Ferill 650. máls. Aðrar útgáfur af skjalinu: PDF - Word Perfect.


150. löggjafarþing 2019–2020.
Þingskjal 1247  —  650. mál.




Svar


dómsmálaráðherra við fyrirspurn frá Helga Hrafni Gunnarssyni um reynslulausn fanga.

    Við vinnslu fyrirspurnarinnar var óskað eftir upplýsingum frá Fangelsismálastofnun ríkisins og eru eftirfarandi svör unnin í samráði við stofnunina.

     1.      Hversu margir fangar hafa fengið reynslulausn á grundvelli 3. mgr. 80. gr. laga um fullnustu refsinga, nr. 15/2016, frá setningu laganna?
    Alls hefur 58 föngum verið veitt reynslulausn eftir helming refsitímans, sbr. 3. mgr. 80. gr., síðan núgildandi lög tóku gildi. Þar af eru 47 erlendir ríkisborgarar og 11 Íslendingar.

     2.      Eru reglur eða viðmið í gildi við ákvörðun um reynslulausn á grundvelli þessa ákvæðis? Ef svo er ekki, stendur til að setja reglur eða viðmið?
    Samkvæmt 1. málsl. 3. mgr. 80. gr. laga um fullnustu refsinga, nr. 15/2016, er heimilt að veita fanga lausn til reynslu þegar helmingur refsitímans er liðinn, þrátt fyrir að hann afpláni refsingu fyrir alvarlegt eða að öðru leyti gróft afbrot, ef mjög sérstakar persónulegar ástæður mæla með því og framkoma og hegðun fanga í refsivistinni hefur verið með ágætum. Hér þarf að meta hvert mál sjálfstætt og því erfiðleikum bundið að setja reglu eða viðmið sem gildir um alla. Undir þessa undantekningarreglu hafa þó fallið ákveðin tilvik eins og alvarleg veikindi fanga.
    Samkvæmt 2. málsl. 3. mgr. 80. gr. laganna gildir það sama liggi fyrir ákvörðun Útlendingastofnunar um að fanga verði vísað úr landi að afplánun lokinni og frá gildistöku laganna hefur 47 erlendum ríkisborgurum verið veitt reynslulausn á þessum grundvelli.
    Þá segir í 3. málsl. 3. mgr. 80. gr. laganna að hafi fangi tvívegis eða oftar afplánað fangelsisrefsingu þá verði honum ekki veitt reynslulausn samkvæmt þeirri málsgrein nema sérstakar ástæður mæli með. Hér hefur Fangelsismálastofnun ríkisins sett þá viðmiðunarreglu að ef þrjú ár eða lengra er frá síðustu afplánun og hegðun fanga hefur verið með ágætum geti hann fengið reynslulausn eftir helming refsitímans, þ.e. svo framarlega sem önnur skilyrði fyrir reynslulausn eru uppfyllt. Að öðru leyti er hvert mál skoðað sjálfstætt og metið hvort ástæður séu svo sérstakar að þær leiði til þess að vikið verði frá þeirri meginreglu að slíkum dómþolum sé synjað um reynslulausn að liðnum helmingi refsitímans.

     3.      Telur ráðherra að slíkar reglur eða viðmið, ef til eru, megi vera skýrari og aðgengilegri fyrir aðstandendur fanga?
    Mikilvægt er að þeir sem hafa hagsmuna að gæta af úrlausn slíkra mála geti áttað sig betur á réttarstöðu sinni og beitingu reglnanna. Ráðuneytið mun því taka þetta til skoðunar.