Ferill 735. máls. Aðrar útgáfur af skjalinu: PDF - Word Perfect.


150. löggjafarþing 2019–2020.
Þingskjal 1874  —  735. mál.
2. umræða.



Framhaldsnefndarálit


um frumvarp til laga um heimild til að stofna opinbert hlutafélag
um uppbyggingu samgönguinnviða á höfuðborgarsvæðinu.

Frá meiri hluta fjárlaganefndar.

    Nefndin hefur ákveðið að fjalla að nýju um frumvarpið. Á fund hennar komu Hrafn Hlynsson og Sigurður H. Helgason frá fjármála- og efnahagsráðuneytinu og Einar S. Hálfdánarson frá Baker Tilly á Íslandi. Tilgangurinn með framhaldsnefndaráliti þessu er að draga skýrar fram megináherslur meiri hlutans í tengslum við verkefnið.
    Samkomulag um framkvæmdir í samgöngumálum, samgöngusáttmálinn, er mikilvægur áfangi í að hefja markvissa uppbyggingu á samgöngumannvirkjum (sjá fylgiskjal). Tilurð þess byggist á því að vettvangur skapist til að leysa flóknar viðræður um skipulagsmál við sveitarfélög á höfuðborgarsvæðinu, í þeim tilgangi hefur stofnun opinbers hlutafélags verið valin sem leið. Sáttmálinn byggir undir ákvarðanir um nauðsynlegar framkvæmdir um byggingu t.d. stofnbrauta og framkvæmdir vegna almenningssamgangna. Nauðsynlegt er að hafa það í huga að heildarsamkomulagið verður því að ganga upp til að markmið samkomulagsins náist. Allar úrbætur og aðkoma ríkis og sveitarfélaga eru því samvinnuverkefni og framgangur samningsins byggist á að greiða leið framkvæmda.

Stofnun félagsins.
    Meiri hlutinn áréttar að mikilvægt sé að félaginu sé komið á fót eins fljótt og auðið er. Það gegnir lykilhlutverki við að halda utan um allar framkvæmdir sem fram koma í fylgiskjali með frumvarpinu og fjármögnun þeirra. Mikilvægt er að festa sé til staðar í stjórn félagsins og æskilegt að ekki séu ör skipti á stjórnarmönnum heldur þess í stað stefnt að því að sérfræðiþekking byggist upp innan stjórnarinnar til að tryggja að vel takist til með framkvæmd verkefnisins. Meiri hlutinn leggur til að við útfærslu hluthafasamkomulags og í samþykktum félagsins verði ákvæði um skipun formanns til fjögurra ára og stjórnarmanna til tveggja ára í senn.
    Meiri hlutinn áréttar það sem fram kom í nefndaráliti á þingskjali 1648 um eftirlit fjárlaganefndar um að stjórn félagsins upplýsi nefndina að fyrra bragði ef stefnir í frávik kostnaðar- og framkvæmdaáætlana, einnig ef áætlanir taka breytingum.

Skipulagsmál – land ríkisins við Keldur.
    Brýnt er að forgangsraða skipulagsmálum til þess að eyða óvissu sem aftur getur tafið fyrir einstökum framkvæmdum. Sveitarfélögunum á höfuðborgarsvæðinu ber að forgangsraða þeim málaflokki með þeim hætti að ekki komi til tafa á sjálfri framkvæmdaáætluninni.
    Í frumvarpinu er gert ráð fyrir að gert verði sérstakt samkomulag við félagið um afhendingu Keldnalandsins. Þar þarf að kveða á um allar meginforsendur skipulags, þar á meðal nýtingarhlutfalls þess. Samhliða þarf að vinna drög að deiliskipulagi vegna nýtingar landsins, undir opinbera starfsemi, til langs tíma, svo sem hvort gera eigi ráð fyrir heilbrigðistengdri starfsemi, svo sem sjúkrahúsi. Einnig þarf að greina staðsetningu þeirrar opinberu starfsemi sem er nú þegar til staðar á Keldnalandi. Skipulagið má ekki þrengja að þeirri starfsemi með óeðlilegum hætti, enda komi þá félagið að úrlausn þess og kostnaði, ef einhver er.
    Eitt af helstu verkefnum félagsins er að þróa skipulag fyrir Keldnaland. Þannig kemur ríkið að skipulagi svæðisins í gegnum félagið, en meiri hlutinn minnir á að formaður, skipaður af ráðherra, hefur tvöfalt atkvæðavægi komi til ágreinings. Ekki er í samkomulaginu kveðið á um önnur skipulagsleg atriði en Keldnaland.
    Mikilvægt er þó að leysa úr skipulagsatriðum varðandi stórverkefni á höfuðborgarsvæðinu, sem m.a. koma fram í þingmáli um samvinnuverkefni um vegaframkvæmdir. Við útfærslu verkefna framkvæmdaáætlunarinnar verði sérstaklega hugað að greiðri tengingu aðliggjandi stofnbrauta, svo sem Sundabrautar, inn á stofnbrautir höfuðborgarsvæðisins. Hvað tengingu við Sundabraut varðar þarf að vinna skipulag hennar og Sæbrautarstokks í samhengi, enda má líta á Sæbrautarstokk sem fyrsta áfanga Sundabrautar.
    Meiri hlutinn tekur undir það sem kemur fram í nefndaráliti meiri hluta umhverfis- og samgöngunefndar (434. og 435. mál) um mikilvægi þess að greiningarvinna vegna útboðs á ljósastýringum gangi hratt og félagið setji slíkar framkvæmdir í forgang því að slík umferðarstýring hefur veruleg áhrif á umferðarflæði með hlutfallslega litlum tilkostnaði. Forgangur Borgarlínu má ekki hindra skilvirka ljósastýringu á höfuðborgarsvæðinu.
    Bætt umferðarstýring með endurbættri umferðarljósastýringu er ein hagkvæmasta framkvæmdin sem ætlunin er að ráðast í og nauðsynlegt að forgangsraðað verði fyrir því verkefni strax og félagið tekur til starfa. Hámarksnýting slíkrar tæknilausnar greiðir verulega fyrir umferð. Ráðast þarf í markvissar aðgerðir til að nýta nýjar tæknilausnir í takt við markmið frumvarpsins.

Hagkvæmni og forgangsröðun framkvæmda.
    Heildarfjármögnun verkefnisins miðast við 120 milljarða kr. framkvæmdir. Í því felst að ef heildarkostnaður við einstakar framkvæmdir reynist hærri en gert var ráð fyrir þá þarf að bregðast við því ýmist með því að draga úr kostnaði við aðrar framkvæmdir eða taka upp viðræður við sveitarfélögin til að tryggja framgang verkefnisins í heild sinni. Verði einstök verkefni óeðlilega kostnaðarsöm vegna skipulags er eðlilegt að fara fram á þátttöku viðkomandi sveitarfélags í umframkostnaði eða tilslökun þess gagnvart öðrum verkefnum og að viðræður um það fari fram við hlutaðeigandi aðila og ráðuneyti.
    Meiri hlutinn ítrekar að allar fjárhagslegar skuldbindingar ríkissjóðs þurfa að hljóta staðfestingu í samgönguáætlun, fjármálaáætlun og fjárlögum hvers árs.
    Um skiptingu kostnaðar við einstakar framkvæmdir fer eftir ákvæðum vegalaga og tekur meiri hlutinn undir þá ábendingu er kemur fram í nefndaráliti meiri hluta umhverfis- og samgöngunefndar.

Meginsjónarmið um opinberar framkvæmdir.
    Í lögum nr. 84/2001, um skipan opinberra framkvæmda, er skilgreint að opinberar framkvæmdir skuli fylgja ákveðinni boðleið sem skiptist í fjóra áfanga. Áfangarnir fjalla um frumathugun, áætlanagerð, sjálfa verklegu framkvæmdina og skilamat. Þessu fyrirkomulagi er ætlað að tryggja ákveðin gæði áætlanagerðar í undirbúningi og verklegum framkvæmdum. Vegagerðin og Framkvæmdasýsla ríkisins fylgja þessum áföngum nú þegar við undirbúning framkvæmda, t.d. vegna vegagerðar, sem fjármagnaðar eru í samgönguáætlun.
    Meiri hlutinn bendir á að félaginu ber að fylgja þessum sömu áföngum í vinnu sinni um samgönguinnviði á höfuðborgarsvæðinu.

Kostnaður félagsins.
    Meiri hlutinn ítrekar að tilgangur félagsins snýr eingöngu að sameiginlegri uppbyggingu samgöngumannvirkja auk þróunar og sölu á byggingarlandi. Ekki er gert ráð fyrir öðrum rekstri. Þegar mannvirkin komast í rekstur þá færist rekstur þeirra til Vegagerðarinnar og eftir atvikum viðkomandi sveitarfélaga í samræmi við ákvæði vegalaga.
    Við slit félagsins ganga eignir þess og skuldbindingar til eigenda í samræmi við eðli og gerð samgönguframkvæmda og eignarhluta eigenda. Áætlaður starfstími félagsins er 15 ár.

    Björn Leví Gunnarsson, Inga Sæland og Ágúst Ólafur Ágústsson skrifa undir nefndarálitið með fyrirvara.

Alþingi, 25. júní 2020.

Willum Þór Þórsson,
form.
Haraldur Benediktsson,
frsm.
Páll Magnússon.
Njáll Trausti Friðbertsson. Steinunn Þóra Árnadóttir. Björn Leví Gunnarsson, með fyrirvara.
Inga Sæland,
með fyrirvara.
Ágúst Ólafur Ágústsson, með fyrirvara.



Fylgiskjal.


Samkomulag um skipulag og fjármögnun uppbyggingar á samgönguinnviðum.

www.althingi.is/altext/pdf/150/fylgiskjol/s1277-f_I.pdf