Ferill 937. máls. Aðrar útgáfur af skjalinu: PDF - Word Perfect.


150. löggjafarþing 2019–2020.
Þingskjal 1748  —  937. mál.




Tillaga til þingsályktunar


um minningarskjöld við Bessastaðastofu.


Flm.: Vilhjálmur Bjarnason.


    Alþingi ályktar að fela ríkisstjórninni að heiðra minningu Sigurðar Jónassonar, sem gaf þjóðinni Bessastaði í þeim tilgangi að þar yrði bústaður ríkisstjóra og síðar forseta lýðveldisins. Við Bessastaðastofu verði settur upp skjöldur til að minnast hans og gjafar hans árið 1941.

Greinargerð.

    Með tillögu þessari er lagt til að settur verði upp skjöldur við Bessastaðastofu til minningar um Sigurð Jónasson forstjóra. Á næsta ári verða liðin 80 ár frá því að íslenska þjóðin tók við hinni höfðinglegu gjöf Sigurðar, höfuðbólinu og höfðingjasetrinu Bessastöðum á Álftanesi.
    Í upphafi var ráðgert að ríkið falaðist eftir jörðinni til kaups. Þegar forsætisráðherra færði í tal við eiganda Bessastaða, Sigurð Jónasson, að ríkið vildi kaupa jörðina til þess að þar yrði bústaður fyrir ríkisstjóra og síðar forseta lýðveldisins, þá bauðst Sigurður til þess að gefa þjóðinni jörðina með þessum orðum: „Söluverð vil ég eigi nefna, vegna þess að ég geri ráð fyrir, að mat mitt á jörðinni myndi þykja nokkuð hátt, einkum þar sem ríkið væri kaupandi. Þess vegna býð ég yður, fyrir hönd íslenzka ríkisins, að taka við Bessastöðum, ásamt Lambhúsum og Skansi og 1/ 3 hluta Breiðabólstaðaeyrar, sem gjöf.“
    Á móti óskaði Sigurður eftir því að fá greiddan kostnað af endurbótum frá því að hann tók við jörðinni en jafnframt lagði hann fram bankabók með innstæðu fyrir öllum lánum sem á jörðinni hvíldu. Sú bankabók er meðal skjala um Bessastaði í Þjóðskjalasafni Íslands. Ríkisstjórnin tók þessu boði og afsal var gefið út fyrir jörðinni 21. júní 1941, en Alþingi hafði kosið ríkisstjóra skömmu áður, 17. júní.
    Á Bessastöðum er ekkert sem minnir á gefandann nema portrettmálverk og ljósmynd. Rétt er og eðlilegt að gefandans verði minnst með minningarskildi til að segja samtíð og framtíð frá þessari höfðinglegu gjöf.