Ferill 772. máls. Aðrar útgáfur af skjalinu: PDF - Word Perfect.


150. löggjafarþing 2019–2020.
Þingskjal 2119  —  772. mál.




Svar


dómsmálaráðherra við fyrirspurn frá Ólafi Ísleifssyni um söfnun og miðlun fjárhagsupplýsinga.


    Til að svara fyrirspurninni leitaði ráðuneytið til Persónuverndar. Svar þetta byggist á þeim svörum sem stofnunin veitti.

     1.      Hver tekur ákvörðun um hvort mótmæli við vinnslu eða miðlun upplýsinga um fjárhagsmálefni eru tekin til greina eða ekki? Hvaða sönnunarkröfur eru gerðar til kröfuhafa um réttmæti þeirra upplýsinga sem um ræðir?
    Eigi síðar en 14 dögum áður en fjárhagsupplýsingastofa miðlar upplýsingum í fyrsta sinn skal hún veita hinum skráða skriflega fræðslu um að hún hafi fært nafn hans á skrá sem hún ber ábyrgð á. Skal fræðslan gera honum kleift að gæta hagsmuna sinna. Andmælum skal svara eigi síðar en að 14 dögum liðnum. Fjárhagsupplýsingastofa ákveður hvort hún tekur andmæli til greina. Fallist hún ekki á þau getur hinn skráði leitað til Persónuverndar og lagt fram kvörtun. Persónuvernd úrskurðar þá um það, að lokinni gagnaöflun, hvort vinnslan samrýmist persónuverndarlögum eða ekki.
    Sá sem vinnur með persónuupplýsingar skal ávallt gæta að því að þær séu áreiðanlegar og uppfærðar eftir þörfum, en persónuupplýsingum sem eru óáreiðanlegar eða ófullkomnar, miðað við tilgang vinnslu þeirra, skal eyða eða þær leiðréttar án tafar. Þá er lagt til grundvallar í starfsleyfi fjárhagsupplýsingastofu að upplýsingar séu því aðeins settar á skrá að fyrir liggi með sannanlegum hætti að um tiltekin vanskil sé að ræða. Skrá má upplýsingar þar að lútandi úr opinberum gögnum, svo sem um framkvæmd fjárnáms, um töku búa til gjaldþrotaskipta og um greiðslustöðvanir. Auk þess má skrá upplýsingar frá áskrifendum að því gefnu að óyggjandi skriflegar upplýsingar, er staðfesta tilvist viðkomandi skuldar, liggi fyrir, auk þess sem a.m.k eitt af tilteknum skilyrðum sé uppfyllt. Má þar nefna að skuldari hafi fallist á að greiða skuld með sátt sem er aðfararhæf og að hann hafi með sérstakri yfirlýsingu í láns- eða skuldaskjali, sem skuld er sprottin af, fallist á að áskrifandi óski skráningar leyfishafa á vanskilum, enda séu skilyrði til þeirrar heimildar uppfyllt. Slík heimild skal vera áberandi og skýr í skjalinu og við það miðuð að vanskil hafi varað í a.m.k. 40 daga. Áskrifandi sem óskar skráningar á grundvelli slíkrar heimildar skal um leið ábyrgjast að honum sé ekki kunnugt um að skuldari hafi nokkrar réttmætar mótbárur gegn greiðslu skuldarinnar. Beiðni um skráningu skal undirrituð af lögmanni í þjónustu áskrifanda eða fulltrúa hans.
    Sérstakar reglur gilda um umdeildar skuldir. Nánar tiltekið er vinnsla upplýsinga um þær óheimil. Það á við ef skuldari hefur sannanlega komið andmælum við skuld á framfæri við kröfuhafa, greint honum frá ástæðu andmælanna og skuldin hefur ekki verið staðfest með aðfararhæfum dómi eða aðfararhæfri ákvörðun sýslumanns sem kunngjörð hefur verið í opinberri auglýsingu. Fallist sýslumaður, að tekinni slíkri ákvörðun, á andmæli skuldara þannig að fullnustugerð nái ekki fram að ganga telst skuldin aftur vera umdeild.

     2.      Á hvaða lagaheimild byggist vöktun á vanskilaskrá með rafrænum eða öðrum hætti? Hvernig er tryggt að slík vöktun sé viðhöfð í samræmi við þær reglur sem um hana gilda? Hvernig er þess gætt að bann við vöktun með leynd sé virt? Hvernig er fylgst með því að sá sem ber ábyrgð á vöktun eyði upplýsingum sem safnast við slíka vöktun þegar ekki er lengur málefnaleg ástæða til að varðveita þær?
    Vöktun á kennitölu einstaklings vegna skráninga á vanskilaskrá getur talist nauðsynleg til að efna samning sem hinn skráði er aðili að, sbr. 2. tölul. 9. gr. laga nr. 90/2018. Getur þetta skilyrði átt við þegar aðilar, sem veita fjárhagslega fyrirgreiðslu, vakta kennitölur viðskiptavina sinna. Verður hinn skráði þá að hafa fengið skýra fræðslu þar að lútandi við gerð samnings.
    Einnig vakta lögmenn vanskilaskrá vegna innheimtu, þar á meðal til að ákveða hvort kostnaðarsamar innheimtuaðgerðir muni hafa þýðingu. Sú vöktun getur stuðst við 6. tölul. 9. gr. laga nr. 90/2018, um heimild til vinnslu persónuupplýsinga, sé hún nauðsynleg í þágu lögmætra hagsmuna sem vega þyngra en grundvallarréttindi og frelsi hins skráða.
    Það er á ábyrgð ábyrgðaraðila að tryggja að vöktun sé viðhöfð í samræmi við þær reglur sem um hana gilda. Eftirlit með því er í höndum Persónuverndar og er það í meginatriðum tvenns konar: Annars vegar tekur stofnunin til meðferðar kvartanir sem henni berast frá einstaklingum sem óska úrlausnar um lögmæti slíkrar vöktunar og hins vegar hefur Persónuvernd heimildir til að rannsaka mál að eigin frumkvæði.
    Vöktun eins og hér um ræðir má ekki fara fram með leynd. Um það hvernig er gætt að því er vísað til umfjöllunar hér að framan. Einnig er bent á fræðsluskyldu ábyrgðaraðila samkvæmt persónuverndarlöggjöf.
    Um það hvernig fylgst er með því að sá sem ber ábyrgð á vöktun eyði upplýsingum, sem safnast við slíka vöktun þegar ekki er lengur málefnaleg ástæða til að varðveita þær, vísast til umfjöllunar hér að framan.

     3.      Hvernig er úrskurðum Persónuverndar þar sem fallist er á kvartanir vegna miðlunar eða vinnslu fjárhagsupplýsinga framfylgt eða tryggt að farið sé eftir þeim?
    Þegar úrskurður er kveðinn upp er metið hvort tilefni sé til að beita valdheimildum Persónuverndar, svo sem með því að gefa fyrirmæli um úrbætur. Séu slík fyrirmæli gefin fylgir Persónuvernd því eftir að þeim sé fylgt. Í því felst að hlutaðeigandi aðili skuli staðfesta innan tiltekins frests að úr hafi verið bætt, eftir atvikum með því að leggja fram gögn sem sýni fram á það. Þá kann að koma til vettvangsheimsóknar. Ef ekki er farið að fyrirmælum Persónuverndar hefur stofnunin heimildir til að leggja á dagsektir. Persónuvernd óskar eftir því að hlutaðeigandi aðili staðfesti við stofnunina þegar úr hefur verið bætt.

     4.      Fallist Persónuvernd á kvörtun einstaklings, hvaða úrræði standa þeim einstaklingi þá til boða til að leita fullnustu slíks úrskurðar ef ábyrgðaraðili, þ.e. kröfuhafi eða umboðsmaður hans, eða eftir atvikum vinnsluaðili, t.d. fjárhagsupplýsingastofa, skirrist við að fara eftir niðurstöðum úrskurðarins?
    Í svari Persónuverndar kemur fram að ef ekki er farið að fyrirmælum hennar eigi einstaklingar þess kost að leita til stofnunarinnar sem þá getur beitt valdheimildum sínum, sbr. svar við 3. tölul. fyrirspurnarinnar.

     5.      Hvenær og með hvaða hætti er fyrirhugað að endurskoða reglugerð nr. 246/2001, um söfnun og miðlun upplýsinga um fjárhagsmálefni og lánstraust, og hverjir eru skilgreindir hagsmunaaðilar sem fyrirhugað er að hafa samráð við um slíka endurskoðun? Hvaða efnisþætti reglugerðarinnar telur ráðherra helst þarfnast endurskoðunar?
    Fyrirhugað er að endurskoða reglugerð nr. 246/2001, um söfnun og miðlun upplýsinga um fjárhagsmálefni og lánstraust, á komandi hausti og vetri. Fyrir liggur að endurskoða þarf reglugerðina m.a. með hliðsjón af nýjum persónuverndarlögum. Þá er líklegt að skoðað verði sérstaklega hvort ástæða sé til að setja sérstök ákvæði um framkvæmd persónuverndarreglna í tengslum við gerð og öflun upplýsinga um lánshæfismat, en skv. 1. mgr. 1. gr. reglugerðarinnar tekur hún ekki til starfsemi sem felst í útgáfu skýrslna um lánshæfismat. Við endurskoðun reglugerðarinnar verður sérstakt samráð haft við Persónuvernd og atvinnuvega- og nýsköpunarráðuneyti, sem fer með málefni neytenda. Þegar drög að nýrri reglugerð liggja fyrir má gera ráð fyrir að þau verði birt í samráðsgátt stjórnvalda þar sem öllum gefst færi á að koma á framfæri athugasemdum.