Ferill 873. máls. Aðrar útgáfur af skjalinu: PDF - Word Perfect.


150. löggjafarþing 2019–2020.
Þingskjal 1825  —  873. mál.




Svar


mennta- og menningarmálaráðherra við fyrirspurn frá Birni Leví Gunnarssyni um lögbundin verkefni Minjastofnunar Íslands.



     1.      Hvaða lögbundnu verkefnum sinnir Minjastofnun Íslands?
    Minjastofnun Íslands er stjórnsýslustofnun sem annast framkvæmd minjavörslu í samræmi við ákvæði laga um menningarminjar nr. 80/2012. Hlutverk stofnunarinnar skv. 11. gr. laga um menningarminjar er að:
     a.      hafa eftirlit með fornleifum í landinu og friðuðum húsum og mannvirkjum,
     b.      vinna að stefnumörkun um verndun fornleifa og byggingararfs ásamt fagnefndum,
     c.      setja reglur um og hafa yfirumsjón með skráningu friðaðra og friðlýstra fornleifa, húsa og mannvirkja,
     d.      halda heildarskrár um allar friðaðar og friðlýstar fornleifar, friðlýsta legsteina og minningarmörk og friðuð og friðlýst hús og mannvirki,
     e.      gera tillögur til ráðherra um friðlýsingu og afnám hennar,
     f.      ákveða skyndifriðun menningarminja ef þörf krefur,
     g.      setja reglur og skilyrði um rannsóknir fornleifa sem hafa jarðrask í för með sér og hafa eftirlit með öllum fornleifarannsóknum í landinu,
     h.      fjalla um og veita leyfi til stað- og tímabundinna fornleifarannsókna sem hafa jarðrask í för með sér,
     i.      framkvæma nauðsynlegar rannsóknir, svo sem neyðarrannsóknir, vettvangskannanir til að staðfesta umfang og eðli minja og aðrar skyndirannsóknir,
     j.      hafa eftirlit með og annast leyfisveitingar vegna flutnings menningarminja til annarra landa,
     k.      úthluta úr fornminjasjóði og húsafriðunarsjóði að fengnum umsögnum fagnefnda og annast umsýslu þeirra,
     l.      hafa eftirlit með framvindu verkefna sem fá styrk úr sjóðunum,
     m.      ákveða aðra ráðstöfun fjár úr fornminjasjóði og húsafriðunarsjóði í samráði við húsafriðunarnefnd og fornminjanefnd,
     n.      annast framkvæmd laga um skil á menningarverðmætum til annarra landa,
     o.      setja á fót minjaráð á hverju minjasvæði og bera ábyrgð á starfsemi þeirra,
     p.      annast önnur verkefni samkvæmt ákvörðun ráðherra.

     2.      Hver er áætlaður heildarkostnaður lögbundinna verkefna Minjastofnunar Íslands og hver er áætlaður kostnaður hvers verkefnis samkvæmt fjárlögum fyrir árið 2020?
    Kostnaði við hvert lögbundið verkefni er ekki deilt niður í fjárlögum, heldur er gerð grein fyrir fjárheimildum vegna hvers málefnasviðs og málaflokks. Starfsemi Minjastofnunar Íslands fellur undir málefnasvið 18 Menning, listir, íþrótta- og æskulýðsmál og málaflokk 18.2 Menningarstofnanir. Fjárheimild Minjastofnunar Íslands samkvæmt fjárlögum fyrir árið 2020 er 248,7 millj. kr.