Ferill 811. máls. Aðrar útgáfur af skjalinu: PDF - Microsoft Word.


150. löggjafarþing 2019–2020.
Þingskjal 1424  —  811. mál.
Stjórnarfrumvarp.



Frumvarp til laga


um stuðning úr ríkissjóði vegna greiðslu hluta launakostnaðar á uppsagnarfresti.

Frá fjármála- og efnahagsráðherra.



1. gr.

Gildissvið.

    Lög þessi gilda um þá sem stunda atvinnurekstur, hófu starfsemi fyrir 1. desember 2019 og bera ótakmarkaða skattskyldu hér á landi skv. 1. eða 2. gr. laga um tekjuskatt, nr. 90/2003. Lögin gilda ekki um stofnanir, byggðasamlög og fyrirtæki í eigu ríkis eða sveitarfélaga.
    Lögin gilda um fjárstuðning til þeirra atvinnurekenda sem hafa sagt launamönnum upp störfum vegna verulegrar fjárhagslegrar röskunar á atvinnurekstri sínum og orsakir þess verða raktar beint eða óbeint til ráðstafana sem gripið hefur verið til eða aðstæðna sem að öðru leyti hafa skapast vegna faraldurs kórónuveiru sem hófst hér á landi í febrúar 2020.

2. gr.

Markmið.

    Markmið laga þessara er að tryggja réttindi launafólks og tryggja þeim atvinnurekendum stuðning sem horfa fram á umfangsmikið tekjutap vegna faraldurs kórónuveiru og aðgerða sem honum tengjast.

3. gr.

Orðskýringar.

    Í lögum þessum er merking eftirfarandi hugtaka sem hér segir:
     1.      Atvinnurekstur: Starfsemi sem rekin er í hagnaðarskyni og þar sem laun eru greidd skv. 1. tölul. 5. gr. laga um staðgreiðslu opinberra gjalda, nr. 45/1987, og er skráð á launagreiðendaskrá, svo og á virðisaukaskattsskrá þegar það á við.
     2.      Atvinnurekandi: Einstaklingur eða lögaðili sem vegna atvinnureksturs síns greiðir starfsmönnum sínum laun á uppsagnarfresti í samræmi við ákvæði kjara- eða ráðningarsamnings.
     3.      Launamaður: Hver sá sem vinnur launað starf í annarra þjónustu samkvæmt ráðningarsamningi.
     4.      Launakostnaður: Til launakostnaðar teljast hvers konar laun og aðrar þóknanir skv. 1. tölul. 5. gr. laga um staðgreiðslu opinberra gjalda, nr. 45/1987, ásamt iðgjaldi í lífeyrissjóð, að hámarki 11,5% af iðgjaldsstofni skv. 3. gr. laga um skyldutryggingu lífeyrisréttinda og starfsemi lífeyrissjóða, nr. 129/1997, og allt að 2% af iðgjaldsstofni samkvæmt gildandi samningi um viðbótartryggingavernd, sbr. 2. og 9. gr. sömu laga.
     5.      Tekjur: Skattskyldar tekjur skv. B-lið 7. gr. laga um tekjuskatt, nr. 90/2003, að frátöldum hagnaði af sölu rekstrareigna.
     6.      Uppsagnardagur: Sá dagur sem uppsögn launamanns kemur til framkvæmda.

4. gr.

Skilyrði.

    Atvinnurekandi sem uppfyllir öll eftirtalin skilyrði getur óskað eftir stuðningi úr ríkissjóði vegna greiðslu launakostnaðar á uppsagnarfresti, sbr. 5. gr.:
     1.      Hann sagði viðkomandi launamönnum, sem ráðnir höfðu verið fyrir 1. maí 2020, upp störfum vegna aðstæðna sem sköpuðust vegna faraldurs kórónuveiru.
     2.      Meðaltal mánaðartekna hans frá 1. mars 2020 og til uppsagnardags hefur dregist saman um a.m.k. 75% í samanburði við eitt af eftirtöldu:
                  a.      meðaltal mánaðartekna sama tímabils árið áður,
                  b.      meðaltal mánaðartekna júní, júlí og ágúst árið áður,
                  c.      meðaltal mánaðartekna á tímabilinu frá 1. desember 2019 til 29. febrúar 2020, eða
                  d.      meðaltal mánaðartekna á tímabilinu 1. mars 2019 til 29. febrúar 2020.
     3.      Hann hefur eftir 15. mars 2020 ekki ákvarðað úthlutun arðs, lækkað hlutafé með greiðslu til hluthafa, keypt eigin hluti, innt af hendi aðra greiðslu til eiganda á grundvelli eignaraðildar hans, greitt óumsaminn kaupauka, greitt af víkjandi láni fyrir gjalddaga eða veitt eiganda eða aðila nákomnum eiganda lán eða annað fjárframlag sem ekki varðar öflun, tryggingu eða viðhald rekstrartekna. Jafnframt skuldbindur hann sig til að gera enga framangreinda ráðstöfun fyrr en fjárstuðningurinn hefur að fullu verið tekjufærður skv. 8. gr. eða endurgreiddur skv. 9. gr.
     4.      Hann er ekki í vanskilum með opinber gjöld, skatta og skattsektir sem komnar voru á eindaga 31. desember 2019 og álagðir skattar og gjöld byggjast ekki á áætlunum. Hann hefur staðið skil á skattframtölum og fylgigögnum þess, þ.m.t. skýrslu um eignarhald á CFC-félagi, sbr. 10. gr. reglugerðar um skattlagningu vegna eignarhalds í lögaðilum á lágskattasvæðum, nr. 1102/2013, og öðrum skýrslum og skilagreinum, svo sem staðgreiðsluskilagreinum og virðisaukaskattsskýrslum, til Skattsins síðastliðin þrjú ár áður en umsókn barst eða síðan hann hóf starfsemi ef það var síðar. Að auki skal hann, eftir því sem við á og á sama tímabili, hafa staðið skil á ársreikningum, sbr. lög um ársreikninga, nr. 3/2006, og upplýst um raunverulega eigendur, sbr. lög um skráningu raunverulegra eigenda, nr. 82/2019.
     5.      Hann hefur ekki verið tekinn til slita eða bú hans til gjaldþrotaskipta.

5. gr.

Afmörkun stuðnings.

    Fjárhæð stuðnings er ákveðin sem hér segir:
     1.      Stuðningurinn nemur að hámarki 85% af launakostnaði launamanns á uppsagnarfresti, miðað við ráðningarkjör hans 1. maí 2020, þó að hámarki 633.000 kr. á mánuði vegna launa og að hámarki 85.455 kr. á mánuði vegna lífeyrissjóðsiðgjaldshluta atvinnurekanda, fyrir fullt starf og hlutfallslega fyrir hlutastarf.
     2.      Stuðningurinn nær til þeirra uppsagna sem hafa uppsagnardag frá og með 1. maí 2020 og til og með 1. október 2020. Hafi atvinnurekandi sagt upp launamanni með uppsagnardag fyrir 1. maí, en uppfyllir að öðru leyti skilyrði laganna, getur atvinnurekandi sótt um stuðning vegna launa á uppsagnarfresti sem koma til greiðslu vegna vinnu í maí og júní 2020. Hámarkstímabil stuðnings vegna hvers launamanns er þrír mánuðir en þó aldrei lengra en samnings- eða lögbundinn uppsagnarfrestur kveður á um.
     3.      Vegna orlofslauna sem launamaður kann að eiga rétt á greiðist að auki sérstakur stuðningur að hámarki 85% orlofslauna, þó að hámarki 1.014.000 kr. fyrir fullt starf og hlutfallslega fyrir launamann í hlutastarfi.

6. gr.

Umsókn.

    Umsókn um stuðning skal skila mánaðarlega til Skattsins fyrir næstliðið launatímabil og eigi síðar en 20. hvers mánaðar. Umsókn skal vera rafræn en að öðru leyti á því formi sem Skatturinn ákveður.
    Atvinnurekandi skal staðfesta við umsókn að hann uppfylli skilyrði 4. gr., að upplýsingar sem hann skilar og liggja til grundvallar ákvörðun fjárhæðar skv. 5. gr. séu réttar og að honum sé kunnugt um að það geti varðað álagi, sektum eða fangelsi að veita rangar eða ófullnægjandi upplýsingar.

7. gr.

Ákvörðun og greiðsla.

    Skatturinn ákvarðar fjárhæð stuðnings samkvæmt lögum þessum. Stuðningsfjárhæð skal ákvarða sérstaklega fyrir hvern mánuð eða hluta úr mánuði uppsagnarfrests, í samræmi við ákvæði 5. gr. Skilyrði ákvörðunar er að atvinnurekandi hafi staðið fullnægjandi skil á staðgreiðslu skatts af launum viðkomandi mánaðar. Að því skilyrði uppfylltu skal Skatturinn ákvarða stuðningsfjárhæð innan 30 daga frá því að honum barst umsókn skv. 6. gr. og fullnægjandi gögn til að afgreiða hana, þ.m.t. staðgreiðsluskilagrein vegna undanfarandi mánaðar.
    Stuðningsfjárhæð skal greidd úr ríkissjóði innan þriggja virkra daga frá því hún var ákvörðuð.
    Við afgreiðslu umsóknar og endurskoðun ákvörðunar um umsókn getur Skatturinn farið fram á að atvinnurekandi sýni með rökstuðningi og gögnum fram á rétt sinn til stuðnings samkvæmt lögum þessum.
    Skatturinn skal endurákvarða stuðningsfjárhæð komi í ljós að atvinnurekandi hafi ekki átt rétt á stuðningnum eða hafi átt rétt á hærri eða lægri fjárhæð en hann fékk greidda.
    Að því leyti sem ekki er á annan veg kveðið á um í lögum þessum gilda ákvæði 94.–97. gr. laga um tekjuskatt, nr. 90/2003, eftir því sem við getur átt um afgreiðslu umsókna og endurákvarðanir stuðnings.
    Stjórnvaldsákvarðanir Skattsins samkvæmt lögum þessum eru endanlegar á stjórnsýslustigi.

8. gr.

Tekjufærsla.

    Atvinnurekandi skal færa stuðningsfjárhæð til tekna í skattskilum sínum, fyrir það rekstrarár þegar hann fékk stuðninginn greiddan, þar til tap þess árs og yfirfæranlegt tap frá fyrri árum hefur að fullu verið jafnað. Fjárstuðningur umfram þá tapsjöfnun skal færður í sérgreindan bundinn sjóð meðal eigin fjár. Sjóðurinn skal leystur upp með tekjufærslu á næstu sex rekstrarárum þar á eftir, 10% á ári fyrstu tvö árin og 20% á ári næstu fjögur ár þar á eftir.

9. gr.

Endurgreiðsla.

    Atvinnurekandi getur leyst sig undan skuldbindingu skv. 3. tölul. 4. gr. með endurgreiðslu óuppleysts sjóðs skv. 8. gr., ásamt verðbótum og vöxtum. Verðbætur og vextir reiknast á endurgreiðslufjárhæðina frá þeim tíma sem atvinnurekandinn fékk fjárstuðning greiddan úr ríkissjóði og til endurgreiðsludags. Verðbætur reiknast miðað við breytingar á vísitölu neysluverðs, sbr. 1. mgr. 14. gr. laga um vexti og verðtryggingu, nr. 38/2001. Vextir reiknast jafnháir vöxtum sem Seðlabanki Íslands ákveður og birtir með hliðsjón af lægstu vöxtum á nýjum almennum verðtryggðum útlánum hjá lánastofnunum, sbr. 2. málsl. 4. gr. sömu laga.

10. gr.

Breyttar aðstæður launamanns.

    Komi til þess að launamaður taki við öðru launuðu starfi eða hefji sjálfstæðan rekstur, sem leiði til þess að atvinnurekandi felli niður launagreiðslur áður en uppsagnarfresti hans lýkur, fellur niður réttur atvinnurekanda til stuðnings vegna viðkomandi launamanns.

11. gr.

Réttindi launamanns.

    Hafi atvinnurekandi þegið stuðning samkvæmt lögum þessum ber honum að upplýsa þá launamenn, sem hann fékk greiddan stuðning vegna, um áform sín um að ráða að nýju í sambærilegt starf og gera þeim starfstilboð. Skyldan fellur niður að 12 mánuðum liðnum frá uppsagnardegi en í síðasta lagi 30. júní 2021. Viðkomandi launamaður skal eiga forgangsrétt að starfinu og skal svara tilboði um starf innan tíu virkra daga frá því honum barst tilboðið.
    Komi til ráðningar að nýju skal launamaður halda þeim réttindum sem hann hafði unnið sér inn þegar til uppsagnar kom í samræmi við ákvæði kjarasamninga.

12. gr.

Ofgreiðsla.

    Hafi atvinnurekandi fengið stuðning umfram það sem hann átti rétt á ber honum að endurgreiða þá fjárhæð sem ofgreidd var með vöxtum skv. 4. gr. laga um vexti og verðtryggingu, nr. 38/2001, frá greiðsludegi. Endurgreiðslukrafa ber dráttarvexti frá endurákvörðunardegi Skattsins ef hún er ekki greidd innan mánaðar frá þeim degi.
    Hafi atvinnurekandi veitt rangar eða ófullnægjandi upplýsingar eða upplýsingagjöf hans hefur verið svo áfátt að áhrif hafi haft við ákvörðun um stuðning skal Skatturinn gera honum að greiða 50% álag á kröfu um endurgreiðslu. Fella skal álagið niður ef atvinnurekandi færir rök fyrir því að óviðráðanleg atvik hafi hamlað því að hann veitti réttar upplýsingar eða kæmi leiðréttingu á framfæri við Skattinn. Telji Skatturinn að háttsemi atvinnurekanda geti varðað sektum eða fangelsi skal hann ekki gera honum að greiða álag heldur kæra málið til lögreglu.
    Ákvarðanir Skattsins um endurgreiðslur ofgreidds stuðnings eru aðfararhæfar skv. 9. tölul. 1. mgr. 1. gr. laga um aðför, nr. 90/1989.
    Um innheimtu ofgreidds stuðnings fer samkvæmt lögum um innheimtu opinberra skatta og gjalda, nr. 150/2019, þar á meðal um skuldajöfnun og heimild til að gera greiðsluáætlun. Skatturinn annast á landsvísu innheimtu ofgreidds stuðnings samkvæmt lögum þessum.

13. gr.

Gjaldþrot.

    Ef atvinnurekandi verður úrskurðaður gjaldþrota þá skal krafa vegna greidds stuðnings, sem ekki hefur verið tekjufærður skv. 8. gr. eða ofgreiddur hefur verið skv. 12. gr., njóta sömu stöðu gagnvart þrotabúi og krafa launamanns hefði ella notið, sbr. 112. gr. laga um gjaldþrotaskipti o.fl., nr. 21/1991.

14. gr.

Birting upplýsinga.

    Skattinum er heimilt að birta opinberlega upplýsingar um hvaða atvinnurekendum hefur verið ákvarðaður stuðningur úr ríkissjóði samkvæmt lögum þessum.

15. gr.

Viðurlög.

    Einstaklingur eða lögaðili sem brýtur af ásetningi eða stórfelldu gáleysi gegn lögum þessum, svo sem með því að veita rangar eða ófullnægjandi upplýsingar í umsókn um stuðning, skal sæta sektum eða fangelsi allt að sex árum nema brot megi teljast minni háttar.

16. gr.

Reglugerðarheimild.

    Ráðherra getur kveðið nánar á um framkvæmd laga þessara í reglugerð.

17. gr.

Gildistaka.

    Lög þessi öðlast þegar gildi.

Greinargerð.

1. Inngangur.
    Frumvarpið er samið í fjármála- og efnahagsráðuneytinu. Það er liður í aðgerðum ríkisstjórnarinnar til að draga úr tjóni vegna faraldurs kórónuveirunnar og skapa öfluga viðspyrnu í kjölfar hans. Ríkisstjórnin samþykkti 10. mars 2020 að beita sér fyrir markvissum aðgerðum til að mæta efnahagslegum áhrifum faraldursins og síðan þá hefur verið gripið til fjölmargra aðgerða af því tilefni. Í framhaldinu, eða 21. mars og 21. apríl 2020, kynnti ríkisstjórnin nánari útfærslur á efnahagslegum aðgerðum og samhliða voru nokkur lagafrumvörp um þau efni lögð fram á Alþingi. Hinn 28. apríl 2020 kynnti ríkisstjórnin enn fleiri áform um aðgerðir og meðal þess sem þá var kynnt var úrræði sem ætlað er að tryggja réttindi launafólks og forða gjaldþrotum eins og kostur er.
    Frumvarpið er lagt fram samhliða frumvarpi félags- og barnamálaráðherra um breytingu á lögum um atvinnuleysistryggingar og lögum um Ábyrgðasjóð launa og frumvarpi dómsmálaráðherra um tímabundnar heimildir til fjárhagslegrar endurskipulagningar atvinnufyrirtækja.

2. Tilefni og nauðsyn lagasetningar.
    Markmið þriðja aðgerðapakka ríkisstjórnarinnar vegna faraldurs kórónuveiru eru að afstýra efnahagslegu tjóni og koma í veg fyrir fjöldagjaldþrot, standa vörð um réttindi launafólks, stuðla að kröftugri viðspyrnu efnahagslífsins og að fjárhagslegum byrðum verði skipt á réttlátan hátt á milli ríkisins, fyrirtækja og launafólks. Fyrsti aðgerðapakki ríkisstjórnarinnar, sem hafði að vissu leyti sömu markmið, byggðist á forsendum um að samdráttur í efnahagslífinu yrði skammvinnari og afmarkaðri við einstakar atvinnugreinar en nú er útlit fyrir. Alvarlegt tekjutap sem blasir við fjölda fyrirtækja mun leiða til þess að endurskipuleggja þurfi fjárhag margra þeirra. Óhjákvæmilegt er að uppsagnir verði hluti af slíkri endurskipulagningu og kostnaður sem fylgir greiðslu uppsagnarfrests til launamanna gæti orðið svo mikill að hann mundi hefði í för með sér gjaldþrot fyrir ákveðin fyrirtæki. Til þess að forða fyrirtækjum sem þurfa að endurskipuleggja fjárhag sinn frá gjaldþroti tekur ríkissjóður á sig hluta kostnaðar við uppsagnir. Þannig verður það raunhæfur kostur við endurskipulagningu fjárhags fyrirtækja að aðlaga starfsmannafjölda að breyttu starfsumhverfi. Úrræðinu er jafnframt ætlað að auka rétt þeirra starfsmanna sem sagt er upp. Önnur tiltæk úrræði ná ekki sömu markmiðum.

3. Meginefni frumvarpsins.
    Lagt er til að veittur verði fjárstuðningur úr ríkissjóði til greiðslu hluta launakostnaðar atvinnurekenda á uppsagnarfresti launþega til þess að draga úr líkum á fjöldagjaldþrotum fyrirtækja. Til þess að styrkja réttindi launamanna skulu þeir launamenn sem sagt er upp störfum, og atvinnuveitandi nýtur stuðnings vegna, hafa forgang að sambærilegu starfi hjá fyrirtækinu, skyldi hagur þess vænkast innan ákveðins tíma. Við slíka ráðningu myndu launamenn áfram njóta þeirra réttinda sem þeir höfðu áunnið sér í starfi áður en til uppsagnar kom.
    Til þess að hljóta stuðninginn þarf uppsögn launamanns að vera beint eða óbeint til komin vegna aðstæðna sem sköpuðust vegna faraldurs kórónuveiru. Atvinnurekandi þarf jafnframt að hafa orðið fyrir 75% tekjusamdrætti frá 1. mars 2020 til uppsagnardags launamanns miðað við fyrri tímabil. Önnur skilyrði sem atvinnurekandi þarf að uppfylla eru meðal annars þau að hafa ekki greitt arð, óumsamda kaupauka eða keypt eigin bréf og vera ekki í vanskilum með opinber gjöld, skatta og skattsektir.
    Stuðningurinn nemur að hámarki 85% af launakostnaði starfsmanns á uppsagnarfresti, þó að hámarki 633.000 kr. vegna launa og að hámarki 85.455 kr. vegna lífeyrissjóðsiðgjaldshluta atvinnurekanda, fyrir fullt starf í hverjum mánuði og hlutfallslega fyrir hlutastarf. Stuðningurinn er veittur á samningsbundnum uppsagnarfresti starfsmanns, þó aldrei lengur en í þrjá mánuði. Sérstakur stuðningur er greiddur vegna orlofslauna sem launamaður kann að eiga rétt á.
    Lagt er til að Skatturinn sjái um framkvæmd úrræðisins og að umsóknarferlið verði rafrænt. Gert er ráð fyrir að ákvarðanir Skattsins verði endanlegar á stjórnsýslustigi en að á grundvelli stjórnsýslulaga verði unnt að fá ákvörðun endurupptekna ef hún reynist ekki byggð á réttum forsendum.
    Samkvæmt frumvarpinu skal tekjufæra stuðningsfjárhæðina í skattskilum atvinnurekenda. Hún verði nýtt til jöfnunar taps á því ári sem stuðningur fæst og til jöfnunar yfirfæranlegs rekstrartaps fyrri ára, eftir því sem við á. Það sem umfram er verður fært í sérstakan sjóð meðal eigin fjár sem tekjufærður verður á næstu sex rekstrarárum, 10% á ári fyrstu tvö árin og 20% á ári næstu fjögur ár á eftir. Gert er ráð fyrir því skilyrði fjárstuðnings að atvinnurekandi skuldbindi sig til að gera ekki tilteknar ráðstafanir sem lúta að útgreiðslu fjár fyrr en stuðningurinn hefur að fullu verið tekjufærður. Lagt er til að atvinnurekandi geti leyst sig undan þeirri skuldbindingu með því að endurgreiða, með verðbótum og vöxtum, þann hluta fjárstuðnings sem þá er ótekjufærður.
    Annars staðar á Norðurlöndunum er annarri útfærslu beitt til þess að gera fyrirtækjum kleift að draga úr starfsemi sinni ef tilefni er til, án þess að það hafi áhrif á gjaldfærni þeirra og ráðningarsamband við starfsfólk en lögð er til hér. Sem dæmi má nefna að í kjarasamningum, t.d. í Noregi og Danmörku, hafa fyrirtæki heimild til þess að setja starfsfólk í tímabundið, launalaust leyfi og fær það starfsfólk atvinnuleysisbætur á meðan leyfið varir. Starfsfólk sem fer í launalaust leyfi á þessum forsendum heldur ráðningarsambandi við fyrirtækið og á rétt til áframhaldandi starfa að leyfinu loknu.

4. Samræmi við stjórnarskrá og alþjóðlegar skuldbindingar.
    Frumvarpið felur í sér ívilnandi úrræði sem stendur öllum atvinnurekendum til boða sem uppfylla ákveðin skilyrði. Úrræðið er almennt í eðli sínu og ekki var talið sérstakt tilefni til að kanna hvort það samræmdist stjórnarskrá.
    Samningurinn um Evrópska efnahagssvæðið bannar að meginreglu til ríkisaðstoð sem raskar eða er til þess fallin að raska samkeppni með því að ívilna ákveðnum fyrirtækjum eða framleiðslu ákveðinnar vöru að því leyti sem hún hefur áhrif á viðskipti milli samningsaðila. Við vinnslu frumvarpsins var Eftirlitsstofnun EFTA (ESA) upplýst um áformin og þann skilning ráðuneytisins að úrræðið fæli ekki í sér ríkisaðstoð í skilningi EES-samningsins, þar sem það er almennt í eðli sínu en ekki takmarkað við tilteknar atvinnugreinar, landsvæði eða fyrirtæki. Ekki var gerð athugasemd við þá túlkun.

5. Samráð.
    Við vinnslu frumvarpsins var haft samráð við forsætisráðuneytið, félagsmálaráðuneytið og dómsmálaráðuneytið. Þá var haft samráð við Skattinn, Vinnumálastofnun og fulltrúa frá Alþýðusambandi Íslands og Samtökum atvinnulífsins.
    Frumvarpið er ekki á þingmálaskrá ríkisstjórnarinnar. Áform um lagasetningu og drög að frumvarpi voru ekki kynnt opinberlega í samráðsgátt stjórnvalda vegna þess hve mikilvægt þótti að hraða framlagningu málsins á Alþingi.

6. Mat á áhrifum.
Áhrif á atvinnurekendur.
    Meðal markmiða frumvarpsins er að gera atvinnurekendum sem hafa orðið fyrir 75% tekjusamdrætti kleift að draga úr umfangi rekstrar síns til samræmis við þennan samdrátt án þess þó að kostnaður vegna greiðslu uppsagnarfrests launamanna verði svo mikill að atvinnurekandinn sjái þann einn kost að fara í þrot. Þeim stuðningi sem lagður er til er ætlað að auka líkur á að atvinnurekendur geti fljótt nýtt tækifæri til að hefja starfsemi á nýjan leik. Ekki er vitað hve margir atvinnurekendur munu uppfylla skilyrði fyrir fjárstuðningnum en könnun Samtaka atvinnulífsins frá því í apríl 2020 bendir til þess að stór hópur þeirra fyrirtækja sem geri það stundi ferðaþjónustu. Um 6.700 fyrirtæki hafa nýtt sér hlutabótaleiðina og af þeim eru u.þ.b. 40% í ferðaþjónustu. Samkvæmt gögnum Hagstofunnar voru launagreiðendur í einkennandi greinum ferðaþjónustunnar 2.027 í lok árs 2019 (10,5% allra launagreiðenda) og launþegar á sama tíma 24.800 (um 13% allra launþega).
    Lagt er til að stuðningurinn skuli tekjufærður og nýttur til jöfnunar taps á því rekstrarári sem hann er greiddur og til jöfnunar yfirfæranlegs taps fyrri ára. Það sem eftir stendur verði fært í sérgreindan bundinn sjóð meðal eigin fjár og tekjufært á næstu sex árum. Að þeim tíma liðnum er atvinnurekandi ekki lengur bundinn af takmörkunum 3. tölul. 4. gr. um útgreiðslu arðs, óumsaminna kaupauka, kaup á eigin bréfum og þess háttar. Atvinnurekanda er jafnframt heimilt að endurgreiða ríkissjóði það sem eftir stendur í sérgreinda bundna sjóðnum, ásamt verðbótum og vöxtum, í sama tilgangi. Þannig geta fyrirtæki sem ná skjótum rekstrarbata deilt ávinningi hans með hluthöfum sínum.

Áhrif á launamenn.
    Annað meginmarkmið frumvarpsins er að tryggja réttindi launamanna. Þeir launamenn sem sagt er upp störfum, og atvinnurekandi nýtur stuðnings vegna, eiga samkvæmt frumvarpinu forgangsrétt til sambærilegs starfs hjá atvinnurekanda í allt að 12 mánuði eftir að uppsagnarfresti lýkur. Ef til nýrrar ráðningar launamanns kemur heldur hann þeim réttindum sem hann hafði áunnið sér þegar til uppsagnar kom í samræmi við ákvæði kjarasamninga. Ekki er ólíklegt að ríkissjóður muni taka þátt í að greiða kostnað vegna uppsagnarfrests 12.500 launamanna á grundvelli þess úrræðis sem lagt er til, flestra í atvinnugreinum tengdum ferðaþjónustu.

Áhrif á efnahagslífið.
    Með frumvarpinu er ætlunin að draga úr líkum á fjöldagjaldþrotum fyrirtækja og kostnaði sem efnahagslífið gæti orðið fyrir vegna þeirra. Í venjulegu árferði eru gjaldþrot óarðbærra fyrirtækja eðlilegur hluti efnahagslífsins og gera öðrum fyrirtækjum kleift að nýta bjargir gjaldþrota fyrirtækisins til ábatasamari reksturs. Fjöldagjaldþrot fyrirtækja við þessar óvenjulegu aðstæður gætu aftur á móti dregið enn frekar úr eftirspurn í hagkerfinu, leitt til tapaðrar þekkingar og fjárfestingar, ýtt undir langvarandi atvinnuleysi og haft áhrif á fjármálastöðugleika.

Áhrif á stjórnsýslu ríkisins.
    Lagt er til að Skatturinn sjái um framkvæmd úrræðisins og umsóknir verði rafrænar. Úrræðið mun fela í sér fjölgun verkefna hjá embættinu og hafa í för með sér launakostnað sem áætlaður er um 25 m. kr. Hönnun og uppsetning rafrænnar umsóknargáttar er skammt á veg komin en áætlað er að kostnaður vegna hugbúnaðarþróunar geti verið um 25 m. kr.

Áhrif á ríkissjóð.
    Ljóst er að talsverð óvissa er um hversu mikill kostnaður mun falla á ríkissjóð vegna þessa úrræðis sem ræðst annars vegar af fjölda þeirra sem koma til með að nýta sér úrræðið og hversu háar greiðslur verða fyrir hvern launþega. Miðað við þær forsendur sem stuðst er við í áhrifamatinu er áætlað að brúttókostnaður vegna greiðslu á hluta af launakostnaði fyrirtækja gæti numið um 27 ma. kr. Er þá miðað við að 90% þeirra launþega sem starfa í ferðaþjónustu og tengdum greinum og nýttu hlutastarfaleið stjórnvalda muni fá greiðslur úr ríkissjóði á uppsagnarfresti eða alls um 12.000 manns. Er þá meðal annars horft til þess að rúmlega 80% fyrirtækja í ferðaþjónustu hafa orðið fyrir tekjusamdrætti sem nemur 75% eða meira á viðmiðunartímanum og geta því nýtt sér stuðninginn. Auk þess er gert ráð fyrir að hluti fyrirtækja í verslun og þjónustu nýti sér úrræðið. Samkvæmt könnun Samtaka atvinnulífsins frá því í apríl 2020 um mat á áhrifum kórónufaraldursins á fyrirtæki og starfsfólk hafa um 15% þessara fyrirtækja orðið fyrir nægilegum tekjusamdrætti til að uppfylla þau skilyrði sem sett eru fram í frumvarpinu og um fimmtungur fyrirtækja hefur sagt upp starfsfólki. Alls nýttu rúmlega 7.000 manns í verslun og þjónustu sér hlutastarfaleiðina. Er hér miðað við að um 7% þess hóps sem fór í minnkað starfshlutfall njóti stuðningsins eða um 500 manns en erfitt er að meta fjöldann nákvæmlega. Ekki er gert ráð fyrir að mörg fyrirtæki úr öðrum atvinnugreinum komi til með að nýta úrræðið þar sem aðeins lítill hluti uppfyllir þau tekjufallsskilyrði sem sett eru fram í frumvarpinu ef horft er til könnunar Samtaka atvinnulífsins. Alls er því gert ráð fyrir að ríkissjóður muni greiða hluta launa um 12.500 einstaklinga á uppsagnarfresti.
    Áætlaður kostnaður miðast við 85% af meðallaunakostnaði launþega í ferðaþjónustu og tengdum greinum en hann nemur 540 þús. kr. á mánuði. Er hér átt við laun og lífeyrissjóðsgreiðslur. Hámarksstuðningur hvers launamanns verður þrír mánuðir auk orlofs. Hér er því gert ráð fyrir að heildarkostnaður ríkissjóðs vegna hvers launamanns verði að meðaltali rúmar 2,1 m.kr. Ekki er tekið tillit til þess kostnaðar sem fellur á ríkissjóð í gegnum Atvinnuleysistryggingasjóð þegar uppsagnarfresti lýkur.
    Rétt er að taka fram að hér að framan er einungis horft til mögulegs brúttókostnaðar ríkissjóðs sem nemur samtals 27 ma. kr. vegna úrræðisins en telja má að talsverður hluti af þeim kostnaði hefði fallið til að óbreyttu.
    Í fyrsta lagi vegur á móti að ekki hefur verið tekið tillit til kostnaðar sem ríkissjóður hefði mögulega þurft að axla að verulegu leyti með greiðslum úr Ábyrgðasjóði launa kæmi til gjaldþrota. Ómögulegt er á hinn bóginn að segja til um hversu mörg fyrirtæki hefðu farið í þrot án aðgerða og að hvaða marki þau hefðu getað greitt hluta launakostnaðar. Þá er jafnframt óvissa um hversu mörg fyrirtæki koma til með að fara í þrot þrátt fyrir nýtingu þessa úrræðis.
    Í öðru lagi þá skulu atvinnurekendur sem njóta stuðningsins tekjufæra hann, eftir atvikum til jöfnunar taps á því ári sem stuðningurinn er veittur og yfirfæranlegs taps fyrri ára. Það sem eftir stendur skal fært í sjóð meðal eigin fjár sem er tekjufærður á næstu sex árum þar á eftir. Áhrif þessa fyrirkomulags á skatttekjur ríkissjóðs ráðast að mestu af rekstrarárangri þeirra sem stuðninginn hljóta næstu ár á eftir. Á meðan sjóðurinn er óuppleystur er atvinnurekanda óheimilt að greiða út arð, óumsamda kaupauka og kaupa eigin bréf auk fleiri takmarkana. Hann mun hins vegar hafa kost á að greiða til baka óuppleystan sjóð, ásamt vöxtum og verðbótum, til þess að losna undan þessum takmörkunum. Því er ekki útilokað að ríkissjóður endurheimti hluta af þeim kostnaði sem gert er ráð fyrir í frumvarpinu.
    Loks má nefna í þriðja lagi að ef ekki hefði verið gripið til þessa úrræðis þá má ætla að umfang hlutastarfaleiðarinnar hefði orðið talsvert meira en ella sem ekki hefur verið tekið tillit til hér.
    Lauslega er áætlað að áhrif framangreindra atriði á afkomu ríkissjóðs gætu numið um 12 ma. kr. Að teknu tilliti til þess kostnaðar sem fallið hefði til að óbreyttu, þ.e. vegna greiðslna úr Ábyrgðasjóði launa og vegna hlutabótaúrræðisins, og að bætur vegna uppsagna munu væntanlega endurheimtast að nokkru marki á komandi árum, má telja að kostnaður við þetta úrræði verði u.þ.b. 15 ma. kr. meiri en því næmi.

Um einstakar greinar frumvarpsins.

Um 1. gr.

    Aðeins einstaklingar og lögaðilar sem stunda atvinnurekstur, höfðu hafið starfsemi fyrir 1. desember 2019 og bera ótakmarkaða skattskyldu hér á landi skv. 1. eða 2. gr. laga um tekjuskatt, nr. 90/2003, geta fengið stuðning úr ríkissjóði samkvæmt frumvarpinu. Atvinnurekstur er skilgreindur í 1. tölul. 3. gr. Aðili telst hafa hafið atvinnurekstur í skilningi frumvarpsins þegar hann hefur verið skráður á launagreiðendaskrá og, þegar það á við, virðisaukaskattsskrá. Ótakmörkuð skattskylda skv. 1. gr. laga um tekjuskatt felur að meginreglu til í sér skyldu til að greiða tekjuskatt hér á landi af öllum skattskyldum tekjum einstaklings eða lögaðila.
    Frumvarpið nær ekki til stofnana, byggðasamlaga og fyrirtækja í eigu ríkis eða sveitarfélaga. Fyrirtæki telst í eigu ríkis eða sveitarfélaga ef ríki og sveitarfélög eiga samanlagt meira en helming eignarhluta í því. Fyrirtæki sem þrjú sveitarfélög eiga hvert 20% hlut í telst þannig til dæmis í eigu sveitarfélaga þótt aðrir en ríki og sveitarfélög eigi þau 40% sem út af standa.
    Í frumvarpinu er vísað til þeirra sem falla undir gildissviðið sem atvinnurekendur, sbr. 2. tölul. 3. gr.

Um 2. gr.

    Til að draga úr áhrifum faraldurs kórónuveiru og aðgerða honum tengdum á efnahagslífið hafa stjórnvöld komið af stað ýmsum úrræðum sem styðja við atvinnulífið og fólk á vinnumarkaði, svo sem með lögum um breytingu á lögum um atvinnuleysistryggingar og lögum um Ábyrgðasjóð launa (minnkað starfshlutfall), nr. 23/2020, lögum um breytingu á ýmsum lögum til að mæta efnahagslegum áhrifum faraldurs kórónuveiru, nr. 25/2020, og frumvarpi til laga um fjárstuðning til minni rekstraraðila vegna faraldurs kórónuveiru. Markmið þessa frumvarps er að auka enn við stuðning stjórnvalda og tryggja réttindi launafólks og tryggja atvinnurekendum, sem horfa fram á umfangsmikið tekjutap vegna faraldurs kórónaveiru og aðgerða honum tengdum, afmarkaða fjárhagsaðstoð. Efnahagsleg áhrif sem stefnt er að eru að forða eins og kostur er fjöldagjaldþrotum fyrirtækja sem gæti leitt til enn dýpri efnahagssamdráttar.

Um 3. gr.

     Um 1. tölulið. Með atvinnurekstri er átt við starfsemi aðila sem greiða laun skv. 1. tölul. 5. gr. um staðgreiðslu opinberra gjalda, nr. 45/1987. Undir það fellur endurgjald fyrir vinnu starfsfólks. Það er jafnframt hugtaksatriði að atvinnurekandi hafi verið skráður á launagreiðendaskrá. Skv. 19. gr., sbr. 5. og 7. gr., sömu laga ber hverjum þeim sem greiðir laun í skilningi laganna að tilkynna sig sem launagreiðanda. Þá er það einnig hugtaksatriði að viðkomandi sé jafnframt skráður á virðisaukaskattsskrá þegar það á við. Skv. 5. gr. laga um virðisaukaskatt, nr. 50/1988, ber hverjum þeim sem er skattskyldur samkvæmt þeim lögum að tilkynna ríkisskattstjóra um atvinnurekstur sinn eða starfsemi.
     Um 2. tölulið. Atvinnurekandi samkvæmt frumvarpinu er sá einstaklingur eða lögaðili sem stundar atvinnurekstur skv. 1. tölul. Hann greiðir starfsmönnum sínum laun á uppsagnarfresti í samræmi við ákvæði kjara- eða ráðningarsamnings.
     Um 3. tölulið. Launamaður er sá sem fær endurgjald fyrir starf sem hann innir af hendi á ábyrgð atvinnurekanda samkvæmt ráðningarsamningi þeirra á milli.
     Um 4. tölulið. Sú skilgreining á launakostnaði sem frumvarpið gengur út frá afmarkast af tveimur þáttum þess launakostnaðar sem launamaður hefði átt kröfu á að fá greidda frá Ábyrgðarsjóði launa ef til gjaldþrots atvinnurekanda hefði komið. Er þar annars vegar um að ræða samningsbundið endurgjald fyrir vinnuframlag eins og það er skilgreint í kjarasamningum og/eða ráðningarsamningum. Undir það falla almenn laun og ýmsar uppbætur á laun sem tengdar eru vinnuframlagi og er m.a. útfært í 1. tölul. 5. gr. laga um staðgreiðslu opinberra gjalda, nr. 45/1987. Hins vegar er um að ræða lögbundna greiðslu iðgjaldshluta atvinnurekanda til lífeyrissjóðs, að hámarki 11,5% af iðgjaldsstofni, sem og iðgjald til öflunar viðbótartryggingaverndar, allt að 2% af iðgjaldsstofni, hvort tveggja skv. lögum um skyldutryggingu lífeyrisréttinda og starfsemi lífeyrissjóða, nr. 129/1997. Samhengisins vegna er rétt að benda á að í 3. tölul. 1. mgr. 5. gr. þessa frumvarps er gert ráð fyrir sérstökum stuðningi vegna orlofslauna sem launamaður kann að eiga rétt til og er sá stuðningur sama fjárhæð og Ábyrgðarsjóður launa mundi greiða ef til gjaldþrots kæmi. Þegar tekið er tillit til þess hvaða tímabil miðað er við í frumvarpi þessu verður að gera ráð fyrir því sem meginreglu að slíkur stuðningur komi til greiðslu.
     Um 5. tölulið. Tekjur samkvæmt frumvarpinu eru tekjur sem eru skattskyldar skv. B-lið 7. gr. laga um tekjuskatt, nr. 90/2003, það er allar tekjur af atvinnurekstri og sjálfstæðri starfsemi. Tekjur vegna sölu varanlegra rekstrarfjármuna eru þó undanskildar sérstaklega. Þær tekjur geta verið verulegar en eru almennt óreglulegar og gefa ekki rétta mynd af þeim tekjum sem rekstraraðili hefur alla jafna. Miða skal við almennar reglur laga um tekjuskatt við ákvörðun á því hvenær tekjur hafi orðið til, sbr. einkum 2. mgr. 59. gr. laganna þar sem fram kemur að tekjur skuli að jafnaði telja til tekna þegar þær verða til, þ.e. þegar myndast hefur krafa þeirra vegna á hendur einhverjum, nema um óvissar tekjur sé að ræða.
     Um 6. tölulið. Lagt er til að uppsagnardagur verði í lögum þessum skilgreindur sem sá dagur sem uppsögn launamanns kemur til framkvæmda.

Um 4. gr.

    Lagt er til að atvinnurekandi þurfi að uppfylla öll skilyrðin í ákvæðinu til að hljóta stuðning:
     Um 1. tölulið. Gert er ráð fyrir að stuðningurinn eigi ekki við nema vegna þeirra uppsagna sem ráðist er í vegna samdráttar í rekstri af völdum þeirra aðstæðna sem skapast hafa beint eða óbeint vegna faraldurs kórónuveiru sem hófst hér á landi í febrúar 2020. Lagt er til að stuðningurinn nái til þeirra launamanna sem voru í ráðningarsambandi við atvinnurekanda fyrir 1. maí 2020. Með því er sleginn sá varnagli að launamenn séu ekki ráðnir til starfa í þeim eina tilgangi að nýta úrræðið.
     Um 2. tölulið. Til þess að eiga rétt á stuðningi þarf atvinnurekandi að sýna fram á að tekjur hans hafi dregist saman um a.m.k. 75%. Við mat á tekjusamdrætti er horft til tímabilsins frá 1. mars 2020 til uppsagnardags og reiknað út meðaltal mánaðartekna. Sé uppsagnardagur 1. maí 2020 og tekjur atvinnurekanda frá 1. mars til 1. maí kr. 1.000.000 er meðaltalið kr. 500.000 (þ.e. reiknað með eftirfarandi hætti: 1.000.000/2). Til viðmiðunar er atvinnurekanda heimilt að nota eitthvert þeirra fjögurra tímabila sem um getur í a-, b-, c- eða d-liðum.
    Í a-lið er miðað við meðaltal mánaðartekna sama tímabils árið áður, þ.e. ef uppsagnardagur er 1. maí 2020 er viðmiðunartímabil a-liðar 1. mars 2019 til 1. maí 2019. Hafi tekjur á þessu tímabili numið kr. 3.000.000 var meðaltal mánaðartekna kr. 1.500.000 á viðmiðunartímabilinu og samdrátturinn því 67% ((1.500.000–500.000)/1.500.000), miðað við dæmið sem tekið var til skýringar við 1. málsl. 2. tölul.
    Í b-lið er miðað við meðaltal mánaðartekna yfir sumarmánuði ársins 2019, þ.e. júní, júlí og ágúst. Hafi tekjur á þessu tímabili numið kr. 9.000.000 var meðaltal mánaðartekna kr. 3.000.000 og samdrátturinn 83% ((3.000.000–500.000)/3.000.000), miðað við dæmið sem tekið var til skýringar við 1. málsl. 2. tölul.
    Í c-lið er miðað við meðaltal mánaðartekna á þriggja mánaða tímabili fyrir 1. mars 2020. Hafi tekjur á þeim tíma numið 3.000.000 var meðaltal mánaðartekna kr. 1.000.000 og samdrátturinn því 50% ((1.000.000–500.000)/1.000.000), miðað við dæmið sem tekið var til skýringar við 1. málsl. 2. tölul.
    Í d-lið er miðað við meðaltal mánaðartekna á tólf mánaða tímabili fyrir 1. mars 2020. Hafi tekjur á þeim tíma numið kr. 25.000.000 var meðaltal mánaðartekna kr. 2.083.333 og samdrátturinn 76% ((2.083.333–500.000)/2.083.333), miðað við dæmið sem tekið var til skýringar við 1. málsl. 2. tölul.
     Um 3. tölulið. Fjárstuðningnum samkvæmt frumvarpi þessu er ætlað að stuðla að því að atvinnurekendur geti viðhaldið starfsemi sinni. Talið er óeðlilegt að eigendur greiði sér samhliða út arð eða að ráðist sé í aðrar svipaðar ráðstafanir. Viðmiðunartímamark varðandi þessar ráðstafanir er 15. mars 2020 og miða ber við dagsetningu ákvörðunar en ekki dagsetningu framkvæmdar ákvörðunar, svo sem útgreiðslu arðs. Gert er ráð fyrir að atvinnurekendum beri að telja fjárstuðninginn til tekna skv. 8. gr. og að þeir geti losað sig undan skuldbindingu samkvæmt ákvæðinu skv. 9. gr. Skuldbindingin getur því varað í allt að sjö ár. Hugtakið nákominn aðili skal túlkað til samræmis við 3. gr. laga um gjaldþrotaskipti o.fl., nr. 21/1991.
     Um 4. tölulið. Ekki er talið eðlilegt að ríkissjóður veiti atvinnurekendum sem voru í vanskilum með opinber gjöld, áður en áhrifa aðgerða til að draga úr útbreiðslu kórónuveirunnar fór að gæta, sérstakan fjárstuðning. Því er það gert að skilyrði fyrir stuðningi að atvinnurekandi sé ekki í vanskilum með opinbert gjöld sem voru komin á eindaga í árslok 2019. Jafnframt er lagt til að gerð verði sú krafa að umsækjandi hafi skilað öllum gögnum og upplýsingum sem umsækjanda bar að hafa skilað til Skattsins á umsóknardegi. Sama gildir um skil á ársreikningum til ársreikningaskrár, upplýsingum um raunverulega eigendur til fyrirtækjaskrár og skil á skýrslum um eignarhald á CFC-félagi ef umsækjandi fellur undir gildissvið reglugerðar um skattlagningu vegna eignarhalds í lögaðilum á lágskattaríkjum, nr. 1102/2013, sem sett er með heimild í 7. mgr. 57. gr. a laga um tekjuskatt, nr. 90/2003. Komi upp tilvik þar sem atvinnurekandi uppfyllir önnur skilyrði til fjárstuðnings en rétt skil samkvæmt ákvæðinu er eðlilegt að viðkomandi verði veittur sanngjarn frestur til að laga það sem upp á vantar.
     Um 5. tölulið. Með frumvarpinu er ætlunin að styðja við starfandi atvinnurekendur og viðhalda þannig atvinnustigi og efnahagsumsvifum í landinu. Því er lagt til að atvinnurekandi geti ekki fengið fjárstuðning ef bú hans hefur verið tekið til gjaldþrotaskipta eða atvinnurekandinn hefur verið tekinn til slita. Um gjaldþrotaskipti gilda lög um gjaldþrotaskipti o.fl., nr. 21/1991. Upphaf gjaldþrotaskipta miðast almennt við úrskurð héraðsdómara um gjaldþrotaskipti. Um slit á lögaðilum fer samkvæmt þeim lögum sem gilda um viðkomandi lögaðilaform. Um slit einkahlutafélaga fer þannig samkvæmt lögum um einkahlutafélög, nr. 138/1994.

Um 5. gr.

     Um 1. tölulið. Sett er tvenns konar hámark á þátttöku ríkissjóðs í greiðslu launakostnaðar hvers fyrirtækis. Annars vegar er sett almennt hámark sem miðast við að fjárstuðningur ríkissjóðs nemi aldrei hærri fjárhæð en 85% af launakostnaði starfsmanns á uppsagnarfresti. Hins vegar er sett þak á hámarksgreiðslur og eru þær fjárhæðir annars vegar 633.000. kr. vegna launa og hins vegar 85.455 kr. vegna lífeyrissjóðsiðgjaldshluta atvinnurekanda. Meginmarkmið frumvarpsins er að freista þess að draga úr gjaldþrotum fyrirtækja. Því eru fjárhæðirnar þær sömu og ríkissjóður hefði ella þurft að greiða á grundvelli laga um Ábyrgðarsjóð launa, nr. 88/2003, ef fyrirtækið hefði verið tekið til gjaldþrotaskipta. Lagt er til að stuðningurinn taki mið af ráðningarkjörum launamanns eins og þau voru 1. maí 2020. Með ráðningarkjörum er átt við þau kjör sem kveðið er á um í ráðningarsamningi, þar á meðal starfshlutfall launamanns. Hafi launamaður tímabundið verið í skertu starfshlutfalli, sbr. meðal annars ákvæði til bráðabirgða XIII við lög um atvinnuleysistryggingar, nr. 54/2006, skal það ekki hafa áhrif á hlutfall stuðnings. Með skilyrðinu er einnig leitast við að koma í veg fyrir að ráðningarkjörum launamanna sé hagrætt við nýtingu úrræðisins.
     Um 2. tölulið. Tímalengd stuðningsins ræðst af því hvenær uppsögn launamanns kemur til framkvæmda. Fyrirtæki sem segir upp launamanni sem á þriggja mánaða uppsagnarfrest í apríl 2020, þannig að uppsögnin kemur til framkvæmda 1. maí 2020, fær stuðning vegna launagreiðslna í maí, júní og júlí. Ef fyrirtækið hefði sagt starfsmanninum upp í mars, þannig að uppsögnin hefði komið til framkvæmda 1. apríl 2020, fengi hann stuðning vegna launagreiðslna í maí og júní en ekki apríl. Ef starfsmaður ætti aftur á móti á sex mánaða uppsagnarfrest og væri sagt upp á sömu dagsetningum fengi fyrirtækið sama stuðning og í fyrra dæmi nema ef uppsögn hafi tekið gildi 1. apríl 2020 fengi fyrirtækið stuðning fyrir maí, júní og júlí þar sem þrír mánuðir af uppsagnartímabilinu eru innan viðmiðunartímabilsins. Gert er ráð fyrir að ekki sé veittur stuðningur til lengri tíma en þriggja mánaða vegna hvers launamanns. Ef uppsagnarfrestur launamanns er skemmri styttist stuðningstímabilið samsvarandi en í þeim tilvikum sem uppsagnarfrestur er lengri en þrír mánuðir þá ber atvinnurekandi einn kostnaðinn af því sem er umfram þrjá mánuði.
     Um 3. tölulið. Í frumvarpinu er gert ráð fyrir sérstökum stuðningi vegna orlofslauna sem launamaður kann að eiga rétt á við uppsögn, að hámarki 85% orlofslauna, þó að hámarki 1.014.000 kr. Þegar tekið er tillit til þess hvaða tímabil miðað er við í frumvarpi þessu verður að gera ráð fyrir því sem meginreglu að stuðningur vegna orlofslauna komi til greiðslu þar sem flestir launamenn eiga fullan orlofsrétt og ekki er heimilt að láta þá taka orlof á uppsagnarfresti, samkvæmt dómaframkvæmd.

Um 6. gr.

     Um 1. mgr. Gert er ráð fyrir að umsóknir verði sendar inn rafrænt en að umsókn og umsóknarferli verði að öðru leyti á því formi sem Skatturinn ákveður. Miðað er við að umsóknum skuli skilað mánaðarlega 20. hvers mánaðar, til og með 20. janúar 2021, þ.e. fimm dögum eftir að skilagreinum vegna staðgreiðslu á í síðasta lagi að hafa verið skilað til Skattsins.
     Um 2. mgr. Margir atvinnurekendur munu ekki hafa skilað ársreikningum og endanlegum skattskýrslum vegna rekstrarársins 2019, og enginn vegna rekstrarársins 2020, þegar og ef frumvarpið verður að lögum. Óhjákvæmilegt er því að styðjast að verulegu leyti við upplýsingar sem atvinnurekandi leggur til við umsókn um stuðning en gert er ráð fyrir eftirliti eftir því sem mögulegt er samhliða en einnig eftir á. Því er lagt til að umsækjandi skuli staðfesta við umsókn að hann uppfylli skilyrði 4. gr., að upplýsingar sem hann skilar og liggja til grundvallar ákvörðun fjárhæðar skv. 5. gr. séu réttar og að honum sé kunnugt um að það geti varðað álagi, sektum eða fangelsi að veita rangar eða ófullnægjandi upplýsingar.

Um 7. gr.

    Gert er ráð fyrir að ákvörðun um stuðningsfjárhæð verði tekin af Skattinum. Í því skyni að gera Skattinum kleift að sannreyna að skilyrði laganna séu uppfyllt er lagt til að honum verði heimilt, við afgreiðslu umsóknar og endurskoðun á ákvörðun um umsókn, að fara fram á að atvinnurekandi sýni með rökstuðningi og gögnum fram á rétt sinn til stuðningsins. Þá er sú skylda lögð á Skattinn að endurákvarða stuðningsfjárhæð komi í ljós að atvinnurekandi hafi ekki átt rétt á henni eða átti rétt á hærri eða lægri fjárhæð en hann fékk greidda.
    Þá er gert ráð fyrir að stjórnvaldsákvarðanir stofnunarinnar samkvæmt lögunum verði endanlegar á stjórnsýslustigi. Í því felst að ákvarðanir stjórnvaldsins verða ekki kæranlegar til ráðherra heldur verða eingöngu bornar undir dómstóla. Hafi ákvörðun byggst á ófullnægjandi eða röngum upplýsingum verður unnt að fá ákvörðun endurupptekna enda séu skilyrði 24. gr. stjórnsýslulaga, nr. 37/1993, um endurupptöku máls uppfyllt.
    Gert er ráð fyrir að stuðningsfjárhæð verði ákvörðuð innan 30 daga frá því að Skattinum barst umsókn og fullnægjandi gögn til að afgreiða hana og greidd úr ríkissjóði innan þriggja virkra daga frá því hún var ákvörðuð. Útborgun stuðnings er háð því að atvinnurekandi hafi staðið skil á staðgreiðslu af launum fyrir sama tímabil eða hann hafi eftir atvikum sótt um frestun á greiðslu á henni skv. 2. og 3. gr. laga nr. 25/2020. Afgreiðsla á umsókn kann að sæta síðari endurskoðun samkvæmt ákvæðum laganna og felur því ekki í sér staðfestingu á því að skilyrði laganna hafi verið uppfyllt á afgreiðsludegi.

Um 8. gr.

    Í greininni er kveðið á um hvernig atvinnurekandi skuli í skattskilum sínum færa fenginn fjárstuðning. Á því rekstrarári sem hann fær fjárstuðninginn greiddan skal hann færa stuðninginn til skattskyldra tekna að svo miklu leyti sem þarf til að jafna skattalegt rekstrartap þess rekstrarárs og yfirfæranlegt rekstrartap frá fyrri árum, sbr. 8. tölul. 31. gr. laga um tekjuskatt, nr. 90/2003. Fjárhæð fjárstuðnings sem umfram er tekjufærslu til þeirrar tapsjöfnunar skal færð á sérgreindan bundinn sjóð meðal eiginfjárreikninga. Þann bundna sjóð skal leysa upp með tekjufærslu á næstu sex rekstrarárum þar á eftir, 10% af upphaflegri fjárhæð sjóðsins ár hvert á fyrstu tveimur árunum og 20% af upphaflegri fjárhæð sjóðsins ár hvert næstu fjögur ár þar á eftir. Ef engu rekstrartapi, þ.m.t. frá fyrri árum, er fyrir að fara á því rekstrarári sem fjárstuðningurinn fæst greiddur á tekjufærist stuðningurinn ekki að neinu leyti á því ári. Rekstrartap sem myndast kann á næstu fimm rekstrarárum þar á eftir yfirfærist til næsta árs eftir almennum reglum og nýtist þannig á móti hagnaði sem myndast kann, m.a. með tekjufærslum við upplausn bundna sjóðsins.
    Komið getur til þess að atvinnurekandi sem fær umræddan fjárstuðning nýti heimild til meðhöndlunar eftirgefinna skulda vegna greiðsluerfiðleika á árinu 2020 sem kveðið er á um í ákvæði LXV til bráðabirgða við lög um tekjuskatt, nr. 90/2003. Við þær aðstæður skal jafna rekstrartap með tekjufærslu fjárstuðnings, svo sem hér er mælt fyrir um, áður en rekstrartap er jafnað með tekjufærslu eftirgjafar samkvæmt bráðabirgðaákvæðinu.

Um 9. gr.

    Í ákvæði 3. tölul. 4. gr. er kveðið á um það skilyrði fyrir fjárstuðningi að atvinnurekandi skuldbindi sig til að gera ekki tilteknar ráðstafanir sem fela í sér útgreiðslu fjár fyrr en fjárstuðningur hefur að fullu verið tekjufærður. Skv. 8. gr. getur tekjufærsla fjárstuðnings dreifst á sjö rekstrarár. Á þeim tíma geta komið upp þær aðstæður að atvinnurekandi telji þörf á að ráðast í einhverja hinna tilteknu ráðstafanna. Því er í 9. gr. lagt til að atvinnurekandi geti leyst sig undan skuldbindingu skv. 3. tölul. 4. gr. með því að endurgreiða ríkissjóði þann hluta fjárstuðnings sem þá hefur ekki verið tekjufærður. Kjósi atvinnurekandi t.d. að leysa sig undan skuldbindingunni á rekstrarárinu 2022 þarf hann að endurgreiða þá hluta fjárstuðnings sem honum hefði annars borið að tekjufæra á árunum 2022, 2023, 2024, 2025 og 2026. Ef fjárstuðningur er að fullu tekjufærður til jöfnunar taps, þ.m.t. yfirfæranlegs taps frá fyrri árum, á því rekstrarári þegar stuðningurinn fékkst, stendur hann ekki í vegi fyrir því að atvinnurekandi geri þær ráðstafanir sem skuldbindingin tekur til á næsta rekstrarári þar á eftir eða síðar. Lagt er til að endurgreiðslufjárhæð verði verðtryggð miðað við breytingar á vísitölu neysluverðs, sbr. 1. mgr. 14. gr. laga um vexti og verðtryggingu, nr. 38/2001, og beri að auki vexti jafnháa vöxtum sem Seðlabanki Íslands ákveður og birtir með hliðsjón af lægstu vöxtum á nýjum almennum verðtryggðum útlánum hjá lánastofnunum, sbr. 2. málsl. 4. gr. sömu laga. Verðbætur og vextir reiknast frá þeim tíma að atvinnurekandi fékk greiddan þann fjárstuðning sem hann endurgreiðir og til endurgreiðsludags. Hafi atvinnurekandi ekki fengið fjárstuðninginn greiddan allan í einu lagi miðast verðbóta- og vaxtaútreikningur við að fyrst hafi verið tekjufærð sú greiðslan sem fyrst fékkst og svo koll af kolli.

Um 10. gr.

    Lagt er til að fyrirtækjum verði gefinn kostur á að endurskipuleggja fjárhag sinn í því skyni að forða þeim frá gjaldþroti með fjárstuðningi frá ríkinu vegna þess kostnaðar sem fylgir uppsögnum. Vinnuveitenda hefur verið talið heimilt að draga frá launagreiðslum í uppsagnarfresti launatekjur sem starfsmaður aflar sér vegna starfa í þágu annars vinnuveitanda á uppsagnarfresti, sbr. dóm Hæstaréttar Íslands í máli nr. 144/1996. Eðli máls samkvæmt er lagt til að stuðningur samkvæmt lögunum skerðist samhliða slíkum frádrætti.

Um 11. gr.

    Sú skylda er lögð á atvinnurekendur sem þiggja framlög samkvæmt lögunum að þeir bjóði launamönnum sem þeir fengu framlag vegna sambærilegt starf að nýju, kjósi þeir að ráða aftur í starfið. Launamenn sem missa starf sitt eigi þannig forgangsrétt að sambærilegu starfi hjá vinnuveitanda í ákveðinn tíma skyldu aðstæður og umsvif fyrirtækisins breytast til hins betra. Sá réttur varir í allt að 12 mánuði en fellur niður í síðasta lagi 30. júní 2021.

Um 12. gr.

     Um 1. mgr. Hafi aðili fengið stuðning umfram það sem hann átti rétt á, hvort sem hann átti ekki rétt á neinum stuðningi eða fékk hærri stuðning en hann átti rétt á, ber honum að endurgreiða í ríkissjóð þá fjárhæð sem ofgreidd var. Krafan ber útlánavexti skv. 4. gr. laga um vexti og verðtryggingu, nr. 38/2001, frá þeim degi sem ofgreitt var og þar til greitt er. Dráttarvextir skv. 6. gr. sömu laga leggjast þó á standi atvinnurekandi ekki skil á endurgreiðslu innan mánaðar frá dagsetningu endurákvörðunar Skattsins um að fella niður eða lækka stuðning.
     Um 2. mgr. Hafi atvinnurekandi fengið ofgreiddan stuðning með því að veita rangar eða ófullnægjandi upplýsingar skal Skatturinn almennt gera honum að greiða 50% álag. Álagið leggst á endurgreiðslukröfuna eins og hún er með áföllnum vöxtum og eftir atvikum dráttarvöxtum á greiðsludegi. Mannréttindadómstóll Evrópu hefur talið það geta verið andstætt mannréttindasáttmála Evrópu að gera sama manni að greiða álag á skatta og sæta í framhaldinu höfðun sakamáls vegna sama brots. Með tilliti til þeirra sjónarmiða er lagt til að Skatturinn geri aðila ekki að greiða álag ef Skatturinn telur háttsemi hans geta varðað sektum eða fangelsi heldur vísi málinu til rannsóknar lögreglu. Atvinnurekanda bæri eftir sem áður að greiða áfallna vexti og eftir atvikum dráttarvexti af ofgreiddum stuðningi.
     Um 3. mgr. Lagt er til að gera megi aðför til fullnustu ákvörðunar Skattsins án undangengins dóms, sbr. 9. tölul. 1. mgr. 1. gr. laga um aðför, nr. 90/1989. Um framkvæmd fullnustunnar fer samkvæmt þeim lögum. Ekki má þó gera aðför á meðan endurgreiðslukrafa er til meðferðar hjá dómstólum. Réttmæt endurgreiðslukrafa ber þó áfram vexti eða dráttarvexti meðan á slíkri meðferð stendur.

Um 13. gr.

    Með ákvæðinu er lagt til að krafa vegna greidds stuðnings, sem ekki hefur verið tekjufærð skv. 8. gr. eða ofgreiddur hefur verið skv. 12. gr., njóti sömu stöðu gagnvart þrotabúi atvinnurekanda og launakrafa starfsmanns hefði ella notið, sbr. 112. gr. laga um gjaldþrotaskipti o.fl., nr. 21/1991, komi til þess að atvinnurekandi verði úrskurðaður gjaldþrota.

Um 14. gr.

    Rétt þykir að kveðið sé sérstaklega á um heimild Skattsins til að birta opinberlega upplýsingar um hvaða aðilar hafa fengið fjárstuðning á grundvelli ákvæða frumvarpsins. Skv. 2. mgr. 6. gr. reglugerðar um birtingu upplýsinga að frumkvæði stjórnvalda, nr. 464/2018, sem sett er með stoð í 4. mgr. 13. gr. upplýsingalaga, nr. 37/1993, skal við mat á því hvort sanngjarnt og eðlilegt sé að upplýsingar um mikilvæga fjárhags- eða viðskiptahagsmuni fyrirtækja og annarra lögaðila fari leynt meðal annars líta til þess hvort upplýsingarnar séu til þess fallnar að valda viðkomandi aðila tjóni ef aðgangur verði veittur að þeim, hversu mikið tjón geti orðið og hversu líklegt sé að það muni verða. Með hliðsjón af þessu er í ákvæðinu lagt til að heimilt sé að upplýsa um hverjir hafi nýtt sér úrræðið en ekki er talið rétt að veita heimild til birtingar frekari upplýsinga, svo sem um fjölda starfsmanna hjá hverjum lögaðila sem leitað er eftir stuðningi vegna. Heimild þessi gildir þrátt fyrir ákvæði annarra laga um þagnarskyldu, til dæmis í 117. gr. laga um tekjuskatt, nr. 90/2003, og 20. gr. laga um innheimtu opinberra gjalda, nr. 45/1987.
    Með hliðsjón af sjónarmiðum um meðalhóf er því talið réttlætanlegt að almenningur verði upplýstur um hvaða lögaðilar nýta sér úrræðið. Eru þar vegin sjónarmið um friðhelgi einkalífs á móti sjónarmiðum um aðgang almennings að upplýsingum. Talið er að almenningur hafi slíka hagsmuni af því að vita hverjum sé veittur umræddur stuðningur úr ríkissjóði að rétt sé að kveða á um heimild til birtingar þeirra upplýsinga og að þeir hagsmunir vegi þyngra en hagsmunir umræddra lögaðila af því að upplýsingarnar fari leynt. Hins vegar sé rétt með tilliti til mögulegra hagsmuna viðkomandi lögaðila, t.d. að líkur séu á því að slík birting gæti valdið viðkomandi aðila tjóni, að heimila ekki birtingu að frumkvæði stjórnvaldsins á nánari upplýsingum. Ef í framhaldi af birtingu á nafni lögaðila kæmi fram sérstök beiðni um aukinn aðgang að upplýsingum þyrfti Skatturinn að meta aðstæður í hverju tilviki fyrir sig á grundvelli ákvæða upplýsingalaga og eftir atvikum sérlögum.

Um 15. gr.

    Lagt er til að það varði sektum eða fangelsi allt að sex árum að brjóta gegn ákvæðum laganna af ásetningi eða stórfelldu gáleysi nema brot sé minni háttar. Fjárstuðningur getur numið umtalsverðum fjárhæðum og er því lagður til refsirammi til samræmis við önnur alvarleg brot á sviði fjármunaréttar, svo sem fjárdrátt og fjársvik skv. 247. og 248. gr. almennra hegningarlaga, nr. 19/1940. Í dæmaskyni er tekið fram að þetta eigi við um þá háttsemi að veita rangar eða ófullnægjandi upplýsingar í umsókn.

Um 16. gr.

    Lagt er til að ráðherra verið heimilað að setja reglugerð með nánari ákvæðum um framkvæmd úrræðisins.

Um 17. gr.

    Lagt er til að lögin taki þegar gildi enda eru þau ívilnandi og ætlað að mæta brýnni þörf.