaáætlunar um að 5% auglýstra starfa skuli vera án staðsetningar fyrir árslok 2021 og 10% fyrir árslok 2024?
    Ráðuneytið hefur ekki mótað sér áætlun til að uppfylla kröfu byggðaáætlunar um hlutfall auglýstra starfa sem skuli vera án staðsetningar. Ekki er ljóst hve mikil starfsmannavelta verður á árunum 2021–2024 eða hvort einhver aukning verður á starfsliði ráðuneytisins og því ekki hægt að gera sér grein fyrir því hvaða fjölda auglýstra starfa þurfi til svo að markmiðið verði uppfyllt. Þau störf sem auglýst verða á árunum 2021–2024 verða greind og auglýst án staðsetningar ef þau henta úrræðinu. Þá mun greining á störfum undirstofnana hjálpa til við að átta sig á umfangi starfa án staðsetningar í undirstofnunum dómsmálaráðuneytisins. Þegar þeirri greiningu lýkur mun ráðuneytið móta áætlun fyrir málefnasvið ráðherra til þess að uppfylla kröfur byggðaáætlunar.