Ferill 864. máls. Aðrar útgáfur af skjalinu: PDF - Word Perfect.


150. löggjafarþing 2019–2020.
Þingskjal 1817  —  864. mál.




Svar


mennta- og menningarmálaráðherra við fyrirspurn frá Birni Leví Gunnarssyni um lögbundin verkefni opinberra háskóla.


     1.      Hvaða lögbundnu verkefnum sinna opinberir háskólar á Íslandi; Háskóli Íslands, Háskólinn á Akureyri, Háskólinn á Hólum – Hólaskóli og Landbúnaðarháskóli Íslands?
    Í 2. gr. laga um háskóla, nr. 63/2006, segir:
    „Háskóli er sjálfstæð menntastofnun sem sinnir kennslu, rannsóknum, varðveislu þekkingar, þekkingarleit og sköpun á sviðum vísinda, fræða, tækniþróunar eða lista. Hlutverk háskóla er að stuðla að sköpun og miðlun þekkingar og færni til nemenda og samfélagsins alls. Starf háskóla miðar að því að styrkja innviði íslensks samfélags og stöðu þess í alþjóðlegu tilliti með hagsmuni komandi kynslóða að leiðarljósi. Háskóli er miðstöð þekkingar og hluti af alþjóðlegu mennta- og vísindasamfélagi.
    Háskólar mennta nemendur með kennslu og þátttöku í vísindarannsóknum og búa þá undir að gegna störfum sem krefjast fræðilegra vinnubragða, þekkingar og færni. Háskóli undirbýr nemendur til ábyrgrar þátttöku í lýðræðissamfélagi. Menntun, sem háskólar veita, tekur mið af þörfum samfélagsins hverju sinni og getur verið fræðilegs eðlis og starfsmiðuð.
    Háskólar ráða skipulagi starfsemi sinnar og ákveða hvernig henni er best fyrir komið.“
    Frekar er kveðið á um fræðilegt sjálfstæði starfsmanna háskóla í 2. gr. a sömu laga. Þar segir að háskólum sé skylt að virða fræðilegt sjálfstæði starfsmanna sinna. Fræðilegt sjálfstæði starfsmanna feli í sér rétt þeirra til að fjalla um kennslugrein sína á þann hátt sem þeir telji skynsamlegt og í samræmi við fræðilegar kröfur. Enn fremur segir í greininni að fræðilegt sjálfstæði dragi ekki úr ábyrgð starfsmanna á að fara að almennum starfsreglum og siðareglum viðkomandi háskóla og að viðfangsefni rannsókna og kennslu á einstökum fræðasviðum háskóla skuli vera óháð afskiptum þeirra sem eiga skólann eða leggja honum til fé.
    Í 3. gr. laga um opinbera háskóla, nr. 85/2008, er að auki tekið fram að opinberir háskólar miðli fræðslu til almennings og veiti þjóðfélaginu þjónustu í krafti þekkingar sinnar. Opinberum háskóla er enn fremur heimilt að sinna endurmenntun þeirra sem lokið hafa háskólaprófi í þeim fræðum sem stunduð eru innan hans.

     2.      Hver er áætlaður heildarkostnaður lögbundinna verkefna opinberra háskóla á Íslandi og hver er áætlaður kostnaður hvers verkefnis samkvæmt fjárlögum fyrir árið 2020?
    Heildarfjárheimild til opinberra háskóla samkvæmt fylgiriti fjárlaga fyrir árið 2020, sbr. auglýsingu nr. 1379/2019 í B-deild Stjórnartíðinda, er 29.606 millj. kr. að frádregnum sértekjum að fjárhæð 8.401,6 millj. kr. Fjárveitingar eru ekki sundurliðaðar eftir lögbundnum verkefnum stofnana í fjárlögum. Eftirfarandi skipting á viðföng opinberra háskóla kemur fram í fylgiriti með fjárlögum:

02-201 Háskóli Íslands 23.822,3
02-201.101 Háskóli Íslands 22.235,6
02-201.601 Tæki og búnaður 636,7
02-201.650 Byggingarframkvæmdir og tækjakaup 950
02-210 Háskólinn á Akureyri 3.378,2
02-210.101 Háskólinn á Akureyri 3.293,5
02-210.601 Tæki og búnaður 84,7
02-216 Landbúnaðarháskóli Íslands 1.613,0
02-216.101 Landbúnaðarháskóli Íslands 1.595,8
02-216.601 Tæki og búnaður 17,2
02.217 Hólaskóli – Háskólinn á Hólum 792,5
02-217.101 Hólaskóli – Háskólinn á Hólum 776,6
02-217.601 Tæki og búnaður 15,9